Ég hef misst af...
...ótrúlega mörgu sem gengið hefur á í dægurmenningu Íslendinga (og íþróttum o.fl.). Það er jú vegna búsetu erlendis. Þegar ég hef verið að skoða fjölmiðlana undafarna mánuði þá er svo margt sem ég skil ekki og svo margt undanfarin ár sem ég hef ekki skilið eða hreinlega bara hefur farið fram hjá mér. Ég hef verið búsett í London með hléum frá því árið 2001.
Ég hristi stundum hausinn yfir Íslendingum en svona í sanngirni hristi ég líka hausinn yfir Bretum, þeir eru kol-klikkaðir. Það er samt öðruvísi að skilja ekki sitt eigið land eða sína eigin þjóð, og oft erfiðara, svona andlega. Hér fyrir neðan er ýmislegt sem hefur farið fram hjá mér (eða ég hreinlega misst af) á undanförnum árum eða nýverið:
Baggalútur – Skil hann ekki....fyrir mér er vefurinn eins og „Ekki fréttir“ sem átti að vera voða fyndið cirka 1990. Ég verð bara pirruð þegar ég eyði tíma í fréttir sem eru ekki fréttir og einu sinni hlustaði ég á heilan „Ekki“ fréttatíma andaktug (ég hélt að allt væri satt sem kom fram...er sérlega auðtrúa) og þegar ég komst að því að allt var bull varð ég alveg galin. Ég heyrði einu sinni jólalag með Baggalút og hélt í svona 2 ár að þeir væru hljómsveit en ekki vefsíða og ég hefði misskilið eitthvað þarna í upphafi. Það er erfitt að tala um „Hljómsveitina Baggalút“ við Íslendinga, þeir halda að maður sé að reyna að vera fyndinn.
Gilz, Nilli, Vala Grand, Haffi Haff – Þetta fólk hefur gert hvað nákvæmlega?
Barnaland – vefsíða sem ég hræðist út í hið óendanlega. Fyrir mér er Barnaland eins og vefsíða til heiðurs Jerry Springer.
Pressan, Miðjan, Bleikt.is, Eyjan, Smugan – eru þetta allt sama vefsíðan sem skiptir um útlit vikulega?
ÍNN og allar hinar sjónvarpsstöðvarnar sem hafa sprottið upp – þær spretta upp eins og gorkúlur en deyja jafn óðum. Allir verða stjörnur í viku og enda svo í Séð og Heyrt þar sem þær eru rakkaðar niður (í þau fáu skipti sem ég skoðaði Séð og Heyrt og var á Íslandi fannst mér það alltaf þannig...gæti verið alhæfing).
Séð og Heyrt – Hversu oft er hægt að skrifa „Sjáið kjólana og skartið“ án þess að það missi marks? Hvað ætli sumir einstaklingarnir hafi birst oft á forsíðum með mismunandi mökum? Séð og Heyrt er ekkert nýtt fyrirbæri (sbr. Se og Hør í Danmörku) en við erum 350.000 manns og spurning um að nota bara sömu blöðin á um 5 ára fresti? Það fer allt í hring á Íslandi hvort sem er.
Kaninn – er það ekki einhver útvarpsstöð?
Eurovision – íslenska þjóðin er við það að tapa vitinu öðru hvoru og við sem búum erlendis vitum ekki endilega alltaf af því fyrr en á Facebook. Sama með handbolta. Frábært samt þegar íslensku þjóðinni gengur vel í einhverju...Finnst bara leiðinlegt þegar maður getur ekki einu sinni montað sig af því við útlendinga að þekkja þátttekendur í Eurovision. Bretar hrista bara hausinn og skilja ekki baun.
Stelpurnar – einhver þáttur sem ég hef aldrei séð en maður þykir víst mjög lummó fyrir að hafa ekki séð einn einasta. Áramótaskaup – hef ekki séð Skaupið síðan 2001.
Spaugstofan – Really?
Smáralindin – var Kringlan ekki nóg fyrir okkur 350.000 Íslendinga?
