Maður gerir ekki svona

Já ég er búin að sjá Fréttablaðið…með viðtalinu við Bakarann. Ég er búin að fá svo margar fyrirspurnir um þessa grein að ég sé mig tilneydda til að skrifa nokkur orð og svara þeim hér með. Fyrstu viðbrögð mín við lesturinn voru að brosa út í annað því ég hef svo oft hitta gosa sem þennan sem slá um sig stórum orðum þegar kemur að heilsutengdum málefnum. Ég hætti að borða sælgæti og bakarísvörur 12 ára sjáið til. Það er því óneitanlega margar glósur sem ég hef fengið á mig í gegnum tíðina. Það kemur mér ekkert á óvart lengur í þessum efnum. En ég hef sjálfstraust hvað minn lífsstíl varðar og er eins örugg þar eins og sá sem er dökkur á hörund veit að hann er dökkur, en ekki ljós.

Það sem fékk munnvikið til að detta aftur niður er að ég hugsaði til allra þeirra sem eru ekki eins vissir og ég, allra þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í hollustu. Fyrir ringlaðan, of þungan einstakling (sem vill jú helst borða sælgæti) er svona grein álíka og fyrir þann sem er að læra að keyra bíl, fengi upplýsingar um að það væri betra að keyra upp einstefnugötuna, það væri ekkert svo slæmt. Einstaklingurinn ruglaði myndi fyrst vera vantrúa (það var búið að segja honum annað) en fyrst að landsþekkti ökukennarinn segir þetta og fjölmiðillinn birtir orð hans, hlýtur þetta að vera satt? Er það ekki? Það er líka mun fljótlegra að keyra upp einstefnugötuna, hún styttir manni leið og svona.

Hvað myndi gerast ef stærsti kúabóndi landsins tæki upp á því að segja í viðtali að grænmeti væri í raun ekki betra en kjöt og við gætum alveg eins sleppt því að borða grænmetið? Grænmeti er af flestum sérfræðingum talið hollt (eins og spelti, agavesíróp og hrásykur eru taldar vera betri afurðir en það sem ömmur og afar okkar notuðu). Þeir sem eru í andstöðu við hollan lífsstíl hins vegar segja gjarnan að grænmeti sé ekkert hollara en kjöt því forfeður slátruðu jú vísundum og kanínum hægri, vinstri. Forfeður okkar hins vegar sátu ekki við tölvu eða sjónvarp hálfan sólarhringinn og bjuggu ekki í upphituðu húsnæði. Sykursýki var heldur ekki að drepa þá, né hjartasjúkdómar.

Samkvæmt Bakaranum er alveg eins gott að borða hvítan sykur eins og hrásykur og agavesíróp og spelti eru eiginlega eins og fótanuddtæki holla lífsstílsins. Tískubóla. Ég hef alltaf opinn huga gagnvart gagnrýni hvers konar. Gagnrýni gerir manni bara gott og fær mann til að víkka hugann. Hins vegar verður gagnrýnin að koma frá hlutlausum aðila, ekki þeim sem notar hvítan sykur og hvítt hveiti mest af öllum og myndi líklega tapa miklum hagnaði af því að nota dýrari vörur (sem hollar, lífrænt framleiddar vörur eru jú). Það er eins og að olíuauðjöfrar segðu að minni mengun væri nú ekki svo sniðug fyrir plánetuna, það væri alveg eins gott að menga bara áfram.

Ef maður les á milli línanna í viðtalinu (sem margir þeir sem eru tvístígandi í heilsumálum gera gjarnan til að finna afsakanir) má skilja það sem svo að kóladrykkur sé alveg jafn sniðugur og heimatilbúinn safi sem sættur er með agavesírópi. Að snúður með hvítu hveiti og glassúr sé álíka hollur og heimatilbúinn orkubiti með hrásykri. Að fransbrauð sé álíka hollt og heimatilbúið speltbrauð. Að það sem sé lífrænt framleitt skipti engu máli fyrir umhverfið eða jörðina til langs tíma (skítt með næringarefnin, hvað með framtíð barna okkar?).

