Bloggið

Að baka með börnum er.......

......svo gefandi, börnin standa sitt hvoru megin við mann í svuntum og hræra í deiginu rjóð í kinnum og með krullur í hárinu, skríkjandi þegar mamma setur pínu deigklessu á nefið á þeim (heyrist í plötu ískra á fóninum)......

Ég á 19 mánaða og rúmlega þriggja ára. Ég segi það hreint út. Að baka með börnunum er erfitt. Mjög erfitt. Ég vissi ekki að börn væru með einbeittan brotavilja þegar kemur að spelti og sleifum. Eða að tilraunir yrðu gerðar á því hversu mikið af kókosolíunni kemst (í dropatali) í eggjabakka. Eða að börnum á þessum aldri myndi finnast fyndið að tromma í takt við Twinkle, Twinkle Little Star á hári hvers annars, með sleifum, með deigi á. Eða að ótrúlega spennandi sé að uppgötva hversu mikið af sesamfræjum kemst innan í samfelluna (og þar með talið ofan í bleiuna). Eða að baksturslögmál barna er að hella niður. Öllu. Þau eru sérfræðingar í aðdráttarafli jarðar. Þau prófa það við hvert tækifæri sem þau fá.

Nú er ég alin upp á þeim tíma sem Tommi og Jenni þóttu ekkert voðalegir og Lína Langsokkur þótti bara ansi sjálfstæð og sniðug stelpa. Eldhúsið var ekki staður fyrir krakka svona almennt og það sem fram fór í eldhúsinu, hefði alveg eins getað verið heilaskurðlækningar. Sem er kannski ástæðan fyrir því að ég kunni ekki að sjóða egg fyrr en um 25 ára. Og ég þurfti að kaupa mér sérstakan eggjasuðumæli til að setja í pottinn. Nú eru breyttir tímar og maður getur víst skaðað sjálfsmyndina og eitthvað meira ef maður lætur börnin ekki taka þátt í öllu í eldhúsinu. Svo þegar sonurinn varð 18 mánaða hætti ég að humma fram af mér hið óumflýjanlega þegar hann fór að draga stólinn að hlið stól systur sinnar, mjög ákveðinn í því að „hjappa, hjappa“ (hjálpa). Ég gat ekki lengur sagt honum að mamma væri bara að „skræla kartöflur“ þegar hann sá, augljóslega að stóra systir var með gómsætt carobdeig út að eyrum (og aftan á hnakka). Hann var ekki kátur (sjá mynd til útskýringar, hann er þessi vansæli í kjólnum).

Sonurinn ekki kátur með að fá ekki að baka

Aftur og aftur segi ég við sjálfa mig (þegar frústrasjón levelið er komið í hæstu hæðir) að börnin sjá heiminn öðruvísi en við. Þeirra EINA verkefni í heiminum er að rannsaka hann. Og læra um hann. Og gera tilraunir. Maður lærir t.d. ekkert um egg nema ef maður fær að handfjatla þau, brjóta þau og klína þeim í systkini eða foreldri (eða svo tel ég sjálfri mér trú um). Allt í þágu menntunar.  

Ég vil að það sé á hreinu að ég elska börnin mín alveg heilan helling. Myndi henda mér fyrir strætó og flóðhest (þeir eru hættulegri en ljón) án þess að hika sekúndubrot. En að baka með þeim? Það reynir á. Það reynir mikið á. Nú er ég búin að baka með þeim helling og hér eru nokkur ráð til að fækka gráu hárunum aðeins:

Ef barnið er bara eitt, er þetta ekki mikið mál þannig séð, það er eitt á móti einu foreldri (eða fleirum). Ef þið eruð með 2 börn eða fleiri yngri en 4ra ára og þið, mömmurnar eða pabbarnir eruð ein heima og í baksturshugleiðingum......? Við skulum bara segja að það eru til betri hugmyndir.

Yfirleitt byrjar það þó svona, voða pent (sjá mynd):

Allt byrjar þetta voða pent

 

En það endar yfirleitt svona:

Allt á rúi og stúi

Ef þið eruð nægilega kjörkuð til að ráðist í verkefnið:

Verið búin að undirbúa allt hráefni ÁÐUR EN þið farið að baka. Ekki hlaupa til að ná í kókosolíuna í miðjum bakstri....það er akkúrat þá, þegar þið snúið ykkur við, sem að börnin ákveða að búa til „snjókomu“ í eldhúsinu. Og EKKI saxa súkkulaði/hnetur o.s.frv. með 30 fingur sem ÆTLA að borða það sem saxað er. Þeim er slétt sama um að missa fingur, skammtímagróðinn er carob eða rúsínur og þau hafa enga þolinmæði til að bíða.

Hafið hráefnið ALLT úr seilingarfjarlægð. Á meðan þið hafið til vanilludropana (svæði A), þurfið þið að passa svæði B, C og D (munið að þið eruð að díla við 4 hendur og 20 fingur. Fótboltaleikur telur cirka 22 fótboltamenn/konur er það ekki? Hafið hugfast að þið eruð á miðjum vellinum).

Börn (sérstaklega þau sem eru nær 18 mánaða) hafa athyglisbrest á háu stigi. Þau hafa um 2ja mínútna úthald. Ekki reyna neitt eins og „hrærðu nú elskan í um 3 mínútur þangað til deigið nær að blandast saman“. Það eina sem 3ja ára barn heyrir er „hræra“ og á einhvern ótrúlegan hátt heyrir það líka „út um allt“ og „út á gólf“. Það yngra kýs auðvitað að sía allt annað út en „út á gólf“.

Setjið á þau litlar svuntur. Þær halda fötum hreinum og eru gott handfang þegar maður þarf að kippa börnunum frá t.d. logandi heitri bökunarplötu og sveifla þeim eins og ferðatöskum á færibandi í burtu frá hættunni.

EKKI og ég endurtek EKKI setja neitt á eldavélarhellurnar þegar þið bakið með börnum. Aldrei eru takkar meira spennandi (og t.d. skerbretti og skálar úr plasti í meiri hættu) en þegar 18 mánaða gamalt barn missir þolinmæðina yfir að hræra „fallega“ í speltinu (7.6 sekúndur). Ég tala af reynslu (gott að eiga súkkulaðibita upp í skáp fyrir svona móment-fyrir andlega heilsu foreldris).

