Djúpsteiktur þorskur og sígarettur

Mér finnst fyndið að vera í heilsusálfræði, fara með bekknum í mat og horfa á þau úða í sig fiski (djúpsteiktum í deigi) og frönskum...og hella ediki og salti yfir....Ég fór í fyrsta skipti niður í matsalinn og leitaði lengi að ferskum ávöxtum...eða salati....eða einhverju yfir höfuð sem gæti talist hollt. Ég fann ekkert. Það hollasta á matseðlinum var kaffi. Svart og sykurlaust. Mér var eiginlega flökurt í steiktri fiskfýlu. Við vorum nýbúin á fyrirlestri um fíkn (addiction) og skaðleg áhrif reykinga (þetta vita auðvitað allir en hér var verið að tala um lífeðlisfræðileg viðbrögð líkamans og hvers vegna fólk verður háð alls kyns eitri). Og ég sá a.m.k. 5 nemendur (sem í fyrirlestrinum höfðu kinkað kolli yfir auknum líkum á lungnakrabbameini og alls kyns kvillum) fara út, stinga upp í sig sígarettum og kveikja í. Fyrirlesarinn viðurkenndi líka að hann reykti og gæti eiginlega ekki hætt. Mér fannst áhugavert að fólk stýrir sjálft skammtinum eftir því hvort það er stressað eða afslappað. Stressað fólk (t.d. á leið í atvinnuviðtal) sýgur lengi af sígarettunni í „einum bita“ á meðan þeim sem leiðist „narta“ í sígarettuna og draga stutt og hratt af henni. Allt þetta er hegðun og það er akkúrat hegðun sem heilsusálfræðingar (og aðrir sálfræðingar) fást við og hvernig má breyta henni. Sama gildir um mat og hvernig og hvað fólk borðar (eða ekki) Þetta er allt hegðun og hegðun er yfirleitt (ekki alltaf) hægt að breyta.

Við lærðum einnig um hvernig 12 spora kerfið getur (með áherslu á getur því það virkar fyrir marga) verið hættulegt fíklum því það gefur lítið rými fyrir mistök. Til eru önnur meðferðarfom sem gera ráð fyrir því að fólki mistakist og þó því mistakist er það ekki endir alheimsins. Ef viðkomandi fékk sér tvö staup í brúðkaupi dóttur sinnar en ekki fjögur ber að hrósa honum fyrir það, ekki álasta hann fyrir að fá sér tvö ef hann hefur haldið sig frá áfengi í langan tíma, varð sér ekki að athlægi í brúðkaupinu og fékk sér ekki 4 eða 6 staup. Mér finnst þetta sniðugt módel því það að fara út af brautinni er mannleg hegðun. Það er svolítið ómannlegt finnst mér að ætlast til þess að allir séu fullkomnir og ósveigjanlegir. Þannig virkum við ekki. Þetta er auðvitað mikið einföldun því lang leiddir fíklar geta líklega ekki fengið sér eitt staup eða eina línu af kókaíni og þá þarf kannski að tækla á annan hátt, þetta er hins vegar eitthvað til að pæla í. Ef fólk er að skipta yfir í nýjan lífsstíl á það ekki að missa svefn yfir einu súkkulaðistykkir. Það þarf að einblína á það sem vel er búið að gera og horfa fram á veginn, læra af mistökunum. Við erum jú mannleg.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sigrún Þöll
20. okt. 2011

úff já sem betur fer erum við mannleg :)

Lísa Hjalt
21. okt. 2011

Ég sem hélt að fyrirsögnin hjá þér væri hráefni í einhverri nýrri uppskrift á vefnum ;-)

Þetta efni hljómar mjög áhugavert.

Melkorka
21. okt. 2011

Áhugavert, við erum ekki öll eins og þurfum því ekki öll sömu meðferðina. Þoli ekki þegar einhver er búin að ákveða HVERNIG ég geri hlutina. Það er oftast til fleiri en ein leið.