Kirsuber og perur

Nr. 2 hefur ekki látið sjá sig enn og er kominn 5 daga yfir áætlaðan útgáfudag. Ég var send í sónar fyrir nokkrum dögum því ljósmóðirin hélt að króginn væri búinn að snúa sér. Svo reyndist ekki vera heldur reyndist rassinn á honum standa svona út. „He has a bony bottom” sagði konan sem skannaði allt í bak og fyrir. Nú er hann bara að verða beikonhjúpaður þarna inni og gerir ekki annað en að safna á sig fitu. Hann vill líklega ekkert koma út þar sem ég er búin að vera dugleg að baka biscotti og smákökur til að eiga með kaffinu og fær bakkelsið beint í æð. Hann er eflaust hæstánægður með að vera frekar þarna heldur en að þurfa að mæta skessunni systur sinni sem hann hefur þurft að hlusta á síðustu mánuði.

Eins og flestir vita sem lesa þetta blogg er ég með þá allra ó-grænustu putta sem til eru. Það halda allir í kringum mig að ég sé svo myndarleg að rækta kryddjurtir í eldhúsglugganum, sé með matjurtargarð og hafi pottablóm í kringum mig. Ég kaupi kryddjurtir í búðinni, hef aldrei átt matjurtargarð (nema í skólagörðunum í gamla daga og var alltaf með ljótustu uppskeruna) og ég reyni ekki lengur að eiga pottablóm, þau drepast öll, alltaf, alveg sama hvað margar velviljaðar húsmæður (og húsfeður) með græna fingur gefa mér góð ráð varðandi lífgunartilraunir. Þetta er bara ekki „My Thing”. Ég er góð í mörgu en alls ekki í garðyrkju. Kannski breytist það einhvern tímann, vonandi. Mig langar að vera svona „Earth Mother” sem dundar sér í garðinum og er alltaf rauð í kinnum eftir útiveru. Veit ekki hvort það er raunhæf óskhyggja því ég hata mold á höndunum (sérstaklega þegar hún þornar og harðnar) og hata að verða kalt svo ég gef garðyrkju alltaf upp á bátinn. Við reyndum að setja rabarbara í garðinn einu sinni en hann dó (á rabarbari að geta dáið?).

Fyrir nokkrum vikum tók ég eftir því að trén í garðinum voru farin að blómstra í hlýjunni. Það er gaman að horfa á blómstrandi tré á vorin í Bretlandi. Þau verða svo ægilega falleg. Fáeinum vikum eftir þessa blómstrun fór að bera á einhverjum berjum á trjánum sem ég gaf ekki meiri gaum (því eitruð ber og óeitruð ber líta út eins fyrir mér). Ég steingleymdi að skoða þessi ber í langan, langan tíma og um daginn sagði Jóhannes: Ég held að við séum með kirsuberjatré í garðinum. Nei nei sagði ég...það getur varla verið. Svo gleymdi ég berjunum í langan, langan tíma. Fyrir nokkrum dögum síðan ákvað ég að skoða þessi blessuðu tré betur og viti menn, annað tréð ER kirsuberjatré en hitt er líklega perutré. Kirsuberin eru ekki rauð heldur gul og rauð (Rainier afbrigði eða eitthvað samkvæmt Google) og í dag var uppskeruhátíð. Ég fyllti heila skál af kirsuberjum sem við getum borðað næstu daga. Við höfum einu sinni átt plómutré og það var æði. Það rigndi plómum í nokkrar vikur og við borðuðum endalaust af þeim. Ég fyllist alltaf von og bjartsýni þegar eitthvað sem er nálægt mér dafnar og vex (og ég þurfti bara að horfa á það gerast, ekkert annað). Það að ég geti haldið lífi í litlum einstaklingi (og öðrum á leiðinni) verður að teljast kraftaverk. Ég man sem betur fer eftir að vökva Afkvæmið, gefa því næringu o.fl....

Hér fyrir neðan er smá myndasería af kirsuberjunum sem og peru sem er ekki orðin þroskuð.

Kirsuber á tréi

Kirsuber á tréi

Uppskeran komin í skál

Óþroskuð pera á tréi

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

barbietec
04. jún. 2011

Snilld!!!! Hlakka til að heyra fregnir af bumbubúanum :)

Melkorka
04. jún. 2011

ertu ekki að grínast, þetta er æðislegt!!! Það drepst líka allt heima hjá mér sem vex í pottum. Botna potna ekkert í því :)

Lísa Hjalt
05. jún. 2011

þessar myndir eru æði!

Ég held að þú sért sú eina sem getur ekki haldið lífi í rabarbara. Er samt alveg viss um að innst inni leynist svona earth mother; þú þarft bara réttu skilyrðin ;-) Svo má líka alltaf bara ráða garðyrkjufólk, er það ekki?

sigrun
05. jún. 2011

Lísa ég ræð mér garðyrkjumann þegar ég verð rík :) Þarna komstu með það.....