Börn, sérstaklega þessi yngri hafa ekki vit á bakstri. Þau eru alveg jafn ánægð með að sulla svolítið (ég vísa aftur í þráhyggju gagnvart aðdráttaraflinu). Fyllið vanilludropaflösku af vatni og leyfið barninu að hella í stóra og stöðuga skál. Réttið því svo skeið (ég get nokkurn veginn lofað 2ja mínútna friði). Ef barnið er nær þriggja ára, segið þeim þá að þetta sé mjög mikilvægt fyrir það sem bakað er. Það er gulltryggt að skálin veltur en það er þó betra en að hún velti með rándýra kókosolíu.

Stúderið takta markmanna....sömu vöðvar og hreyfingar eru notaðir við að halda börnum, standandi upp á stólum, frá slysum.

Umfram allt, smakkið af sleifunum í lokin, finnið dásamlegu lyktina sem kemur við baksturinn, talið um allt sem þið eruð að gera (þó að yngra barnið sé meira upptekið af því að troða valhnetum í eyrun og/eða nefið á sér) og smakkið auðvitað í lokin og lýsið lofi yfir stórkostlegum árangri (þó meirihluti muffinsanna sé ekki ofan í holunum). Stoltið á ekki eftir að leyna sér í svip barnanna og það gerir allt ofantalið þess virði að reyna.

Með sigti á höfðinu

Sonurinn að baka

Dóttirin að hræra í speltinu
 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Hvað gerir okkur of þung? Er hitaeining bara hitaeining?

Ég hitti að máli prófessorinn minn um daginn (hún er sérfræðingur í cortisol rannsóknum, kem nánar að cortisol hér fyrir neðan) og ég var að barma mér yfir því að því meira sem ég læsi um það sem ég ætlaði að skrifa í lokaverkefninu mínu (skrifa um það síðar), þeim mun minna vissi ég. Svarið hennar var: „Loksins, nemandi sem segir eitthvað af viti. Þetta er í hnotskurn það sem ég hef glímt við síðustu 40 ár í starfi mínu“.

Ég hef mikið fylgst með umræðu um hvað gerir okkur of þung. Í mínum huga er góð heilsa ekki spurning um hvort að maður er með 5 eða 15 kg aukakíló heldur hvort að maður geti gert allt sem mann langar til (farið í göngutúra, leikið við börnin/barnabörnin), hvort að maður sé sáttur í eigin líkama og hvort að allt kerfið virki vel samkvæmt lækninum. Ég veit hins vegar að margir notendur vefjarins eru í baráttu við of mörg kíló (skert lífsgæði bæði andlega og líkamlega) og ég veit að umræðan um hvað gerir mann of þungan, er ruglingsleg.

Stefnan síðustu ár á meðal næringarfræðinga og lýðheilsusérfræðinga er að hæsta hlutfall fæðu eigi að vera kolvetni en að minnka eigi fitu, salt og sykur. Hlutfall kolvetna í mataræði fyrir fullorðna á að vera 50-60%, fitu 25-35% og próteins 10-20%1, það sem svo eftir stendur af kökuritinu er hörð fita og sætindi. Til að gefa ykkur hugmynd þá væri manneskja sem borðar sykrað morgunkorn í morgunmat (t.d. Kellog‘s Special K), sjoppusamloku í hádeginu, stóra pastaskál að kvöldi og sælgæti inn á milli, að borða nánast einungis kolvetni...og unnin kolvetni í þokkabót. Við þekkjum öll fólk sem borðar svona. Sumir eru stressaðir í ofanálag, og/eða sumir reykja og blandan er banvæn. Svo kemur alls konar átak hjá fólki inn í myndina; Atkins, Soutbeach kúrinn, blóðflokkakúrinn, Paleo, Herbalife o.fl., o.fl. Sumir þyngjast, aðrir léttast og margir fara í hring, missa x mörg kíló við að borða eins og Steinaldarmaður eða drekka tilbúna efnafræðidjúsa og bæta þeim aftur við og meira til þegar mataræðið hverfur á braut ásamt sjálfstrausti. Sumir halda mataræðinu til streitu í langan tíma en það eru fáir. Sérstaklega eru hlutirnir flóknir og erfiðir fyrir fólk sem er þegar orðið allt of þungt og á í virkilegri baráttu hvern einasta dag. Freistingarnar eru á hverja einasta horni og oft er litlum skilningi mætt þegar fólk er að reyna að taka sig á („hva má ekki leyfa sér einn bita?“ eða „þetta er nú bara ein sneið?“ o.s.frv. Í hnotskurn eru leiðirnar til að léttast oft flóknar og árangurinn æði misjafn.


Um mitt síðasta ár kom út grein Daniel S. Ludwig og kollega,2 en Ludwig er barnalæknir og sérfræðingur í rannsóknum á ofþyngd, næringu, sykursýki o.fl við Harvard háskóla3. Greinin umturnaði þeirri sýn sem margir höfðu haft á næringarfræði og þeim boðskap sem manneldisráð víða um heim höfðu sett þegnum sínum. Mig langar að kafa aðeins í gegnum þessa grein og segja ykkur frá henni því þið munið heyra meira af henni (gott og slæmt). Hafið í huga að ég er hlutlaus aðili. Ég er ekki að selja weight-loss diet, ég er ekki að selja bók eða prógram um hvernig á að létta sig (og mun aldrei gera), ég er ekki næringarfræðingur og ég er ekki í afgerandi enda kolvetnis né fitu umræðunnar. Ég er einhvers staðar mitt á milli. Ég nota hellings fitu (hnetur, avocado, kókosolíu o.fl.) en er minna fyrir brauðmeti (og hef verið í langan, langan tíma). Ef mér finnst buxurnar mínar vera þröngar, borða ég ekki mikið kolvetni (og sérstaklega ekki brauð) í nokkra daga. Ég læt buxnamálið stýra mataræðinu því baðvog hef ég ekki átt í 20 ár. Ég nota magran ost því ég vil borða meira af pizzasneiðinni eða bökuðu kartöflunni (ef ég nota feitan ost verð ég södd allt of snemma). Ég nota almennt ekki mikið af mjólkurvörum ef ég kemst hjá því og ég elska grænmeti en borða aldrei kjöt. Mér líkar illa rjómi í mat nema í pönnukökur. Ég elska kökur (ekki síst hráfæðis) og borða þær á hverjum degi (en í litlu magni). Þetta er sem sagt mitt persónulega mataræði.

