Bögg um töpuð kíló

Ég get eiginlega ekki orða bundist. Nú er ég búin að halda úti vef með heilsuuppskriftum síðan árið 2003. Vefurinn gengur út á hollari mat en fólk er að borða svona almennt og hentar þeim sem vilja léttari lífsstíl eða eru að huga að heilsunni á einhvern hátt. Þetta er ekkert flókið. Ég nota magrari mjólkurmat þegar ég get, mikið grænmeti og nota ekkert sem flokkast sem unnið eins og sósur, kex o.þ.h. Ég geri sem mest frá grunni og kaupi aldrei skyndibita. Ég nota helling af fitu (hollri) og svo nota ég sætu eins og agavesíróp, hlynsíróp, rapadura hrásykur o.fl. Sem sagt uppskriftirnar eru ekki endilega hitaeiningasnauðar en líkaminn vinnur öðruvísi og betur úr þessum mat heldur en hann gerir við það sem inniheldur tómar hitaeiningar (hvítan sykur, hvítt hveiti o.fl.). Ég hef aldrei, utan eitt skipti þegar ég talaði um kílóafjölda eftir meðgöngu (þegar ég bætti á mig 5 eða 7 kg) minnst á það á vefnum mínum að fólk geti létt sig, tapað x mörgum kílóum með því að borða matinn minn eða eitthvað í þeim dúr. Ég gæti sagt margar reynslusögur fólks sem hefur borðað matinn minn yfir langan tíma og orðið töluvert léttara (í tveggja stafa tölum) og ég hef lúmskt gaman af. Mér finnst það bara einfaldlega ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er hvort að fólki líði vel eftir að borða matinn, að minna sé notað af drasli og unnum vörum, að öll fjölskyldan geti borðað hollari mat o.fl. og að þessi lífsstíll sé vonandi til frambúðar. Hvort að viðkomandi missi 5 eða 50 kg er mér eiginlega alveg sama um. Ég hef verið beðin um að birta hitaeiningafjölda uppskriftanna á vefnum mínum. Ég tel aldrei hitaeiningar og ég á ekki baðvog. Orðið „megrun” er ekki til í mínum orðaforða nema sem bannyrði. Ég veit aldrei hvað ég er þung nema þegar ég er ólétt því þá er einhver sem segir manni að stíga á vigt. Ég veit að sömu föt passa mér í dag og þau gerðu fyrir viku og 10 árum og að mér líður vel og samkvæmt læknisskoðunum er ég mjög hraust.

Þetta er ekki flókið, ef maður borðar fleiri hitaeiningar en maður brennir, bætir maður á sig þyngd. Ok aðeins flóknara kannski því sumir hreyfa sig, aðrir ekki, enn aðrir hafa hraða brennslu en hinir hægari en þetta er svona yfir höfuð, þegar til lengri tíma er litið, ekki flóknara en svo. Majonessósur og skyndibitamatur + sófinn eða léttar sósur og hollur heimatilbúinn matur + hreyfing = Það geta allir reiknað þetta dæmi.

Það sem er að pirra mig í dag (kannski af því ég er pirruð svona yfir höfuð að bíða eftir Nr. 2 og skárra að rífast hér en í Jóhannesi greyinu) er að í hvert skipti sem ég opna stærsta fjölmiðlavef landsins blasir við mér að einhver hafi tapað x mörgum kílóum, að þessi og hinn hafi grennst svo um muni, að þessi kona sé glæsileg í kjól eftir að hafa farið í megrun, að þessi sé í detoxi, að þessi sé að tálga sig og fleira í þeim dúr. Það er einhver scary útlitsdýrkun í gangi núna sem ég hef ekki orðið vör við í langan tíma. Það eru ekki bara töpuð kíló heldur fylltar varir, sléttari húð, brúnkukrem, botox, stinnari rass, grenningarlyf o.fl. sem að tröllríður öllu. Þetta blasir allt við manni ef maður opnar vefinn. Ég veit vel að það má sleppa því að opna vefinn (og málið leyst og ég get hætt að röfla) en punkturinn hjá mér er sá að það hefur eitthvað breyst bara á undanförnum vikum/mánuðum? Í staðinn fyrir að „Jóa Jóns sé búin að tapa 10 kg og kemst í kjólinn” myndi ég vilja sjá fyrirsagnir eins og „Jóa Jóns er með betra úthald og getur nú labbað upp stiga”. Ég þoli ekki opinbera umræðu í fjölmiðlum um töpuð kíló því hún einblínir á eitthvað magnbundið, einhverja tölu sem segir svo lítið en ekki gæði vellíðunar.

