Hermès Birkin taskan

Hermés Birkin taskaÉg sá um daginn, í fyrsta skipti á ævinni „live“ Hermès Birkin tösku. Sagan í stuttu máli, segir að Jean-Louis Dumas, yfirstrumpur Hermès samsteypunnar hafi verið í flugi með Jane Birkin (leikkonu og söngkonu, þeirri sem var vinkona Serge Gainsbourg og stundi lostafull Je t'aime... í laginu hérna um árið). Hún átti að hafa reynt að troða handtösku sinni í farangurshólfið fyrir ofan sætið og allt hrundi út. Dumas ákvað að hanna tösku fyrir konuna og restina þekkjum við í formi Hermès Birkin töskunnar.

Nú er ég ekki manneskja sem fylgir tísku. Ég á eiginlega bara eina hvers dags yfirhöfn sem er upplituð á öxlunum, bráðnuð í faldinum (stóð of nálægt hitaofni í einhverju kuldakastinu) og með rifnu fóðri. Jóhannes segir að ef ég kaupi mér ekki nýja flík bráðum ætli hann ekki að fara með mér út á meðal fólks mikið lengur. Vandamálið er að mér leiðist að fara í fatabúðir meira en nokkuð annað í lífinu. Ég keypti flíkina árið 2003 fyrir fyrsta launaseðilinn minn hérna úti. Yfirhöfnin kostaði 30 pund og ég var miður mín yfir verðinu. Sömu sögu er að segja af Jóhannesi sem gengur um í stuttbuxum þegar vel viðrar, sem hann keypti árið 2001. Hann hafði á þeim tíma áhyggjur af því að vera að eyða um efni fram (vorum blönk og í námi). Stuttbuxurnar kostuðu 10 pund. Þetta erum við í hnotskurn. Við förum aldrei í fatabúðir (það sést) og allt of sjaldan í skóbúðir (það sést). Ok við erum svo sem ekki tötraleg en tískufyrirbæri höfum við aldrei verið né verðum nokkurn tímann. Ef okkur áskotnast peningur (umfram laun t.d.) er honum lagt til hliðar í þessari röð: Til mögru áranna I, Í sófasjóð (sem er eiginlega ferðasjóður því við höfum aldrei keypt nýjan sófa), Í heimsreisusjóð (eigum nú fyrir ferð fram og til baka til Færeyja um það bil), Í sjóð fyrir Afkvæmin, Til mögru áranna II, og að lokum Til eyðslu (þ.m.t. föt). Auka peningurinn endar þó aldrei lengra í röðinni en Í sjóði fyrir Afkvæmin. Enda er kannski góð menntun Afkvæmanna mikilvægari en nýjasta Karen Millen dragtin eða nýjustu svona eða hinsegin skórnir. Allur minn auka peningur fer líka í að kaupa hráefni fyrir tilraunastarfsemi í eldhúsinu. En fólk hefur mismunandi forgang í lífinu og konan sem ég sá á Starbucks í síðustu viku hefur líklega annan forgang en við hin eða hefur ráð á því að líta svona út OG þurfa ekki að leggja til hliðar til mögru áranna.

Ég hef aldrei séð konu sem gæti flokkast jafn vel sem impeccably polished (óaðfinnanlega fáguð) eins og þessi kona. Snyrtu neglurnar með frönsku naglaendunum voru fullkomnar, glansandi og ljósa hárið fagmannlega blásið (og líka að aftan, ekki bara að framan) og líklega var þetta svona brasilískur langtímablástur eins og er svo vinsæll hjá fræga fólkinu (hárið er blásið einu sinni í mánuði eða álíka). Dökka dragtin var algjörlega án krumpu, silfurlita silkiblússan var glansandi og án hnökra eða tildreginna þráða og háhæluðu skórnir voru óslitnir og engin beygla í leðrinu, ekki einu sinni þar sem táin mætir ristinni. Konan var hávaxin og grönn og hvergi var hrukku að sjá í vel förðuðu andlitinu. Skartgripirnir voru látlausir en virkuðu dýrir (sá sem á Hermès tösku og er með fíngerða skartgripi, er ekki með ódýra skartgripi). Það fór ekki mikið fyrir henni en samt tóku allir eftir henni. Ólíkt söngkonunni Beoynce sem strunsaði fram hjá okkur í Hyde Park fyrir 2 árum í gullskóm með 10 sm hælum og með gulltösku sem glitraði svo mikið að hún meiddi augun þó hún væri hinu megin við Serpentine pollinn í garðinum. Hún var líka með um 10 manns með sér í halarófu (alls kyns öryggisverðir o.fl.). Hún var um 2 metra fyrir framan okkur á tímapunkti og af henni skein ríkidæmi en af öðrum meiði en af þessarri konu. Þessi kona var svona hljóðlega rík (silently wealthy) og svoleiðis fólk er alltaf dálítið áhugavert á sinn hátt (þó að þeir sem séu minna efnaðir séu það líka....auðvitað).

