Irish Moss tilraunir
Eins og ég lofaði þá ætlaði ég að láta ykkur vita hvernig tilraunir með Irish Moss hefðu gengið.
Irish Moss (Chondrus crispus/Carrageen Moss) er þörungur (ekki þang eins og ég hélt) sem vex við strendur Atlantshafs í Evrópu sem og í Norður Ameríku. Fyrir þá sem ekki vita vex Irish Moss (sem heitir á íslensku Fjörugrös) líka við strendur Íslands. Jóhannes mundi eftir að hafa séð þörunginn við hús ömmu sinnar sem lá við sjóinn. Ég leyfði mér að efast en hann hefur rétt fyrir sér. Hér er komin aldeilis fín viðskiptahugmynd fyrir sniðuga því þetta er hráefni sem hefur fáránlega marga möguleika (sérstaklega í matargerð). Irish Moss er mjúkt viðkomu, eins og blautt fjallagras. Það er breytilegt í lit, allt frá græn-gulum, í rautt upp í dökk fjólubláan. Plantan er um 10% prótein og um 15% steinefni (aðallega joð og súlfúr). Þegar það er lagt í bleyti og verkað (blandað í matvinnsluvél eða soðið) breytist það í gel og eykst þyngdin þá 20-100 falt.
Myndin hér að ofan sýnir Irish Moss eins og það kemur „beint af kúnni”, mjög salt, mikil sjávarlykt af því og meira að segja eitthvað blátt plast flækt í þörunginn.
En hvers vegna í ósköpunum er ég að velta fyrir mér Irish Moss? Jú, ég er búin að sjá þetta merkilega hráefni í mörgum hráfæðisbókum (sérstaklega í eftirréttum) sem ég á og forvitni mín var að sjálfsögðu vakin. Jóhannes er svo óskaplega tilraunaglaður fyrir mína hönd (og elskar eftirrétti) svo þegar hann fór til California í vinnuferð greip hann mér sér poka af Irish Moss. Hann fór nefnilega á nokkra hráfæðisstaði (við mikla öfund mína) og af því hann er svo hrifinn af hráfæði almennt (sérstaklega eftirréttunum) þá vildi hann endilega að ég prófaði…sem ég samþykkti auðvitað.
Ég er búin að eiga pokann í 6 mánuði svo ég var ekki viss um að þörungarnir væru ok. Ég skolaði þá örugglega 100 sinnum eða þangað til allur sandur og óhreinindi voru á bak og burt og mesta sjávarlyktin var farin. Það tók heilmikinn tíma að skola hráefnið eða svipað því þegar maður skolar sterkjuna af sushi hrísgrjónum, það virðist aldrei ætla að verða búið.
Eftir skolun var komið að því að leggja Irish Moss í bleyti og það var nú ekki flókið, bara skál með vatni og inn í ísskáp. Ég skipti svo um vatn nokkrum sinnum yfir sólarhringinn. Eftir þessa meðferð var afurðin aðeins bólgnari og ljósari, dröppuð að lit og með örlítinn sjávarilm sem ég var hrædd um að myndi smokra sér í gegn um annað hráefni (þær áhyggjur voru ástæðulausar). Ég á ekki mynd af þessu stigi.
Nú var komið að því að setja Irish Moss í blandara og af því ég á Vitamix (ofurblandara) þá reyndist ekki mikið mál að blanda það. Ásamt Irish Moss fór vatn og svo var blandað þangað til sólin settist eða svo gott sem. Það þarf nefnilega að blanda í nokkrar mínútur, stoppa vélina, skafa skálina að innan, láta vélina kólna alveg og halda áfram. Þannig nær maður bestum árangri. Maður veit að Irish Moss maukið er tilbúið þegar engin korn finnast á milli fingranna þegar maður nuddar þeim saman.
Þessu hellti ég í skál og setti inn í ísskáp. Mér skilst að Irish Moss eigi að stífna á einhverjum klukkustundum en á öðrum degi var það enn þá eins og illa hrærður Royal búðingur. Ég ætlaði að láta hann eiga sig og svo fleygja honum bara síðar. Ég er glöð að ég gerði það ekki því á þriðja degi varð gelið svona líka stíft (eins og mjúkt silicon) og þannig að maður getur haldið ílátinu á hvolf án þess að hellist úr. Það gæti verið af því hann er orðinn þetta gamall að hann taki bara lengri tíma að soga í sig vökvann.
Myndin hér að ofan sýnir Irish Moss eins og það lítur út eftir að búið er að blanda það í blandara og láta það standa í ísskáp í nokkra daga. Það verður stíft eins og mjúkt gúmmí.
Ég var búin að ákveða hvað ég ætlaði að gera úr Irish Moss gelinu, súkkulaðibúðing sem var uppskrift úr nokkrum sem ég hafði fundið hér og þar og var búin að púsla saman eftir mínu höfði. Áferðin var fádæma góð, létt og loftkennd, alveg eins og silkimjúkur búðingur. Jóhannes var algjörlega í skýjunum. Það var ég reyndar líka.
