Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Kaffeine

Kaffeine séð að utan

Kaffeine að innan

Við fengum ábendingu/áskorun um daginn um að gaman væri að fá að heyra um hvaða kaffihús við sækjum mest hérna í London og hvernig þessi kaffihús eru. Af nógu er að taka! Ég ákvað að fá meistarann til liðs við mig, Jóhannes (eiginmanninn), kaffidómara og kaffispeking. Hann verður gestabloggari næstu sunnudaga. Ég gef honum orðið:

Sigrún hefur minnst á það hér á blogginu sínu að það var ekki eitt einasta kaffihús í snobbhverfinu Wimbledon Village með almennilegt espresso og að hérna í Bloomsbury, þar sem við búum núna sé alveg aragrúi af kaffihúsum sem maður getur valið um.&; Í framhaldi af því bað vinkona okkar, Sigrún Þöll, Sigrúnu um að koma með smá útlistun á þessum kaffihúsum svo að þeir sem eigi ferð um London geti fundið sér gott kaffi, ekki bara eitthvað sull eins og þessar stóru kaffikeðjur bjóða upp á.&;

Þar sem Sigrún drekkur ekki espresso sjálf og ég verð víst að viðurkenna að ég er bæði algjör snobbhæna þegar kemur að kaffi og líka mjög mikill espresso nörd (ég á&; t.d. svolítið erfitt með að viðurkenna það að konan mín fari á Starbucks), þá bað hún mig um að vera „gestabloggari” á CafeSigrun og skrifa aðeins um þessi kaffihús. Ég ætla að skrifa um hvert kaffihús fyrir sig svo þetta verða nokkrar færslur sem koma næstu vikur.

Áður en ég byrja á að tala um kaffihúsin þá vil ég aðeins tala um hvað það er sem ég flokka sem almennilegan espresso, svo fólk átti sig á hvaða viðmið ég er að nota. Það eru margir þættir sem spila inn í þegar verið er að búa til espresso. Þrýstingurinn á gufunni þarf að vera réttur, kaffið þarf að vera rétt malað, gufan sem þrýst er í gegnum kaffið má ekki vera of mikil (einfaldur espresso á að vera um 25-30ml., það alveg sýður á mér þegar ég fæ hálft baðkar af svörtu gutli þegar ég panta espresso) né má hún vera of lítil. Það á svo að taka milli 25-30 sekúndur fyrir espressoin að leka í bollann. Það er líka merkilegt þegar kemur að espresso gerð að þar sem kaffi er ferskvara þá er alveg óvíst að það sem virkaði vel í espressovélinni í gær virki vel í dag. Það sem getur spilaði inn í er t.d. loftþrýstingurinn og rakinn í loftinu. Þessir þættir spila svo með því hvernig gufan fer í gegnum malaða kaffið og því þarf maður oft að breyta stillingum á malaranum dag frá degi (og stundum oft á dag). Þessi kaffihús sem eru virkilega að hugsa um þessi mál byrja daginn alltaf á því að stilla allar græjurnar áður en þau fara að selja fólki kaffi. Eins er líka mikill munur á hvaða mölun hentar hvaða kaffi og líka hvaða brennslu, þ.e. ef sama kaffi er brennt með mismunandi hætti þarf í flestum tilfellum mismunandi stillingar á malaranum.

Allt þetta gerir það að verkum að ég held því statt og stöðugt fram að það að laga espresso sé listgrein!

Hvað um það, við skulum snúa okkur að fyrsta kaffihúsinu, Kaffeine.

