Bjútíbollurnar íslensku

Sem nema í heilsusálfræði, sem móður tveggja barna, sem Íslendingi, sem manneskju sem hefur rekið heilsu-uppskriftavef til 9 ára, sem konu sem ekki hefur borðað sælgæti í 25 ár, finnst mér nýjustu upplýsingar um ofþyngd Íslendinga S.V.A.K.A.L.E.G.A.R. Ég sagði kennaranum mínum af þessu. Hún er doktor í sálfræði. Augu hennar og munnur galopnuðust og hún sagði orðrétt (á ensku reyndar): „Þetta eru, án efa, áhugaverðustu fréttir sem ég hef heyrt í langan tíma....Hvað gerðist?“ Það stóð á svörum hjá mér. Ég var ekki viss. Ég vissi bara að einu sinni vorum við fallegust en núna erum við næst þyngst. Við erum sem sagt bjútíbollur. Konur jafnt sem karlar, unglingar jafnt sem börn.

Afkvæmið er orðið rúmlega tveggja ára. Hún hefur aldrei smakkað sælgæti. Hún hefur aldrei smakkað ís. Hún hefur aldrei fengið kex. Hún veit ekki hvað sjoppa er og hún veit ekki hvað karamellur eru. Hún hefur aldrei fengið súkkulaði. Hún bendir á Duracell kanínuna í búðinni og segir „Kanína!!!!!!!“ og hleypur svo ofurspennt að myndinni af kanínunni. Duracell kanína er við hliðina á sælgætisrekkanum. Yfirleitt er Afkvæmið með spergilkál í höndunum, búin að bíta í það (svo ég verð að kaupa það). Hún setur gulrætur og appelsínur sjálf í körfuna og biður um epli til að setja í poka og halda á. Hún fær carob (án sykurs) þegar við hin fáum okkur súkkulaði með hrásykri, hún sér engan mun og er alveg sama...enda veit hún ekki hvað (hrá)sykrað súkkulaði er. Hún maular carobið afskaplega ánægð. Hún fær hafragraut með rúsínum og döðlum í morgunmat og hefur aldrei fengið morgunkorn úr „sælgætis-morgunkornadeildinni“. Mér líður eins og ég sé að ala upp tilraunadýr. Ég er alltaf að bíða eftir því að félagsmálayfirvöld banki upp á og spyrji mig út í uppeldið.

Alveg frá því hún fæddist hefur fólk sagt við mig að mér muni ekki takast að halda sælgæti eða annarri óhollustu frá henni. Það hefur varað mig við veislum. Það hefur hrætt mig með sögum um börn sem öskra í búðum þegar það sér nammirekka. Það hló þegar það afkvæmið fæddist og heyrði að henni yrði aldrei gefinn sykur af foreldrunum. Það hefur sagt við mig að það sé ekki hægt að ala börn upp án sælgætis. Helvítis rugl. Skoðum nokkur dæmi:

 • Kaffihús: Það sem tíðkast er að kaupa kakó og súkkulaðiköku (yfirleitt kallað „barnakaka“) á kaffihúsum. Afkvæmið fær babychino á kaffihúsum (flóuð, volg mjólk í litlum bolla). Hún fær líka&; rúsínur, eða vínber, eða epli. Það er hennar tenging við kaffihús. Stundum fær hún hreinan (en vatnsþynntan) ávaxtasmoothie og það er dálítið spari.
 • Veitingastaðir: Börnin fá köku eða ís eftir matinn. Afkvæmið fær hreina ávexti.
 • Lautarferðir: Börnin fá sælgæti. Afkvæmið fær nýja bolta eða annað til að auka hreyfifærni.
 • Jóladagatal: Börnin fá súkkulaði. Afkvæmið mun fá leikföng, bækur eða annað sem þykir skemmtilegt.
 • Páskar: Börnin fá súkkulaðipáskaegg. Afkvæmi mun fá leikföng eða hollt konfekt eða þurrkaða ávexti í pappaeggi.
 • Sykraðar mjólkurvörur: Börnin fá jógúrt með einhverju gervibragði og sykruðum ávöxtum. Afkvæmið fær hreina jógúrt með söxuðum ávöxtum og smá slettu af agavesírópi út í.
 • Verðlaun fyrir dugnað: Börnin fá sælgæti. Afkvæmið fær föt, bók eða leikföng.
 • Bíltúr: Börnin fá sælgæti eða ís. Afkvæmið (fer reyndar aldrei í bíltúr því við eigum ekki bíl) en myndi fá vínber, rúsínur eða leikfang.
 • Barnaafmæli: Börnin fá taugaáfall (ok verða allavega mjög æst) og hlaupa um eins og Duracell kanínur á spítti....boðið er upp á sykur + sykur + meiri sykur + sykur í föstu formi + sykur í fljótandi formi. Afkvæmið fær hrákökur eða þær kökur sem henta aldri (þegar hún var eins árs fékk hún speltköku með pínulítið sættu (með smá agavesírópi) avocadokremi. Hún ÞARF ekki súkkulaðiköku, Smarties, smjörkrem né lakkrís).

