Skólapían

Ég held ég sé með gráðusýki, háð háskólagráðum, eilífðarstúdent. Ég er útskrifuð úr Mynd- og hand (þriggja ára nám) sem nú er Listaháskólinn, með BA í sálfræði, MA í hönnun fyrir gagnvirka miðla og nú ætla ég að bæta við mig MSc í heilsusálfræði. Síðast var ég í námi fyrir 10 árum (við sama skóla). Æi það er bara svo gaman að læra og þó þetta nám tengist ekki nema að litlu leyti minni sérhæfingu sem er ekkert tengd mat þá er þetta tengt áhugamálinu mínu og það er alltaf gott. Mér finnst lífið of stutt til að stoppa við á einum stað, ég vil læra sem mest og opna augun fyrir sem flestu. Ég hef verið í sama starfinu síðustu 7 árin og nú er tíminn til að víkka sjóndeildarhringinn aðeins.

Það hefur aldeilis margt breyst á tíu árum (þori varla að hugsa um þetta)...:

  • Þá voru árásirnar á Twin Towers í New York um það bil að gerast.... í sama mánuði og ég byrjaði í skólanum. Það voru ekki auðveldir tímar.
  • Þá gat ég vel hugsað mér þurrt, ósoðið pasta í kvöldmat því ég kunni ekkert, og ég meina ekkert, í eldhúsinu.
  • Þá var hápunktur eldamennskunnar bakað brauð í ofni með grænu pestói og osti.
  • Þá kunni ég ekki að sjóða egg, baka brauð, gera smoothie og hvað þá að baka köku.
  • Þá var núðlusúpa, í pakka fyrir mér máltíð.
  • Þá fékk ég kvef og hálsbólgu á 2ja mánaða fresti. Á tveggja mánaða fresti skrifaði ég „hálsb./kvef“ í dagatalið svo ég vissi hvenær ég ætti von á því að vera lasin. Ónæmiskerfið var ónýtt.
  • Þá vissi ég ekki hvað spelti eða kókosolía var.
  • Þá var CafeSigrun ekki til en tveimur árum síðar var ég byrjuð að skrifa uppskriftir í stílabók.
  • Þá var WAP í fullum gangi (og almáttugur minn...Netscape vafri!)
  • Það var ekkert Facebook og enginn Twitter.
  • Þá voru fyrstu símar með myndavél að koma á markað. Fyrstu símar með litaskjám voru að líta dagsins ljós.
  • Þá var enginn ipad, iphone og afar fáir áttu ipod enda kom hann á markað 2001.
  • Þá voru fáir að blogga.
  • Þá komst maður ekki á 3G tengingu til að senda og skoða tölvupóst (GPRS var málið) og maður fór á Internet Cafe til þess.
  • Þá fannst mér konan sem var 40 ára og var í Mastersnámi með mér, rugluð því hún var eitthvað svo „gömul“ (ó hjálpi mér).
  • Þá fannst mér stúlkan sem var 22ja ára og var í Mastersnámi með mér svo ótrúlega ung (ó hjálpi mér enn meira).
  • Þá átti ég engin börn og fannst ólíklegt að ég myndi eignast börn. Síðan eru komin tvö.
  • Þá hafði ég aldrei komið til Afríku og fannst ólíklegt að ég myndi fara til Afríku. Síðan hef ég farið óteljandi ferðir m.a. til Kenya, Uganda, Rwanda og Tanzaníu og verið fararstjóri.
  • Þá saknaði ég hestanna minna meira en orð fá lýst. Nú eru þeir fallnir frá og ég sakna þeirra enn þá, meira en orð fá lýst.
  • Þá kunni ég ekki að meðhöndla plöntur eða matjurtir. Ég kann það reyndar ekki enn.
  • Þá var ég að flytja í fyrsta skipti til útlanda (sko á fullorðinsárum). Ég er núna í 3ja sinn búsett í London.

Ég hlakka til að byrja í náminu og ég mun miðla þeim fróðleik sem mér þykir áhugaverður.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sigrún Þöll
26. sep. 2011

Vá hvað þetta hljómar ótrúlega spennandi!!!!!

Hrundski
27. sep. 2011

En spennandi - gangi þér vel :)

Anna Stína
27. sep. 2011

Gangi þér vel í náminu - ætlaði að fara að koma með "Vaktar"djók en þú veist ekkert hvað það er hehe

Knús á ykku öll - hlökkum til að fá skólafréttir
kv Anna, Smári og grísirnir 3

Tóta
27. sep. 2011

Frábært hjá þér !

gestur
29. sep. 2011

gangi þér vel

Lísa Hjalt
30. sep. 2011

2001 hljómar núna eins og eitthvað sem gerðist bara í gamla daga ;-) Ég mun aldrei ná þessu með ósoðna pastað, ALDREI!

Jóhanna S. Hannesdóttir
16. okt. 2011

En gaman. Gangi þér vel í náminu :-)

Jóhanna S. Hannesdóttir
16. okt. 2011

En gaman. Gangi þér vel í náminu :-)