Kaffeine
66 Great Titchfield Street, Fitzrovia [kort sem sýnir staðsetningu Kaffeine]

Nálægasta Tube: Oxford Circus

Þetta kaffihús er ekki stórt og ekki mjög fansí, húsnæðið er frekar hrátt en á jákvæðan hátt. Það er aftur á móti eitt af mínum 3 mest-uppáhalds kaffihúsum í London. Það geta um 25-30 manns setið þarna en það eru ekki stök borð heldur bekkir/kubbar sem fólk situr við og á. Stemmningin þarna er alltaf mjög afslöppuð og þægileg, mest megnis fólk sem býr í hverfinu eða fólk í hönnunar/listageiranum sem vinnur í nágreninu. Maður sér ekki oft túrista, bankastráka eða hnakka/skinkur. Þetta er mjög svipaður hópur og er t.d. á Kaffismiðjunni heima (annað frábært kaffihús).

Kaffeine notar kaffi frá Square Mile kaffibrennslunni og það eitt segir manni að þau hugsa um gæði kaffisins en ekki verðið (Square Mile er alveg efni í sér póst, kannski ég setji hann saman einhvern daginn).

Fyrir utan það að vera með afburða gott kaffi (sem þýðir líka afburða góða kaffibarþjóna) þá eru þeir líka með mjög gott „með’í” bæði mat og svo sætabrauð. Ég mæli hiklaust með heimsókn á Kaffeine ef þið eruð á ferðinni í miðborginni. Fyrir þá sem kannast við sig í London er kaffihúsið stutt labb af Oxford Street, beygt upp nálægt Urban Outfitters.

Afsakið myndgæðin, myndin að innan er svolítið hreyfð!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lísa Hjalt
04. sep. 2011

Mér líkar þessi samvinna! Brill á fá sjálfan espresso meistarann til þess að vera gestabloggari, þrátt fyrir, ég segi þrátt fyrir að það halli eilítið, OK kannski fullmikið, á Starbucks í þessari færslu ;-)

Hlakka til næstu sunnudaga!

Hrundski
06. sep. 2011

Skemmtilegt :)
Langar að vita eitt... hvernig á maður að drekka espresso? Flestir sem ég þekki sem drekka þetta hrúga sykri í bollann og drekka þetta svo eins og skot bara.
kv
h

Anna Stína
06. sep. 2011

Velkominn gestabloggari - gaman ;-)
Hlakka til að lesa meira frá ykkur báðum.
Best að hella sér upp á 2dl sull ;-)
Knús á ykkur öll frá okkur öllum !!

Jóhannes
06. sep. 2011

Hrund: Það eru í raun engar reglur um hvernig þú átt að drekka espresso, EN góður espresso þarf ekki neinn sykur því hann er hvorki súr, beiskur né rammur. Fólk er að hrúga sykri í vont kaffi til að reyna að gera það þolanlegt, nú eða þá að fólki finnist sykurinn bara ómissandi, það getur vel verið. Ég set aldrei sykur í mitt kaffi og smakkdómarar á kaffikeppnum gera það ekki heldur.

Elfa Dröfn
10. sep. 2011

Mmm.. Ég fór einmitt á Kaffeine í desember eftir ábendingu frá ykkur og féll alveg fyrir staðnum. Algjörlega besta kaffið sem ég fékk í London! Hlakka til að heyra meira :)

Jóhannes
10. sep. 2011

Hæ Elfa

Frábært að þú hafir verið svona ánægð með Kaffeine :) Vona líka að þú verðir ekki fyrir vonbrigðum ef þú kemur aftur og ferð á eitthvað af þeim kaffihúsum sem ég tala um ;)

Sigrún Þöll
12. sep. 2011

vá! þessi færsla fór fram hjá mér!!!

Velkommen á netið sem gestabloggari segi ég nú bara *mmm* hvað verður gaman að lesa um kaffihúsin... :)

Elfa Dröfn
12. sep. 2011

Hæ Jóhannes

Já, ég var voða hrifin og gerði mér ferð þangað nokkrum sinnum þennan stutta tíma sem ég var í London. Ég er einmitt mjög spennt fyrir þessum pistlum þínum og hlakka til að prófa nýja kaffistaði þegar ég kem til London í vetur :)