Af því ég kafa djúpt í vísindagreinar í námi mínu, langaði mig að kafa aðeins í þessa og leyfa ykkur hinum í leiðinni að vega og meta þetta mál. Mér finnst afar nauðsynlegt að skoða vel alla umræðu og reyna að finna sannleikann (tekst auðvitað aldrei, maður verður bara meira ringlaður). Í stuttu máli get ég VEL skilið að niðurstöður Ludwig hafi kveikt eld hjá næringarfræðingum, læknum og almenningi en við skulum skoða málið aðeins betur:


Ludwig og félagar birtu grein sína í The Journal of the American Medical Association (Ameríska læknafélagið) sem hefur journal impact factor (áhrifastuðull tímarits) upp á rúmlega 30 fyrir árið 2011. Það er reglulega flott (journal impact factor er byggt á ákveðinni reikniformúlu varðandi það hversu oft er vitnað í blaðið miðað við hversu oft blaðið er gefið út). Það eykur trúverðugleika blaðsins að hafa háan impact factor og til að gefa ykkur hugmynd birtir blaðið einungis 9% af þeim 6000 greinum sem því er sent til birtingar. Það er enn fremur mjög eftirsóknarvert að birta greinar sem eru umdeildar (og þess má geta að greinin er opin sem er ekki algengt fyrir glænýjar greinar, en þær kosta annars um 35 dollara (4000 krónur)). Það er vitnað meira í umdeildar greinar og þær hækka birtingarstuðulinn svo um nemur. Greinin Effects of Dietary Composition on Energy Expenditure During Weight-Loss Maintenance (lausleg þýðing: Áhrif mismunandi mataræðis á brennslu í viðhaldi þyngdartaps) er vægast sagt umdeild4


Ástæðan fyrir ofþyngd hefur verið þrætuepli í meira en öld. Þangað til 1960-og-eitthvað var aðalmálið að forðast kolvetni. Svo breyttist það yfir í að allir ættu að borða kolvetni og litla fitu (low-fat). Síðustu áratugina hefur fólk beinlínis verið að borða sig til dauða (fleiri deyja vegna ofþyngdar en hungurs), ofþyngd hefur tvöfaldast síðan 19805 og aukningin á sykursýki og hjartatengdum sjúkdómum er gríðarleg5. EN fólk hreyfir sig líka minna en það gerði og vinnur síður erfiðisvinnu. Yfirleitt er talað um að við borðum fleiri hitaeiningar en við þurfum (oft kallað „gamla hugsunin“). Nú er margir á því að offita sé hormónavandamál og að hormónið sem örvi fitusöfnun og fitufrumur sé insúlín (hormón) og að við seytum insúlíni þegar við innbyrðum kolvetni í mataræði okkar (stundum kallað „nýja hugsunin“). Kolvetni (ekki síst óunnið) hefur áhrif á insúlínmagn svo málið virðist ekki sérstaklega flókið6. Þannig má segja að tvær andstæðar kenningar séu í gangi. Ein kenningin kennir um græðgi og hin segir að þeir sem séu of þungir séu með hormónavandamál sem er tilkomið vegna of mikilla kolvetna í fæðunni og hormónaviðbrögð líkamans við þeim. Þessi kenning er studd af Ludwig2,3 sem og fleirum6.


Um hvað fjallar greinin?


Greinin fjallar um að það að hvað við borðum skiptir miklu máli fyrir það hvernig við léttumst. Að hitaeining sé ekki það sama og hitaeining og að hitaeiningar séu ekki jafnar að gæðum. Þrenns konar mataræði, mjög ólíkt innbyrðis hvað varðar næringarefni og áhrif á blóðsykur (glycemic load) var rannsakað í tengslum við þyngdartap hjá fólki með a.m.k. BMI (Body Massi Index - þyngdarstuðull) yfir 27. Svona rannsókn var ný af nálinni og fólst í þessu: Ólík samsetning mataræðis í stýrðu umhverfi og áhrif þess á það hvernig fólk brenndi hitaeiningum og hvernig því gekk að sporna gegn þyngdaraukningu. Þátttakendur voru hálf-sveltir þ.e. dregið var úr hitaeiningamagni og kolvetnum um 40% í 3 mánuði áður en mataræðið var prófað. Þátttakendur þurftu að missa 10-15% þyngd sinnar. Eftir það voru þeir settir á þrenns konar mataræði sem átti að viðhalda nýju þyngdinni (allir þátttakendur prófuðu öll þrjú mataræðin í 4 vikur í senn og valið var af handahófi hver byrjaði í hverju mataræði). Svo á næsta stigi var þátttakendum gefið akkúrat jafn margar hitaeiningar og þeir voru að tapa.
Eftirfarandi mataræði var prófað:

  • Mataræði 1: Fituskert (low-fat diet): 60% kolvetni, 20% fita, 20 prótein – mikil áhrif á blóðsykur
  • Mataræði 2: Minni áhrif á blóðsykur (low glycemic index): 40% kolvetni, 40% fita, 20 prótein – miðlungs áhrif á blóðsykur
  • Mataræði 3: Mikið kolvetnaskert (Very low carbohydrate): 10% kolvetni, 60% fita, 30% prótein – lítil áhrif á blóðsykur


Fyrri kenningin („gamla hugsunin“) segir að við mataræði 1 (60% kolvetni, 20% fita) muni fólk halda jafnri þyngd (en ekki tapa meiri). Það var akkúrat það sem kom út hjá Ludwig. Svo í raun þarf fólk að berjast gegn hungrinu til að viðhalda þyngdinni. En þegar fólk skipti yfir í mataræði 3 (10% kolvetni), eyddi það fleiri hitaeiningum þ.e. þó að fólk innbyrti jafn margar hitaeiningar og það eyddi, jókst eyðslan á móti svo það léttist. Svo ef hægt er að hugsa um þátttakendurna sem fólk í for-ofþyngd þ.e. fólk sem kemur til með að verða of þungt (eins og flestir) segir þetta okkur að þeim mun meiri kolvetni sem er í mataræðinu, þeim mun erfiðara er að viðhalda þyngdartapi samkvæmt Ludwig. Tekið var fram að mataræðið var ekki hannað með langtíma hagsýni (practicality) í huga (þ.e. mataræði var ýkt).

