Ugandísk innkaup

Ég er búin að endurheimta eiginmanninn (og þar með tæknimann CafeSigrun). Ég var auðvitað glaðari með að fá eiginmanninn heldur en tæknimanninn en þar sem það voru hlutir sem fóru aflaga á meðan hann var í burtu þá var gott að fá þá báða heim.

Síðasta vika var ansi strembin þar sem ég var ein heima með veikt, tæplega 18 mánaða gamalt barn (og komin 7 mánuði á leið með það næsta). Veik 18 mánaða gömul börn hafa ekki vit á því að vera lasin eða vera kyrr og eru bara pirruð og úrill. Að vera einn heima, í litlu rými og komast í mesta lagi út með ruslið í 4 daga er nóg til að gera mann vitstola. Eða ég hef allavega ekki þolinmæðina sem þarf (aftur..hvernig fara einstæðar mæður með lítinn eða engan stuðning að?). Það er ekki einu sinni hægt að horfa á DVD diska eða liggja undir sæng og kúra eða baka. Ó nei. Afkvæmið hefur um 5 mínútna þolinmæði í teiknimyndum (hún sér aldrei sjónvarp og veit ekkert hvað það er) en hefur öllu meiri þolinmæði við að skoða myndbönd af sjálfri sér í tölvunni, aftur og aftur, og aftur og aftur og aftur og aftur. Ég verð líklega að bíða þangað til hún giftir sig þangað til ég get horft á þessi myndbönd aftur. Um leið og Jóhannes kom heim var honum rutt upp við vegg og honum gerðir ákveðnir skilmálar ljósir...Öll vinna sem hann hefur lagt í CafeSigrun á síðustu árum og öll vinna sem ég skuldaði (í smákökum og öðrum bakstri) er nú greidd til baka, með vöxtum. Hann samþykkti og það er hér með skráð og þið eruð vitni. Mikið var nú gott að fá hann heim samt. Afkvæmið var líka ánægt að sjá pabba sinn.

Ferðin gekk annars vel hjá Jóhannesi og hann komst á tindinn. Hann og Gísli, einn af ferðafélögunum eru líklega fyrstu Íslendingarnir sem það gera sem er auðvitað voðalega gaman. Leiðin var erfið, mun erfiðari en Kilimanjaro eða Mt. Kenya en hann komst þetta karlinn (enda fékk hann heimatilbúið göngunasl með sér). Hann gerði svo ansi góð innkaup í Uganda fyrir eiginkonuna. Hann keypti m.a. 325 grömm af ilmandi og mjúkri vanillu (heilli vanillu). Þrjúhundruðtuttuguogfimmgrömm af vanillu er mikið magn enda ilmar húsið. Hann keypti líka „Tastes of Africa“, frábæra uppskriftabók (og það er ekki auðvelt að kaupa afríska uppskriftabók handa mér því ég á þær flestar). Hann keypti líka skál og fallegar diskamottur og dúk og ekki nóg með það þá keypti hann líka krukku af hunangi úr lífrænni ræktun sem er það besta sem ég hef smakkað. Það er stórhættulega gott. Það er ljóst að ég þarf að gera dálítið af afrískum mat á næstunni!!!

Verst bara hvað er freistandi að skella sér út til Uganda (eða önnur lönd austur Afríku sem ég hef heimsótt) þegar maður sér svona fína gripi, handfjatlar þá og finnur kunnuglega lyktina af basti, tágum, bananalaufum, vanillu og mold. Ég fæ fiðring í tærnar og langar að komast í hitann og gróðurinn og góða matinn. Það verður síðar meir og ég hlakka til.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Melkorka
07. mar. 2011

Elsku Sigrún, takk fyrir hreinskilnina. Ég er viss um að margar mæður skilja svo vel hvað þú hefur farið í gegnum undanfarna daga. En fáar tala um það. Halda e.t.v. að allar aðrar mæður séu óþrjótandi uppspretta allrar þolinmæði heimsins. Ég skil þetta svo vel. Núna ertu búin að standa þig þvílíkt vel. Eftir að ég varð móðir vissi ég að ég hlít bara að geta allt. Og til hamingju með litla bumbubúann :) Ég var mjög þreytt þegar ég var ófrísk af yngri stráknum mínum. Vona að þér heilsist vel og þú fáir extra dekur og extra tíma fyrir þig á næstunni.

barbietec
08. mar. 2011

víííí! Vissi ekki að þú værir bomm bomm bomm :) ÆÐI!!!! Knúsist þig bóndinn frá mér til hamingju :)

úff skil þig að þykja erfitt að vera heima með veikt barn!, mér finnst erfitt að vera heima um helgar með barn hahahahhaha :)

bið að heilsa öllum!

Lísa Hjalt
08. mar. 2011

Þú stóðst þig vel á meðan Jóhannes var í burtu og áttir svo skilið að fá allar þessar gjafir. Og auðvitað er skuldin greidd! haha

LaufeyB
10. mar. 2011

Úff já, það er meira en að segja það að vera ein með lítið kríli. Ég var ein í viku um daginn með þriggja mánaða kveisukútinn minn og ég hef aldrei verið eins fegin að endurheimta kærastann ;) Til lukku með bumbukrílið :)

Innilega til hamingju með bumbubúann, bæði tvö :-)