En já Hermès taskan. Ódýrasta eintak af Hermès tösku kostar rúm 4000 pund (tæpar 800.000 krónur) og það er 2ja ára (og oft lengri) biðlisti eftir hverri tösku. Victoria Beckham á margar Hermès töskur og er sögð eiga safn upp á 190 milljónir króna. Dýrasta Hermès Birkin taskan ku vera upp á 80.000 pund eða um 14 milljónir króna). Frú Beckham á nokkrar svoleiðis. Taska fínu konunnar á Starbucks var í sama lit og skórnir hennar, ljósgrágræn með gylltum tón.

Ég er ekki með á hreinu hvers vegna töskurnar eru svona dýrar. Þær eru víst handsaumaðar af einhverjum frönskum saumasnillingum og úr krókódílaskinni (og bara hægt að nota krókódílarassana eða álíka) en þeir hljóta samt að vera fóðraðir á gulli. Ég er ekki snobbuð fyrir merkjum (ég á engin) og ekki upptekin af því sem aðrir ganga í (ég fylgist ekki með) en mér þykir alltaf jafn merkilegt þegar fólk á SVONA marga peninga. Svona eins og þegar fólk keyrir um í Bentley eða Maserati. Ég reyni alltaf að gjóa augunum laumulega inn fyrir bílrúðurnar bara til að fá 1 sekúndu innlit í líf þessa fólks sem á SVO marga peninga. Ég er ekkert öfundssjúk eða svoleiðis, mér finnst þetta bara svo áhugavert, ég verð svo forvitin og fer að ímynda mér líf fólksins.

Það fór svona smá hrollur um mig þegar ég áttaði mig á því að líklega myndi ég aldrei komast nær alvöru Hermès tösku á ævinni heldur en akkúrat þarna á Starbucks. As good as it gets eða þannig. Ekki það að mig langi í Hermès tösku...ég myndi frekar vilja kosta menntun eða heilsugæslu 1000 fátækra barna í þróunarlandi...en maður getur bara ekki slitið augunum af alvöru Hermès Birkin tösku. Þær eru voðalega fallegar og handbragðið sérlega fínt (enda má það líka vera fínt fyrir þessa upphæð). Ég ætla samt að halda áfram að láta mér nægja 5 punda taskan sem ég keypti af götusala á Tottenham Court Road. Hún geymir veskið mitt, kex fyrir Afkvæmið, húslykla, neyðarorku (ef blóðsykurinn fellur), Ipod og eitthvað fleira. Hún gerir sem sagt sama gagn og Hermès Birkin taskan en er um 799 þúsund krónum ódýrari.

(Myndin er af vef Wikipedia).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

gestur
30. maí. 2011

hahahaha... þú ert dásamleg Sigrún.. kemur sífellt á óvart!

Gunnhildur
30. maí. 2011

Já, ég segi þetta með þér, að eyða t.d. 14 milljónum í EINA TÖSKU sem verður svo bráðum úrelt er bara bilun.. ég myndi frekar bólusetja börn og gefa þeim að borða, húsaskjól og öryggi.. en það er bara ég og ég á engar milljónir...

Lísa Hjalt
30. maí. 2011

haha, dásamlega færsla ... og Færeyjar eru alveg sjóðheitur áfangastaður. Svona færslum á annars að fylgja mynd og þá er ég að meina af Starbucks konunni!

Melkorka
31. maí. 2011

Frábært blogg enn og aftur Sigrún!

Hrundski
31. maí. 2011

ohhhh tókstu ekki mynd ???? Ég hefði sent afkvæmið útklínt til að káfast í konunni hahahaha