CafeSigrun - Besti vefurinn í flokkinum: Besta blogg/myndefni/efnistök 2010

Ég var að horfa á upptöku af verðlaunaafhendingu íslensku vefverðlaunanna áðan (kærar þakkir Einar Þór ef þú lest þetta). Það var magnað að sjá vefinn sinn á þessum risastóra skjá (ég er jú vön að sjá hann bara á tölvunni minni) og það var magnað að heyra umsögn dómnefndar líka. Mér þótti reglulega vænt um umsögnina. Það sem mér þótti samt skemmtilegast af öllu var að heyra dynjandi lófatakið þegar úrslitin voru kunngjörð. Þá roðnaði ég pínulítið en það var allt í lagi því enginn sá til. Mér finnst líka svo skrýtið að fólk klappi því ég verð alltaf jafn hissa þegar einhver þekkir vefinn minn. Ég hefði alveg getað ímyndað mér að úrslitin hefðu verið lesin upp og svo hefði ekkert heyrst í salnum nema hóst og ræskingar, svona hrikalega neyðarlegt dæmi og ég að deyja í sætinu mínu. Ég hefði aldrei búist við dúndrandi lófaklappi. Ég fæ líka verðlaunagrip sem getur verið stofustáss (svona næstum því eins og Óskarinn). Verst að við eigum enga arinhillu því allir sem vinna verðlaun og eru frægir geyma verðlaunagripina sína á arinhillu. Ég verð bara að hafa minn fyrir ofan eldhúsvaskinn, svona sem hvatningu.

Síðast vann ég verðlaun í Gæðingakeppni Gusts árið 1990 held ég (á hestbaki sem sagt fyrir þá sem ekki þekkja til). Ég varð í öðru sæti á góðum hesti sem ég fékk lánaðan. Það munaði litlu að ég ynni þá og auðvitað er miklu skemmtilegra að lenda í fyrsta sæti. Mér leiðist samt að keppa í einhverju nema ég eigi séns á að vinna. Mér leiðist að keppa einungis „til að taka þátt og hafa gaman” og dáist að fólki sem getur slíkt.

Ég hef unnið verðlaun í ljóðakeppni, smásögukeppni, myndlist, fótbolta, fimleikum og slatta í hestunum. Ég var í marki í fótbolta, hundleiddist og náði að verja eitt glæsilegt mark með því að setjast óvart á boltann og þar með vann liðið sem ég var að keppa með. Fimleikaverðlaunin voru „besti maður fimleikaskóla” eitt sumarið og ég var hrikalega stolt því ég lagði mikið á mig. Líklega hefur þó mesta vinnan farið í að vinna nýjustu verðlaunin þ.e. „Besta blogg/myndefni/efnistök 2010” því það er svo ótrúlega mikil vinna sem felst í því að halda úti svona vef, sérstaklega með fjölskyldu og í vinnu. Þetta er því góð hvatning fyrir okkur til að halda áfram. Ég segi okkur því án Jóhannesar væri auðvitað enginn vefur til (hann er jú sá sem límir allt saman með forritun). Bestu verðlaunin mín í gegnum árin eru samt fallegu ummælin sem fólk skilur eftir eða hrós-tölvupóstarnir sem ég fæ frá ókunnugu fólki. Það eru lang bestu og verðmætustu verðlaunin og þau sem mér þykir vænst um og eru mesta hvatningin.

Hér má lesa umsögn dómnefndar um vefinn:

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lísa Hjalt
05. feb. 2011

Dynjandi lófaklapp; umsögn dómnefndar ... þetta kallar bara fram gleði og gæsahúð. Þið Jóhannes áttuð þetta svo mikið skilið. Enn og aftur til hamingju!

Melkorka
05. feb. 2011

Til hamingju, þú og Jóhannes eigið þetta svo sannarlega skilið. Þú hefur gefið honum mikið af smákökum í gegnum árin. Kannski er nú komið tilefni til að gefa honum stórköku með þér.

Esther Þorsteinsdóttir
05. feb. 2011

Jibbbííí - Innilega til hamingju! Þið hjónin eruð algjörir snillingar. Vá hvað þið eigið þetta skilið. Risa hamingju knús e

sigrunsig
05. feb. 2011

Til hamingju með þetta. Bara flott
Er ekki hægt að kaupa hilluna í UK?

santa
05. feb. 2011

Flott hjá ykkur :) Til hamingju með verðlaunin

Ingibjörg H
06. feb. 2011

Þetta hefur kannski komið ykkur á óvart en ekki okkur hinum aðdáendum vefjarins ykkar. Til hamingju með verðlaunin, þau rötuðu í rétt hús og örugglega á rétta hillu. ;)

Hrönna
07. feb. 2011

Innilega til hamingju!! Þið eruð svo sannarlega búin að vinna fyrir þessu og eigið þetta meira en skilið, frábært :)

Þóranna
07. feb. 2011

Innilega til hamingju!! :) :)

Fríða María
09. feb. 2011

Elsku besta Sigrún mín, og líka Jóhannes auðvitað.. innilega til hamingju með þetta, og eins og fram hefur rækilega komið hér að ofan.. Þið eigið þetta svo sannarlega skilið!! Algjörir snillar.. næ vonandi að kíkja í heimsókn til Londres við fyrsta tækifæri :)
Knús og kremj, FM.

gudrune
16. feb. 2011

Innilega til hamingju, vefurinn ykkar er lìka hreint ùt sagt frábær ì alla staði...til hamingju.

Svava
16. feb. 2011

til lukku með þetta

Árný Ingveldur Brynjarsdóttir
24. feb. 2011

Innilega til hamingju :)
Átt þetta svo sannarlega skilið

Hefur veitt mér innblástur og aðstoðað mig í gegnum "ég veit ekki hvað ég á að elda í kvöld" kvöldin

takk fyrir mig enn og aftur

kv
Árný