Það sem bragð er að....

Ég er búin að liggja í flensuógeði í næstum því viku. Ég er búin að vera með hrikalegt kvef, hita, hálsbólgu, hósta, beinverki, höfuðverk og hreinlega bara allan pakkann. Kvefið er þannig að nefið stíflast alveg og það kemst ekkert loft inn eða út og maður þarf að sofa sitjandi með opinn munninn því annars kafnar maður bara (eða manni finnst maður vera að kafna). Svoleiðis er ég búin að vera í 6 daga. Þegar maður kyngir myndast lofttæmi í eyrnagöngunum og manni finnst maður vera að drukkna. Það er ógeðslegt (en ekkert lífshættulegt auðvitað). Það er ekki eins og ég sé langveik eða alvarlega veik, bara með flensu.

Það sem pirrar mig samt einna mest við að fá kvef er að ég missi allt bragðskyn. Ég hef ekki fundið bragð af mat í 6 heila daga. Ég er ekki að meina að ég finni lítið bragð eða skrýtið bragð. Ég finn EKKERT bragð og ekki heldur lykt. Ég finn áferð í munninum og heilinn segir mér t.d. að epli eigi að vera sætt en ég finn ekkert bragð. Ég missi alltaf bragðskynið ef ég fæ kvef en síðast man ég eftir því að ég hafi misst það svona lengi þegar ég var í fyrstu ferðinni minni til Kenya 2005. Mér er það mjög minnisstætt því við vorum eitt kvöldið á veitingahúsi í Nairobi og kokkarnir voru miður sín yfir því að ég gæti nánast ekkert borðað. Ég fann bara ekkert bragð og þegar svo er, verður maturinn ekki lystugur. Þetta er svipað því og að hlusta á tónlist án heyrnar eða skoða málverk án sjónar. Það er hægt að njóta bassatónanna af tónlistinni og þreifa eftir áferð í málverki en það vantar mikið í upplifunina.

Það er stórfurðuleg tilfinning að vera í algeru bragðleysi. Matur missir allan tilgang að öðru leyti en því að hann er næring. Fyrir manneskju sem lifir fyrir að búa til mat, gera tilraunir, smakka til og stússa í eldhúsinu er þetta ferlegt. Fyrir mig að vera bragðlaus er eins og fyrir flugmann eða listmálara að missa sjónina í viku, eða fyrir söngvara að missa röddina í viku, eða útvarpsmann að missa heyrnina í viku. Ég get ekki einu sinni sagt að maturinn bragðist eins og pappi því pappi hefur fullt af bragði svona miðað við bragð-leysið sem ég upplifi.

Það eina jákvæða við að missa bragðskynið 100% er að þegar það kemur loksins, kemur það til baka eins og sprengja og maður kann virkilega vel að meta þetta skynfæri sem maður gleymir svo oft. Maður finnur bragð af kryddum sem maður mundi ekki eftir og maður kann að meta matinn sinn enn betur. Appelsínur verða eins og dísætt sælgæti og ostar afhjúpa leynda og djúpa hnetutóna. Það er eins og maður losni við hellu úr eyranu og allt í einu uppgötvar maður að á hverjum einasta degi lætur maður eitthvað ofan í sig án þess að spá í bragðið sem slíkt.

Við fæðumst með mörg þúsund bragðlauka og stór hluti þeirra deyr smátt og smátt með aldrinum því við eyðileggjum bragðlaukana með hita, sterkum kryddum (reykingum auðvitað ef fólk reykir) o.fl. Lítil börn fúlsa oft við kryddum og grænmeti eins og t.d. spergilkáli en það er líklegt að þau finni bragð sem við finnum ekki, því þau hafa fleiri bragðlauka en við. Ég hef þetta alltaf hugfast ef Afkvæmið grettir sig yfir einhverju (gerist reyndar sjaldan því hún er matargat). Ef hún vill ekki eitthvað er MJÖG&;líklegt að henni finnist það raunverulega vont (þó okkur finnist það gott).

Mér finnst að við eigum að halda dag bragðlaukanna hátíðlegan, þeir eiga það skilið.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lísa Hjalt
21. feb. 2011

er einmitt að smjatta hérna á nýbökuðum gulrótarmuffins og það er náttúrlega algjörlega nauðsynlegt að finna bragð!

Góðan bata!

Guðrùn
21. feb. 2011

Það ættu kannski allir að missa þetta skynfæri í nokkra daga til að átta sig á hvað það er ì raun magnað, og mikilvægt.?
Góðan bata

santa
22. feb. 2011

Lyktar og bragðskynið mitt skaddaðist verulega,fyrir mörgum árum, eftir heilahristing sem ég fékk þegar ég var 19 ára. Ég fann annað hvort óbragð eða ekkert bragð af mat, á brauðið gat ég bara borðað gúrku en hún var samt of römm til að borða eintóma, græn epli gat ég borðað því þau eru súr. Ég fann "tannlæknalyktarbragð" af pulsum..getur ýmindað þér hvað ég fékk mér oft pulsu eftir þetta...gat ekki borðað neitt súkkulaði og ekki neitt sem innihélt súkkulaði Fann myglu lykt af öllum ilmvötnum og rakspírum,fann ekki sígarettulykt eða prumpulykt..sem ég saknaði svo sem ekki, hehehe. En svo fór ég til gamallar konu sem er Heilari og hún náði að laga þetta til muna, lyktar og bragðskynið mitt er ekki kannski allveg eins gott og það var en það er mjög nálægt því að vera eins...sem betur fer, það hefði verið vægast sagt ömurlegt að fara í gegnum lífið og finna annaðhvort óbragð eða ekkert bragð af mat. þannig að ég segji 3x húrra fyrir bragðlaukum og lyktarskyni!!!