Ég ætla ekki að fara út í að útlista hvers vegna hrátt agavesíróp (ekki hitað upp fyrir 47°C), rapadura hrásykur, spelti og lífrænn búskapur sé betra fyrir okkur. Mér finnst ég ekki þurfa þess. Internetið inniheldur milljónir greina varðandi þetta málefni og er jafn augljóst og að maður á ekki að keyra inn einstefnugötu (burtséð frá því hvort það er lögbrot eða ekki þá er það bara ekki góð hugmynd). Ef ég virkilega tryði ekki á það sem ég er að gera, væri ég ekki að halda úti þessum vef. Ég er frekar að skammast út í að þessir dálkasentimetrar hafi verið notaðir í að hvetja neytendur til þess að kaupa bakarísvörur (sem innihalda hvítt hveiti, hvítan sykur o.fl.). Neytendur eiga að gera upp hug sinn sjálfir auðvitað en að Bakarinn (sem margir líta upp til) hafi fengið svigrúm til að dreifa dulbúnum söluáróðri, finnst mér ekki í lagi. Ef þessi sami pési hefði látið þessi orð frá sér fara hér í Bretlandi hefði hann verið krossfestur af a.m.k. 30 samtökum hvers konar.

Maður gerir bara ekki svona.

P.s. ég er ekki að birta þennan pistil til að vekja upp einhverjar hatrammar umræður um hvað er hollt vs. ekki hollt, ég er einungis að svara fyrirspurnum sem ég hef fengið varðandi þetta málefni.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Björg
23. mar. 2011

Mjög góður pistill hjá þér, vona að sem flestir lesi hann.
Kv,
Björg

gudrunh
23. mar. 2011

Holl og góð lesning! Áfram Sigrún!

Barbietec
23. mar. 2011

Bíddu nú við .. nú er ég forvitin.. missti af bakarapistlinum..

Hvaða dag kom það fram... get kíkt á netið og skoðað Fréttablaðið aftur í tímann..

Lísa Hjalt
23. mar. 2011

Frábær pistill hjá þér.

Mikið afskaplega væri gaman að sjá fjölmiðla stundum vinna heimavinnuna aðeins betur og spyrja gagnrýninna spurninga heldur en að leyfa fólki að komast upp með það að segja hvað sem er. Það er ekki eins og við sem erum hlynnt agave og slíkum vörum séum að biðja fólk um að stinga röri í agaveflöskuna og borða upp úr hrásykurspokanum með skeið!

Flottur pistill!

Hrundski
23. mar. 2011

Hei mig langar að lesa það sem bakaradrengurinn segir hvar finn ég þetta?
Flott grein hjá þér Sigrún :)

Sigrún H.
23. mar. 2011

En hvað með niðurstöðu Guðrúnar Adolfsdóttur matvælafræðings sem vísað er í neðst í greininni í Fréttablaðinu? Að ekki sé betra að nota t.d. agavesíróp, hrásykur eða hunang í stað sykurs? Þ.e. út frá almennri efna- og lífeðlisfræðiþekkingu.

Er sjálf að velta mikið fyrir mér hollt vs. ekki hollt og er orðin hálf ringluð á umræðunni. En hef stuðst við margar af uppskriftum á þessari síðu sem eru mjög góðar. Hef sjálft reyna að fylgja því að allt/flest sé gott í hófi :)

sigrun
23. mar. 2011

Ég treysti líkama mínum best í að ákveða hvað er gott fyrir hann og hvað ekki og hef gert síðan ég var 12 ára. Ég hugsa að ég yrði alvarlega veik af því að borða hvítan sykur en mér líður vel af því sem ég borða í dag. Ég veit því að það er það rétta fyrir mig og ég veit að svo á við um ansi marga. Svo er líka ágætt að horfa til USA&;og sjá hvað hvíti sykurinn hefur gert þar á bæ.

