Bloggið

Samantekt á niðurstöðum MSc rannsóknarinnar

Spáð fyrir um offitu 3-12 ára íslenskra barna: Tengsl við BMI, svefn, mataræði og notkun á afþreyingartækjum.

Kæru þátttakendur. Þá hef ég skilað MSc ritgerð minni í heilsusálfræði (e. Health Psychology): Predictors of Obesity in 3-12 Year Old Icelandic Children: Relationships with Body Mass Index, Sleep, Diet and Technology. Ég þakka ykkur kærlega fyrir þátttökuna, hún skipti öllu máli fyrir mig!

Eins og ég lofaði ykkur, þá eru hér helstu niðurstöður ritgerðarinnar. Ég get ekki sent ykkur ritgerðina sjálfa fyrr en í fyrsta lagi eftir 6 mánuði (því við erum að reyna að fá hana birta í ritrýndu, erlendu tímariti) en ég tók saman helstu atriðin úr rannsókninni. Athugið þó að ritgerðin sjálf er 20 bls í meginmáli (80 með öllum viðaukum og slíku) og því er aðeins tæpt á allra helstu niðurstöðunum.

Bakgrunnur

Rannsóknir hafa sýnt að tengsl eru á milli tækjanotkunar, svefns og þyngdar þannig að aukinn fjöldi tækjanotkunar í svefnherbergi stytti svefn og auki þyngd barns. Á því eru taldar vera margs konar skýringar eins og; aukið slen vegna minni hreyfingar, að hormónið melatonin losni síður úr læðingi við áhrif birtu af skjám rétt fyrir háttatíma og aukin tækifæri til neyslu hitaeininga en ef barnið færi fyrr að sofa. Einnig eru kenningar um að ójafnvægi á hormónabúskap við lítinn svefn leiði til þess að röskun verði á svengdartilfinningu og hungurtilfinningu. Íslendingar neyta árlega samtals 800 tonna af sælgæti á laugardögum (nammidögum) fyrir samtals 1 milljarð króna. Þá er ekki meðtalið annað sælgæti eða gosdrykkir. Íslendingar eru 4ða þyngsta þjóðin innan OECD ríkjanna1 og þyngsta þjóð Norðurlanda.2

Tilgátur rannsóknarinnar voru eftirfarandi:

  • Því var spáð að hærra CSHQ gildi3 (svefnraskanir), styttri svefnlengd, minni hreyfing, notkun á afþreyingartækjum í svefnherbergjum barna, notkun á næturljósi, neysla á sætindum og gosdrykkjum virka daga sem og ráðgjöf frá sérfræðingum vegna hegðunar- og tilfinningavandamála myndu leiða til hærra BMI">4 (z-score5) hjá 3-12 ára börnum.
  • Því var spáð að þessar breytur myndu hafa mest áhrif á BMI í hópi elstu barnanna (11-12 ára).
  • Einnig var því spáð að aukin neysla á sætindum og gosdrykkjum á nammidögum myndi leiða til hærra BMI hjá öllum börnunum óháð aldri.

Niðurstöður:

Að meðaltali voru 38,4% barna með 1-3 tæki í svefnherberginu og að meðaltali voru 14,2% með ótakmarkaðan aðgang að þeim eftir háttatíma. Tæplega 40% áttu sérstakan nammidag en 76,2% neytti 1-10 sælgætisbita á virkum dögum. Af þeim börnum sem borðuðu sælgæti virka daga, var um helmingur þeirra sem borðaði sama magn eða meira á nammidögum. Tæplega 20% barna voru í yfirþyngd eða áttu við offitu að stríða. Samanlögð yfirþyngd/offita foreldra var 55,5% (33,5% voru í yfirþyngd (e. overweight ≥ 25 BMI) og 22,3% áttu við offitu að stríða (e. obesity ≥ 30 BMI)). Meðal BMI foreldra var 26, 76. Það má geta þess að mæður/kvenkyns umsjónaraðilar barna svöruðu í 95% tilfella. Niðurstöðurnar gefa til kynna að stór hluti barnanna, eða 57,2% glímir við svefnröskun af einhverjum toga. Svefnröskun var, sem fyrr segir metin með CSHQ spurningalistanum en greiningarviðmið fyrir svefnröskun er 41 stig. Það vakti athygli að yngstu börnin sváfu að jafnaði minna en meðaltal fyrir þeirra aldursflokk gerði ráð fyrir en 6-10 ára og 11-12 ára krakkarnir sváfu lengur en meðaltal gerði ráð fyrir. Nánari upplýsingar um börnin má finna í töflu 1 hér að neðan.

