Grasekkjan í þorpinu

Nú er Jóhannes kominn í fyrstu búðir (Nyabitaba Hut) og allt gengur vel þrátt fyrir smávegis magakveisu. Hann var orðinn slappur í maganum áður en hann fór og hæðin + afrískur matur sem er ekki alltaf sérlega „stemmandi” gerir það að verkum að maginn verður óhress. Það er ekkert sem hann hristir ekki af sér og við erum bara þakklát fyrir að hann fékk ekki flensuna sem ég fékk og lá í heila viku af (er enn hóstandi). Hann hefur áður gengið á fjall (Mt. Kenya) fárveikur af flensu og var ekki hress með að þurfa jafnvel að endurtaka þann leik. Það varð þó ekki sem betur fer. Myndir af honum af Mt. Kenya eru þannig að hann stendur á toppinum með frosið bros og er eins og undanrenna í framan.

Ég er búin að hóta honum að læsa hann úti ef hann tekur ekki myndir í þúsundatali (með 14 GB minniskort ætti hann að geta tekið nokkrar) og ég bað sérstaklega um að HANN væri með á myndunum líka. Hann gleymir því nefnilega.

Ég er að búast við Jóhannesi greyinu þvengmjóum til baka því hann léttist um 7 kg þegar hann fór upp Kilimanjaro og þá var hann ekki lasinn eða með í maganum. Ég veit að eftir ferðalög hefur maður sérstaka þörf fyrir ákveðinn mat. Ég þekki það sjálf eftir ótal ferðalög um Afríku. Þó að maturinn þar sé alltaf góður er sumt sem mann bara langar í við heimkomu. Yfirleitt er ég farin að þrá brakandi fersk epli og brakandi fersk salatblöð. Stundum er það holl kaka eða smoothie sem mann langar í og hugsar stanslaust um og þegar Jóhannes fór upp Kilimanjaro þá var ís það EINA sem hann hugsaði um, í hverju skrefi. Hann fékk ís algjörlega á heilann. Enda keypti hann ísgerðarvél um leið og hann kom aftur til London og ég gerði auðvitað ís í tonnatali. Er að vona að hann langi t.d. í eitthvað hnetumauk því mig vantar matvinnsluvél (ég tími ekki að nota Vitamixinn minn í neitt sem inniheldur lauk ha ha).

Áður en Jóhannes fór sá hann til þess að mér myndi (vonandi) ekki leiðast á meðan hann væri í burtu. Hann var búinn að panta handa mér nokkrar uppskriftabækur, kaupa súkkulaði í heilsubúðinni, áskrift að Delicious (uppáhalds blaðinu mínu) og margt fleira. Það þýðir að ég fæ matarklámblað inn um lúguna hvern mánuð. Ég er ekki lítið að hlakka til. Þrátt fyrir að hafa þessa gleðiviðbót þýðir það ekki að ég sakni ekki Jóhannesar. Dagurinn er bara ekki samur án hans, sérstaklega ekki á kvöldin þegar við erum vön að fara yfir daginn og spjalla saman yfir kvöldmatnum. Afkvæmið spyr líka mikið um pabba sinn og það er erfitt að útskýra fyrir næstum því 18 mánaða gömlu barni að pabbi sé að labba á fjall í Afríku. Það eina sem hún skilur er „pabbi labba” sem meikar ekki mikinn sens fyrir svona lítinn koll. Þrátt fyrir dýrahljóðin í mér og teiknað fjall (sem gera hana bara meira ringlaða). Hún stendur sig annars vel og við mæðgur höfum það eins gott og við getum haft það svona miðað við. Ég hugsa bara á hverjum einasta degi sem ég er ein að ég er a) ekki einstæð móðir, b) ekki kona sjómanns sem fer í langa veiðitúra um ýg höf og c) ekki kona hermanns sem er í burtu í jafnvel hálft ár og kemur kannski ekki til baka. Veit ekki hvernig þessar fjölskyldur fara að.

Að lokum minni ég á áheitasíðuna hans Jóhannesar. Hann er búinn að safna um 700 dölum sem er bara ansi flott. Hann langar að safna 1000 dölum og ef einhver á smáaur aflögu þá væri nú ekki ónýtt að gleðja hann. Ég mun senda honum sms ef eitthvað bætist við.&;Kærar þakkir þið sem eruð nú þegar búin að styrkja hann (þ.e. górillurnar)!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

aElísabet
25. feb. 2011

yndisleg færsla. Skil vel að það sé skrítið að hafa Joe ekki heima og enn skrítnara að vera ekki með í einum af hundrað draumaferðunum ykkar. Þið eruð æði....

Melkorka
27. feb. 2011

Skemmtileg skrif, skil vel að þér þyki erfitt að hafa manninn ekki heima, skil jafn illa og þú hvernig einstæðar mæður, konur sjómanna og hermanna fara að þessu. Það góða við þetta tímabundna ástand er, eins og með bragðskynið, að þegar það kemur aftur er maður svo þakklátur og nýtur þess svo miklu betur.

Anna Stína
03. mar. 2011

Hæ hó - og alla leið fór hann ;-) Duglegur.
Hlakka til fyrir ykkar hönd að fá hann heim. Segi það sama og ég hef lesið hjá þér - skil ekki hvernig einstæðar mæður fara að. Ég er heima með stóðið mitt tvo eftirmiðdaga og kvöld í viku og finnst það bara alveg nóg. Þakka mikið fyrir að eiga Freyju mína (okkar) sem er óendanlega mikil hjálp í !!

Knús í kotið - þið mæðgur knúsist í bak og fyrir ;-)