Ég veit að það eru margir sem berjast við alls kyns púka og þ.m.t. fitupúka og ég er hreint ekki að gera lítið úr þeirri baráttu. Hún er fyrir mörgum AFAR erfið. Að létta sig vegna þess að heilsan er að bila er mikilvægt og það eru ótal leiðir til þess. Það hentar ekki öllum að vera sveigjanlegur í mataræði og það hentar ekki öllum að eiga ekki baðvog. Sumir þurfa að reikna upp á gramm hvað þeir borða og sumir telja hverja einustu hitaeiningu. Fyrir sumum er það það sem þarf til að bjarga lífinu og öðlast betri heilsu. Við erum öll ólík og höfum ólíkar þarfir. Ég skil það fullkomlega og það eru margir sem heyja sína baráttu með sjálfum sér. Sumir vinna, aðrir tapa. Það sem skiptir samt fyrst og fremst máli er að fólki líði vel innan í sér, að fötin passi vel, að öndunin sé góð, að líkaminn sé styrkur, að úthaldið sé gott, að göngutúrinn með fjölskyldunni orsaki ekki andnauð, að hjólatúrinn í vinnuna sé léttur, að amman eða afinn geti sinnt barnabarninu sínu án þess að fá hjartverk og að hnén bili ekki undan manni eftir útiveru með hundinn. ÞAÐ er merki um hreysti og vellíðan og þó allt þetta tengist kílóum (ef þau eru allt of mörg eru ofangreind dæmi orðin að vandamáli) þá er það ekki útlitið sem hér um ræðir heldur heilsan, hjartað, pípulögnin okkar, vöðvarnir, líkaminn okkar sem er í aðalhlutverki .

Mér finnst hreinlega ekki rétt að básúna þá staðreynd í fjölmiðlum að manneskja sem hefur einhver fáein aukakíló utan á sér, hafi tapað þeim og líti betur út. Það er ekkert að því að tapa þessum kílóum en heldur ekkert að því að hafa þau utan á sér líka (ef manni líður vel á annað borð og er hraustur). Það er þessi „Hún lítur mun betur út eftir að hafa tapað þeim og kemst nú í fína kjólinn” hugsunargangur sem fer í mig. Það er ekki tvennu að líkja saman að tapa x mörgum kílóum vegna þess að heilsan er að bila eða að tapa þeim til þess að komast í fínni kjól. Mér finnst líka alvarlegt mál að básúna það þegar fræga fólkið fer í eitthvað alls herjar átak og að birta fyrirsagnir þess efnis eins og það sé eina mikilvæga ástæðan fyrir því að þetta fræga fólk sé í fréttum. Það er svo mikið af ungu fólki að meta heiminn út frá okkur „þeim vitrari” og þetta eru ekki skilaboðin sem mér finnst rétt að varpa út. Mér finnst að það ætti að vera svona „útlitsvörn“ í boði á vefsíðum eins og það er „klámvörn“, svona sía...þannig að foreldrar geti verið vissir um að börn þeirra lesi ekki svona arfa.

Svo fyrir utan þetta þoli ég ekki þegar uppskriftir eru birtar eins og t.d. á fyrrnefndum vef og sagðar sykurlausar en innihalda samt hunang. Hunang er eitt form af sykri (bara eins og hrásykur eða agavesíróp en allt með mismunandi frúktósa/glúkósa samsetningu). Grrrrrrrrr.

