Jóhannes prílar á fjöll í Uganda og safnar áheitum fyrir górillur í leiðinni

Ubumwe - Silfurbakur í Amohoro hópnum
Ubumwe - Silfurbakur í Amohoro hópnum

Nú er Jóhannes að fara á fjöll og í þetta skipti ætlar hann að príla á Rwenzori fjallgarðinn sem liggur við landamæri Congo, Rwanda og Uganda. Brjálæðislega spennandi ganga en í þetta skipti ætla ég að vera heima og hugsa um barn og bú. Ég ætlaði að fara til Kenya og vera hjá vinkonu okkar á meðan Jóhannes væri í fjallastússi en ákvað að vera heima því við erum búin að brölta mjög mikið eiginlega síðan við komum frá Kenya í mars 2010. Við höfum varla stoppað frá þeim tíma og ég nennti ekki að vera að pakka ofan í töskur eina ferðina enn, þó að mig hafi langað til Kenya til að hitta vini og fara kannski í safarí eða tvö. Það bíður bara betri tíma.

En Jóhannes ætlar að nýta tímann til góðs og safna áheitum fyrir fjallagórillurnar sem við sáum á ferð okkar í fjöllum Rwanda í febrúar 2008. Það var svo gjörsamlega ógleymanleg upplifun og algjörlega stórkostlegt að fylgjast með hópnum/fjölskyldunni athafna sig, horfa á silfurbakin borða sellerí og rymja (ekki mjög karlmannlegt að borða sellerí en górillur eru samt mjög stæltar), mæðurnar að annast ungviðið, litlu krílin að hoppa um, vera óþekk og stríða foreldrum og systkinum sínum. Við vorum í regnskóginum í Virunga fjöllunum í Rwanda, umlukin dýrahljóðum og stórbrotinni náttúru, mistri og dulúð, laufum og trjágreinum. Ekki má gleyma heldur erfiðri sögu landsins sem gerir upplifunina ekki síst áhrifameiri. Lyktin var fersk eftir rigningar en mettuð gróðri og við óðum í gegnum frumskóginn þar sem hermenn (úr rwandíska hernum) og leiðsögumenn hjuggu leið í átt að górillunum. Fylgst er nákvæmlega með ferðum górillanna, ekki síst öryggis þeirra vegna.

Sumum finnst górillur auðvitað ekki merkilegar en það er eitthvað við að fá tækifæri til að upplifa brot úr degi þeirra 17 einstaklinga af þeim 800 villtu fjallagórillum sem eftir eru í heiminum. Það er bara ansi stórt hlutfall. Pælið í því ef það væru bara 800 einstaklingar eftir í heiminum og þið fengjuð að skoða 17 þeirra. Ykkur myndi finnast það dálítið merkileg líka. Ef þið hafið einhvern tímann tækifæri til að fara og skoða górillur, mæli ég með því að þið gerið það. Til að stuðla að því að þið getið átt möguleika á því (þ.e. styrkja þessa frábæru starfsemi) mæli ég með því að þið skoðið áheitasíðuna hans Jóhannesar.

Myndina hérna fyrir ofan tók ég af silfurbaknum í Amohoro hópnum sem við sáum í febrúar 2008. Silfurbakurinn heitir Ubumwe&;og er auðþekktur af því að búið er að bíta aðeins af vinstra eyra hans (eftir slagsmál). Til gamans má geta að yfirleitt má þekkja górillur í sundur af mynstri nefs þeirra sem er eins og fingraför okkar, hver einstaklingur með sitt auðkennandi mynstur.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It