Athugið að ekkert af þessu hér að ofan þarf að kosta meira en svo að lang flestir ættu að hafa ráð á. Leikföng þurfa ekki að vera dýr (smábílar, plastúr, límmiðar, stimplar, skopparaboltar) og þegar ég meina föt, meina ég t.d. nýja sokka sem börn þurfa hvort sem er. Annað væri hægt að kaupa t.d. glingur, penna, tússliti). Afmæliskakan er hugsanlega kostnaðarsömust en það má gera annað en kökur fyrir afmæli.

Þið sjáið hvert ég er að fara. Þetta er spurnig um vana og það sem foreldrarnir venja sig og börnin á. Ef foreldrarnir eru ekki tilbúnir til að sleppa því að kaupa köku á kaffihúsum, fer sem fer. Eins er með allt annað. Ég veit að það sem er „bannað“ er yfirleitt spennandi svo ég fer aðrar leiðir. Það sem er gott/sætt, á ekki að vera meira spennandi en annað. Ég t.d. passa mig á því að verðlauna Afkvæmið aldrei með mat og sérstaklega ekki með neinu sætu. Það vita allir sem umgangast okkur að ég vil ekki að Afkvæminu sé boðið upp á óhollustu eða sælgæti. Fyrst að við borðum það ekki er engin ástæða til að bjóða henni upp á það. Ég hef hins vegar ákveðið að þegar sá dagur kemur að hún bragðar á sælgæti, ætla ég ekki að hlaupa til og rífa það úr munni hennar. Ég mun ekki segja orð og ég mun fylgjast með úr fjarska. Það verður MJÖG fróðlegt og ég lofa að láta ykkur vita hvernig það fer. Ef hún borðar á sig gat, verður það að vera þannig. Hún fær eflaust illt í magann. Ég mun fjarlægja svo lítið beri á sælgæti af borðum þar sem við erum gestkomandi....á meðan hún fattar ekki hvað sælgæti er. Þegar hún verður nógu gömul til að fatta það, mun ég segja henni að hún megi fá sælgæti en hún megi líka fá ávexti ef hún vilji. Hún mun þurfa að finna út úr því sjálf hvað hún vill. Það sem skiptir MESTU máli hér að mínu mati er að hún sér aldrei sælgæti heima fyrir né neina aðra óhollustu. Hún verður ekki skrýtna barnið í afmælunum sem má bara fá þetta og hitt. Hún verður sjálf að velja og hafna og svo lengi sem hún fær ekki óhollustu heima fyrir, hef ég ekki miklar áhyggjur. Reyndar verða afmælisveislur hennar stórskrýtnar því mér þykir líklegra að boðið verði upp á sushi (uppáhaldsmatinn hennar) og hráköku heldur en það sem hefðbundið þykir.

Ég hef verið að hugsa út í skýrsluna sem Velferðarráðuneytið var að gefa út. Ég hef líka verið að hugsa um orð Magnúsar Scheving. Hann hefur margt til málanna að leggja sem meikar sens enda var hann byrjaður að hugsa um þessa hluti fyrir mörgum árum síðan. Eitt rak ég augun sérstaklega í og það er alveg hárréttur punktur hjá honum. Börn verða ekki of þung af sjálfu sér. Ég held að þetta sé lykillinn en þó, eins og alltaf eru hlutirnir flóknari en þeir virðast í fyrstu. Þetta er eitthvað sem ég er búin að vera að hugsa um í mörg ár.

Forvarnir eru alltaf betri til langs tíma heldur en að reyna að bjarga málunum eftir á. Þess vegna held ég að lykillinn liggi í kennslustarfi, þar sem allir eru jafnir. Þarna held ég að Magnús klikki aðeins. Víst er að foreldrarnir hafa sterk áhrif á börnin sín, ekki síst mataræðið eins og ég kom að hér að ofan. Hins vegar er mikill fjöldi fólks sem VEIT EKKI ALLTAF BETUR og KANN EKKI og HEFUR EKKI ALLTAF TÆKIFÆRI TIL að gera betur. Þeir foreldrar sem hafa ekki mikið á milli handanna eru líklega ekki að velta eiginleikum speltis fyrir sér. Þeir eru líklega ekki að kaupa kókosolíu eða hollar, ósykurbættar orkustangir úr heilsubúð. Þeir hafa ekki efni á að setja börnin sín í fimleika eða fótbolta. Bara búningarnir hlaupa á fleiri, fleiri þúsund krónum fyrir utan önnur gjöld. Ég er kannski að alhæfa en ég er að tala út frá heildinni. Það að metta maga svangra barna er mikilvægara heldur en að velta fyrir sér hvort að fitukeðjur kókosolíunnar séu stuttar eða langar eða hvort að agavesíróp fari hægar út í blóðið en hefðbundinn sykur. Því miður er óhollur matur yfirleitt ódýrari en sá hollari. Nema maður eldi frá grunni en að elda frá grunni er svolítið tapaður eiginleiki að mínu mati. Ég veit ekki hversu oft ég var spurð að því í matvörubúðum á Íslandi hvað t.d. avocado væri, eða engifer eða rauðrófur eða steinseljurót..... „ha...steins-elju-rót?“

