Stundum langar mig svo......

Ég les og skoða mörg matarblogg reglulega. Bæði til að fá hugmyndir og svo eru sum æði falleg og vönduð og maður dáist að myndum og uppskriftum og jafnvel er textinn oft skemmtilega skrifaður. Stundum fæ ég djúpa minnimáttarkennd vegna þess sem ég sé. Yfirleitt er ég þá að horfa á fagurblátt krem á köku eða eiturgræna frostpinna eða fjólubláar skreytingar með marzipani. Ég verð líka dálítið öfundssjúk því það er svo auðvelt að gera fallegar kökur með óhollu hráefni, það er svo, svo auðvelt. Það er hægt að taka SVO fallegar myndir af því sem er óhollt! Stundum, bara stundum, er svoooo freistandi að hugsa um að nota matarlit til að breyta litum t.d. í kökukremi. Æpandi fjólublár, gervilegur litur er oft mun fallegri en sveitó, heimagerður litur úr rauðrófu eða jarðarberjum sem ég nota alltaf. Svo langar mig svo oft að að búa til fallegt blátt krem á köku en það er meira en að segja það með bláberjum og von í hjarta. Fyrir myndlistarmenntaða manneskju er þetta svolítið eins og að mega ekki mála nema með sauðalitum. En ég myndi aldrei gera neitt af ofangreindu, aldrei í lífinu, en stundum getur maður látið hugann flakka og það er bara gaman. Hér er listi yfir það sem ég hugsa stundum að mig langi til að gera (en myndi aldrei, aldrei gera):

  • Stundum langar mig að nota smjör svo ég geti gert hrikalega flott smjörkrem sem helst stíft og fallegt.
  • Stundum langar mig að nota marzipan svo ég geti gert flottar fígúrur og alls kyns kökuhjúpa og útskurði í kökur sem helst eins jafnvel í marga mánuði.
  • Stundum langar mig að nota flórsykur svo ég geti sáldrað fallegu hvítu lagi af sykri yfir kökur, það getur komið svo fallega út.
  • Stundum langar mig að nota æpandi matarliti svo ég geti gert æpandi falleg krem á kökur (t.d. neongrænan, túrkísbláan, eldrauðan, sterkgulan o.fl.).
  • Stundum langar mig að nota imbasamsetninguna: rjóma, sykur, hvítt hveiti og smjör svo að ég geti gert köku beint eftir uppskrift. Það er stundum svo pirrandi (og dýrt) að þurfa að gera 5-6 tilraunir með hollu hráefni áður en eitthvað heppnast.
  • Stundum langar mig að nota fallega litann brjóstsykur og brjóta hann í mola til að skreyta kökur.
  • Stundum langar mig að nota lakkrísreimar til að teikna alls kyns mynstur á kökur.
  • Stundum langar mig til að nota perlusykur í öllum mögulegum litum og t.d. langar mig stundum til að nota silfraðar kúlur á hvítt og ljósblátt marzipan. Ég hef séð myndir af svoleiðis sem voru bara svo fallegar!
  • Stundum langar mig SVO mikið að búa til jólalegar kökur með grænum, rauðum litum skreyttum gylltum kúlum.

En alveg róleg, þetta er bara fantasía og ég fer ekki að breyta út af vananum. Það að elda og baka úr hollu hráefni krefst þess bara að hugmyndaflugið sé í lagi og að maður sé óhræddur við að gera tilraunir og að þær mistakist. Sbr. að nota kakó, cashewhnetur eða jafnvel avocado í staðinn fyrir súkkulaðismjörkrem, að nota turmeric og rauðrófur í staðinn fyrir gulan og bleikan matarlit. Svo þarf að gera fjölda tilrauna þegar maður notar ekki rjóma, hvítt hveiti, sykur og smjör því það að baka úr hollara hráefni er ekki alltaf leikur einn.

Það er hins vegar þess virði að vera svolítið öðruvísi og furðulegur. Það gefur lífinu lit.....bara ekki endilega æpandi sterkan lit!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lísa Hjalt
14. mar. 2011

Það á að vara mann við svona póstum! haha Mér var orðið flökurt í atriði 4 eða 5 en ég skil hvað þú ert að fara ;-) Sá einmitt mynd af flottustu köku í heimi áðan og hugsaði með mér að þetta yrði aldrei möguleiki með mínu hráefni, aldrei (já, já, alveg róleg, auðvitað sendi ég þér myndina á eftir).

Það getur samt verið erfitt þegar börn eru farin að hafa vit (á kökum) að neita þeim um svona. Ég er þá að tala um afmæliskökur. Um daginn var ég t.d. að skoða ónefnda heimasíðu sem er þekkt fyrir akkúrat svona kökur. Stelpan mín sem er 5 ára í næsta mánuði, sá þessar kökumyndir og var alveg "vváááá mig langar í svona Barbapabbaköku þegar ég á afmæli!" Svo fara börnin manns í afmæli þar sem eru svona kökur á boðstólum og þá er voða erfitt að neita sínu barni um svona óhollustuköku þegar það á afmæli. Þau eru auðvitað að spá í lúkkinu, en ekki bragðinu. Ég er samt ekki að segja að það verði svona sykurmassa-hjartaáfalls-kaka í afmælinu hjá dóttur minni, bara að benda á að það getur verið erfitt að vera jafn "ströng" með allt svona þegar börnin fara að fá meira vit (hvað aðrir krakkar fá t.d.).
Svo fyrir utan það þá er maturinn í leikskólanum ekkert til að hrópa húrra fyrir (sem mér finnst svo leiðinlegt, en hvað getur maður gert?). Um daginn var t.d. hvítt pasta, pastasósa og brauðteningar í hádegismatinn. Pældu í því! Við erum að tala um 0% næringu eða eitthvað álíka. Versta er að stelpan mín er farin að komast á bragið með þessa óhollustu. Finnst hollustufæðið heima hjá sér ekki jafn spennandi og áður...

Vá langt komment. Ég hefði kannski bara átt að senda þér meil, haha :-)

sigrun
20. mar. 2011

Þetta er alveg hárrétt hjá þér Jóhanna. Ég held að það besta í stöðunni sé að gera eins vel og maður getur sem foreldri og að lokum þá taka börnin meðvitaða ákvörðun sjálf um hvaða 'línu' þau vilja fylgja í þessum málum. Það eina sem þú getur gert er að vera staðföst í að vera með hollustu þó svo að þau fúlsi við henni. Þú ert þeim þá allavega góð fyrirmynd og það er mikilvægt.

Ein saga svona til hugreystingar er að ég á vinkonu sem á 3 börn (það elsta 12 ára) og þau eru farin að fúlsa við sykurbombum (í regnbogans litum) sem þeim þótti áður góðar. Mamman bakar bara hollar kökur og börnin eru farin að kalla eftir slíku. Svo það er von :)

Ahh gott að vita :-)