Brúðkaupið

Bretar eru að missa sig yfir brúðkaupi Will og Kate. Það á meira að segja að gefa Bretum frí þennan dag (sem er reyndar ómögulegt og rýndýrt fyrir þá sem eru verktakar) svo að fólk geti veifað breska fánanum og setið fyrir framan sjónvarpið, dýft kexinu í tebollann og fylgst með þessum stórmerkilega (á þeirra mælikvarða) viðburði. Þau eru reyndar voðalega sætt par og ég held að drengurinn sé sérlega vel upp alinn og góð fyrirmynd í alla staði (og stúlkan eflaust líka). Ég myndi óska þeim alls hins besta ef ég hitti þau á förnum vegi. Sem er reyndar ólíklegt. Ég held að Díana prinsessa hefði orðið stolt af syni sínum og ánægð með tengdadótturina (og eins gott þar sem tengdadóttirin ber á fingri sér trúlofunarhring Díönu sem metinn er á 35 milljónir punda (um 6 milljarða). Aðeins.

Nú er hægt að kaupa brúðkaups- strokleður, glös, servíettur, kökur, spil, trefla, derhúfur, boli, vatnsflöskur og auðvitað bolla. Búðargluggar eru skreyttir myndum og fánum og það er mikil tilhlökkun í loftinu greinilega. Nú er búið að setja upp vefsíðu þar sem fólk getur fylgst með brúðkaupinu í beinni útsendingu (við ætlum reyndar ekki að horfa á beina útsendingu né óbeina).

Mér skilst að það sé búið að baka kökurnar og eigi bara eftir að skreyta þær. Ég held að þetta verði ekki mikil hollustuveisla. Vissuð þið að efsta hring brúðartertunnar (sem á að vera úr marzipani) á maður að geyma í 9 mánuði samkvæmt hefðinni, til að nota í skírnarveislu fyrsta barnsins. Það á ekki að geyma kökuna í frysti heldur á köldum og þurrum stað. Jebb, mjög hollt eða þannig he he.

Brúðkaup Will og Kate verður líklega eins ólíkt okkar og hugsast getur. Við fórum til borgardómara og af því tveir bræður mínir voru akkúrat staddir hjá okkur þá í heimsókn þurftum við ekki að biðja húsvörðinn og afgreiðslukonuna um að vera vitni. Ég var í vinnufötunum mínum en minnir þó að ég hafi keypt skyrtu fyrir tækifærið (sem ég gat svo notað í vinnuna). Svei mér þá ef Jóhannes var ekki í skyrtu frekar en stuttermabol. Við fórum með strætó „heim“ eftir „athöfnina“. Við settumst upp á efri hæð í tilefni dagsins minnir mig. Gestirnir (bræður mínir tveir plús litli frændi minn) þurftu að borga fyrir sig sjálfir í strætó. Ég held ég hafi verið búin að baka köku, eða mig minnir það (ekki mörgum mánuðum áður samt, held ég hafi bakað hana samdægurs). Ég held hún hafi örugglega ekki geymst fram á næsta dag og alveg örugglega ekki í 9 mánuði. Við fórum á Starbucks eftir „athöfnina“ (alla leið inn til London) og fengum okkur kaffi og svo fengum við okkur sushi í tilefni dagsins. Ég svaf á dýnu á gólfinu (og Jóhannes í sófanum) brúðkaupsnóttina því það var þægilegra upp á gesti að þeir gistu í hinum herbergjunum. Afskaplega rómantískt (eða svoleiðis) en reyndar akkúrat eins og við vildum hafa „brúðkaupið“ okkar. Ég vildi ekki hring eða neitt svoleiðis og Jóhannes hefði líklega stungið upp á því að ferðast frekar fyrir peninginn. Nokkrum árum síðar fórum við til Japan fyrir peninginn sem hefði annars farið í veislu og vesen. Þetta fyrirkomulag er þó ekki allra og sumir vilja nota fullt af peningum í að skipuleggja draumadaginn sinn (og ekkert að því ef það er það sem fólk vill). Það er þó ekki líklegt að Kate myndi taka í mál að fara með Will á Starbucks eftir athöfnina. En maður veit þó aldrei. Það voru engir minjagripir seldir til heiðurs okkur Jóhannesi og það man enginn eftir brúðkaupsdeginum okkar. Ekki einu sinni við sjálf þessi síðustu 8 ár. Ég hef munað einu sinni eftir honum og Jóhannes eitthvað oftar.&;