Með allt á hreinu – ég skil bara ekki „astraltertugubb“ húmorinn...bara skil hann ekki. Var reyndar ekki erlendis þegar það fyrirbæri var í gangi, bara horfði ekki á myndina, ekki frekar en LaBamba, Grease eða Dirty Dancing fyrr en 20 árum eftir að allir hinir sáu myndirnar (sá Dirty Dancing um daginn). Búin að sjá Með allt á hreinu fyrir löngu síðan en skildi hana ekki. Kannski þarf eitthvað áfengismagn í blóðinu til? Hef átt langar samræður við fólk sem reynir að troða því í hausinn á mér hvers vegna Með allt á hreinu sé frábær og fyndin mynd en ég verð bara pirruð við að horfa á hana.
Kardimommubærinn – ég bjó erlendis þegar ég var lítil og hef aldrei séð Kardimommubæinn.
Dýrin í Hálsaskóginum – sama, ég bjó erlendis og þekki ekki Dýrin í Hálsaskóginum.
Hef ég misst af einhverjum mikilvægu? Spurning sko...hmmmm.....  Þetta gæti þó útskýrt hvers vegna ég er svona eins og ég er. Held samt ekki. Nema stundum hefur mér þótt leiðinlegt að hafa ekki séð Kardimommubæinn og Dýrin í Hálsaskóginum. Það er endalaust verið að vitna í þessi tvö leikrit og maður er stundum svolítið útundan, sérstaklega þegar verið er að baka piparkökur um jólin...þá finnst mér ég alveg úti að aka og söngla „Þegar piparkökur bakast...“ til að vera með (en er ferlega taugaveikluð samt því ég kann ekki textann og hætti því yfirleitt eftir fyrstu laglínuna). Ég veit nefnilega ekkert hver söguþráðurinn er, né hvers vegna er verið að syngja um piparkökur. Stundum finnst mér ég minna íslensk við þennan „skort“ minn en það verður að hafa það.
Ég er í essinu mínu þessa dagana að kyrja „Row, Row, Row Your Boat“, „Twinkle, Twinkle Little Star“ o.fl. vísur því þær man ég eftir úr æsku. Ég reyni þó að hafa jafnvægi á íslenskum og enskum sönglögum...svona upp á Afkvæmið að gera því mér finnst nauðsynlegt að kenna henni líka um krumma sem kroppar í höfuð og býður öðrum krummum í hlaðborð. Brútal og hressandi.
Ummæli
28. mar. 2011
bíddu nú við, er baggalútur ekki hljómsveit? ég hef alltaf haldið það. Ertu ekki að grínast "með allt á hreinu", besta íslenska mynd allra tíma, gæti horft á hana aftur og aftur. Annars held ég að þú hafir ekki misst af svo miklu, reyndar synd að hafa misst af kardimommubænum og Dýrunum í hálsaskógi, kannski færðu tækifæri til að sjá það seinna með börnunum þínum.
28. mar. 2011
Halló ;-) Gaman að sjá þessa samantekt - varðandi baksturinn, ég þekki engan sem syngur þetta við piparkökubakstur þannig að engar áhyggjur þar. Dýrin eru spiluð hér á hverju kvöldi og svæfa Goða stundum á fyrsta söng, stundum síðar, en þetta er náttúrulega KLASSÍK og góður boðskapur inn á milli. Baggalútur - bæði síða og sveit !!
Það mætti endalaust deila um það að missa af eða ekki - maður fær alltaf eitthvað annað í staðinn. Maður fer hins vegar að horfa allt öðruvísi á hlutina þegar maður er kominn með börn - þá fer allt í einu að skipta mann einhverju máli að kunna að syngja um Krumma sem kroppar í höfuð ofl.
En Spaugstofan .... mætti grafa þau handrit !!
Knús á ykkur öll.
29. mar. 2011
haha. Maður hefði nú haldið að þú kynnir grænmetissönginn hjá dýrunum í Hálsaskógi. Að mínu mati það eina sem þú hefur misst af (eftir þessa upptalningu) eru þessi frábæru leikrit. Hitt eru bara dægurflugur sem höfða til mismargra. Endilega kynntu þér grænmetissönginn, hann er vel þess virði. Góður boðskapur um hollann lífstíl. En annars bara takk fyrir mig og ég vona að þið hafið það gott.