Bloggið

Heimsóknir á CafeSigrun

Jóhannes var að kíkja á tölfræðina bak við vefinn minn (sýnir hversu margir skoða vefinn minn og svoleiðis) og mig rak nú bara í rogastans. Það eru um það bil 1600-1700 manns sem skoða CafeSigrun í hverjum mánuði (eykst sífellt), um 60 manns á dag og þessi 60 manns eru að skoða um 2-3 síður hver á dag. Það eru 5 þúsund flettingar (síður sem eru skoðaðar) í hverjum mánuði!!! Ég hélt að það væru kannski 3 hræður að skoða vefinn á mánuði eða álíka :) En svo sem miðað við póstlistann og svona vissi ég að það væru fleiri en ég hélt að það væru nú ekki SVONA margir og fjöldinn hefur aukist jafnt og þétt síðan ég uppfærði vefinn. Ég er bara rosa glöð yfir því. Ok ég veit að þetta er ekkert eins og vefur Morgunblaðsins en ég hef aldrei auglýst vefinn minn og hann var upphaflega bara ætlaður fyrir mig svo það er bara rosa gaman að fólk sé að skoða hann og nota.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Allt í rugli

Eins og þið hafið kannski tekið eftir þá hefur vefurinn minn legið niðri í dag og ef hann hefur ekki legið niðri þá hafa birst ansi skrýtnar heimasíður í staðinn fyrir mína heimasíðu. Ástæðan fyrir þessu var sú að árás var gerð á serverinn (einhverjir hakkarar á ferð) og þess vegna allt í rugli. Vona að þetta verði til friðs.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Það var mikið!

Þá erum við loksinns búin að koma myndunum frá Laugavegsgöngunni inn á netið, kíkið á þær. Við erum núna á fullu að koma myndunum frá Afríku inn, ég læt vita þegar það er búið.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Afríka

Jæja þá erum við komin eftir aldeilis vel heppnaða ferð. Við lentum reyndar síðastliðinn sunnudagsmorgunn en áttum að lenda laugardagsmorgunn. Það var um 26 tíma seinkun á fluginu þannig að við komum á sunnudags- í staðinn fyrir laugardagsmorgni. Við vorum sem sagt í Mombasa og ætluðum að fljúga til Nairobi þegar okkur var tilkynnt um þessa seinkun. Við ákváðum samt að fljúga til Nairobi þar sem upplýsingar í Mombasa varðandi British Airways flug voru takmarkaðar. Þar var sem sagt tilkynnt um seinkun og okkur var komið á hótel. Við ákváðum að nýta tímann og skoða okkur meira um í Nairobi og vorum bara í rólegheitunum þar sem vélin átti að fara kl 6 morguninn eftir. Við erum enn þá að reyna að átta okkur á því hvernig British Airways tókst að hafa upp á okkur á Hilton hótelinu þar sem við hittum Elínu mágkonu mína (hún var að fara í ferð með félagsfræðikennara). Einhvern veginn tókst þeim að senda skilaboð á hana um að við ættum að fara upp á hótel síðdegis þar sem vélin ætti að fara í loftið kl 22.45 (en ekki klukkan 6 morguninn eftir). Við skiljum ekki alveg hvernig þeir fóru að þessu þar sem okkar nafn var hvergi skráð á Hilton og hitt hótelið vissi auðvitað ekki hvar við vorum. Skilaboðin voru líka send á nafn Borgars en ekki á nafn Elínar. Okkur dettur helst í hug leigubílsstjórinn sem keyrði okkur inn til Nairobi, en það eina sem við sögðum honum var að við værum Íslendingar, við værum að hitta konu frá Rover Expeditions á Hilton en engu að síður þá er það langsótt. Hann hefur þá sjálfur farið og látið vita sem er afar fallega gert ef svo er. Borgar sig að gefa gott þjórfé greinilega!!!