Ég held að lykillinn liggi hjá stjórnvöldum. Þetta er spurning um tilfærslu á fjármunum til skólanna og innan skólanna. Nú þekki ég ekki hvort að svona hlutir eru kenndir í Lífsleikni eða hvað þetta allt heitir en það væri eflaust upplagður vettvangur. Þetta er Jamie Oliver löngu búinn að sjá. Það að vita hvað transfitusýrur eru, á að vera jafn sjálfsagt eins og að vita að bláber séu rík af andoxunarefnum og að hvítur sykur eða ofþyngd sé ekki sniðugt upp á hugsanlega sykursýki eða aðra sjúkdóma síðar meir. Það á ekki að vera flókið að útbúa góða tómatssósu með spagetti og kjötbollum (úr hreinu hakki). Eða grænmetisssúpu og brauð. Þetta á ekki að vera vitneskja útvaldra. Þetta á að vera jafn sjálfsagt og að vita að 2 + 2 eru 4. Það besta er, ef krakkarnir hafa áhuga á að elda mat, finnst þeim hann yfirleitt betri á bragðið og eru áhugasamari um að borða hann.

Sama með hreyfingu. Hreyfing á að vera jafn sjálfsögð og að það að anda súrefni eða drekka vatn. Hreyfing þarf þó að vera skemmtileg og má ekki vera þannig að þeim þyngstu líði illa eða að fótboltastrákarnir fái mestu athyglina. Þar þarf að taka til í skólakerfinu.

Hér eru nokkur atriði sem ég myndi vilja sjá lagfærð eða sett á ef ég væri allsráðandi. Allt þetta er eflaust kostnaðarsamt en sparnaður fyrir heilbrigðisgeirann til lengri tíma er umtalsverður. Þetta eru ALLT atriði sem ég hef bloggað um áður, í mörg ár. Á þessum tíma hefur íslenska þjóðin orðið sú næst þyngsta í heimi:

 • Fræðsla um mat og næringarefni í grunnskólum og síðar í gagnfræðaskólum. Það þarf að kenna krökkum að lesa utan á matvörur og þau þurfa að skilja saltmagn, trefjar, mettaða fitu, ómettaða fitu, viðbættan sykur og E-efni.
 • Verkefni tengd hollustu t.d. ávaxta og skaðsemi sælgætis og skyndibita. Börn myndu þurfa að vinna heimavinnu og afla upplýsinga um t.d. ananas, eða bláber eða epli eða blómkál (o.sfrv.). Síðar myndu þau þurfa að upphugsa uppskrift í matreiðslu þar sem þetta grænmet og ávextir væru teknir fyrir.
 • Einstaklingsmiðuð hreyfing. T.d. HATAÐI ég sund í skólanum (og er mjög lélegur sundmaður) en ég hefði getað sveiflað mér í köðlum eða verið á trampólíní í margar vikur samfleytt án þess að stoppa. Hvað með að kenna sund sem grunn og gefa svo færi á vali í hreyfingu?
 • Fjarlægja gossjálfssala og selja ekki skyndibita néð sælgæti í grunnskólum. Kannski er búið að því...veit ekki.
 • Skattleggja óhollustu upp í þak. Eins og sígarettur.
 • Tilboð á sælgæti verði afnumin, sérstaklega á laugardögum.
 • Lækkanir á ávöxtum og grænmeti á laugardögum.
 • Mötuneyti skóla (og vinnustaða) verði tekin í gegn og næringarfræðingar sjái um að setja saman matseðla. Matur ÞARF ekki að vera dýr þó hann sé hollur. Það er þetta endalausa unna drasl sem er að drepa okkur, sykraðar mjólkurvörur, spægipylsur, skinkur, kæfur, kex, pakka þetta og pakka hitt.
 • Lækka skatt á hollustu. Verð á heilsuvörum á Íslandi er skammarlegt.
 • Betri merkingar á umbúðum varðandi innihald, sérstaklega aukaefna. Að fyrirtæki hafi komist upp með það (þangað til fyrir skömmu) að nota sulphur dioxide og fleiri ofnæmisvalda í vörur, án þess að þurfa að merkja það, er ofar mínum skilningi.
 • Eftirlit með auglýsingum. Að þeir sem selja mat megi EKKI selja matinn sem „hollan og góðan“ nema hann sé það sannarlega og vottað af t.d. næringarfræðingi. Sbr. austurlenska veitingastaðinn sem auglýsti hollar (djúpsteiktar) rækjur. Hef rifist yfir þessu áður.

