CafeSigrun frystihólfið og Orðalisti CafeSigrun
Jæja, nú er „CafeSigrun frystihólfið” orðið fullt af mat. Ég tók mig til eina helgina og gerði 16 burrito, 12 fylltar pönnukökur (crêpes) og 18 pitu-pizzur. Svona tryggi ég að enginn verði svangur í heilan mánuð eftir komu Nr. 2. Það eina sem við þurfum að gera er að hita matinn upp í ofninum. Ég mæli eindregið með því að þeir sem sjá fram á að geta ekki sinnt eldhúsinu í einhvern tíma (t.d. vegna spítalavistar, barneigna, próflesturs) gefi sér tíma í að undirbúa máltíðir fram í tímann sem auðvelt er að frysta. Trúið mér þið eigið eftir að verða glöð yfir að hafa verið svona hagsýn. Það er fátt dásamlegra heldur en að vera dauðþreyttur, langa í eitthvað gott en hafa enga orku til að útbúa mat, opna frystihólfið og hita upp eitthvað heimatilbúið. Það eru margir sem fara í skyndibitann við svona aðstæður en hann gerir yfirleitt illt verra, og fólk endar á því að fá of mikið salt, of mikla fitu, of mikinn sykur og of mikið samviskubit í kroppinn (fyrir utan hvað það kostar mikið). Svo það er í raun engin afsökun þetta með að „hafa ekki tíma”. Maður getur skipt undirbúningi niður á nokkra daga yfir nokkrar helgar og þá getur maður vel undirbúið hollan og góðan mat fyrir frystinn. Það má frysta nánast allt nema núðlusúpur (nema maður setji núðlurnar í súpuna eftir á) og fiskur er heldur ekki góður margfrosinn. Hér verður ekkert take away thank you very much.
En að öðru... ég er búin að opna orðalista á vefnum (og heitir Glossary á enska vefnum). Þarna má finna eins konar orðskýringar á orðum/heitum sem koma oft fyrir og ekki allir kannski átta sig á í fyrsta kasti hvað þýða. Sérstaklega ekki þeir sem eru að hefja þessa (oft) löngu leið sem er heilbrigðari lífsstíll. Tengilinn má finna efst á síðunni, undir myndinni í haus vefjarins.
Ummæli
12. maí. 2011
Þú ert svo DUGLEG, Sigrún! Ég hélt að ég gæti ekki elskað þessa heimasíðu meira en jú jú, eftir að orðalistinn kom inn að þá sprungu allir ástar-mælar! TAKK fyrir frábæra síðu! :-)
13. maí. 2011
Ha ha það er gott að finna hlýja strauma Jóhanna :) Takk fyrir kveðjuna :)
14. maí. 2011
haha, ástarmælar ... frábært ;-)
16. maí. 2011
Innilega til haimingju með síðuna þína Sigrún, hún er bara stórglæsileg ... fullkomin. Ertu að fara koma með annað barn? Ef svo er , til hamingju.
Heyrðu, ég var að lesa uppskrift frá Þorbjörgu (minnir mig) og í uppskriftinni var mysuprótein ( sé að það er líka í uppskriftum hjá þér) Ef maður býr erlendis þá fær maður ekki mysuprótein er það nokkuð?
Hvað er gott að nota i staðin? Afhverju ekki bara "venjulegt" prótein?
Enn og aftur glæsileg síða semég fer alltaf meira og meira inná enda svo auðvelt að fara eftir uppskriftunum og svo er svo fínn fróðleikur með, einnig finnst me´r svo gott þegar þú skrifar líka hvað margt heytir á ensku ;)
16. maí. 2011
Sæl Guðrún.
Jú þú færð mysuprótein, það heitir Whey Protein/Whey Powder. Það er t.d. gott þetta frá Solgar og er selt í heilsubúðum (er organic án aukaefna). Þú getur yfirleitt notað hvaða prótein sem er í uppskriftirnar en mysuprótein er hlutlaust í bragði yfirleitt og þar með án viðbættra bragðefna :)
Kv.
Sigrún
16. maí. 2011
Takk sigrún, frábært að geta leitað til þín.
19. maí. 2011
hefur þú einhverja hugmynd um hvað kókosvatn er?
kv.Sjöfn
(kannski hljómar þessi spurning mjög aulalega, og allir vita hvað þetta er ;D)
19. maí. 2011
svo fór ég í orðalistann og fann allt um kókosvatn..
þessi vefur er algjör snilld...
kv. Sjöfn
19. maí. 2011
Haha var að fara að svara þér þegar ég sá seinna kommentið :) Og nei spurningin er ekki aulaleg :)
19. maí. 2011
Sæl,
Þegar þú frystir t.d. pítupizzur, Crépes og burritos geriru það þá bara skv. uppskriftum út í gegn en setur það í frystir í staðin fyrir að borða það? Hvað tekur ca langan tíma að baka þetta og notar þú örbylgjuofn eða venjulegan ofn?
Annars bara takk fyrir frábærasta vef allra tíma! ;)
19. maí. 2011
Hæ hó Þórhildur....
Crepes þarf ekki að baka fyrir frystinn þ.e. maður undirbýr þau eins og maður ætli að baka en setur svo í frystinn og hitar upp eins og samkvæmt uppskrift (en ófrosið).
Með pizzurnar og burritos er best að baka styttra (pizzurnar kannski í 5 mínútur og burritos í svona 10-12 mínútur) svo að maturinn verði ekki þurr.
Að öðru leyti pakka ég bara matnum í plastbox, merki þau og set í frystinn. Ég nota bara venjulegan ofn í allt og hita matinn upp ófrosinn og við aðeins lægra hitastig en ef ég væri að hita í fyrsta skipti. Passaðu bara að baka ekki of lengi.
Kveðja
Sigrún
23. maí. 2011
Já, ég mundi eftir því hvað þú varst sniðug þegar litlan þín fæddist að frysta mat og ég gerði slíkt hið sama... Reyndar ekki svona mikið, en ég eldaði t.d. riiisaskammt af uppáhalds lasagna og frysti í litlum skömmtum eitt kvöldið í desember síðastliðnum og við skelltum okkur svo upp á fæðingardeild klukkutímanum síðar ;)
23. maí. 2011
Brilliant :) Er viss um að þið hafið verið sérdeilis kát með ykkur þegar þið tókuð matinn úr frystinum til að hita hann upp :)