Það góða við þetta allt saman var eins og áður sagði að við græddum aukadag í Nairobi sem við notuðum meðal annars til að skoða heimili Karenar Blixen, Snákagarðinn (var með lokuð augun mest allan tímann samt, nema þegar ég skoðaði stóru skjaldbökuna, hún var voða sæt), Þjóðminjasafnið og síðast en ekki síst heimili fyrir munaðarlaus HIV smituð börn sem var mjög áhugavert. Það var sérstaklega áhugavert að því leyti að börnin virtust heilbrigð, vel nærð og hamingjusöm. Greinilega vel hugsað um þau og engan veginn í samræmi við þá mynd sem gefin er upp svona venjulega af HIV smituðum börnum úti í heimi. Það væri auðvitað best ef þau væru ekki HIV smituð en miðað við þetta þá er margt jákvætt hægt að gera fyrir þessi grey. Þessi börn eru almennt skilin eftir á spítölum eða úti á götu eða að foreldrarnir deyja frá þeim, úr alnæmi yfirleitt. Það eru enn þá miklir fordómar gagnvart HIV smituðu fólki og til dæmis fá smituð börn almennt ekki að ganga í almenna skóla heldur þurfa að ganga í einkaskóla sem kostar auðvitað mun meira. Það gerir þeim lífið ekki auðveldara. Þetta er þó aðeins að breytast ekki síst fyrir tilstuðlan þessarar miðstöðvar sem við heimsóttum.

Ferðin hefði aldrei verið svona góð og vel heppnuð ef við hefðum ekki haft Borgar bróður og Elínu sem leiðsögumenn. Þau þekkja alla staðhætti vel í Afríku og margir eru kunnugir þeim líka sem gerir allt mjög auðvelt. Ég myndi hiklaust mæla með ferð með þeim fyrir alla aldurshópa. Ég fæ að sjálfsögðu ekki greitt fyrir að auglýsa þau, þetta er bara persónuleg skoðun og upplifun. Sem dæmi um hversu mikið góðir leiðsögumenn skipta máli þá hittum við voða indælt par frá Bandaríkjunum þegar við lentum í seinkuninni, Meg og Paul (vorum með þeim í gegnum þetta seinkunarvesen allt) og þau höfðu eytt 4 dögum í einum þjóðgarði í staðinn fyrir 1 dag sem hefði verið alveg nóg. Þau voru frekar svekkt yfir því að hafa ekki verið með einhverjum sem til þekkti. Þau lentu líka í afar ágengum Masaaium en í staðinn þurftum við hálfpartinn að biðja Masaaina sem við hittum um að selja okkur hluti. Þau borðuðu bara á hótelum, alltaf 3 máltíðir í hlaðborði og þau uppgötvuðu í lok ferðarinnar að þau höfðu aldrei bragðað á afrískum mat. Við aftur á móti smökkuðum fullt af local mat sem bragðaðist afar vel.

Við sáum svo margt og mikið sem við erum ekki vön að sjá til dæmis villt dýr (ljón, fíla, gíraffa, zebrahesta og margt fleira), alls kyns þorp og markaði, björgunarheimili (animal sanctuary) fyrir fílskálfa, björgunarheimili fyrir simpansa (átakanlegt að heyra um sögu hvers og eins), strákofa, glæsilegt handverk og jafnvel fallegar grafíkmyndir (á Þjóðminjasafninu).