Fyrsta skref: Ef ómálga barnið kann ekki að biðja um köku/sælgæti/ís/aðra óhollustu, ekki stinga henni upp í munn þess. Því er enginn greiði gerður með því.

Amen.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Fríða
05. nóv. 2011

Heyr heyr!!

Sigga Rúna
05. nóv. 2011

Sæl Sigrún, ég tek undir með þér og segi heyr heyr.
Ég sat kynningu um heilsueflandi skóla á fimmtudaginn og var hún mjög áhugaverð og niðurstöður mjög jákvæðar. Þar var búið að breyta mötuneyti, setja inn holla sjálfsala og loka sjoppunni sem dæmi.
læt því fylgja með slóðina...
http://www2.lydheilsustod.is/lydheilsustod/skolafraedsla
Kveðja,
Sigga

sigrun
05. nóv. 2011

Takk fyrir þetta Sigga, mjög athyglisvert

Sigrún Ása Þórðardóttir
05. nóv. 2011

Frábær pistill og margar góðar vangaveltur. Mikið væri ég til í að ávextir væru á 50% afslætti á laugardögum í stað sælgætis. Skil bara ekkert í því að enginn verslun hafi enn boðið upp á það!!!

sigrun
05. nóv. 2011

Eiginlega bara óskiljanlegt....en reyndar ef maður pælir í því þá vilja búðareigendur endilega halda í sælgætistilboðin því þannig þurfa foreldrarnir líka að fara í búðina....Ávextir myndu líklega ekki draga jafn mikið af börnum í búðina.....bara pæling.

Sólrún Jónsd.
05. nóv. 2011

Löngu tímaverður pistill ! Það þarf samt líka að passa að stimpla ekki ALLA Íslendinga sem ofþunga. Það er oft hættan þegar svona fréttir eru settar í blöð og fréttasíður. Sumar þjóðir og bara almenningur fá þá hugmynd að ALLIR Íslendingar séu rúllandi fitubollur. Ég þakka fyrir það að hafa fengið að fara í skólasund að framhaldsskóla, þótt ég hafi hatað það, það hefur mjög oft komið mér að notum svona seinna meir. Sundkennsla er því að mínu mati vanmetin. Annars er ég mjög sammála þér, ofþyngd er orðin of mikið vandamál á Íslandi (og öllum heiminum)og við þurfum að sporna við því.

sigrun
05. nóv. 2011

Ég vil endilega halda grunnkennslu í skólasundi, þó ég sjálf hati sund (ef hún hefði ekki verið skylda væri ég ekki synd), en bæta við meiri hreyfingu í vali, ekki endalausar boltaíþróttir sem sumum leiðist mikið.

Laufey B
06. nóv. 2011

Flottur pistill!

Ég er að fara að halda eins árs afmæli fljótlega og er að gæla við þá hugmynd að hafa engin sætindi á borði! hlakka til að búa til nærandi og ljúffengar kræsingar :)

Á spjallinu við vinkonur mínar áðan kom í ljós að meira að segja dagmömmur hér eru að bjóða börnum kremkex og snakk milli mála... hvað er að? spyr ég nú bara!

En það er reyndar margt orðið gott í skólunum, held að víðast hvar sjáist ekkert sætt í skólum í það minnsta, hvorki í mat né drykk. Eins man ég eftir að hafa séð ávexti á tilboði... en það mætti vel vera almennt og helst á kostnað hins ógeðslega vinsæla nammilands!

sigrun
06. nóv. 2011

Kremkex? KREMKEX? Ég er orðlaus.....