Niðurstöðurnar

Niðurstöðurnar sem sagt voru á þá leið að hitaeining er ekki bara hitaeining. Þeir sem fengu 10% kolvetni í mataræðinu léttustu marktækt (tölfræðilega) meira heldur en þeir sem fengu meira kolvetni (60% vs 40%). Hefðbundið mataræði (60% kolvetni) getur því að mati Ludwig haft áhrif á brennslu sem og neikvæðar afleiðingar á þróun sykursýki. Mataræði 1 (60% kolvetni) ýtir enn fremur undir breytingar á brennslu og aukningu á hormóninu serum leptin sem ýtir undir þyngdaraukningu. Aftur á móti hafði mataræði 3 (10% kolvetni) jákvæðustu áhrifn á brennslu sem og á ýmsa þætti hvað varðar það að draga úr þróun sykursýki. EN (og þetta er mjög mikilvægt) einnig hafði mataræði 3 þau áhrif á fólk að seyting á cortisol (sem er oft kallað streituhormón) jókst til muna.


Cortisol hefur hlutverki að gegna hvað varðar nánast alla líkamlega starfsemi....hefur áhrif á vöðva, frumur, bein, meltingu, hormónastarfsemi, nýru, svefn.....beinlínis allt7. Cortisol og streitu er oft líkt við eld. Adrenalín er eins og eldspýta, kviknar strax og logar stutt. Cortisol aftur á móti er eins og að nudda saman spýtum, lengi af stað en logar lengi. Ef við erum há í cortisoli þegar við eigum ekki að vera há, getur það haft alvarlegar afleiðingar (chronic inflammation) til lengri tíma, líkamlegar og andlegar. Sífellt er að koma í ljós hvað cortisol er mikilvægt hormón og cortisol ójafnvægi er ekki endilega góðar fréttir. Cortisol á sinn þátt að spila í t.d. hjartasjúkdómum, krabbameini og........ofþyngd og sykursýki!!!!! (akkúrat það sem rannsakendur vilja meina að of mikið kolvetni leiði til!). Sömuleiðis var hækkun á CPR (C-reactive protein) sem hefur svipuð áhrif í líkamanum þ.e. getur stuðlað að hjartasjúkdómum, krabbameini og athugið....sykursýki! Mataræði 2 (40% kolvetni) er einhvers staðar mitt á milli (en Ludwig fer ekki nánar út í það nema að segja að það sé kannski besti kosturinn því það hafi ekki eins slæm áhrif hvað cortisol og CPR myndun varðar. Þetta, mér til mikillar gleði er í rauninni CafeSigrun mataræðið þ.e. það sem ég og fjölskyldan reynum að borða. Einnig var skoðað hvort að fólki fyndist það vera minna svangt í mataræði 1, 2 eða 3 en enginn tölfræðilega marktækur munur kom fram. Seddutilfinning var sú sama.

Ok og hvað svo?


Nú viðurkenni ég að Ludwig er afar virtur á sínu sviði og að tímaritið er einnig afar virt. Svo það er erfitt fyrir mig að pota í svona greinar og þykjast vera eitthvað gáfuleg (sem ég er ekki, því ég er ekki sérfræðingur á neinn hátt bara áhugamanneskja-um-mat-og-heilsu-að-nöldra svo þið takið þessu blaðri mínu með fyrirvara). Það sem ég set spurningar við er eftirfarandi (athugið að þetta eru spurningar sem maður setur við allar rannsóknir, góðar eða slæmar og ég er ekki að segja að þessi rannsókn sé sérstaklega slæm. Marga af þessum vanköntum t.d. of fáir þátttakendur, of stuttur tími, ýkt mataræði o.fl. er talað um í greininni):

  • Hvað fékk fólkið nákvæmlega að borða? Ludwig viðurkennir að mataræðið hafi EKKI verið sambærilegt því sem fólk myndi borða úti í hinum raunverulega heimi (því var stýrt af rannsakendum) og að sérstaklega hafi mataræði 3 (10% kolvetni/60% fita) ekki verið sambærilegt því sem fólk myndi borða í raunverulegum aðstæðum). Kolvetni er ekki það sama og kolvetni. Mun meiri sveiflur á blóðsykri nást við að gefa hvítt fransbrauð heldur en gróft hrökkbrauð. Ég er ekki að segja að hann hafi gefið fólkinu sem allra mest unnið kolvetni sem hægt var að fá (og hann segist hafa gefið því grófmeti líka en með hverju.....sultu?). Sömuleiðis langar mig að vita hvernig ávaxta, fitu og grænmetis þátttakendur neyttu. Allt skiptir þetta máli. Af því umræðuefnið og aðalsökudólgurinn er kolvetni, hefði ég GJARNAN viljað vita hvers kyns kolvetni þátttakendur voru fóðraðir á. Ludwig tilgreinir að hann hafi gefið gróft korn, ávexti, baunir og grænmeti og að mataræði 1 (60% kolvetni) og að einhverju leyti 2 (40% kolvetni) hafi verið hefðbundið mataræði (miðað við manneldismarkmið o.fl.). Í því mataræði fellur eitthvað af sykri undir svo ég hefði viljað vita nákvæmlega hvað fólkinu var gefið og hvaða áhrif hafði hver eining á blóðsykur o.fl. Hummus og sulta inniheldur ekki sama kolvetnismagn en er hvoru tveggja kolvetni. Þið sjáið hvert ég er að fara.
     
  • Fólk fór beint úr einu mataræði yfir í annað og hætta er á cross-over effect (þegar aðstæður A hafa áhrif á aðstæður B og rugla niðurstöður).
     
  • Þátttakendur voru ekki valdir með slembiúrtaki (þó að raðað hafi verið þannig í hópana). Auglýst var eftir þátttakendum í dagblöðum og með auglýsingum í háskólum og víðar. Voru þessir þátttakendur frábrugðnir öðru fólki sem ekki sá auglýsinguna eða ekki vildi taka þátt? Alltaf höfuðverkur í rannsóknum.
     
  • Um 680 þátttakendur fóru í gegnum forval, 134 fóru áfram, 32 fóru í gegnum þyngdartapið, en aðeins 21 þátttakandi tók þátt/mátti taka þátt í gegnum allt ferlið. Ellefu sem sagt hættu/voru látnir hætta miðja vegu. Voru þeir frábrugðnir hinum þátttakendunum í einhverju sem skipti máli? Sérstaklega gæti sálfræðilegi þátturinn skipt máli.
     
