Tuttugu flutningsráð

Við erum búin að flytja óheyrilega oft á síðustu árum. Bara síðan 2001 erum við búin að flytja til London, frá London, til London, frá London og til London aftur. Við höfum bæði flutt með búslóð og án (mæli með að flytja án hennar ef maður kemst upp með það). Við höfum líka flutt innan London ótal sinnum. Þrisvar á einu ári er held ég met. Ef ég sé brúnan pappa nálægt mér næstu 12 mánuði, gubba ég.

Ég er enginn heimsmeistari í að pakka búslóð og ég t.d. hef ég eftir flutning á milli landa opnað kassa með vöfflujárni og fundið gamla vöfflu fasta í vöfflujárninu. Ég hef líka pakkað mikilvægum hlutum eins og auðkennislyklineðst í pappakassa (einhverjum kassa) og þurft að opna 100 kassa rétt fyrir mánaðarmót til að geta greitt reikninga. Ég hef líka flutt á milli landa, gert ítarlegan lista yfir innihalda kassanna (brilliant hugmynd) en týnt listanum í miðjum flutningum svo ég var engu nær hvað var í kassa nr. 1 frekar en kassa nr. 73. Það hefur þó margt síast inn á þessum flutningum öllum og að beiðni Melkorku, notanda vefjarins ætla ég að „deila viskunni”. Vonandi hafið þið gagn af:

 1. Byrjið snemma. Pakkið ofan í einn og einn kassa hlutum sem maður þarf ekki að nota í langan tíma eins og t.d. vetrar/sumarfötunum, 4ða aukasettinu af rúmfötunum og auka handklæðum.
 2. Verið búin að gera ráð fyrir mat þessa daga sem þið eruð á fullu að pakka. Það er gott að geta hitað upp t.d. pítu-pizzur í ofninum þegar allir eru á fullu. Gott, heimatilbúið konfekt kemur manni líka vel áleiðis. Flutningar eru engin afsökun fyrir því að borða óhollt!
 3. Verið búin að útbúa lista yfir alla þjónustu sem þarf að flytja yfir á nýtt heimilisfang (internet, sími, áskriftir, tryggingar o.fl.).
 4. Geymið helling af fötum og handklæðum fyrir kassana með leirtauinu/brothætta dótinu. Það er asnalegt að pakka hlutum inn í dagblöð þegar maður á föt til að pakka þeim inn í. Ég neita að flytja dagblöð svo mikið sem sentimetra á milli staða.
 5. Pakkið EKKI snyrtivörum ofan í kassa sem ekki má ilma rækilega (sérstaklega ef kassinn á að geymast lengi óopnaður).....Ég á um 50 bækur sem ilma eins og Jean Paul Gultier ilmvatnið.
 6. Notið tækifærið og gerið tiltekt í skápunum. Farið með gömul föt, leikföng , bækur o.fl. í söfnun fyrir góðgerðarmál, það er óþarfi að flytja dót sem þið ætlið ekki að nota á milli staða. Notið gagnrýnið auga...þurfið þið virkilega tvo þvottabala? Og já axlapúðar ERU dottnir úr tísku og koma ekki aftur.
 7. Fáið pössun fyrir börnin ef hægt er til að geta tekið góðan skurk í pökkun (og á flutningsdeginum)...litlar hendur hafa einstaklega gaman af því að taka UPP ÚR kössunum því sem maður pakkar og litlir fætur flækjast fyrir stórum fótum. Það er lífsins lögmál.
 8. Merkið kassana með innihaldi t.d. „eldhús 1” og skrifið niður á blað hvað „eldhús 1” inniheldur. Þetta er sérstaklega mikilvægt í flutningum á milli landa. Geymið listann á góðum stað (og afrit í tölvunni).
 9. Pakkið ekki bókum í stóra kassa, þeir verða mjög líklega of þungir. Sama gildir um leirtauið.
 10. Kaupið hreingerningaþjónustu ef þið hafið ráð á því til að láta þrífa húsnæðið þegar þið skilið því. Tveir dagar í þrif eru tveir dagar sem þið fáið aldrei aftur!
 11. Fáið aðstoð við flutning ef þið getið...vinir og vandamenn eru oft boðnir og búnir (sérstaklega ef boðið er upp á öl/kalda drykki og eitthvað gott í matinn).
 12. Kaupið nokkra góða plastkassa sem þið getið svo notað áfram eftir flutningana. Þeir eru góðir til að hafa í geymslunni eða fyrir vetrar/sumarskóna inni í fataskáp.
 13. Á sjálfum flutningsdeginum skuluð þið vera búin að raða kössunum (og því sem þarf að flytja) þannig upp að fljótlegt sé að henda þeim í bíl. Ekki geyma 10 kassa í einu herbergi og 3 kassa í öðru. Setjið alla kassana/allt dótið á einn stað. Þetta fer auðvitað eftir plássinu sem er til staðar.
 14. Leggið stífan pappa eða plastdúk á gólfin þar sem þið gangið um...gólf geta orðið ónýt mjög hratt ef farið er inn á skítugum skónum, aftur og aftur.
 15. Það sem nota á sama dag og flutt er (ef ekki er flutt á milli landa) er gott að hafa vel merkt og á handhægum stað. Þetta á við um t.d. rúmföt, sængur, hraðsuðuketil, glös, uppáhalds leikföng og bækur fyrir börnin, bleiur o.fl.
 16. Fyrir börnin skal passa að allur matur fyrir daginn sem þið flytjið sé tilbúinn (og nógu mikið af hollu snarli), það er fátt erfiðara heldur en að bíða eftir fullorðna fólkinu þegar maður er svangt og þreytt barn.
 17. Verið búin að losa úr frystinum með góðum fyrirvara...það er ótrúlega oft sem hann gleymist þangað til á síðustu stundu og ef þið eruð eins og ég, hendið aldrei mat, getið þið lent í að vera með blauta poka í flutningum innan bæjar...af mat sem er að þiðna.
 18. Ef þið eruð upptekin með t.d. barnaskara, gerið þá ráð fyrir að opna aðeins nokkra kassa fyrstu dagana á nýja staðnum....þessir kassar ættu að innihalda allt það mikilvægasta svo merkið þá vel. Hina kassana má opna síðar.
 19. Pakkið uppáhalds bókum, leikföngum, teppi, náttfötum o.fl., fyrir börnin og hafið með ykkur á nýja staðinn. Börnin þurfa eitthvað kunnuglegt í öllu stressinu.
 20. Það er tvennt sem ég pakka alltaf síðast í kassa en það eru brauðristin og blandarinn. Brauðristin því ristað brauð með osti er alltaf góður matur og í blandarann getur maður sett allan fjandann þegar maður er að hreinsa úr ísskápnum, frystinum og skápunum. Hnetumauk, bananar, mjólk og frosnir ávextir (eða bláberin úr berjamó) og spínat er t.d. eðalgóður smoothie.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Melkorka
24. jún. 2011

