Sagan af heilsugæslunni

Ég þoli ekki breskt heilbrigðiskerfi....það er stirðara og þrjóskara en aldraður fíll. Ef maður ætlar að spyrja um t.d. útbrot á líkama hefur maður 10 mínútur (og ég hef séð lækni stilla klukku í tölvunni til að vera viss um að fara ekki fram yfir tilsettan tíma). Ef hins vegar maður er t.d. með útbrot OG verk í hnénu verður maður að panta annan tíma til að ræða verkinn í hnénu. Þetta er dagsatt. Læknar hafa a.m.k. tvisvar NEITAÐ að svara einföldum spurningum um afkvæmið (hósti, niðurgangur og eitthvað svoleiðis) og bentu mér á að panta annan tíma. Málið er nefnilega að þeim mun fleiri sjúklinga sem þeir afgreiða, þeim mun hærri laun fá þeir. Þetta á við NHS, almenna heilbrigðiskerfið sem virkar illa enda 100% ókeypis.

Ég fór til að skrá mig á heilsugæsluna í morgun. Þeirri sömu og ég hef verið hjá síðan 2005. Ég hélt ég þyrfti bara að henda inn umsóknarforminu útfylltu og þar með væri það afgreitt. NHS hafði aðrar hugmyndir. Það er eitthvað sérstaklega erfitt við að starfa í móttökunni á breskum heilsugæslum því ef maður skoðar umsagnir um heilsugæslurnar þá virðist fólk HATA fólkið í afgreiðslunum og starfsmenn virðast HATA sjúklingana á móti. Þessi heilsugæsla er lúin, á 4 hæðum með slitið teppi og það brakar í gólfunum. Sjónvarpið í móttökunni er alltaf bilað, stólarnir götóttir og afgreiðslukonurnar með of mikinn augnblýant, með of stóra eyrnarlokka og í joggingfötum. Svona var samtal mitt við afgreiðslukonurnar.

Sigrún: Já ég er að skila inn umsókn um skráningu.
Heilsugæslan: Já þú þarft að skrá þig til þess.
S:
Ég er að skila inn skráningarforminu, á því er NHS númerið og upplýsingar um hvar ég var síðast skráð.
H:
Þú þarft að panta tíma til að skrá þig í health check (10 mínútna skoðun, blóðþrýstingur mældur o.fl.).
S: En ég hef verið skráð hér síðan 2005?
H: Ekki síðan janúar 2011.
S: Ég flutti frá svæðinu í nokkra mánuði en var á annarri heilsugæslu, er ekki nóg að fá gögnin þaðan?
H: Nei þú þarft að skrá þig hér.
S: Þó að læknir þar hafi gert health check? Og ég hafi verið við fullkomna heilsu (og við bæði)?
H: Skiptir engu máli.
S: Það er mjög erfitt fyrir okkur hjónin að komast til að skrá okkur, við erum með nýfætt barn og í vinnu o.fl.
H: Það er mikilvægt að læknirinn viti að þið séuð hraust.
S: Læknirinn þar sem við bjuggum síðan í síðasta mánuði getur staðfest það með nýlegum athugunum.
H: Skiptir engu máli.
S: Ég get komið með pappíra upp á að ég hafi fætt barn heima og að blóðþrýstingur hafi verið kominn í eðlilegt horf innan 10 mínútna frá fæðingu. Segir það ekki eitthvað um heilsufar?
H: Þið verðið að skrá ykkur.
S: Svo, ef ég þarf að fara til læknis, þarf ég þá að panta tíma til að skrá mig, áður en ég panta tíma hjá lækni?
H: Errrrrm, já.
S: En ef læknum er svona umhugað um heilsu okkar, þá ættu þeir að hafa í huga að ef við komumst ekki til að skrá okkur (til að geta pantað tíma seinna), gætum við orðið veik og ekki komist til læknis því við verðum jú ekki skráð?
[Konurnar ræða sín á milli (þær sitja hlið við hlið, 10 sm á milli þeirra), eldri konan [sem leiðir greinilega hópinn í þykkt augnblýants-strikanna] horfir á þá yngri og segir „Þau verða að panta tíma til að skrá sig“].
[Sú yngri horfir á mig]. Þið verðið að skrá ykkur. [Svo dæsir hún við þá eldri og segir pirruð: „Þetta er örugglega erfiðasta keisið sem ég hef fengið hingað inn, jeeeez“].

Ég ÞOLI ekki breskar heilsugæslur né breska banka (sem taka enn 3 daga í að millifæra á milli reikninga fólks, í netbanka....það eru allir möguleikar fyrir hendi til að millifæra hraðar en þeir halda eftir gróðanum af vöxtunum sem upp safnast). Ef ég yrði mikið veik, myndi ég sennilega flytja með hraði til Íslands því ég myndi drepast hér á innan við viku. Ok það er margt sem vel er gert en það er yfirleitt svo í einkageiranum. Það er ekkert mál að fara í aðgerðir í einkageiranum en ég beið eitt sinn í 9 mánuði eftir MRI skanni (sem tók 2 daga á Íslandi). Það hefði tekið viku í einkageiranum. Samkvæmt ráðleggingum ljósmóður minnar fæddi ég Nr. 2 heima í stofu frekar en á spítala...svo mikla trú hafði hún á spítalanum.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

barbietec
12. júl. 2011

ég er alltaf að segja þetta! þ.e.a.s. að íslenska heilbrigðiskerfið er bara ÆÐI! miðað við það sem gengur og gerist í öðrum löndum.

t.d. í Danmörku ef þú færð brjóstakrabbamein, þá greinistu og svo bara bíða í 2 mánuði eða meira eftir aðgerð! Hér ertu komin undir hnífinn innan tveggja vikna!