Þóra Hrönn
06. nóv. 2011

Ég á eina 6 ára sem greindist með Candida í mars á þessu ári.
Ég tók af henni (og allri fjölskyldunni) hvítt hveiti, allan sykur (í hvaða formi sem er) og ger. Og þegar hún segir við mig "mamma, mér líður betur í öllum líkamanum eftir að við byrjuðum að borða hollt" get ég ekki verið annað en sannfærð um að mataræði og það að borða hollt hjálpar á svo margan hátt.
Svo nú er ég mamman sem segir við hinar mömmurnar sem kvarta undan börnunum sínum "HEFUR ÞÚ SPÁÐ Í AÐ BREYTA MATARÆÐINU"
Og svarið er oftar en ekki "NEI" en ef það er "JÁ" fæ ég endalausar spurningar um hvernig ég fór að þessu og svo ætla þær allar að hafa samband og fá uppskriftir o.s.frv.
EN SVO GERIST BARA EKKI NEITT, ÞVÍ MIÐUR.
Ég segi að ofþyngd barna er forelda-vandamál, það er á okkar ábyrgð hvað þau setja ofan í sig.

sigrun
06. nóv. 2011

Já, tvímælalaust. Foreldrar þurfa oft hjálp við að kynna sér málin (hvernig á að borða gott, hollt en helst ódýrt) en ef þeir hafa ekki áhuga á því er það annað mál.

Harpa V.
07. nóv. 2011

Takk fyrir góða grein. Það verður gaman að fylgjast með þér í náminu áfram.

Gott mál að börnin fái ekki hvítan sykur. En að halda að maður sé að gera börnunum eitthvað gott að gefa þeim agave síróp eða hrásykur í staðinn er blekking. Munurinn á hvítum sykri og hinum sætuefnunum er lítill sem enginn. Agave síróp inniheldur meira af ávaxtasykri og frásogast því hægar en t.d. hvítur sykur sem er mikið til þrúgusykur sem fer hratt út í blóðið. Þetta er samt í rauninni jafn mikið unnin efni. Hvítur sykur úr sykurreyr og agave úr plöntunni agave. Hrásykur er síðan sama varan og hvítur sykur, nema hann fer ekki í lokaferlið, hreinsun, þar sem síróp er látið sitja eftir (sama síróp (melassi) og er notað til að gera púðursykur).

Spurningin sem eftirfarandi grein, http://www.mni.is/D10/_Files/MMM-2010.pdf svaraði neitandi, var hvort betra sé að nota agave eða hrásykur í staðinn fyrir hvítan sykur? Nei, alls ekki.
Eini munurinn sem ég sé t.d. á hvítum sykri og agave, er að agave er í fljótandi formi og þægilegt til að nota í kúlur o.þ.h..

Get farið í svipaðar pælingar með hveiti og spelt, en fljótlega skýringin á því tvennu er að þetta er það sama. Sama magn af glúteni er í þessu tvennu, og er því best að nota heilhveiti. Í raun er hveiti, hvort sem það er hvítt eða heilhveiti, nefnilega trefjaríkara en spelt, og inniheldur minna magn af kolvetnum, meira af próteinum og minna af orku. (sjá http://www.matis.is/ISGEM/is/ - Íslenska gagnagrunninn um efnainnihald matvæla).

Gaman að gleyma sér á vef Matís, www.matis.is, og vef Matvæla- og næringafræðafélags Íslands, www.mni.is.

Harpa V.
07. nóv. 2011

Vil þó taka það fram að þó ég setji þessar staðreyndir fram um sykur, þá er ég alls ekki að hvetja fólk að gefa börnum sínum sykur. Hvet eindregið fólk að draga sem mest það getur úr sykurneyslu sinni, og sérstaklega sykurneyslu barna sinna.

sigrun
07. nóv. 2011

Það er akkúrat punkturinn hjá mér. Það er örugglega ekki hægt að sleppa sætu í lífinu (ég myndi ekki vilja það sjálf) en þetta er spurning um að draga úr sykurneyslunni. Agave og hrásykur fer mun betur í&; mig heldur en hvítur sykur því ég þarf að stjórna blóðsykrinum sem hrapar annars. Að bæta 1 tsk af agave út í 250 ml af jógúrti fyrir barnið er allt annað en að kaupa jógúrt með 75 g af sykri (í 250 ml) eins og ekki er óvanalegt heima á Íslandi. Það er punkturinn hjá mér. Maður stjórnar sykrinum sjálfur. Jógúrt með agave er ekki sykurLAUST&;eins og margir halda (og meira að segja sumir þeir sem auglýsa heilsuvörur) heldur er sykurinn öðruvísi og maður þarf minna af honum.

Hrásykur er ekki hreinsaður eins og hvíti sykurinn og því snefill af vítamínum og steinefnum eftir, ólíkt hvíta sykrinum og þar fyrir utan er hrásykurinn ekki hreinsaður með beinum dýra (ólíkt þeim hvíta) og er m.a. ástæðan fyrir því að jurtaætur neyta yfirleitt ekki coke og ýmiss sælgætis.

