Mamma gúsa róna!!!!

Ég er alltaf að flýta mér. Alltaf, alltaf, alltaf. Ég kom 5 vikum fyrir tímann í heiminn því ég var að flýta mér svo mikið. Ég stoppa sjaldan og Jóhannes segir stundum að ég sé eins og kólíbrífugl eða fiðrildi. Hann segir reglulega við mig: „hraði drepur” og svo dæsir hann þungan því hann verður þreyttur á að horfa á mig hreyfa mig. Það getur haft sína kosti. Maður kemur t.d. miklu í verk á stuttum tíma. Til dæmis getur maður sett í þvottavél, talað í síma og gefið Afkvæminu að borða, allt á sama tíma (svona eins og flestar konur og örugglega karlar líka). Á góðum degi gæti ég líka hent í muffinsa í leiðinni. Með Nr. 2 er enn meiri ástæða til að flýta sér. Koma þvotti í vélina, útbúa mat fyrir Afkvæmið, tæma uppþvottavélina, fara í búðina, þerra tár og rassa o.s.frv., o.sfrv. Ókosturinn er t.d. sá að ég er alltaf að brjóta glös, diska o.fl. drasl því hamagangurinn er oft mikill.

Á hverjum degi sæki ég Afkvæmið á leikskólann. Þetta eru ekki nema 5 mínútur sem maður labbar þaðan og heim. Leikskólinn sjálfur er staðsettur við lítinn leikgarð sem gerður var fyrir 8-12 ára börn og er mjög flottur. Þangað fara börnin reglulega út að leika en garðurinn er sambyggður leikskólanum. Börnin eru úti allan daginn, alla daga sem er hið besta mál. Á leið okkar fram hjá leikgarðinum hefur Afkvæmið spurt mig 100 sinnum...Róna? Róna? Róna núna? (Róna=Róla). Eitt leiktækið (þau eru öll mjög spes, úr við, köðlum, keðjum og voða náttúrulega og falleg) er hengirúm sem gert er úr köðlum þannig að það gætu legið tveir á því. Ég er alltaf að flýta mér og segi því yfirleitt „Ekki núna, kannski á morgun“. Einn daginn var ég fyrr á ferð en venjulega og ég vissi að Nr. 2 var í góðum höndum heima. Afkvæmið kyssti fóstruna bless og smeygði litla, þybbna lófanum í minn. „Róna? Róna?“ spurði dóttirin með von í röddinni. Ég vaaaaaaaar að fara að segja „Ekki núna, kannski á morgun“ en hikaði. Ég ákvað að gefa mér nokkrar mínútur. Afkvæmið leiddi mig um allan garðinn og við skoðuðum maura, laufblöð, steina og blóm. Hún leiddi mig svo að hengirúminu og við settumst á það báðar. Við róluðum dágóða stund og rauluðum lagstúf með. Ég horfði út undan mér og sá að dóttirin var brosandi út að eyrum. Hún horfði í augun á mér með þessum ljómandi, ólífugrænum augum og sagði „mamma gúsa róna!!!“ (knúsa mömmu í rólunni) og gaf mömmu sinni þétt faðmlag (eins fast og tæplega tveggja ára skott getur kreist). Bara fyrir það að hafa sest með henni niður að gera það sem er skemmtilegast í heimi fyrir tveggja ára....skoða heiminn og róla. Í 5 mínútur. Ég hef ekki alltaf tíma til að staldra við en ég geri það þegar ég mögulega get. Þvotturinn getur beðið.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sigrún Þöll
15. ágú. 2011

Stelpan þín kann þetta :) Láta mömmu sína aðeins hægja á sér :)

Frábær frásögn!

Jóhanna S. Hannesdóttir
15. ágú. 2011

Krúttlegt :-)

Lísa Hjalt
22. ágú. 2011

sú litla veit hvað hún syngur!
Ég hélt annars að þú hefðir verið að knúsa einhverja róna og fannst það ekki alveg þinn stíll ;-)

Alma María
23. ágú. 2011

Dásamlegur pistill.
Nauðsynlegt að staldra við og segja ekki alltaf "ekki núna". Þessar stuttu samverustundir eru svo mikilvægar og gefa okkur og börnunum okkar meira en við gerum okkur oft grein fyrir.