Jobba
23. mar. 2011

Takk fyrir frábæran vef : )
Varðandi þennan pistil þá hef ég undanfarið verið að velta fyrir mér hvort speltið sé mikið hollara en hveiti. Ég keypti spelt brauð og það voru 240 kal í tveim brauðsneiðum á móti sirka 180 í heilhveitibrauði. Ég vann með bakara og hafði hann engann ávinning af því að tala með hveiti þar sem hann vann ekki lengur í bakaríi en hann vildi meina að speltið væri ekki hollara. Mig langar til að spyrja þig hvers vegna á speltið að vera hollara ?

sigrun
23. mar. 2011

Sæl Jobba

Kíktu á þetta svar: http://www.cafesigrun.com/spurtogsvarad#hva-er-spelti-er-a-ekki-a-sama-o...

Og hitaeiningafjöldinn segir ekki allt varðandi hollustu. Hvítt brauð er næringarsnauðara en speltbrauð sem dæmi og inniheldur færri hitaeiningar en það eru líka 'tómar hitaeiningar' og meiri sykur (en ég veit auðvitað ekki hvernig brauð var um að ræða svo ég get ekki alveg sagt til um það hvar munurinn lá...meiri fita notuð í speltbrauðið? Meira af fræjum?).

Sigrún H.
23. mar. 2011

Það er líklega kjarninn í þessu, að finna það sem virkar fyrir sinn líkama og hvað þér líður vel af. Hægt að deila endalaust um hvað er talið hollt og ekki hollt.

Jobba
23. mar. 2011

Takk fyrir upplýsingarnar Sigrún :)
Mun heldur velja spelt en hveiti í framtíðinni.

ingibjorgd
23. mar. 2011

Mjög hressandi lesning :) Agave sírópið, akasíu hunangið, speltið, vínsteinslyftiduftið og allt fallega góssið mitt situr sem fastast í búrskápnum mínum þrátt fyrir þetta lummó blaðaviðtal. Það er dásamleg tilfinning að opna búrskápinn og sjá ekkert nema holl og falleg hráefni :)

Hörður Jóhannsson
24. mar. 2011

Lofræðan um agave sýróp er mesta blekking heilsugreirans.

http://onlinehealthnews.org/2010/03/beware-of-the-agave-nectar-health-fo...

Hvað með hátt hlutfall frútósa ALLT AÐ 90%
http://lowfructose.info/

sigrun
24. mar. 2011

Það er allur sykur 'vondur' hvernig sem á það er litið...bara misvondur. Ég nota agavesíróp því það hefur góð áhrif á blóðsykurinn minn þar sem hann fer hægast út í blóðið af þeirri sætu sem í boði er.&;

Að lokum skal gæta að því að agavesíróp er EKKI það sama og agavesíróp. Hreint agavesíróp sem ekki er hitað upp fyrir 47°C er allt annað en ódýrt agavesíróp sem er selt sem hreint (en er yfirlitt með viðbættu maíssírópi (umbreyttu) eða aukaefnum). Í ódýrari gerðum agave er búið að bæta ýmsu við en í agavesírópi þar sem einungis er búið að tappa af kaktusi er ekki búið að efnabreyta afurðina.

Hrein afurð, unnin úr kaktusi er ekki sambærileg við hvítan sykur gjörsneyddan næringarefnum en það er mín persónulega skoðun og í góðu lagi ef fólk er ekki sammála. Það er heldur ekki punktur þessarar færslu hér að ofan heldur það að sá sem er ekki óháður fái að fjalla frjálst um hvað er gott og hvað ekki, sér í hag.

HuldaJons
24. mar. 2011

Eg vel sjalf ad sleppa sykri i flestum tilfellum EN...sama hvort madur er ad lofsyngja hvitan sykur eda avage syrop tha er alltaf gott ad geta vitnad i rannsoknir en ekki "mer lidur svo vel af thvi".

Væri fint ef thu gætir linkad a einhverjar rannsoknir fyrir tha sem eru ad byrja i heilsunni og ekki nogu duglegir ad gugla :)

sigrun
24. mar. 2011

Fyrir mér er þetta kristaltært. Ég skil ekki hvers vegna fólk ætti að borða hvítan sykur sem er gjörsneyddur næringarefnum, hefur verið hreinsaður með efnum (og beinum af dýrum) og jafnvel litaður frekar en agavesíróp sem kemur beint af plöntunni. Ég veit ekki alveg hvað fólki finnst flókið í þessum efnum. Ég hef ekki borðað hvítan sykur síðan ég var 12 ára og yrði líklega veik af honum ef ég neytti í dag. Mér líður hins vegar vel af agavesírópi og öðrum sambærilegum sætugjöfum. Þetta er engin tilbúin afurð úr tilraunastofu, þetta er afurð af plöntu (töppuð beint af plöntunni eins og hlynsíróp).