Það voru nokkur atriði sem ég hafði gert mér í hugarlund um Afríku áður en ég fór þangað en þegar til stóð var ég greinilega ekki með rétta mynd í kollinum (kannski fordómar eða þekkingarleysi) og ég ætla að telja upp þessi atriði hér (þessi atriði eiga við um Austur-Afríku og endurspegla aðeins mínar skoðanir):

  1. Misskilningur 1: Það er alltaf heitt í Afríku: Alls ekki, það fer eftir því hvernær ársins er farið. Til dæmis var ég í flíspeysu nánast allan tímann. Ég er kuldaskræfa og allt það en hitastigið var yfirleitt afar þægilegt eða um svona 20-25 stig á daginn og yfirleitt gola enda upp á hásléttu (aðeins heitara við ströndina).  
  2. Misskilningur 2: Grænmetisætur finna ekkert við sitt hæfi: Alger misskilningur þrátt fyrir það sem sagt er í Lonely Planet. Afríkubúar lifa mikið á kjöti en það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að gera grænmetisætum til geðs. Ég fékk mikið af dýrindismat fyrir mig t.d. Githeri (baunakássu), spínatkartöflur, grænmetissúpur, brauð, alls kyns gómsætan indverskan mat, ávexti og margt, margt fleira.  
  3. Misskilningur 3: Veitingastaðir eru ekki á háu plani: Það eru sko heldur betur góðir veitingastaðir í Austur Afríku. Til dæmis er einn af 50 bestu veitingastöðum heims í Nairobi og heitir Carnivore (líka hægt að fá grænmetisrétti, sjá Misskilning 2). Það er hægt að fá allt frá baunakássum upp í flottustu og dýrustu rétti á flestum veitingastöðum. Eitthvað við allra hæfi, svo mikið er víst.  
  4. Misskilningur 4: Hótelin geta ekki verið fín: Ójú, Hilton hótelið í Nairobi er mjög flott 4ja stjörnu hótel og sömuleiðis má finna lúxushótel um gjörvalla Austur-Afríku. Við ströndina eru hótelin þannig að mann langar ekki að fara heim, EVER.  
  5. Misskilningur 5: Fólkið skilur varla ensku: Heldur betur, það tala nánast allir ensku og örugglega betur en margar þjóðir. Fyrsta málið er alltaf ættfbálkamálið (tribal), seinna málið er Swahili og það þriðja er enska.  
  6. Misskilningur 6: Það er dýrt og erfitt að nálgast drykkjarvatn: Vatn er hægt að kaupa í flestum búðum eins og matvöruverslunum, bensínstöðvum og sjoppum og er mun ódýrara en vatn á brúsum í Englandi!  
  7. Misskilningur 7: Það er allt morandi í skordýrum: Ég er pödduhræddasta manneskja í heimi en ég get staðfest að ég sá enga könguló (bara í búri, reyndar var ég með lokuð augun allan tímann svo ég sá í rauninni aldrei könguló allan tímann), örfáar flugur (voru ekkert að angra mann) og ég var bara einu sinni bitin af moskítóflugu (og ég var aldrei með neitt eitur). Moskítóflugur bíta fólk samt mismikið, ég er greinilega ekkert gómsæt. Það voru nokkrir maurar á stangli en bara þar sem þeir áttu að vera (á jörðinni, að bardúsa eitthvað) en hvergi á manni eða í dótinu manns.  
  8. Misskilningur 8: Fátækt fólk er óhamingjusamt og lifa við sult og seyru: Málið er að bæði fátækt og hamingja eru afstæð hugtök. Þó að fólk hafi ekki sjónvörp, bíla, nýjustu föt eða tískublöð og búi í strákofum, þá virðist fólk vera ánægt og lífsglatt svo lengi sem það á í sig og á. Ég ætla ekki að alhæfa en þetta var tilfinningin sem maður fékk.  
  9. Misskilningur 9: Það eru engin kaffihús í Afríku: Við fórum á 2 frábær kaffihús í Nairobi; Dormans og Java Coffee House. Bæði með mjög gott kaffi hvort sem það var espresso eða koffeinlaus latte. Hægt að fá góðan mat líka þ.e. samlokur og beyglur og þess háttar.  
  10. Misskilningur 10: Sölumenn á mörkuðum eru ágengir: Reyndar enginn misskilningur, þeir voru eins og mý á mykjuskán en kannski eðlilegt þar sem þetta er lífsviðurværi þeirra. Bara skemmtilegt að prútta!  

