Guðmóðirin

Við erum búin að vera með gest núna í tæpa viku. Gesturinn er Guðmóðir Afkvæmisins og er búsett í Kenya. Hún er reyndar frá Goa, Indlandi en hefur búið í Kenya nánast allt sitt líf. Hún rekur nokkur hótel við Diani ströndina, Mombasa. Svona hótel þar sem börn eru ekki leyfð því fólk kemur í algjöra afslöppun og lætur þjóna sér á tá og fingri. Undir svoleiðis kringumstæðum t.d. í brúðkaupsferð er líklega fátt leiðinlegra heldur en að vakna upp við organdi krakkagríslinga (það er nægt framboð af hótelum sem taka við fólki með börn). Við höfum gist á hótelunum hennar og þau eru gorgeous. Þegar Afkvæmið var 6 mánaða vorum við í Kenya og vorum gestir Guðmóðurinnar (enduðum ferðalagið þar eftir smá flakk um Kenya). Við vorum einu gestirnir ásamt ferðafélögum okkar. Þar fór Afkvæmið (auðvitað með undanþágu undan barnareglunni því við vorum jú einu gestirnir og í boði Guðmóðurinnar) í fyrsta skipti í sundlaug og dýfði tánum í Indlandshaf. Dásamlegur staður þar sem mango og avocado vaxa á trjánum og við vegkantinn getur maður drukkið kókosvatn með röri úr kókoshnetum sem strákpjakkar safna sjálfir með því að klifra upp pálmatrén. Kókosvatnið er selt á 10 Kenyska shillinga sem eru um 15 krónur. Pjakkarnir hafa auðvitað ekki GRUN um hvað þeir eru með í höndunum.

Það er svo áhugavert að fá að heyra upplifun Guðmóðurinnar á Evrópu. Hún hefur komið hingað (til London) milljón sinnum og í morgun spurði ég hana hvort henni fyndist erfiðara að snúa til baka til Kenya eða koma hingað. Ástæðan fyrir því að ég spurði er að mér finnst alltaf meira menningarsjokk að koma til baka til Evrópu heldur en þegar ég fer til austur Afríku (Kenya, Tanzaníu, Rwanda, Uganda). Ég venst löndunum í Afríku hratt, menningunni, loftslaginu, landslaginu, fólkinu, einfalda en góða matnum, malargötunum, geitunum. Þegar ég sný til baka til Evrópu finnst mér eins og malbikað hafi verið yfir heiminn. Alls staðar er steinsteypa, malbik, bílar, hús, fólk sem er að drepa sig á óhollu mataræði eða lifnaðarhætti og endalaus ys og þys af öllum þessum fjölda fólks sem er að flýta sér, alltaf, alla daga. Það eru fá tré og engir regnskógar með þrúgandi hita, raka og ilmi. Skipulagsfræðingar njörva niður græna bletti í hverri borg sem fjárfestar horfa til með hryllingi. Hver þarf gras og tré þegar má byggja fleiri hús? Fólk er ALLTAF að flýta sér en í Afríku gildir pole pole reglan (hægt, hægt). Það getur gert mann brjálaðan þegar maður er að flýta sér t.d. í flug en ósjálfrátt dregur maður andann dýpra og lætur hitann um að mýkja vöðvana og sólina endurnæra sálina. Guðmóðirin svaraði spurningu minni þannig að henni fyndist margt undarlegt hér en svo sem líka í heimalandinu. Þar sem hún býr er ekki sjálfsagður hlutur að fara í göngutúr að kvöldi og hún nýtur þess í botn að ganga um götur London því þær eru fullar af fólki og hún er örugg. Við heimili okkar hér í London eru heldur ekki varðhundar og varðmenn og húsið er ekki innan girðingar (eða jú en girðingin er þannig að maður getur klofað yfir hana). Henni finnst þægilegt að koma á „venjulegt heimili” þar sem fólk gerir húsverkin sjálft. „Þvottavélin” hennar heitir Robert og ekki bara þvær heldur straujar og gengur frá þvottinum líka. Hún er aldrei ein með sjálfri sér því alltaf er þjónustufólk eða aðrir starfsmenn innan um hana.

Það er margt sem henni finnst skrýtið að venjast. Henni finnst t.d. skrýtið að ég geti skilið poka fullan af matvörum fyrir utan dyrnar í augnablik (þurfti að hlaupa frá) og enginn sem er svangur stelur honum. Henni finnst líka skrýtið að ég hafi opna glugga, jafnvel á 2. hæð (það gæti einhver komið inn). Henni bregður ef hún heyrir dynk fyrir utan húsið og finnst að einhver hljóti að vera inni í húsinu. Henni finnst alltaf jafn undarlegt þegar fólk er með „varðhunda” í bandi. Í Kenya eru hundar einungis notaðir sem varðhundar, ekki sem gæludýr. Það sem henni finnst samt óþægilegast að horfa upp á er neyslumenningin, allur maturinn sem endar í ruslinu, allt vatnið sem fer til spillis, allir bílarnir sem keyra með einum ökumanni. Henni finnst óþægilegt hvað fólk tekur húsaskjóli, mat, vatni sem sjálfssögðum hlut. Það pæla fáir í þessum hlutum dags daglega. Það er ofgnóttin sem henni finnst yfirþyrmandi og ég veit vel hvað hún meinar. Það er helst hún sem gerir mig sorgmædda í hvert skipti sem ég kem aftur til Evrópu (og þá er ég að tala um England eða Ísland).

Guðmóðirin er 46 ára en lítur út fyrir að vera mörgum árum yngri. Afríski maturinn gerir henni gott og hún hugsar vel um húð og hár og heilsu almennt. Hún borðar hollt en hefur ekki hugmynd um að hvaða leyti og síðustu daga hefur hún verið að spyrja mig út í mataræði mitt. Mér finnst drepfyndið að ég sé búin að vera að segja íbúa Kenya allt um leyndardóma kókosolíu, kókosvatns, kjöts ungrar kókoshnetu (brilliant til ísgerðar o.fl.), allt um cashew hnetur, jarðhnetur o.s.frv. Allt þetta hráefni er að finna í miklum mæli í Kenya en engum hefur hugkvæmst að þetta séu upplagðar afurðir til að selja til Evrópu (t.d. Íslands) þar sem 250 ml af kókosvatni er álíka dýrt og vín, þar sem cashewhnetur (brotnar, litlar og ljótar) kosta yfir 7000 kr kílóið, og þar sem ungar kókoshnetur fást ekki einu sinni. Kannski er komin viðskiptahugmynd fyrir einhvern sniðugan? Ég get allavega útvegað góða gistingu ef einhver er að spá í að skella sér!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Kristin Bergmann
21. maí. 2011

Blessuð Sigrún.

Þetta er dásamleg grein.
Sammála þér með hugmyndina um útfluttning...ætla að nefna þetta við hinn helminginn. ;-)

Kveðjur frá Benidorm þar sem þín bíður gisting þegar þú verður á ferðinni.

Kristin.

Laufey Br
23. maí. 2011

Vá, þú mátt gjarna segja mér hvaða dásamlegi staður í Kenya þetta er. Get látið mig dreyma um honnímún þangað einhvern daginn ;)

sigrun
23. maí. 2011

Hún rekur nokkra...hnipptu í mig áður en þú ferð að skipuleggja ferð :)