Það er hægt að finna jafn margar greinar og rannsóknir með og á móti agavesírópi (fer allt eftir því hvernig þú slærð leitarorð inn í Google) en fáar greinar með hvítum sykri svo fólk verður að gera upp við sig hvaða stefnu það vill taka í þessum efnum. Ég veit mína stefnu og hún er skýr, ef fólk vill fylgja annarri stefnu er það hið besta mál en er ekki endilega til umræðu hér. Það að agavesíróp er náttúruleg afurð (þegar meðhöndlað hrátt eins og í hráfæði), fer hægt inn í blóðið og veldur ekki sykursveiflum er feykinóg fyrir mig. Það eru hundruð rannsókna á vefnum sem gefa þessar niðurstöður en engin sambærileg rannsókn gefur sömu niðurstöðu fyrir hvítan sykur...svo þetta eru engin geimvísindi.

Lísa
26. mar. 2011

Hæhæ, ég er mikill aðdáandi síðunnar og ég var að lesa kommentin hér að ofan... að mínu mati finnst mér það eiginlega bara liggja í augum uppi að við sem partur af lífríkinu eigum að reyna að neyta matar sem er sem náttúrulegastur, þ.e. ekki stútfullur af gervi- og rotvarnarefnum. Ég er þeirrar skoðunar að maður ætti alltaf að reyna að hlusta á líkama sinn frekar en greinar og skoðanir og mér finnst aðdáunarvert hjá Sigrúnu að hafa gert nákvæmlega það. Þetta er allt spurning um að láta sér líða vel :)

Jobba
26. mar. 2011

Ég er svo sammála Lísu, maður á að borða eins náttúrulegan mat og hægt er. En maður hefur verið að velta fyrir sér þessum "nýju" vörum eins og spelt og agave, að reyna að leita sér af fróðleik, og hvort það gæti nokkuð verið að einhverjir sjái hag sinn í að mæla með þeim vörum.
Ég á eina 10 mánaða gamla snúllu og í sex mánaða skoðun mæla hjúkrunarfræðingar með þessari síðu. Það hlýtur að segja ansi mikið um hollustu uppskriftanna :)

Anna Stína
04. apr. 2011

Hæ hó !! Fyndið að kalla hann gosa ;-)

Ásta
03. feb. 2012

Það er reyndar ekki hvítur sykur sem er verstur hvað varðar offitu í BNA, heldur frúktósi, sem er viðbættur í nánast öllum sköpuðum hlutum sem keyptur er úti í búð (eða á skyndibitastað) - hvort sem það er ávaxtasafi, brauð eða hvað sem er. Líkaminn getur ekki nýtt sér frúktósa - aðeins lifrin getur brotið hann niður og skapar í leiðinni ýmis vandamál.

Það eru engan veginn meðmæli með hvítum sykri, en frúktósi þó sýnu verri. Frúktósa er að finna í ávöxtum, en sé þeirra neytt í eðlilegu hófi (og sneitt fram hjá viðbættum frúktósa í annarri matvöru) kemur það ekki að sök og ekki má missa af öllum þeim öðrum næringarefnum sem ávextirnir gefa. Að bæta frúktósa í annan mat, sem maður leggur sig fram við að hafa sem hollastan og hreinastan, þykir mér mjög skrítið.

Agavesýróp er 50-90% frúktósi. Ég vel frekar sætuefni sem allur líkaminn getur notað - heilinn og allar frumur sem mynda öll önnur líffæri, en velji auðvitað hver fyrir sig. Bara mikilvægt að það val sé upplýst.

Ásta
03. feb. 2012

Er annars ótrúlega mikill aðdáandi þessarar síðu - keep it up!