Að sama skapi er ástæðan fyrir því að ég nota spelti sú að vinnsluaðferðin á því er mjög ólík hveitinu. Reyndar er spelti talið vítamín- og próteinríkara en hveiti. Það er öðruvísi glúteinsamsetning í því heldur en hveitinu og þess vegna má ekki alveg líkja því við hveiti. Sumir þeir sem eru viðkvæmir fyrir glúteini, mega t.d. borða spelti.

Á hverjum einasta degi eru 100 rannsóknir sem eru með agave, spelti, hrásykri og á hverjum einasta degi eru 100 rannsóknir á móti agave, spelti og hrásykri. Eins og ég er búin að vera að segja í 9 ár á þessum vef mínum, þetta er spurning um hvað maður sjálfur er sáttur við og maður þarf að fylgja sinni eigin sannfæringu. Sem ég geri. Allar upplýsingar um það sem ég tel sjálf henta mér best á finna undir Fræðsla og Orðalisti á vefnum mínum.

Margret Ros
10. nóv. 2011

Hæ Sigrún og takk fyrir flottan póst.

Ég er með eina spurningu - hvað á maður að gera í boðum þar sem einungis er boðið upp á óhollustu. Tekur þú með þér "nesti"? Ég hef smá áhyggjur af þessu þar sem að ég á von á mínu fyrsta barni og í ansi mörgum boðum sem ég er boðin í er bara boðið upp á óhollustu.

sigrun
10. nóv. 2011

Þetta er mjög góð spurning og eitthvað sem ég hef lent í svona eittþúsundogþrjátíu sinnum á lífsleiðinni.

Í fyrsta lagi, maður getur ekki ætlast til að fólk hugsi eins og maður sjálfur og ekki heldur að boðið verði upp á hollari kost (hvort sem það eru hollari kökur, ávextir o.þ.h.)

Þú hefur þrjá kosti í stöðunni en þessir þrír möguleikar fara alveg eftir aðstæðum:

1) Ef boðin eru hjá fólki sem þú þekkir getur þú boðist til að koma með eina hollari köku/grænmetisrétt ef gestráðendum er sama. Þú getur alltaf borið við þig óléttuna og sagt að þú viljir passa þig. Fólk hefur yfirleitt skilning á því. Í sannleika sagt eru hollu kökurnar yfirleitt þær sem klárast fyrst :) Það er gott að bjóðast til að koma með köku (eða hollari rétt eða hvað sem það er sem þú vilt mæta með) því það tekur pressuna af gestráðanda að vera með "eitthvað hollt". Svona eru eiginlega allir að "græða".

2) Þú getur mætt með 'nesti' (ef þetta eru standandi boð) t.d. orkustöng og maulað þannig að lítið beri á.

3) Þú getur mætt södd í boðin (ef þetta er standandi boð) og sleppt því að fá þér nokkuð.

Sjálf fer ég yfirleitt leið 1 enda fólk orðið vant því að ég sé sérvitur. Reynslan hefur sýnt að yfirleitt er fólk bara þakklátt og finnst spennandi að prófa eitthvað nýtt. Leið 2 hef ég líka farið t.d. í afmælisveislum sem eru ekki formleg. Leið 3 hef ég farið ef ég er 100% viss um að það verði mjög augljóst að ég sé að fá mér eitthvað annað að borða (og það kannski illa séð) og ef ég er viss um að ekkert verði við mitt hæfi á boðstólum.

Aðalatriðið er að gagnrýna ekki gestgjafann og ef maður mögulega getur, að tryggja sjálfur að það sé eitthvað á boðstólum. Ekki alltaf hægt (t.d. hef ég borðað iceberg blöð í hlaðborði á fínustu veitingastöðum því ekkert annað var í boði)...en ég hefði getað undirbúið mig betur og farið á annan stað, beðið fyrirfram um grænmetisrétt o.fl., o.fl.

Vonandi var þetta hjálplegt.

Kv.

Sigrún

Lena
15. nóv. 2011

Mjøg gód grein hjá thér! :) Bara ef allir foreldrar hugsudu svona!

Ég vil koma med athugasemd vid kommenti hér ad ofan í sambandi vid glútein. Glútein í spelti er nákvæmlega thad saman og glúten í hveiti! Sem og í høfrum, rúg og byggi! Enn margir samt thola spelt betur enn hveiti. Thví their eru kanski med IgG reaktion á móti hveiti enn ekki spelt... (líklega vegna ofnotkun á hveiti) Enn thad hefur ekkert med glúteinid ad gera. Thad er nákvæmlega thad sama. Thad er audvelt ad testa.

Einnig med agave, thví midur virdist thad vera jafnvel VERRA en hvítur sykur, og hef ég sjálf notad agave í mørg ár í gódri meiningu. Skora á thig ad googla thad og tékka nyjustu rannsoknir. Mér bløskradi thegar ég fór ad kanna mér thad nánar! Taldi thad fara hægar út í blódid, (thar sem eitnhver hafdi sagt mér thad!!!!!!) Eftir blódyskursmælingar, sé ég ad svo er allgjørlega ekki. Talid er ad thad sé jafnvel verra en High fructose corn syrop, sem er jú allgjørt eitur!!!

