Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Nude Espresso
Nude Espresso er næstur á dagskrá. Þetta er líklega besti lattebollinn sem ég hef fengið á ævinni en um leið sá dýrasti og minnsti. Ekki endilega góð blanda og ég fór í smá fýlu út í Nude fyrir að rukka mig 3.50 pund fyrir lítið glas (minna en vatnsglas) af (ok, unaðslega góðum) koffeinlausum sojalatte. Mjólkin var fullkomin, kaffið bragðgott og lattelistin í mjólkinni var þannig að ég bara ómögulega hafði mig í að drekka kaffið. Jóhannes hefur farið nokkrum sinnum á Nude (en drekkur alltaf espressoinn áður en hann man eftir að taka mynd....ég veit, ég veit). Ég gef honum orðið:
19 Soho Square í Soho (til umfjöllunar) og 26 Hanbury Lane í Brick Lane
Ég fór í fyrsta skipti á Nude Espresso eftir að ég var byrjaður að skrifa um kaffihúsin hér á blogginu og verð að segja að ég hefði líklega byrjað á þessum stað annars.  Held að þetta sé orðið uppáhalds kaffihúsið mitt þessa dagana.  Þeir eru með eigin brennslu og líkt og á Kaffismiðjunni heima þá er brennsluofn innan í kaffihúsinu sjálfur. Soho Sq. kaffihúsið er reyndar ekki aðal kaffihúsið þeirra svo ég veit nú ekki hversu mikið ofninn er notaður, hef ekki séð hann í notkun ennþá.  Kaffið hjá þeim er með dekkri og mýkri tóna en t.d Square Mile eða Monmoth, ekki sömu háu tónarnir og maður finnur þar. Það er meiri fylling í því og meira rjómakennt. Þetta er líklega sú kaffibrennsla hér sem kemst næst Kaffismiðjunni heima.  
Kaffihúsið sem slíkt er mjög stílhreint, mest megnis svartir fletir og steinsteypa. Ég hef ekki smakkað bakkelsið en það lítur vel út þó það sé ekki mikið af því (gæti verið þar sem ég kem ekki þangað á virkum dögum). Ef ég ætti kaffihús þá væri ég til í að eiga þetta.
Ummæli
10. okt. 2011
respect the bean ... smart!