Þetta var svona það helsta!

Já ferðaleiðin var annars þessi (takið eftir öllum N-unum!!):

  • London-Nairobi
  • Nairobi-Nanyuki
  • Nanyuki-Nyarhuru (Sweetwaters sanctuary fyrir simpansa og nashyrninga)
  • Nyarhuru-Nakuru (Lake Nakuru m.a. nashyrningar, breiður flamenco fugla og margt fleira)
  • Nakuru-Naivasha (Lake Naivasha, sáum m.a. flóðhesta þegar við sigldum til Crescent Island sem er merkilegur staður)
  • Naivasha-Nairobi (Fórum til Hell's Gate og hittum Masaaia ættbálkinn)
  • Nairobi-Mombasa (m.a. Fort Jesus virkið, Gamli bærinn í Mombasa og Diani Beach ströndin)
  • Mombasa-Nairobi (Diani Beach- Paradís og ekkert annað, hvítar strendur, tær og heitur sjór, pálmatré, hótelin fyrsta flokks og það besta; ekki of margir túristar!)
  • Nairobi-London

Myndir koma síðar og ég skrifa meira þá um hvern stað og svoleiðis (ef einhver nennir að lesa!).

Við eigum örugglega eftir að fara aftur innan skamms!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Komin ur safari

Jaeja tha erum vid komin ur allsherjar safari og thad er buid ad vera frabaert. Erum buin ad sja svo margt og mikid og ferdin i alla stadi mjog vel heppnud og skemmtileg. Eg skrifa nu miklu betur um thad sidar. Vid erum nuna i nairobi og erum ad fara til Mombasa a strondina a manudaginn. Vid verdum reyndar ekki mikid i solbadi tar thvi vid aetlum ad skoda okkur um og svoleidis. I kvold aetlum vid a Carnivore sem er talinn vera einn af 50 bestu veitingastodum i heimi. Eg aetla reyndar ad fa mer af Herbivore matsedlinum (graenmetis) tvi eg borda ju nanast ekkert kjot. Eg vona ad eg verdi buin ad fa bragdskynid aftur samt. Er buin ad vera med halsbolgu og kvef sidan vid lentum her i Afriku og sidustu 2 daga hef eg ekki fundid neitt bragd af matnum (a kvoldin). Vona ad tad verdi ok i kvold. Tad sem eg hef smakkad af graenmetismat her i Afriku er nog fyrir mig til ad vilja flytja hingad, tvilikt lostaeti og audvitad allir fersku avextirnir aedislegir.

Jaeja laet thetta duga i bili, skrifa um leid og eg get aftur, kannski samt ekki fyrr en vid erum komin til UK.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Nairobi

Jaeja erum komin til Nairobi, erum a skrifstofunni hans Borgars og erum ad kikja a email og svoleidis. Svafum rosa vel og bordudum mikid i morgunmat. Vid forum svo ad leggja af stad aleidis til Mt. Kenya.

Allt gekk vel i gaer i fluginu og i vegabrefaskoduninni. Skrifa meira ef eg kemst i tolvu.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Jamie i gaer, kenya i dag

Vid erum a flugvellinum a Heathrow ad bida eftir ad komast i vel til Kenya. Thar taka a moti okkur Borgar og Elin og strakarnir. Thad verdur gaman ad hitta thau.

Forum annars a Jamie Oliver i gaer (stadurinn heitir 15) og thad var rosalega gott. Forum i hadeginu med Smara og svo um kvoldi a Gili Gulu (sushi) og thad var hrikalega gott lika. Nu er Smari bara sofandi heima og hann fer heim til Islands i kvold.

Fundum lika antikbud sem vid vildum kaupa helst alla, hun var gedveikislega flott. Segi fra thvi betur seinna.