  • Þátttakendur voru ekki ómeðvitaðir um hvaða meðferð þeir voru á fá (ekki blinded to treatment). Þeir sem létu fólk fá matinn og þeir sem voru að rannsaka þátttakendur vissu í hvaða mataræði þátttakendur voru. Alltaf er hætta fyrir hendi að þátttakendur vilji gera rannsakendum til geðs. Sem dæmi: Borðaði fólkið sem var í mataræði 3 (10% kolvetni t.d. ekki allt brauðið sitt eða grjónin af því það vissi tilgang rannsóknarinnar?).
     
  • Þátttakendur voru að meirihluta karlmenn. Ekki svo óalgengt í svona rannsóknum en kynjahlutfall hefði þurft að vera jafnt.
     
  • Þátttakendur fengu greitt fyrir ómakið, $2500 eða um 320.000. Það er hellings peningur.
     
  • Rannsakendur fengu styrki m.a. frá National Institute of Diabetes and Digestive and Kidney Diseases (Rannsóknarstofnun um sykursýki, meltingar- og nýrnasjúkdóma). Var einhver í stjórn sérstaklega áhugasamur um að þessar ákveðnu niðurstöður kæmu fram? Hættan er alltaf fyrir hendi þó að flestir sinni svona rannsóknum af einurð og heilindum.


Lokaorð (eilíft nöldur í kerlingunni).....

Það er mikið hatur þessa dagana á fituskertu (low-fat) mataræði og síðustu áratugina hafa rannsóknir mest megnis beinst að fituskertum matvörum sem innihalda mikið af gerviefnum og aukaefnum. Það er mjög mikilvægt að skilgreina hvaða mat er verið að fjalla um. Til dæmis nota ég mikið af fitu almennt en í uppskriftum eins og muffins finnst mér nóg að nota eina mtsk af kókosolíu (um 1 g af fitu á hvern). Ef ég borða 1 muffins er ég að borða um 100 g minna af fitu en ef það væru 8 mtsk í uppskriftinni og það er óþarfi fyrir mig þar sem ég er ekki íþróttakona eða í fjallgöngum. Ég borða muffinsinn hvort sem er svo ég er sátt við að geta borðað t.d. hrökkbrauð með hnetusmjöri (sem inniheldur hellings fitu) til viðbótar og náð samt upp í fitumagnið yfir daginn (ég vil ekki klára fitumagnið í muffins EÐA hnetusmjöri…ég vil bæði!). Svo þetta gefur mér tækifæri til að borða það sem ég vil án þess að þyngjast (nema ég borði of mikið auðvitað). Í mínu tilviki myndi ekkert gera fyrir mig að bæta meiri fitu við muffinsana og eins myndi það ekkert gera fyrir mig að borða meira hnetusmjör. Sama á við um pottrétti, eggjahrærur o.fl. Ég nota þá fitu sem uppskriftin nauðsynlega þarf en ekki umfram það. Sama á við um fólk sem borðar t.d. rjóma eða smjör. Það getur borðað það í litlu magni (eða miklu) og það fer eftir milljón öðrum þáttum hvort það bætir á sig eða ekki. Svo það er ekki einungis HVAÐ fólk borðar heldur líka HVERNIG það borðar sem skiptir máli. Ég þekki fullt af fólki sem borðar smjör og rjóma og er í fínum málum. Svo þekki ég líka fullt af fólki sem borðar smjör og rjóma og er í ofþyngd. Það sem skiptir meira máli er allt hitt sem fólkið borðar…vínarbrauð og snúða/heimabakaðar kökur, brauðmeti í öll mál/brauð stundum, kex í kaffitímanum/ávexti og svo framvegis.

Eitt er víst að ekki hefur fundist feitir einstaklingar í þrælkunarbúðum, þrátt fyrir að þeir lifi/hafi lifað nánast algjörlega á maís eða brauði. Sama átti við um útrýmingarbúðir fyrir nokkrum áratugum. Ítalar borða nokkuð drjúgt af pasta en eru aldrei á topp 5 lista yfir þyngstu þjóðir heims, komast ekki einu sinni á top 10. Langhlauparar lifa margir hverjir á kolvetni. Japanar lifa manna lengst en borða hvít hrísgrjón (kolvetni) upp á hvern dag. Flestir Afríkubúar borða kolvetni í formi bauna, maíss og hveitis upp á hvern dag. Ég hef bara einu sinni á ævinni séð Masaaia (sem borða yfirleitt maísstöppur + bljóðmjólk en kjöt spari) í yfirþyngd og það er óalgeng sjón (yfirleitt með grennstu og hávöxnustu þjóðflokkum Afríku). Hann var bjórþambari (löng saga).

Getur verið að við séum að einblína á einn afmarkaðan hóp og að ráðleggingar þeirra sem segja „ekkert kolvetni – meiri fita“ henti aðeins einni (eða fleiri) tegund fólks – þeim sem eru komnir með sykursýki og eru of þungir eða á einhvern hátt viðkvæmir fyrir áhrifum kolvetnis á insúlín? Tíminn á eftir að leiða það í ljós en þangað til, er voðalega erfitt að alhæfa um að eitt mataræði henti akkúrat öllum. Getur verið að það séu mótttakarar í heilum sumra sem kveikna hreinlega við að fólk borði kolvetni (sérstaklega mikið unnið) og kalli á endalaust meira? Ég hef ítrekað rekist á fólk sem segist vera sykurfíklar/kolvetnafíklar (ég á nokkrar svoleiðis vinkonur)...getur verið að þetta sé fólkið sem mataræði 3 hentar sérlega vel (10% kolvetni) en mataræði 1 (60% kolvetni) eða 2 (40% kolvetni) henti kannski fólki eins og mér betur sem vill borða litlar en margar máltíðar yfir daginn? Ég veit ekki. Hvað með alla ávextina? Eigum við að sleppa þeim? Og döðlum og rúsínum?