Þú hringir upp á spítala og segir "ég þarf að fá að tala við skurðlækninn minn, krabbameinslækninn minn, heimilislækninn minn, whatever lækninn minn" og hann bara hringir í þig meira segja AÐ KVÖLDI TIL! bara til að svara spurningum, róa þig niður eða hvað sem er.

ég tala nú ekki um að við getum hringt í lækna og fengið þá heim til okkar.

Ásdís Jóh
13. júl. 2011

Franska heilbrigðiskerfið er MJÖG gott :) Ég elska það!

Svo auðvelt að fá tíma, læknarnir mjög færir og gefa sér góðan tíma í að hlusta. Allt nánast ókeypis, meira að segja þarf ég ekki að borga krónu fyrir tannlækni eða fyrir ný gleraugu.

Ég fann mjög fyrir því á meðgöngunni. Sónar ókeypis, ljósmóðir heim ókeypis, fæðingin ókeypis, 10 tímar í grindarbotnsendurhæfingu ókeypis fyrir allar konur, 10 tímar í kviðvöðvaþjálfun hjá sjúkraþjálfara ókeypis.

sigrun
14. júl. 2011

Held ég ætti að flytja til Frakklands :)

Kolbrún Gunnarsdóttir
13. júl. 2011

Sæl Sigrún- þú ert sú einna sanna sem hefur gert hruninu og "krísunni" svo góð skil í Speglinum, það´kki?
Fyrir mörgum áratugum bjó ég í Skotlandi í borg Taggarts.
Við dvöldum þar í tæpan áratug. Ég minnist bara góðrar þjónustu. Það var fyrir "tíu mínúturnar. Ég kannast við heimiislækni í Manchester sem sagði mér að læknarnir hefðu bara tíu mínútur og botnaði ekkert í þessari ráðstöfun og sagði að fyrir gamalt fólk og börn og aðra sem fara ekki beint í kjarna máslins væri þetta vonlaus ráðstöfun.

Ég held því fram kinroðalaust að þjónusta við fatlaða og ófatlaða sem þurfa að sækja til félagsþjónustunnar og heilbrigðisþjónustunnar hér á 'Islandi sé með besta móti sem gerist á kringlunni.
Ég er með fjórar læknisfræðilegar greiningar sem hafa leitt til skertrar getu á ýmsum sviðum. Mér finnst ég ævinlega fá góða þjónustu.

ps þú ert sú fyrsta sem ég veit um að tekur brauðin úr formunum og leyfir þeim að hvíla sig á grúfuinni í ofninum um stund.
kærar þakkir
kolbrún

sigrun
14. júl. 2011

Nei reyndar ekki sama Sigrúnin :)

Ida M Josepsdottir
16. júl. 2011

Ég verð aðeins að taka upp hanskann fyrir NHS. Ég hef reyndar ekki reynslu af að fæða eða vera með börn sem þurfa á læknisaðstoð að halda en þessi 7 ár sem ég hef verið búsett í London hefur aldrei verið neitt vandamál fyrir mig að skrá mig hjá heilsugæslu/læknastofu og það þó ég hefði ekki NI númer þegar ég skráði mig fyrst.
Og þegar ég hafði áhyggjur af þykkildi undir öðru brjóstinu fór ég til míns heimilislæknis sem fann ekki þetta þykkildi sem ég fann. En hún sendi mig í brjóstaskoðun, myndatöku og sónar, bara til að vera viss. Og ekkert af þessu kostaði svo mikið sem krónu/pund.
Hef líka heyrt reynslu ættingja sem hafa eignast barn á Íslandi, í Þýskalandi og í Lúxemborg og þar kom Ísland klárlega verst út í þjónustu við barnshafandi konur og fjölskyldur með nýfætt barn. Þannig að heilbrigðisþjónustan á Íslandi er ekki alveg jafn ofarlega í gæðum og allir á Íslandi vilja vera láta!

sigrun
17. júl. 2011

Ég held að þjónustustigið fari mjög mikið eftir því hvar maður er búsettur (postcode lottery). Mér finnst t.d. ekki góð þjónusta að bíða í 9 mánuði eftir MRI skanni en af því við búum í Westminster, alveg í miðju London þá er þjónustan ekki frábær. Ég hef farið í hnéaðgerð á Íslandi og í UK (sams konar aðgerðir) og ég myndi kjósa Ísland og þjónustuna þar hiklaust. Ég hef líka átt barn á Íslandi og í UK og persónulega myndi ég nú kjósa Ísland þó ég hafi verið með frábæra ljósmóður hér í UK.

Hrundski
19. júl. 2011

vá 10 mín !!! þegar ég bjó í slumminu í austur London var mér tilkynnt að læknirinn (sem talaði ekki orð í ensku)hefði bara 6 mín á sjúkling...... kannski er búið að henda auka 4 mín í sjúklingana hehe.

sigrun
19. júl. 2011

He he ég fékk lúxusþjónustuna :)