Stífur og fallegur búðingur og afar bragðgóður
Hér sést vel hversu stífur búðingurinn er, hann haggast ekki þó maður setji glasið á hvolf.
Það voru góðu fréttirnar. Slæmu fréttirnar voru þær að ég fékk ægilega magakrampa sama dag og ég borðaði búðinginn. Og svo var bara spretthlaup á dolluna. Maginn sagði þvert nei við Irish Moss. Ég hélt að um tilviljun væri að ræða og prófaði aftur um viku síðar (orðin mjög góð í maganum) en almáttugur, lætin og loftið…..búðingurinn fór eiginlega óunninn í dolluna, út um hinn endann. Ég hafði ekki lesið mér til um eiginleika Irish Moss en hann hefur sem sagt „aukaverkanir”!!!! Hann getur orsakað lágan blóðþrýsting, magakrampa, niðurgang og getur haft áhrif á upptöku lyfja í blóðinu. Óléttum konum og þeim sem eru með börn á brjósti er einnig bent á að neyta ekki Irish Moss. Ungbörn skulu heldur ekki neyta þess þar sem það getur veikt ónæmiskerfið. Þetta kom mér mjög á óvart því fólk í hráfæðisheiminum hefur hampað Irish Moss út í eitt og hef ekki séð talað um þessar aukaverkanir (ekki svo ég hafi tekið eftir) og hvergi er minnst á þær í bókum. Þetta eru þó líklega bara „fyrstu” áhrif því ég hef ekki fundið fyrir þessu síðan eftir þessi tvö skipti.
En allavega, það var mjög gaman að prófa og ég hugsa að ég geri fleiri tilraunir síðar (þegar ég veit að ég verð nálægt salarni næstu daga á eftir og ekki með „aukafarþega”). Jóhannes var allavega ægilega glaður með að hafa dröslað pokanum með sér frá Bandaríkjunum og bíður spenntur eftir fleiri tilraunum. Hann fékk engar aukaverkanir og borðaði heilan helling af búðingi.
Hér má lesa nánar um Irish Moss
Hér má t.d. kaupa Irish Moss á netinu 
Ummæli
02. jún. 2011
þetta hljómar nú bara eins og djöfullinn í súkkulaðimynd hehehehe :)
skrítið að fólk borði þetta ef "aukaverkanirnar" eru þessar, nema fólk kannski vilji þessa "hreinsun" :)
En vá hvað þetta er girnilegt.... :) þó svo að lýsingin sé það ekki hahaha.. kemur kannski eins út og inn hihihih :)
03. jún. 2011
Sko Jóhannes fann ekki fyrir þessu og ég ekki heldur eftir nokkur skipti svo kannski var þetta eitthvað 'one off' dæmi (og kannski vegna óléttunnar líka)...ég ætla allavega að gera fleiri tilraunir. Kannski er þetta líka svona 'maður þarf að borða baðkar á dag í 2 ár' til að aukaverkanir komi fram.....ég þarf að lesa mér betur til um þetta. Búðingurinn var eins og silki, ég sver það og hrikalega góður :)
02. jún. 2011
getur veikt ónæmiskerfið! Vona að Irish Moss geti þá styrkt heilsuna á einhvern annan hátt
03. jún. 2011
Það hlýtur að vera miðað við öll steinefnin og sjávargróður er yfirleitt mjög hollur en ég varð mjög hissa á að sjá lista yfir aukaverkanirnar. Kannski að allur sjávargróður sé þannig en þekki það ekki.
29. jan. 2012
ég hef verið að prófa mig áfram í hráfæði og einmitt oft pælt í hvað Irish Moss væri... ég verð að viðurkenna að eftir lýsinguna hér að ofan lýst mér ekkert allt of vel á þetta.. er eitthvað annað sem hægt er að nota í hráfræðideserta sem gerir það sama???
29. jan. 2012
Ég held svona eftir á að hyggja að þetta hafi frekar verið sambland af óléttu og meltingartruflunum heldur en að Irish Moss-ið hafi haft svona mikil áhrif. Ég hef borðað það síðan og það var allt í lagi. Um að gera að prófa allavega. Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir Irish Moss en það má bjarga sér með cashewhnetum og miklu af kókosolíu (en það er yfirleitt allt of mikil fita að mínu mati) eða með kjöti úr young thai coconut (sem fæst ekki á Íslandi)...
10. jún. 2012
Fjörugrös voru verslunarvara hér við land aftur til 1400 og hugsanlega fyrr. Þau voru notuð við að varðveita skyr og þykkja grauta. Grautarnir og annar matur úr þeim voru saðsamir, þótt næringarlitlir væru. Ýmiss snefilefni þó.