Trúi ég því að við verðum öll of þung og/eða fáum sykursýki af því að borða brauð? Nei. Trúi ég því að mataræði hátt í fitu og lágt í kolvetnum henti öllum? Nei. Er líklegt að þetta mataræði henti ákveðnum hluta fólks í ákveðinn tíma? Já, mjög líklega. Ég hef oft sagt að ég sé hlynt því að fólk taki ákveðið mataræði í x langan tíma til að ná sér niður í kjörþyngd og viðhalda þyngdinni svo með venjulegu mataræði. Gallinn er hins vegar sá að margir eru haldnir átfíkn og þann hóp þarf að meðhöndla sérstaklega, oft með sálfræðilegu/læknisfræðilegu inngripi/meðferð. Svo ein lausn hentar ekki öllum. Við megum ekki gleyma því að hjá öllu fólki skiptir streita, svefn, uppeldi, umhverfi og erfðir gríðarlegu máli.

Það sem ég er að gera, er að setja varnagla við að fólk selji eitt mataræði umfram annað og telji að það henti öllum og auglýsi sem slíkt. Um leið og fólk er farið að selja mataræði x sem leið til léttings, hringja viðvörunarbjöllur í höfðinu á mér því það má ALLTAF finna rannsóknargreinar sem styðja það sem maður sjálfur VILL finna! Svo einfalt er það. Það eina sem þarf að gera er að finna réttu leitarorðin í gagnagrunnum vísindatímarita og búmm, það er alltaf einhver að hugsa og rannsaka það sama og þú. Sértu hlutlaus aðili gegnir það öðru máli.

Loka LOKA orð (lofa)

Ég held að það sé hollt fyrir okkur að hrista upp í viðteknum gildum og skoðunum. Sífellt eru að koma inn rannsóknir og aðferðir til að mæla árangur á hinum ýmsum sviðum. EN ég hef áhyggjur af því að þessar niðurstöður (sem birtast oftar en ekki mjög illa þýddar í glanstímaritum) verði túlkaðar á þann hátt að fólk eigi að borða sem mesta fitu, og sem mest kjöt og að fólk MUNI léttast EN eftir einhvern tíma dettur það út úr þessu mataræði OG bætir við brauði, sykri, kartöfluflögum, skyndibita og öllu því sem er að drepa fólk í dag. Þess vegna er ég að rýna í þessa grein og segja ykkur frá henni. Takið öllu með fyrirvara, gagnrýnið og metið. Fræðsla er alltaf besta vopnið, líka í baráttunni fyrir betri heilsu.

Heimildir

  1. Landlæknir (2006). Ráðleggingar um mataræði og næringarefni fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri: http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item11479/version10/mataraedi-lowres.pdf
  2. Ebbeling, C.B., Swain, J.F., Feldman, H.A., Wong, W.W., Hachey, D.L., Garcia-Lago, E. & Ludwig, D.S. (2012). Effects of Dietary Composition on Energy Expenditure During Weight-Loss Maintenance. The Journal of the American Medical Association, 307(24), 2627-2634.
  3. Ludwig, D.S. (2002). The glycemic index: physiological mechanisms relating to obesity, diabetes, and cardiovascular disease.The Journal of the American Medical Association, 287, 2414-2423.
  4. NY Times (2012). Debate Revived: Low-Carb Or Low-Fat Diet? http://www.nytimes.com/2012/07/01/opinion/sunday/what-really-makes-us-fat.html?_r=0
  5. World Health Organization: http://www.who.int/mediacentre/factsheets/fs311/en/
  6. Taubes, G. (2012). Why We Get Fat: And What to Do About It. New York, USA: Alfred A. Knopf
  7. Fries, E., Dettenborn, L. & Kirschbaum, C. (2009). The cortisol awakening response (CAR): Facts and future directions. International Journal of Psychophysiology, 72(1), 67-73.
     
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Vinsælustu uppskriftirnar 2012

Það heimsóttu yfir 1 milljón (unique visits) manns vefinn minn (forsíðuna) á árinu sem eru að líða. Það er svimandi há tala!

Vinsælasta uppskriftin var uppskriftin að bananabrauðinu og var hún sótt af yfir 10 þúsund manns. Ég tók saman lista yfir 20 vinsælustu uppskriftirnar sem má sjá hér fyrir neðan. Pecankakan var 20. vinsælusta uppskriftin og hana sóttu yfir 3400 manns.

Ég vil nota tækifærið til að þakka fyrir árið sem er að líða (sérstaklega ykkur sem voruð svo sæt að skilja eftir falleg komment og hlý orð) og ég óska ykkur alls hins besta 2013!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Hnetusteik: Ný mynd

Hæ hó. Var að setja inn mynd af þessarri stórgóðu hnetusteik sem býður nú eftir því að verða borðuð á morgun. Um leið vil ég óska ykkur gleðilegra jóla kæru lesendur.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Hitateppi og heimilislausir

Jólin eru að nálgast. Það er skít kalt í London. Ég hef bil á milli skít og kalt svo þið getið sjálf fundið vindinn gnauða og kuldann bíta. Kuldinn í London er öðruvísi en annar kuldi. Hann er blautari, rakari, festist meira í kinnunum og endar inni að beini. Það er bilaður ofn í svefnherberginu og af því að Jóhannes vill sofa við frostmark (helst þannig að snjói á hann) verð ég að gera ráðstafanir. Ég er búin að taka fram hitateppið mitt, er með það á tímastillingu. Það fer í gang kl 20 og slokknar kl 24. Og þegar ég leggst upp í rúm, undir þykku góðu sængina mína er rúmið toasty. Það er ekkert annað orð sem ég finn sem lýsir því betur. Toasty. Mér verður á því augnabliki alltaf hugsað til nágranna okkar sem býr í húsaskoti hérna við hliðina á. Í svefnpoka með pappa undir sér. Hann liggur þar allan daginn og sefur. Eða hugleiðir, veit ekki alveg. Fólk er duglegt við að gefa honum alls konar mat og kaffi og hann er líklega ekki svangur. Vona ekki. Honum getur heldur ekki verið mikið kalt því hann er á stuttermabol við frostmark og liggur eins og lirfa í skotinu. Ég skildi eftir hnetusmjörssmákökur og trönuberja- og macadamiabiscotti (voða jóla) hjá honum í gær. Veit ekki hvort hann fílar trönuber og macadamiahnetur en vonandi. Og vonandi er hann ekki með hnetuofnæmi. Ég er örugglega eini Londonbúinn sem skil eftir heimabakaðar smákökur í hollari kantinum handa heimilislausum. En mig langar reyndar frekar að gefa honum hitateppið mitt en það yrðu vandræði hjá honum að finna rafmagn. Vona að hann hafi húsaskjól á næturna. Mig langar mest að bjóða honum í jólamat en ég held að það yrði ekki eins og í Hollywood myndunum þar sem hann kæmi úr sturtunni allur hreinn og myndarlegur í fötum af heimilisföðurnum með garmana sína undir arminum, borðaði heitann og ilmandi matinn pent og þakkaði svo fyrir sig með ljóði. Kannski samt. Veit ekki.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ný uppskrift: Súkkulaðimyntuís

Var að setja inn nýja uppskrift sem ætti að henta vel sem eftirréttur á jólunum :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

E sængæti bannaf?