Kemst vonandi a eitthvad net i Nairobi en annars komum vid aftur heim 6. agust.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Þyrlur og sírenur

Þetta voru nú meiri lætin. Við í vinnunni vorum drifin út úr byggingunni af því ein þessara sprengja eða hvað þetta var sprakk á Warren Street lestarstöðinni sem er sú lestarstöð sem flestir í vinnunni nota enda bara 5 mínútur frá okkur.

Ég hringdi beint í Jóhannes því hann var á fundi út í bæ og hann var sem betur fer ok og náði strætó heim. Já lögreglan vísaði öllum út þar sem þeir voru hræddir við efnavopnaárás og þar sem byggingin er með loftræstikerfi (eins og margar þarna í kring) var öllum vísað út. Fyrir utan var kaos, fullt af fólki úti á götu og búið að loka fyrir allri umferð. Þyrlur sveimuðu beint yfir hausnum á okkur og sírenur vældu án afláts. Nú voru góð ráð dýr, fólk var nú ekki á því að fara heim enda langaði engan ofan í lestarnar. Allir pöbbar voru fullir og því var leitað til mín sem sérfræðing á þessu svæði varðandi pöbba (þar sem ég er íbúi hér). Ég leiddi alla starfsmennina 10 (4 voru ekki við í dag) í halarófu út á pöbbinn sem er hérna beint á móti íbúðinni okkar og þar sátum við og drukkum appelsínusafa og öl. Fartölvur voru dregnar upp, fundir voru haldnir og meira að segja var verið að vonast eftir því að þráðlausa netið myndi drífa út á pöbbinn frá íbúðinni. Það kom þó ekki til þess að við prófuðum. Við fórum aftur í vinnuna um 1,5 klukkutíma seinna (held að við höfum verið eini vinnustaðurinn sem fór aftur inn) og þyrlurnar halda áfram að sveima yfir okkur. Búin að bjóða vinnufélögum gistingu (sumir eru allt að 4 tíma að labba heim til sín). Það verður þá bara kakó og kósí.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Fjölskylduhittingur

Já það verður hálfgerður fjölskylduhittingur á föstudaginn. Smári bróðir kemur á föstudaginn og hann ætlar með Jóhannesi á Lenny Kravitz tónleika á Brixton. Svo ætlum við á laugardeginum á veitingastaðinn 15 (Jamie Oliver) í hádeginu og jafnvel á sushi um kvöldið (verðum útétin). Sjáum svo til hvað við náum að gera en það væri rosa gaman að fara á Borough markaðinn (rosa flottur matarmarkaður, sá elsti í Bretlandi og þó víðar væri leitað) og ég veit að Smára langar að kíkja á einhverjar verkfærabúðir sem hann náði ekki að kíkja á síðast.

Á föstudaginn koma mamma og pabbi frá Kenya þannig að þau ná að hitta Smára áður en þau fara til Íslands. Þau fara þó aftur seinna um kvöldið, ætla rétt að leggja sig held ég. Svo á sunnudaginn förum við Jóhannes til Kenya og þá hittum við Borgar bróður, Elínu, Mána og Stein. Við erum orðin rosa spennt fyrir Kenya, búin að græja allt sem við getum en það hefur bara verið svo mikið að gera hjá okkur að við pökkum ekki fyrr en á seinustu stundu örugglega, aðalatriðið er að muna eftir vegabréfum, sprautuvottorðum, peningum og þess háttar dóti. Við fljúgum á sunnudagsmorgninum kl 10.25. Við tökum minicab því það er heljarinnar vesen að komast með Tubeinu á Heathrow þessa dagana út af sprengjunum. Heathrow Express er dýrari en minicab og við tökum hann þess vegna. Voða þægilegt líka (en dýrt).

Við reynum að blogga á meðan við erum þar en við verðum víst ekki mikið við tölvur held ég (sem er fínt) svo kannski verða engar fréttir af okkur fyrr en við komum aftur (6. ágúst).