Það er annars heitt þessa dagana, fór upp í 23 gráður og steikjandi sól í gær (og spáð slíku áfram) sem ég veit að er ljótt að segja frá svona miðað við að það er enn hálfgert vetrarríki á Íslandi. Ég held ég sé pínulítið brunnin á nefinu en þið viljið líklega ekki heyra meira um það.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lísa Hjalt
20. apr. 2011

Bíddu, og ertu ekki búin að kaupa brúðkaups- strokleður, glös, servíettur, kökur, spil, trefla, derhúfur, boli, vatnsflöskur og auðvitað bolla? Ég beið spennt eftir mynd af þessu öllu saman ásamt sérstakri CafeSigrun útgáfu af Will & Kate brúðartertu!

Ok, ég er farin að fá mér eitthvað hjartastillandi, er að springa úr spennu yfir þessu brúðkaupi...
eða þannig ;-)

sigrun
20. apr. 2011

Jóhannesi finnst að ég eigi að baka eitthvað í tilefni dagsins og setja á svona 'Will og Kate' disk þ.e. með mynd af þeim á...væri það ekki smart!!!!

Barbietec
20. apr. 2011

hehee.. Amma einmitt tekur ekki við gestum á laugardaginn í bústaðinn því hún ætlar sko að horfa á brúðkaupið! hahhahah

sigrun
21. apr. 2011

He he það er dásamlega fyndið :) 'Do not disturb, enter at your own risk'.

Lísa Hjalt
21. apr. 2011

Jóhannes klikkar ekki, hann er örugglega búinn að kaupa diskinn handa þér og færir þér hann stoltur á sjálfum deginum!

Þessi amma sem minnst er á hér að ofan er frábær!

Hrönna
24. apr. 2011

Ég hef séð þetta með efsta hringinn á brúðartertunni en hjá fólkinu sem ég sá þetta í uk að þá var sá hringur svona ensk jólakaka eða þannig sem geymist endalaust (eða lengi allavega). Frekar fyndið samt að þetta fólk ákvað svo ekki að skíra barnið sitt þegar að það fæddist svo ég veit ekki hvað varð um þessa köku :)

Ég hlakka voða til að fylgjast með brúðkaupinu í sjónvarpinu, áhuginn er að koma með aldrinum en efast að ég myndi nú missa mig í skreyttann bolla og svona, aldrei að vita samt :)

sigrun
24. apr. 2011

He he það er örugglega hægt að kaupa dót á netinu og láta senda :)

Ásta Salný
26. apr. 2011

vá,, það væri nú gaman að sjá þetta.. sko fólkið ekki þau tvö:) hihi
Sé ekki eftir neinu peningalega því að þarna var samankomið allt okkar vinafólk og skyldmenni sem við hefðum ekki séð margt af því nema í jarðaförum, fannst tími til kominn að hittast öll og hafa það gaman saman. Hefði samt viljað að mamma hefði verið með okkur, en hún var jörðuð í kirkjugarðinum fyrir framan kirkjuna sem við giftum okkur í.. svo að hún var nokkurnvegin þar:)
Geymdum ekkert af kökunni fyrir skírn hjá litlu(var ekki á planinu að eiga fleirri börn:) en skírðum í sömu sveitakirkjunni og heltum svo heilaga vatninu úr skírninni yfir hjá mömmu:)
Vá, þetta átti ekki aðv era svo langt...
En við gleymum alltaf þessu brúðkaupsafmæli líka var upphaflega pointið með þessu,,haha finnst líka meira skipta máli hve lengi sambandið hefur verið í stað þess hvenær giftingin var. Held þið johannes eigið metið en ég og Viðar höfum verið saman frá því ég varð 20 ára sem sagt16 ár.
takk fyrir uppskrift af ísnum, hlakka til að prófa:)

sigrun
27. apr. 2011

Það er einmitt það sem ég meina sko...fólk á að gera þetta akkúrat eins og það vill og mér heyrist á öllu að þið hafið átt góðan dag með vinum og fjölskyldu (og mömmu þinni, ég er viss um að hún var að fylgjast með).

Ásta Salný
26. apr. 2011

jahá,,, það köttaðist efri hlutinn af..hahah þetta meikar engan sens núna,, ..En nenni ekki að rifja upp hvað ég var að bulla þarna:)