Vá, takk kærlega fyrir þetta Sigrún! ég var á fullu að skrifa ráðin á miða þegar maðurinn minn benti mér á prentarann við hliðina á mér :) hahaha Búin að lesa og nú ætla ég að prenta. Einfalda lífið! Og svo mun ég einfalda flutningana framundan með þessi ráð að vopni. Þú ert mjög góður alhliða ráðgjafi og kemur ráðunum skipulega, skemmtilega og skýrt til skila. Til hamingju með nýja heimilið og gangi ykkur sem allra best. Kveðja Melkorka

sigrun
25. jún. 2011

Takk Melkorka :)

Ertu annars að flytja????

Melkorka
25. jún. 2011

Já til Akureyrar í nám (lögfræði) :) Jibbí JEI!

sigrun
25. jún. 2011

Brilliant Melkorka, gangi þér vel með allt!

Melkorka
25. jún. 2011

Takk SIgrún :)

Lilja B
27. jún. 2011

Ég vil taka það fram að axlapúðar eru í tísku núna.

sigrun
27. jún. 2011

Jeminn...ég er alveg ekki með á nótunum hahahahaha

Svana
29. jún. 2011

Takk fyrir þetta Sigrún, gaman hve fjölbreytileg ráð þín eru, þau einskorðast ekki bara við matseld :)
Þetta kemur sér aldeilis vel núna þar sem við familian ákváðum mjög snöggt að flytja til Noregs og því lítill tími til stefnu, úpps, því miður get ég ekki farið eftir fyrsta atriðinu í fyrsta ráðinu varðandi að byrja tímalega hehehe :)
Ég man að einhvern tímann þá las á blogginu þínu að þú skildir matreiðslubækurnar þínar eftir á Íslandi þegar þú fluttir út (alla vega einhverjar) ómg, ég veit ekki hvernig þú fórst að því, það eru einhverjar sem ég er búin að ákveða að taka ekki með en nóg er eftir. Svo nú er höfuðverkurinn hvað á að taka með og hvað ekki (varðandi allt reyndar úpps) (ein með valkvíða tíhí).

Enn og aftur Sigrún, kærar þakkir fyrir dásamlega síðu, ég er búin að fylgjast með þér í mörg ár og notað mikið af þínum uppskriftum bæði persónulega og í vinnunni (í þjálfun) og nýja lúkið á síðunni ómg, þú (og Jóhannes ;) hehe) áttuð sko skilið þessi verðlaun!

Og til lukku með krílin :) og nýja heimilið sem vonandi verður það sama í dáldin tíma núna :D

Go girl og gangi þér vel með allt sem þú tekur þér fyrir hendur.

B.kv. Svana

sigrun
29. jún. 2011

Takk fyrir hrósið Svana :)

Úff matreiðslubækur segirðu....ég var með tárin í augunum þegar ég skildi góðan hluta eftir heima en ég tók uppáhalds, uppáhalds bækurnar með mér út (skildi eftir hjá ættingjum líka nokkrar bækur svona ef ske kynni að þeir væru á leiðinni hingað...sem var nú reyndin). 'Kosturinn' við að taka ekki mjög margar bækur með er að maður 'verður' þá að kaupa fleiri he he.....

Gangi ykkur vel í flutningunum!