Hvernig bananamuffins getur bjargað lífi manns þegar síst skyldi ætla
Í gær munaði 10 metrum að ég yrði fyrir eldingu og þar með líklega hefði saga mín verið öll eða að minnsta kosti hefði ég verið mjög „well done”.
Ég var á ferð með Afkvæminu í næsta bæjarfélagi, Merton. Ég þurfti að ná í fæðingarvottorð fyrir Nr.2. Himininn var svartur því rigningin hékk yfir. Alls staðar í kring heyrði ég þrumur og öðru hverju sá ég glitta í eldingu. Ef ég lokaði augunum leið mér eins og mér leið í Rwanda á sínum tíma þar sem stanslausar þrumur og eldingar gera andrúmsloftið áþreifanlegt. Loftið var svo þykkt að maður gat tuggið það, golan var svöl en samt ekki nóg til að fötin hættu að klístrast við mann í rakanum. Loftið var rafmagnað, þannig að maður fann fyrir því, svona óþægilega rafmagnað. Fólk er eins og á nálum (kannski meira í Rwanda heldur en í Merton), horfir áhyggjufullt upp í himininn og flýtir för sinni. Ég villtist auðvitað aðeins og þurfti að spyrja til vegar. Maðurinn sem ég gekk upp að horfði tómlega á mig og yppti öxlum. Það vantaði held ég nokkra kafla upp á heila bók hjá honum. Ég var engu nær en hélt áfram og rambaði loks á afskaplega fallegt, friðað hús (sem notað er í hjúskaparvígslur o.fl., svokallað Register Office. Þar skráir maður dauðsföll og fæðingar líka). Húsið var umlukið trjám og fallegum gróðri. Alls staðar mátti sjá glitrandi confetti, leifar af fyrri hjónavígslum. Á leikvellinum fyrir framan bygginguna voru ryðgaðar rólur sem sveifluðust fram og til baka, tóm buslilaug (nema full af laufblöðum) og vegasalt sem á vantaði sæti.Ég hef sjaldan séð jafn dimman himinn eins og hékk yfir okkur....það voru nokkrar sekúndur í að hann myndi springa og flæða yfir okkur með rigningu. Það fór hrollur niður eftir bakinu þegar ég fann fyrsta dropann.
Við vorum alveg að vera komin að byggingunni þegar ég mundi eftir að hafa lofað að gefa Afkvæminu bananamuffins og hún var byrjuð að minna mig á (hún gleymir því ekki svo glatt eins og þeir sem hafa verið í kringum hana hafa upplifað). Ég hafði útbúið heilan helling af banamuffinsunum hennar (einungis með bönunum, spelti, eggjum og kanil) til að frysta og eiga (þeir eru fullkomið nesti í kerruna). Hún elskar þá og það er algjört trít að fá einn til að maula á. Ég beygði mig niður og var í góðar 10 sekúndur að veiða muffinsinn upp úr boxinu sem var ofan í pokanum. Ég hélt svo af stað aftur og á sama augnabliki og ég var að fara að stíga inn í bygginguna bókstaflega sprakk himininn og ljósið varð svo skært að ég sá ekki handa minna skil. Í sama vetfangi heyrði ég hvell sem var svo hár að mér datt fyrst í hug sprengja. Það sem gerðist var að eldingu laust niður í 100 ára gamalt tré sem stóð fyrir utan húsið. Ég var 10 metrum frá trénu og þegar eldingin sprengdi tréð í svarta, rjúkandi tannstöngla fann ég og sá hvernig hárin risu á höfðum okkar beggja. Ég var algjörlega orðlaus úr sjokki. Tréð sem var tugi metra að hæð var nú svartur stubbur og allt í kring voru leifar af þessu fallega tré. Ég þusti inn þar sem starfsfólkið var í enn meira sjokki en ég. Ég hafði ekki einu sinni rænu á að taka mynd af trénu með símanum og var svo bannað að fara út aftur fyrr en þrumuveðrið væri gengið yfir.
Ef ég hefði ekki stoppað til að ná í bananamuffinsinn, hefði Jóhannes þurft að ná í fæðingarvottorð Nr. 2 og skrá dánarvottorð okkar mæðgna.... (praktískt að gera þetta allt í leiðinni) en ekki skemmtileg tilhugsun. Kannski var það frekar maðurinn sem ég spurði til vegar sem bjargaði lífi mínu (með því að hafa ekki hugmynd um hvað ég var að spyrja hann um) en ég vil frekar hugsa um að hollir muffinsar hafi bjargað okkur. Trefjarnar vernda mann ekki einungis gegn sumum tegundum krabbameins og bananarnir passa ekki bara upp á að blóðþrýstingur og hjarta sé í lagi...heldur geta hollir muffinsar bjargað manni frá bráðri eldingarhættu. Eða þið vitið hvað ég meina....
Myndina hér að ofan tók ég í Rwanda 2008.
Ummæli
29. jún. 2011
jiddúda mía!!!!! Ég fékk alveg gæsahúð að lesa þetta...!!!!
vá hvað maður getur ímyndað sér allskonar tilvik og að þið hafið verið undir trénu! Þér var klárlega stýrt þarna, þ.e.a.s. að maðurinn að tefja þig og svo elsku bestu bjargvættar muffinsins..
Held þú eigir að setja muffins-sins á einhvern stall á síðunni.. úff úff eða jafnvel setja krem ofan á þær og hafa þær í fínu fötunum :)
29. jún. 2011
Við vorum  mjög heppnar :)
Muffinsarnir verða í heiðurssæti :) Á eftir að setja þessa útgáfu á vefinn...með útskýringum :)
29. jún. 2011
ég mun baka þessa muffinsa með lotningu næst ... vitandi það að ég er að bjarga mannslífum!
Óhugnanlegur lestur. Úff, ég bara get ekki ímyndað mér þetta.
29. jún. 2011
Glöð að þú ert heil á húfi :)
29. jún. 2011
Shit!!
Nú langar mig í bananamuffins!
:-)