Fyrir þá sem þekkja mig að einhverju leyti vita að ég hef ekki snert sælgæti síðan ég var 12 ára. Síðan eru liðin 26 ár. Mín vegna mætti allt sælgæti hverfa fyrir fullt og allt. Ég myndi ekki einu sinni taka eftir brotthvarfi þess. Mér þykir þó ótrúlega áhugavert að pæla í sælgætismenningu og matarmenningu yfirleitt. Svona eins og draslið sem oft ómálga börnin (og eldri) eru að maula í kerrunum sínum þegar ég mæti þeim á göngu um hverfið. Eða draslið sem fólkið almennt borðar hérna í London (sem er samt einna skárst í Bretlandi hvað þetta varðar). Auðvitað eru undantekningar og ég tek líka eftir fólkinu sem situr á bekkjunum hér í kring sem opnar nestisboxin sín og borðar heimatilbúnar samlokur. Það fólk er í mjög miklum minnihluta. Það á sérstaklega við um börnin sem éta.beinlínis.drasl.

Nú er eldra Afkvæmið orðið 3ja ára......og hefur ekki á sinni stuttu ævi borðað sælgæti og hún veit ekki enn þá hvað það er...en hún er aðeins að farin að fatta að það er eitthvað sem getur skemmt tennur + getur farið illa í magann + maður verður ekki sterkur af að borða. Né getur maður hlaupið hratt af því að borða það. Hún hefur aldrei séð sælgæti inni á heimilinu og hún fær ekki slíkt í leikskólanum (ég hef séð til þess og það hefur verið svolítil barátta). Við erum ekki í kringum ömmur og afa né önnur skyldmenni hérna úti en þau þekkja okkur hvort sem er og virða nógu vel til þess að vita að sælgæti er eitthvað sem á ekki upp á pallborðið.

En svo kom spurningin í fyrradag....sem fékk mig til að stoppa í sporunum.....Með mjóróma barnaröddinni spurði dóttirin...: „Mamma.....e sængæti bannaf?“  (hún getur ekki borið fram r, l og ð)...... Uuuuuuuuuuuu svaraði ég.....uuuuuuuuu....hmmmmmm. Og það tók mig nokkrar mínútur að hugsa. Svarið mitt var „nei....það er ekki bannað, en það er ekki gott fyrir okkur og mamma og pabbi borða ekki sælgæti og heldur ekki bróðir þinn“. Sú stutta var sátt við svarið (hún biður reglulega um spínat og halloumi ost svo hún er ekki alveg eins og jafnaldrar hennar kannski). Hún sagði jafnframt "É bona fa ekki hendu". Þetta var stórt skref fyrir mig því ég vil auðvitað banna allt sælgæti....sérstaklega það sem er markaðsett að börnum. En ég vissi líka að ef maður bannar eitthvað þá verður það spennandi....svo þetta er línudans.

Ég hef aldrei, ekki í eitt skipti sagt að sælgæti væri bannað svo að hún heyri. En hún hefur lagt saman tvo og tvo og fengið út að það er ekki borðað hér. Mikilvægast held ég er að hafa ekki sælgæti á heimilinu en ég held að margir flaski á því. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Ég er samt ekki haldin þeirri blekkingu að börnunum mínum myndi ekki þykja sælgæti gott. Við börnin bökum saman hvern morgun (eða réttara sagt þá aðstoðar eldra Afkvæmið á meðan litli stubburinn veiðir dót upp úr ruslatunnunni, hellir úr speltdúnkinum á gólfið, setur bækur í uppþvottavélina og fleira í þeim dúr). Það er enginn vafi á því að henni þykir gott að sleikja það sem sætt er. Börnin mín myndu glöð lifa á ávöxtum það sem eftir væri ævinnar. Það sem er sætt er KLÁRLEGA í uppáhaldi. Og það er eðli mannsins að vilja sætt frekar en súrt. Börnin mín myndu að sjálfsögðu frekar þiggja döðlu frekar en segjum græna papriku. Hins vegar eru þau bæði glöð með soðnar gulrætur sem sælgæti því þær eru jú sætar.

Hvað mun gerast þegar börnin mín fá köku (svona bakarísköku eða hefðbundna heimatilbúna?). Eða sælgæti? Mér þykir mjög líklegt að þau muni fá sér og svo biðja um meira.....með græðgisglampa í augunum. Það kæmi mér ekkert á óvart. Eða eru þau kannski orðin forrituð fyrir lífstíð? Ég hef séð krakka í Afríku verða gúggilú á því að fá sælgæti. Þau hlaupa á eftir bílum, kasta jafnvel steinum í þá ef þau fá ekki sælgæti frá ferðamönnum. Þau verða algjörlega snar ef þau halda að sælgæti sé á boðstólum (því þau fá slíkt kannski 2var á ári). Verða börnin mín svoleiðis? Eða eru bragðlaukarnir orðnir vanir því sem er minna sætt. Ég get hugsað um þessa hluti endalaust og fæ aldrei svar.....svo sem ekki mikill höfuðverkur miðað við hvað margir foreldrar ganga í gegnum með veikindi og slíkt en ég er forvitin. Mjög forvitin.