Jæja best að halda áfram að vinna eitthvað.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Reykjarlyktin skrítna

Það var nú skrítin nóttin sem leið. Ég vaknaði kl 3.30 síðustu nótt og þá var mig búið að dreyma einhvern að reykja sígarettur í dálítinn tíma. Ég lá milli svefns og vöku og fannst sígarettulyktin skrítin. Svo fór að renna upp fyrir mér að a) þetta var ekki sígarettulykt og b) þetta var inni í íbúðinni. Við þetta glaðvaknaði ég. Lyktin var mjög megn brunalykt en það var enginn reykur. Þetta var svona brunalykt sem kemur af brunnu, gömlu timbri (svona eins og var á Ingólfsstrætinu þegar kjallarinn brann fyrir ykkur sem komuð þangað eftir brunann). Svíðandi lykt sem festist við mann og lætur mann fá tár í augun. Svona lykt sem þarf að reykræsta með jónatæki til að losna við hana. En jæja ég staulast fram í eldhús því mér datt helst í hug að ég hefði gleymt eggjum í potti á eldavélinni (hefur komið fyrir en við vorum nú heima) en nei það var allt slökkt þar. Við bröltið í mér vaknar Jóhannes og staulast á eftir mér inn í eldhús. Á þessum tímapunkti var lyktin orðin mjög megn. Við stungum hausnum bæði út um gluggana til að sjá hvort að væri kviknað í einhvers staðar. Við sáum hvorki eld né neitt annað athugavert. Okkur sýndist við sjá reykjarhulu en það gat vel verið mistur líka því það er búið að vera svo heitt að undanförnu í London og þetta var jú um miðja nótt. Þess vegna voru allir gluggar galopnir og búnir að vera í nokkra daga.

Jóhannes gáði á vef BBC til að athuga hvort einhver frétt væri af eldi í miðborg London en engar fréttir voru varðandi það (maður er svo vanur því heima á Íslandi að ef einhvers staðar kviknar í þá kemur það strax á Moggavefinn en það gengur víst ekki alveg svo hratt fyrir sig í 8 milljón manna borg). En já við gátum lítið gert og ákváðum að fara bara aftur að sofa eftir að Jóhannes var búinn að gá fram á gang og athuga hvort að væri nokkuð reykur eða eldur en nei allt í góðu þar. Við lokuðum þess vegna gluggunum (í þessum hita) og sofnuðum fljótlega aftur.

Það sem vakti smá óhug hjá okkur svona eftir á var að í fyrsta lagi var þetta brunalykt og undir lokin var lyktin orðin eins og að keyra fram hjá danskri pylsuverksmiðju (fyrir ykkur sem ekki hafið reynt það, þá er lyktin ógeðsleg og mér hefur verið tjáð að svipuð lykt komi af brennandi fólki. Sel það ekki dýrara en ég keypti það þó). Mér fannst þetta því frekar óþægilegt. Í öðru lagi þá fannst mér þetta óþægilegt því við höfum verið að lesa um hótanir öfgafullra múslima sem segja að næstu skref hjá þeimverði efnavopnaárás á London (í vatnslindir eða matvæli reyndar) þannig að eftir á að hyggja var þetta óþægilegt og við hefðum sem sé getað verið dauð ef svo hefði verið. En svo var ekki. Sem betur fer. Það hefði verið leiðinlegt því við áttum afar góðan dag í Regents Park í dag í 30 stiga hita og glaða sólskini. Við fórum með kaffi og nesti og bækur og blöð og vorum í um 5 klukkutíma í afslöppun. Þvílíkur lúxus. Í fyrsta skipti sem við erum bæði heima og bæði í fríi í um 3 mánuði!

En já skrítna lyktin frá því í nótt skýrði sig aldrei og við erum engu nær. Vona bara að sé ekki líkbrennsla í næsta húsi!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It