Afmælisræpa

Þá er gamla kerlingin orðin árinu eldri. Ég man að þegar ég var 16 ára og var að vinna á hestabúgarði eitt sumar í Danmörku fannst mér fyrir neðan allar hellur að konan á bænum sem átti fertugsafmæli það sumarið væri með sítt hár niður á rass sem farið var að grána. Hún var heldur ekkert svona „fertug" í háttum fannst mér enda konan „rammfullorðin” og hagaði sér ekki samkvæmt því svo mikið. Sem betur fer þekki ég ekki marga sem haga sér samkvæmt aldri, mikið væri lífið þá litlaust. Talandi um aldur þá hélt ein góð vinkona mín sem ég kynntist í gegnum CafeSigrun (hún var að taka viðtal við mig fyrir tímarit og hafði aldrei séð mig) að ég væri eldri kona, mussuklædd í klossum með krullað hár, þétt á velli og rauð í kinnum. Henni snarbrá þegar hún opnaði dyrnar. Ég lít sem sagt alls ekki þannig út en hún er ekki sú fyrsta sem hefur haldið akkúrat þetta.

Ég er kannski ekki með sítt hár niður á rass og það er ekki grátt en það er samt sítt. Maður þarf kannski að fara að huga að ondúleríngu og rúllum í hárið. Það er farið að hallast ískyggilega í átt að fertugsafmælinu (og þar með fimmtugsaldurinn guð hjálpi mér). Nú þarf maður að haka við 25-45 ára valmöguleikann í spurningakönnunum og þegar maður fyllir inn fæðingarárið í eyðublöðum á netinu þarf að skruna ansi langt niður til að komast í 1974. En svo lengi sem maður sjálfur og fjölskyldan hefur heilsu er lítil ástæða til að kvarta þó að bætist við í hrukkusafn eða grá hár. Þetta fer allt í reynslubankann.

Þetta var annars skrýtinn afmælisdagur því honum var eytt á dollunni. Einhver magapest hefur látið á sér kræla hjá okkur mæðgum og í staðinn fyrir að gera súkkulaðikrem á afmælisköku í dag þá…æi þið vitið restina. Það var alls ekki planið í dag. Ég ætlaði svo sannarlega að njóta dagsins í þessari veðurblíðu (afsakið Íslendingar) en í staðinn komst ég um 50 metra út fyrir dyrnar og þurfti þá að snúa við og hlaupa spretthlaup (með 8 mánaða kúlu framan á mér) upp á aðra hæð með bilað hné. Ekki að gera sig en allt fór þó vel og slysi afstýrt. Afmælishöldum hefur því verið frestað til næstu viku en þá er líka löng helgi og við ætlum að njóta einhverra veitinga á góðum stað þá frekar en núna enda lystin ekki upp á marga fiska hvort sem er….

Af öðru er það að frétta að ég er að leggjast í smá tilraunir á írskum mosa (Irish Moss) sem er þang sem er mikið notað í hráfæðisheiminum. Hann er afar spennandi hráefni, eiginleikarnir göldrum líkastur en afurðin sjálf illfáanleg og rándýr. Jóhannes kom með mosann handa mér þegar hann kom frá Californiu (viðskiptaferð hjá Disney….og já, í Disneylandi) á sínum tíma. Hann heimsótti marga hráfæðisstaði og kom með heilan poka af mosanum handa mér (það hefði verið MJÖG erfitt að útskýra þessi kaup fyrir tollvörðum hefðu þeir opnað töskurnar). Býst ekki við að birta uppskriftir með þessu sérstaka hráefni en það má allavega prufa hvernig það kemur út og deila reynslunni.

Jæja, best að hlaupa á dolluna.….

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Melkorka
26. apr. 2011

Til hamingju með afmælið Sigrún! Mér finnst alltaf jafn frábært að heyra í fólki sem finnst bara fyndið og fínt að ,,eldast". Ég hef heyrt í nógu mörgum sem finnst þeir eiga voða bágt að vera ekki lengur með unglingabólur á nefinu og spangir í tönnunum.

Jóhanna S. Hannesdóttir
27. apr. 2011

Innilega til hamingju með afmælið, Sigrún! :-)

Gunnhildur
27. apr. 2011

Til hamingju með að vera árinu eldri :) Mér finnst sjálfri svo gaman að eldast því því fylgir meiri reynsla og ég er alltaf að upplifa eitthvað skemmtilegt í lífinu og það heldur bara áfram ef hugurinn er jákvæður !!
- verst þó með ræpuna - en vonandi gastu tekið með þér eitthvað skemmtilegt tímarit á dolluna ;)

Guðrùn
01. maí. 2011

Til haminju með daginn um daginn. Ertu flutt frá Íslandi? Vona ad þú sért orðin góð af pestinni.