Afmælisstelpan
Litla skonsan mín er 2ja ára í dag. Tíminn flýgur áfram á ógnarhraða. Það gerir munnurinn á henni líka því hún.talar.stans.laust. Það er bara gaman og gott að vita til þess að allt sé ok þarna uppi. Ég passa mig líka að hlusta og gefa mér tíma til þess að heyra hvað þessi litla manneskja er að segja því margt af því er merkilegt. Stundum reyndar biður hún brúnaþung mömmu sína um að syngja ekki. Þetta litla skass sendir birtu og yl niður í tær á góðum degi (þegar hún er með sætuhjúp utan um sig og knúsar mann af engu tilefni) en stundum þegar hún er í vondu skapi og nr. 1 og 2 grenja í kór, langar mig helst að setja þau systkin á Ebay...2 fyrir 1 tilboð. Hún er afskaplega góð við litla bróður sinn og hefur ekki í eitt einasta skipti sýnt tilburði til að vera afbrýðisöm eða vond við hann. Hún knúsar hann og kjassar við hvert tækifæri (meira að segja þegar hún veit ekki að maður er að horfa), reynir að gefa honum snuð ef hann kvartar og hefur áhyggjur ef hann grætur og maður er ekki búinn að taka hann upp til að hugga. Þráðurinn er stuttur í henni og oft býst maður við tilkynningu frá Almannavörnum þegar maður sér að eldgos er að krauma í þessum litlum kroppi. Hvernig t.d. VOGAR maður sér að gefa henni HÁLFA gulrót en ekki heila? Hvernig dettur manni slíkt í hug? Auðvitað er þetta eitt heimskulegasta tiltæki nokkurrar móður og merki um stórkostlega vanhæfni. Hún er mikill matgoggur og finnst nánast allt gott, nema harðsoðin egg. Hún borðar heldur ekki burritos eftir að hafa fengið ælupest eitt sinn og kastað þeim upp einhverja nóttina. Það situr fast í henni. Hún hatar lækna og tannlækna sem og alla aðra ókunnuga. Hún á það til að setja á sig sólgleraugu hjá lækni og horfa í hina áttina.... Sem getur verið pínlegt. Hvernig á maður að útskýra 2ja ára barn með kolsvört sólgleraugu, horfandi í hina áttina (viljandi) ALLAN tímann sem barnið er inni hjá lækninum? Metið er ein klukkustund þegar ég sat með Mariu vinkonu minni á kaffihúsi eitt sinn. Dóttirin sat sem fastast í kerrunni, með sólgleraugun og neitaði að horfa í áttina að okkur. Þegar fólk kjáir framan í hana í kerrunni og segir „Hello darling“ eða álíka, dregur hún sóhlífina fyrir og neitar að ræða málið frekar. Hún eeeeeeelskar bananamuffinsa (einungis með bönunum, engri viðbættri sætu), sushi, spergilkál, bækur og tónlist en syngur ekki (þó hún kunni alla textana meira að segja við Sprengisand og Stóð ég úti í tungsljósi). Hún hefur aldrei á ævinni smakkað sælgæti, keyptar kökur né sykraðan ís og veit ekki hvað súkkulaði er. Hún er dyntótt og skapstór, frek og frábær.
Elsku afmælisstelpa, til hamingju með daginn.
Ummæli
14. sep. 2011
Jeiii - fyrst !! Eins gott að standa sig og skrifa kveðju allsstaðar ;-) Elsku allra besta afmælisstelpan okkar. Vona að dagurinn hafi verið frábær og að þú hafir nú kannski geymt smakk af kökunni fyrir pabba þinn !!
Sendum endalaust af knúsum og kossum yfir hafið - saknaðarkveðjur
Anna, Smári, Freyja, Goði og Magni
ps Elsku Embla - takk fyrir að gera þennan dag að góðum og fallegum degi !! Ég fæ þér það seint fullþakkað !! Knús.
15. sep. 2011
Takk fyrir kveðjuna og gott að hugsa til þess að dagurinn hennar kannski komi upp á móti hinu........
15. sep. 2011
Og hérna finnur maður svona skemmtilega frásögn af afmælisstelpunni. Hún er náttúrlega engri lík og þetta með sólgleraugun finnst mér algjört æði ;-) Hlakka til að borða sushi með henni einn daginn. Ég er viss um að hún taki sólgleraugun niður við það tilefni.
15. sep. 2011
Ég ætla rétt að vona að hún taki sólgleraugun niður fyrir sushihitting síðar í framtíðinni :)
15. sep. 2011
Til hamingu með stúlkuna þína....
15. sep. 2011
Takk fyrir :)
15. sep. 2011
Til hamingju með stelpuna þína. Það er mikill kostur að vera ákveðinn - kemur manni langt í lífinu ;-)
16. sep. 2011
Til hamingju með fallegu Emblu.