Ok röfli dagsins lokið...þetta hlýtur að koma Nr. 2 af stað he he.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

gestur
05. jún. 2011

Frábær pistill og tek undir hvert einasta orð með þér. Bý erlendis og ekki er umfjöllunin betri hér :-o Þetta er svo sannarlega ekki röfl, heldur eitthvað sem verður að fara að taka á. Svona umfjöllun veldur kolbrengluðu gildismati hjá fólki. Almenningur verður að standa upp og neita að láta bjóða sér svona... en sennilega borin von í samfélagi nútímans þar sem allt snýst um umbúðir en ekki innihald :-o

Takk aftur fyrir frábæran pistil og flotta vefsíðu :-)

Gunnhildur
05. jún. 2011

Vá hvað ég er sammála!!! Finnst ömurlegt þegar er verið að t.d. auglýsa betri heilsu og betri líðan námskeið og svo eru fyrirsagnirnar "missti 4 kg á 3 dögum" !!!!! Er þetta betri heilsa? öhh NEI!! það er ekki heilbrigt að missa mörg kg á stuttum tíma enda er það ekki fitutap heldur vökvatap.. ótrúlegt alveg (það geta fleiri en þú pirrast yfir þessu skal ég þér segja !!!)
Hins vegar hentar ekki öllum það sama - ég var í mikilli ofþyngd og það sem hentaði mér best og ég geri enn var að telja hitaeiningar. Það kenndi mér líka svo margt um mat... ég tók til í mataræðinu og borðaði hollari mat.. þetta virkar fyrir mig en það þarf ekki endilega að virka fyrir annað fólk, sumir fara á taugum yfir hitaeiningatalningu...
En þessi síða hefur hjálpað mér óendanlega mikið, bæði þegar ég er hugmyndalaus um hollan og góðan mat og líka þegar mig langar í eitthvað gott þá get ég skoðað hér og fengið mér eitthvað gott til að slá á sætulöngunina og líka eitthvað hollt - það finnst mér ómetanlegt !!
Takk fyrir frábæran vef og dásamlegar uppskriftir!!
P.s vonandi fer nr. 2 að koma ;)

hugrunos
05. jún. 2011

Ég er svo innilega sammála. Eftir að ákveðin kona byrjaði á þessum stærsta fjölmiðlavef landsins þá hafa þessar "fréttir" aukist gífurlega. Þessar "fréttir" eru teknar beint og oft orðrétt af dailymail. Stundum finnst mér ég ekki vera að lesa mbl heldur dailymail.com. Og ég myndi ekki segja að sá vefur væri til eftirbreytni.
Mjög slæm þróun og ég vona innilega að tekið verði á þessu.
Annars bara takk fyrir frábæran vef og ég vona að nýjasti meðlimurinn fari að láta sjá sig :)

sigrun
05. jún. 2011

Daily Mail „fréttirnar” eru beinlínis pínlegar hehe....

Lísa Hjalt
05. jún. 2011

mér finnst að þú eigir að röfla á hverjum degi, mér líkar þetta röfl ;-)

Stærsti fjölmiðlavefur landsins er hreinlega ekki í bookmarks hjá mér og því aldrei opnaður. Mér finnst það ljúft.

Siggi Valur
05. jún. 2011

Sæl Sigrún...

Ég var að lesa pistilinn þinn og fannst áhugavert að sjá svona marga sammála þér, og að flestir taka undir „hvert einasta orð“. Ég tók nefnilega eftir algengri rangfærslu, hörmungar alhæfingu sem lengi hefur verið þröngvað upp á almenning. Það að hún er oft sönn gerir áróðurinn enn verri, því þegar alhæfingin á ekki við veldur hún martröð. Ég á við þessar setningar hér:

„Þetta er ekki flókið, ef maður borðar fleiri hitaeiningar en maður brennir, bætir maður á sig þyngd. Ok aðeins flóknara kannski því sumir hreyfa sig, aðrir ekki, enn aðrir hafa hraða brennslu en hinir hægari en þetta er svona yfir höfuð, þegar til lengri tíma er litið, ekki flóknara en svo. Majonessósur og skyndibitamatur + sófinn eða léttar sósur og hollur heimatilbúinn matur + hreyfing = Það geta allir reiknað þetta dæmi.“