Ég ætla að halda áfram að bjóða upp á ávexti hvern dag, halda sælgæti frá heimilinu, tala um kosti og galla þess að borða ávexti og grænmeti vs. sælgæti...og vona djúpt að það skili sér. Og ég tala aldrei um hollan vs. óhollan mat. Ég tala bara um það sem matur gerir fyrir okkur eins og t.d. að blómkál hjálpar okkur við að láta okkur ekki fá kvef, spínat gerir beinin sterk, lýsi og hörfræ hjálpa okkur að telja upp á 10 og valhnetur hjálpa hjartanu þegar við hlaupum rosa hratt. Svona skiptir eldra Afkvæmið mat ekki í dálka heldur lærir hún hvað maturinn gerir fyrir okkur og þarf sjálf að hugsa um hvort að matur sé góður fyrir okkur eða ekki. Ég vil að hún læri muninn sjálf og þurfi svolítið að hugsa. En það er akkúrat núna, hér og nú sem grunnreglur lífsins eru lagðar. Hún veit ekki hvað skyndibiti er, fyrir henni er eðlilegt að maturinn sé eldaður frá grunni, hún þekkir kúrbít frá gúrku og granateplafræ frá graskersfræjum. Við tölum um mat, við handfjötlum hann, finnum áferð, þefum, spáum í hvort að ávextir séu þroskaðir. Þetta tekur ekki langan tíma, bara nokkrar mínútur hvern dag. Og við borðum alltaf ávexti eftir kvöldmatinn og stundum yfir daginn, og það borðar enginn yfir seddumörk (það kenndi ég þeim frá því þau voru ekki byrjuð að tala...að setja hönd upp að munni ef þau voru södd), enginn á að „klára” matinn sem hann langar ekki í og við tölum um matinn sem við erum að borða (svona ef fólk er í stuði sem er nú ekki alltaf þegar maður er 3ja ára). Og ég minni þau á að ef við erum nýbúin að borða en samt pínulítið svöng (meiri nartþörf en svengd) borðum við aftur innan skamms. Og að það sé alltaf matur til (börn sjá illa fram í tímann og eiga erfitt að ímynda sér tilbúinn mat). Tíminn einn mun leiða í ljós hvernig þetta fer allt saman og hvort að Afkvæmin fara út í sælgætissukk eða gulrætur.....Ég vildi bara að ég ætti tímavél.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Sorglega brjóstagjöfin

Á fimmtudagseftirmiðdögum er eldra Afkvæmið ekki í leikskóla (til að spara pening) og í staðinn förum við á Stay & Play sem bæjarfélagið (Westminster) rekur. Ég tilheyri reyndar Camden (bý í Bloomsbury, þar sem Vanda og fjölskylda úr Pétri Pan áttu heima!) en ég má samt koma (hef sótt þennan stað í mörg ár). Þar mæta mæður (stundum feður, en afar sjaldan) með börnin sín og í öruggu og snyrtilegu umhverfi leika börnin sér. Plássið er ekki stórt en þessi vettvangur er gríðarlega mikilvægur fyrir foreldra (sérstaklega mæður) í hverfinu. Sumar af þessum konum eru mikið einangraðar og fara ekki endilega mikið út úr húsi, oft eru þær af erlendu bergi brotnar. Konurnar indversku sem reka staðinn fyrir bæjarfélagið eru englar og þekkja hvert einasta barn með nafni. Þær eiga í öllum börnunum pínulítið. Sumar af þessum foreldrum hafa ekki efni á leikskóla (enda fokdýr) og þetta er því griðastaður fyrir marga sem vilja spjalla með heitan tebolla.

Síðasta miðvikudag sat ég með börnin mín tvö og var svo til úti í einu horninu þar sem þeim finnst best að leika. Í hinu horninu, beint á móti mér sat bresk kona og var að vandræðast með barn sitt sem var 4ra mánaða. Barnið vildi ekki pelann og var ansi pirrað. Ein konan (vinkona) sagði „en að gefa því brjóst?“. Móðirin eldroðna og sussaði á hina. Það bættist önnur vinkona í hópinn og þær skeggræddu þetta í langan tíma á meðan barnið grét. Að lokum gafst móðirin upp, og faldi sig í horninu. Hinar konurnar tvær drógu upp teppi þannig að það huldi alveg móður og barn, ég sá ekki einu sinni hár móðurinnar. Konurnar tvær þurftu að sannfæra rennsveitta og eldrauða móðurina trekk í trekk um að enginn sæi neitt. Barnið sofnaði svo værum svefni.

Þarna voru einungis konur, allt saman mæður, hún var úti í horni, það var enginn að skipta sér af, barnið var sársvangt og pirrað. Mikið ofboðslega þótti mér þetta sorglegt. Nú er ég ekki að dæma foreldra sem gefa börnum sínum pela (ég veit manna best að fyrir því geta verið ástæður), heldur þessi feluleikur, þessi skömm, þessi vanlíðan. Móðurinni leið greinilega mjög illa yfir þessu og það er synd og ég skammast mín fyrir að búa í landi þar sem mæðrum þarf að líða svona. Ég er ekki að segja að búbbur úti á túni séu heillandi heldur (það er alveg millivegur). En ef barnið drekkur vært og sátt þessa mikilvægu næringu, hvernig í ósköpunum er hægt að líða illa yfir því? Er það krafa samfélagsins að þessi „verknaður“ eigi að fara fram úti í horni, á bak við tjöld, með skömmustusvip?

Ég fór að hugsa til baka þessi 2 ár sem ég hef mætt þarna.....ég man eftir einu skipti þar sem barni var gefið brjóst. Einu. Þarna mæta um 20 börn á hverjum fimmtudegi, ekki alltaf þau sömu og þar af tæplega helmingur innan við 12 mánaða. Það er auðvitað til í dæminu að móðurmjólkin sé sett á pela, en miðað við að í Bretlandi sé ein lægsta tíðni brjóstagjafar í heiminum, yrði ég hissa á því.

Ég tek skýrt fram að ég er ekki að dæma konur sem ekki geta gefið börnunum móðurmjólk af einhverri ástæðu (veit að það getur margt komið í veg fyrir það). Ég er einungis að setja út á að konunni eins og svo mörgum konum  í Bretlandi hafi liðið svona illa yfir þessu og það í þessu umhverfi þar sem meira að segja er skilti um að þessi „verknaður” sé í góðu lagi (því þið vitið...það þarf skilti).
 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ný mynd, gömul uppskrift

Eins og þið vitið kannski þykir mér óskaplega gaman að uppfæra gamlar uppskriftir og setja þær í nýjan búning. Oft gefur það uppskriftinni nýtt líf því þær vilja grafast undir og gleymast (eða þær gera það hjá mér allavega). Hér er ein gömul uppskrift í nýjum búningi. Þetta er fínasta hráfæðiskaka, ekta með kaffinu, frískleg og holl.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It