Ég held mig vid ad sæta med stevia, dødlum, ávaxta mauki og ødrum thurrkudum ávøxtum :-) Tel thad skárri kost! :)

sigrun
15. nóv. 2011

Takk fyrir innleggið.

Það er aðeins öðruvísi samsetning sameinda í hveiti en í spelti. Munurinn er lítill en munurinn er til staðar. Sumir þola spelti betur þess vegna (út frá þessum litla mun) en aðrir þola spelti út frá þeirri ástæðu sem þú nefnir. Hins vegar held ég að það sé sjaldgæft að fólk þoli spelti ef það hefur glúteinóþol. Sjá hér smá fróðleik:

Authors: Kasarda DD. D'Ovidio R.
Source Cereal Chemistry. 76(4):548-551, 1999 Jul-Aug.
Abstract: The complete amino acid sequence of an alpha-type gliadin from spelt wheat (spelta) has been deduced from the cloned DNA sequence and compared with alpha-type gliadin sequences from bread wheat. The comparison showed only minor differences in amino acid sequences between the alpha-type gliadin from bread wheat and the alpha-type gliadin from spelta. The two sequences had an identity of 98.5%. Larger differences can be found between different alpha-type gliadin amino acid sequences from common bread wheat.

Varðandi agave....það er mikill munur á agave sem búið er að blanda saman við frúktósa glúkósa síróp (það sem yfirleitt er notað í rannsóknum gegn agave) eða agave sem kemur hrátt, beint af plöntunni og óhitað. Ég nota einungis hið síðarnefnda en mikill misskilningur er í gangi. Það er reyndar mjög auðvelt að testa sykurmagnið í agave og öðrum sykri og það hefur mun lægra sykurgildi en flestir sætugjafar. Ég nota líka döðlur, ávaxtamauk og þurrkaða ávexti, ávaxtasultur o.fl. Stevia hef ég ekki notað og það er áhugavert að fletta því+ health benefits&; upp á Google (íslenska matvælaeftirlitið (eða lyfjaeftirlitið) hefur ekki leyft innflutnig á því enn þá að mér skilst....). Það er nefnilega þannig að maður getur fundið 100 rannsóknir með agave og 100 rannsóknir á móti og það sama gildir með stevia. Ég nota agave því það leggst vel í mig og blóðsykurinn (sem ég þarf að passa) sveiflast yfir höfuð ekki ef ég nota agave. Það er enginn sykur hollur, í hvaða formi sem hann er en ég hef lesið mér mikið til um agave og ég tel hann ekki vera slæman kost (svo lengi sem hann er óhitaður, hrár, lífrænn framleiddur og beint af kaktusinum).

gestur
15. nóv. 2011

Sigrún. Æðislegt innlegg hjá þér.

Mér kvíður fyrir því þegar barnið mitt fer að borða mat, því það virðist vera svo erfitt að stjórna gjörðum annarra.

Þegar þú ferð með þitt í veislu og öll börnin borða súkkulaðiköku með bleiku kremi (eða eh annað spennandi), lendiru þá aldrei í því að þitt vilji líka? Börn herma jú eftir öðrum börnum. Hvernig bregstu við? Eða þegar allir sitja og drekka kók. Vill þá ekki barnið þitt fá að gera eins og hinir?

Ég hef séð hjá vinum mínum að þegar börn þeirra ná 2-5ára aldri þá fara öll hollustuplön í rugl vegna þau vilja ekki vera mamman/pabbinn sem banna börnum sínum að taka þátt í því sem öðrum börnum finnst eðlilegt og skemmtilegt. Og þá er ég aðalega að tala um í veislum og þess háttar.

sigrun
16. nóv. 2011

Hæ hó

Ég kem aðeins inn á þennan punkt sem þú nefnir þarna í pistlinum mínum. Þetta snýst í raun um að vera góð fyrirmynd heima fyrir. Svo lengi sem þú ert góð fyrirmynd, skiptir minna máli þó barnið fari aðrar leiðir við sérstök tilefni. Ég mun ekki banna börnunum mínum að fá sér það sem hinir krakkarnir munu fá sér t.d. í veislum en ég mun aldrei bjóða upp á það sjálf heima fyrir, hvorki í afmælum né aðra daga. Ég mun heldur aldrei kaupa handa þeim sælgæti og ekki kaupa kökur og slíkt á kaffihúsum. Enda eru þau ekki alin upp við það.