Ég þekki dæmi um konu sem hefur í áratugi borðað líkt og þú lýsir að hafi reynst þér vel. Hún elskar grænmeti, ávexti og allt sem almennt er ráðlagt af þeim sem best vita. Hún forðast og snertir vart bannvörur eins og þær sem þú minnist á. Hún hefur lagt hart að sér við líkamlega hreyfingu og leikfimi gegn um árin. Hún er frábær kokkur og sér um mötuneyti á fjórða tug manna sem elska hana. Hún fimmfaldaði grænmetisneyslu starfsmanna og veikindadögum í fyrirtækinu fækkar. Þrátt fyrir betri neysluvenjur en nokkur annar sem ég þekki þyngdist hún hægt og örugglega gegn um árin. Hún var fórnarlamb alhæfingarinnar sem þú aðhyllist.

Að lokum tilvísaði læknir henni til sérfræðings sem lét hana skrá af nákvæmni allt sem hún borðaði án þess að breyta venjum sínum. Niðurstaðan var að hitaeiningar voru of fáar, og hafði verið í ÁRATUGI! Henni var sagt að hún borðaði allt rétt, en þyrfti að bæta við, borða meira og oftar. Hún er búin að léttast um meira en kíló á mánuði síðan með því að borða MEIRA.

Alhæfingin er því ekki aðeins röng, heldur hættulegur áróður sem getur eyðilagt líf fólks sem trúir henni.

Fyrirgefðu hvað orð mín virðast hörð, en ég kann ekki að orða mildilegar svona alvarlega niðurstöðu. Ég veit að þessi alhæfing er bara svo útbreydd, og er á engan hátt sök þeira sem vita ekki betur.

Með kveðju og vinsemd... - Siggi Valur.

sigrun
05. jún. 2011

Áhugavert innlegg. Þessi kona er undantekning (sjaldgæf) því flestir í nútíma samfélagi neyta of margra hitaeininga miðað við hreyfingu og það er staðreynd (þess vegna erum við sem þjóð svona þung). Svo eru sumir sem bara hreinlega borða of lítið/rangt samsetta fæðu og það getur líka haft slæmar afleiðingar á heilsu og líkama yfir langan tíma. Þetta snýst allt um jafnvægi og að vita hvað henti hverjum best, þar koma t.d. næringarfræðingar inn í. Ég vil samt benda á að þessi færsla hjá mér var meira um þessa ofur áherslu á þyngdartap, þyngdartapsins vegna sem er í fjölmiðlum í dag í stað þess að fólk sé að hugsa um heilsuna. Það á svo sannarlega við um þessa konu sem þú nefnir, að hún þurfti að skoða sinn gang heilsunnar vegna. Ég tel mig því ekki vera með rangar alhæfingar né hættulegan áróður þar sem ég tala um að það&;skipti öllu máli að fólk átti sig á því sem það er að borða, bæði hvað varðar fæðuuppbyggingu og líka hvort það sé í samræmi við brennslu líkamans, þ.e. hvorki of mikið né of lítið (við þurfum t.d. öll góða fitu til að brenna fitu). Staðreynd málsins er sú að almennt hreyfir fólk sig of lítið í dag, borðar of mikið og of óhollt, sbr. þyngdartengda sjúkdóma sem herja á þjóðina. Þetta myndu flestir læknar og næringarfræðingar taka undir.&;

Siggi Valur
06. jún. 2011

Takk fyrir svarið, Sigrún.

Ég hreinlega er ekki kunnugur hversu algengt vandamál umræddrar konu er. En ég hef verið vitni að þessu. Burtséð frá því má velta fyrir sér hvaða áhrif þín góðu ráð hefðu haft á hana.

Reyndar voru lífsvenjur hennar mjög í samræmi við þær ráðleggingar. Hinn fagri boðskapur hefði því lagt áherslu á að hana skorti viljastyrk og að hún þyrfti að ganga lengra. Hún þyrfti að skera enn betur niður matarskammtinn. Og svona í leiðinni fylgja þau skilaboð að það væri rétt ef hún skammaðist sín fyrir augljósa undanlátsemi við sjálfa sig. Spikið ber því vitni.

Augljóst er að þessar ráðleggingar hefðu gert henni ógagn. Við það bætist ósanngjörn niðurlæging sem ásakar hana um agalaust líferni. Hún hefði ekki grennst við að hlýða þeim. Hugsanlegt heilsutjón hefði jafnvel hlotist af. Því spyr ég þig Sigrún; Eru þessi „góðu ráð“ þá í fínu lagi því þau gagnast svo mörgu öðru fólki? Finnst þér bara fínt ef einhver eins og umrædd kona les slíka hvatningu og fer eftir þeim? Af því hún væri undantekning?

Bara smá pæling, Sigrún :-) Er ég of grimmur við þig kannski?

Bestu hveðjur... - Siggi Valur.

sigrun
06. jún. 2011

Alls ekki of grimmur, þetta eru allt þarfar pælingar. Þetta er hins vegar svo einstaklingsbundið eins og ég kem svo oft inn á hérna á vefnum og því ekki sömu ráð sem henta öllum, þó þau henti meirihluta fólks.

Kveðja

Sigrún

Barbietec
06. jún. 2011

Við verðum líka að muna að ráðleggingar eru ráðleggingar en ekki reglur. Ég held að það sé rétt að flest allir sem berjast við offitu geri það vegna þess að það borðar fæðu sem inniheildur meiri orku en það brennir (það getur verið hollum og/eða óhollum mat að kenna), en að sjálfsögðu eru til undantekningar á því eins og svo mörgu öðru...

Til dæmis er til fullt af fólki sem fær lungnakrabbamein þrátt fyrir að hafa aldrei reykt, en það vekur t.d oft mikla furðu hjá fólki, en væntanlega viljum við vera með þær ráðleggingar að fólk reyki ekki ?

Við verðum fyrst og fremst að hlusta á okkar líkama og sál. Ef maður telur sig vera gera allt rétt t.d varðandi matarræði og árangurinn er þveröfugur á við það sem gengur og gerist þá á akkúrat að leita sér hjálpar hjá fagfólki sem hefur tilheyrandi menntun og þekkingu til að hjálpa manni.

En það er rétt hjá Sigrúnu nöfnu minni að það er alltaf verið að auglýsa nýja kúra þannig að þeir séu lífstílsbreyting og þeir snúast ekki um að létta sig heldur vera heilbrigðari, en svo þegar verið er að auglýsa kúrana í fjölmiðlum þá snýst árangurinn eingöngu um kílóamissi og maður á að glepjast í þá vegna þess.

Kílóin eru ekki allur sannleikurinn.... fyrir mér er sannleikurinn að geta tekið þátt í lífinu og látið líkamann ekki stoppa mig af...10kg til eða frá....

sigrun
06. jún. 2011

Alveg sammála nafna......og ekki síst setningin' að geta tekið þátt í lífinu'...(svona í ljósi þess sem þú ert að ganga í gegnum)......það er það mikilvægasta....

gestur
06. jún. 2011

"Þetta er ekki flókið, ef maður borðar fleiri hitaeiningar en maður brennir, bætir maður á sig þyngd."

Þetta er flóknara en ætla mætti, því að megrun getur orðið til þess að það hægi á brennslu og þegar fólk er í stöðugri megrun er það oft á endanum komið með svo litla brennslu að það fitnar á venjulegum matarskammti eða fitnar jafnvel á því sem talið er minna en eðlilegur matarskammtur.

Ég þekki konu sem fór samviskusamlega eftir öllum ráðleggingum heilsu- og megrunargúrúa, en léttist ekki. Þá greip hún til þess ráðs að vigta allt sem hún lét inn fyrir sínar varir og skrá niður hitaeiningar, vandlega reiknaðar út í excel. Hún borðaði 1200-1500 he. á dag, sem ætti skv. fræðunum að duga konu sem er á hærri kantinum til þess að léttast. Hún léttist ekki um gramm.