Þegar fram í sækir er ég að vona að börnin taki þurrkaða ávexti og ferska ávexti fram yfir sykursull í afmælum en þau verða að ráða því sjálf því ef maður bannar eitthvað, verður það spennandi. Ég þarf þó aldrei að banna neitt heima því þar er ekkert drasl í boði. Börnin mín eru enn of ung (2ja ára og 5 mánaða) til að vera búin að fatta sælgæti og slíkt en það kemur að því og þá verður forvitnilegt að fylgjast með! Ég mun allavega aldrei gefa þeim slíkt :) Þetta er líka spurning um að hafa sjálfstraustið til að bjóða ekki upp á sælgæti og kökur og fylgja sinni eigin sannfæringu. Ekki hlusta á aðra en sjálfa þig þegar kemur að börnunum þínum. Mum knows best :)

Erla G
17. nóv. 2011

Takk fyir góðan pistil. Ég á von á mínu fyrsta barni og við hjónin höfum einmitt verið að velta sykurneyslu barna fyrir okkur. Við viljum ekki bjóða barninu sykur en höfum áhyggjur hvernig við eigum að tækla "góðviljaða" afa,ömmur og frænkur sem eru sí og æ að ota dísætu "góðgæti" að börnum. Það er frábært að komast í pistil eins og þennan sem er uppfullur af góðum ráðum.

P.S. Það fer svo ótrúlega í taugarnar á mér þegar fullorðið fólk er að troða nammi upp í ómálga börn.

sigrun
17. nóv. 2011

Til hamingju :) Þeim mun harðari sem maður er á því að barnið eigi ekki að fá sykur hjá öðrum þeim mun erfiðara er fyrir fólk að stinga sykri að þeim. Þið eruð foreldrarnir, þið setjið reglurnar. Það er gott að hafa eitthvað markmið eins og "barnið má ekki fá neitt sælgæti fyrir 2ja ára aldurinn t.d." og svo sjáið þið bara til. Þið verðið að vera dugleg að láta vita af markmiðum ykkar því annars eru skilaboðin ekki skýr fyrir öðrum. Þau verða að vera skýr.

gestur
18. nóv. 2011

Má ég spyrja hvad thú færd hrátt agave beint af pløntunni? Ég hef verid ad skoda agave síróp og vinnsluadferdid, og hef hvergi fundi hvar ég get nálgast thad, nema í mexico. Sollu agave, er ekki einu sinni hrátt og óunnid...

sigrun
18. nóv. 2011

Ég hef keypt raw agave í heilsubúðunum í London. Það er ekki hitað upp fyrir 45°C og er tappað beint af plöntunni. Hér er dæmi um slíka vöru: http://www.keimling.eu/.cms/adw_eu_raw_agave/59-7-969?gclid=CLTAiJH2wKwC...

gestur
04. des. 2011

Sæl Sigrún og takk fyrir flottan pistil!

Að mínu mati er næringarfræðin jafnvel flókin og hagfræðin, það er eins og það sé ekki hægt að segja að ein leið sé "rétt". Fyrir almúgann flækir þetta málin óendanlega mikið og er það að mínu mati vandinn líka, á meðan leyfir fólk sér að ganga alla leið í óhollustunni því það sem er sagt í dag er útrunnið á morgun "argh" :)

En mín skoðun er sú að allt sem er hvítt hvort sem það er hvítt hveiti eða hvítur sykur er án efa minna af næringarefnum þ.e. það eru innantómar hitaeiningar. Á meðan speltið eða hvað þetta nú heitir allt saman inniheldur meiri næringu og vítamín þannig að hitaeiningarnar eru ríkari af hollustu. Þannig lít ég á það.

Ég er annars kennari og var ég að kenna nemendum mínum um daginn hvernig flokka á fæðutegundir eftir því hvort þær séu próteinríkar eða kolvetnisríkar eða halda mikla fitu o.s.frv. því það hefur oft komið mér á óvart hvað fólk skortir þessa þekkingu. Því það sem við innbyrðum hefur svo mikið um að segja hvernig okkur líður. Sjálf hef ég haldið hormónasjúkdómi sem ég greindist með fyrir nokkrum árum í skefjum aðeins með því að breyta lífstíl mínum og matarvenjum.

Einnig á ég son sem er 13 ára gamall sem byrjaði ekki að drekka gos fyrr en seint og um síðir því það var aldrei til á heimilinu en síðan flæktust málin vegna skilnaðar og fór svo að fleiri aðilar bættust á heimilin sem drukku t.d. kók og eftir um það við tvö ár og nokkuð margar smakkanir þá byrjaðir sonur minn að vilja gos, en sem betur fer í litlu magni, vegna þrjósku móðurinnar :)

sigrun
04. des. 2011

Takk fyrir innleggið :)