Ég þekki aðra konu sem á erfitt með að halda holdum, eins og það er kallað. Hún getur innbyrt rjóma, súkkulaði og hamborgara án þess að fitna. Hún hefur prófað að bæta prótíndrykk við matinn til þess að byggja sig upp, en hún er alltaf jafn grönn og er undir því sem telst vera kjörþyngd. Samt getur hún innbyrt mun meira en 2500 kalóríur á dag án þess að fitna. Þessi kona fær hrós frá fólki fyrir að vera grönn, þó að hún sé undir heilbrigðri þyngd, á meðan hin finnur fyrir fyrirlitningu af því að hún er með "aukakíló"

Heilsu- og megrunarbransinn hefur logið að fólki, það er svo einfalt. Það er ekki allt vitað um mannlíkamann og það eru ekki allir eins.

barbietec
06. jún. 2011

Það er ekkert óeðlilegt við það að kona sem borðar 2500 hitaeiningar á dag fitni ekki. Fólk brennir ca. 2000-2200 hitaeiningum í dag, þarf ekki að bæta við mikilli hreyfingu til að vinna upp þessar 300-500 hitaeiningar.

Ég er reyndar sammála því að fólk eigi að hætta að fara eftir megrunariðnaðinum, hætta að kaupa sér pillur og duft og fara frá því að borða kannski 2500-3000 hitaeiningar á dag (án hreyfingar) í að borða 1500 hitaeiningar, það segir sig bara sjálft (að mér finnst) að það er ekki hollt fyrir líkamann til lengri tíma.

Það er oft þannig að fólk í mikilli yfirþyngd hefur reynt alla kúra í heiminum (sem virka ekki til lengdar), en hefur ekki prófað að lifa skv. manneldismarkmiðum, borða hollan og innihaldsríkan mat og stunda reglubundna hreyfingu til lengri tíma. Fólk gefst upp til hópa (er ekki að alhæfa) of fljótt upp.

Festum okkur ekki í undantekningunum heldur horfum á þetta heildrænt, það að halda því fram að við fitnum ekki á því að borða of mikið alla daga og hreyfa okkur ekkert er eitt form afneitunar og flótti að sjá þetta ekki í réttu ljósi. En að sjálfsögðu eru til undantekningar og ég ber mikla virðingu fyrir því að fólk er misjafnt og öll erum við einstaklingar sem þarf að taka tillit til. Það er hollt að hafa einhver viðmið (kannski ekki frá megrunariðnaðinum og photoshop :))

sigrun
06. jún. 2011

Hefði ekki getað orðað betur nafna :)

gestur
06. jún. 2011

Ég fylgi manneldismarkmiðum og borða hollan og næringarríkan mat, og hreyfi mig. Hef gert til langs tíma. Ég fitna ekki, en ég grennist ekki heldur. Þannig að það dugir ekki heldur til.

Ella B
06. jún. 2011

Vá, var einmitt að pæla í þessu..finnst ótrúlega mikið af þessu núna, einhver bylgja í gangi...og takk fyrir gott innlegg og góðan vef! =)

Tóta
18. jún. 2011

Mér finnst samt sorglegast í þessu öllu eru fordómarnir sem felast í þessum fréttum. Ef maður er ekki í kjörþyngd þá er maður aumingi. Eigum við ekki öll að fá að vera eins og við erum og er ekki pláss fyrir okkur öll ?

Ef við myndum setja "svertingja" eða "dökka húð" inn í fréttir af þessu tagi þá myndu þær hljóma: hún Gunna lítur ekki lengur út fyrir að vera eins og svertingi, húðin hennar hefur lýst um marga tóna og með þessu áframhaldi verður hún hvít áður en við vitum af ! Finnst okkur ekki eitthvað athugavert við það ?

Ég er ekki að tala um að mikil offita sé í lagi, frekar en það að vera allt of léttur, en mér finnst að opinberir aðilar þurfi að gæta tungu sinnar.

P.s til hamingju með nr 2 :) Best í heimi að hitta þessi dásemdar börn eftir meðgöngu.

sigrun
18. jún. 2011

Það er alveg rétt Tóta.... það þurfa allir að gæta tungu sinnar... fjölmiðlar geta hoggið svo djúp sár í viðkvæmar sálir ungra stúlkna (og drengja)....