Tafla 1. Lýsandi tölfræði - Börn:
Nokkrar af þeim breytum sem skoðaðar voru Allir 3-5 ára (N = 485) 6-10 ára (N = 475) 11-12 ára (N = 136)
Yfirþyngd (e. overweight) 12,0% 7,7% 14,8% 17,4%
Offita (e. obese) 7,6% 7,6% 6,4% 12,2%
Samanlögð yfirþyngd og offita (overweight/obese) 19,6% 15,3% 21,2% 29,6%
Hefur hitt sérfræðing vegna hegðunar- eða tilfinningavandamála 20,1% 9,3% 27,6% 33,1%
Hefur hitt sérfræðing vegna svefnvandamála 19,4% 22,1% 17,5% 16,9%
Hefur 1-3 tæki í svefnherberginu - 22,1% 43,8% 49,3%
Hefur 4-6 tæki í svefnherberginu - 0,2% 7,4% 27,9%
Hefur a.m.k. sjónvarp í herberginu - 12,8% 27,8% 45,6%
Má nota afþreyingartækin ótakmarkað eftir háttatíma - 6,1% 13,2% 23,3%
Drekkur 1-3 gosdrykki í miðri viku - 10,7% 22,3% 32,6%
Drekkur sama magn af gosdrykkjum eða meira á nammidögum - 7,6% 22,5% 26,3%
Borðar 1-10 sætindi í miðri viku - 74,9% 76,4% 77,5%
Borðar 11-20 sætindi í miðri viku - 5,1% 8,0% 12,5%
Borðar sama magn af sælgæti eða meira á nammidögum - 48,9% 61,7% 51,5%
Meðalsvefn vikudaga - 11,28 klst 10,34 klst 9,35 klst
Meðalsvefn helgar - 11,23 klst 10,35 klst 10,21 klst
Meðalsvefn vikudaga og helgar (z-gildi7) - -0,80 0,11 0,87
CSHQ gildi (svefnröskun)* - 44,0 43,5 44,4

Aðhvarfsgreining (e. Multiple Regression Analysis)

Menntun foreldra, BMI foreldra, almenn heilsa barna og kyn barna eru allt breytur sem geta haft áhrif á BMI barna. Þessum breytum var því haldið „stöðugum“ þannig að niðurstöðurnar hér á eftir eru óháðar þeim.

  • Hjá 3-5 ára leiddi aðhvarfsgreining í ljós að allar breyturnar (nema svefn) sem notaðar voru til að spá fyrir um BMI voru marktækar. Þær breytur sem spáðu best fyrir um BMI voru neysla á koffeindrykkjum virka daga og neysla koffeindrykkja nammidaga (því fleiri koffeindrykki sem börnin drukku virka daga því þyngri voru þau og því fleiri koffeindrykki sem börn drukku á nammidögum, því þyngri voru þau). Einnig spáði tækjanotkun í herbergi fyrir um BMI (því fleiri tæki sem börn höfðu í svefnherberginu, því þyngri voru þau). Saman skýrðu breyturnar þó aðeins 14,2% af dreifingu BMI 3-5 ára barna (sem þýðir að aðrar breytur sem ekki eru mældar hér, eru einnig að hafa áhrif á BMI).
  • Í hópi 6-10 ára barna spáði styttri svefn fyrir um hærra BMI (eftir því sem svefninn var styttri, voru börnin þyngri). Einnig hafði neysla koffeindrykkja virka daga áhrif á BMI þannig að því fleiri gosdrykki sem börnin drukku virka daga, því hærra BMI höfðu þau. Saman skýrðu þessar breytur 16,3% af BMI 6-10 ára barna.
  • Í hópi 11-12 ára barna spáði styttri svefn ásamt notkun á sjónvarpi/DVD/leikjatölvu fyrir um BMI (börn með hærra BMI sváfu skemur og notuðu eitt af efirfarandi tækjum: sjónvarp/DVD/leikjatölvu). Fjöldi tækja hafði hins vegar ekki áhrif (fleiri tæki í svefnherberginu spáðu ekki fyrir um BMI hjá 11-12 ára, einungis tegund tækja). Saman skýrðu þessar breytur 37,1% af dreifingu BMI.
  • Neysla á sætindum og gosdrykkjum á nammidögum (jafnmikil eða meiri neysla en virka daga) spáði fyrir um hærra BMI 3-5 ára barna en hafði ekki áhrif í öðrum aldursflokkum ólíkt því sem spáð hafði verið.
  • Í tveimur yngstu aldurshópum komu fram tengsl milli svefns og BMI. Eftir því sem börnin sváfu skemur því hærra BMI höfðu þau.

Takmarkanir:

  • Töluvert er um óútskýrða dreifingu í BMI barna en það þýðir að fleiri þættir en þeir sem mældir voru, hafa áhrif á BMI. Til dæmis var neysla almennrar fæðu heima fyrir, fæða á leikskólum/skóla, notkun á vasapeningum í sælgætiskaup, áhrif jafningja á mataræði o.fl. ekki skoðuð.
  • Einnig var svefn barna ásamt hæð og þyngd mæld af foreldrum og alltaf eru líkur á skekkju í mælingum.
  • Hafa verður í huga að út frá þessum niðurstöðum að ekki er unnt að álykta neitt um orsakasamband milli breytanna og BMI. Hér erum við í raun aðeins að tala um tölfræðilega fylgni milli breytanna þó unnt sé að nota fylgnina í forspá.

Að lokum:

Á grunni niðurstaðna má álykta að mismunandi breytur hafi mismikið forspárgildi á BMI barna eftir aldri. Það eru sjálfsögð sannindi en þó má taka fram að framtíðarhegðun barna mótast mjög snemma og ætti því að taka tillit til þess varðandi tækjanotkun eftir háttatíma, sælgætis- og koffeindrykkjaneyslu. Einnig ætti að huga að því að börnin fái góðan svefn. Þetta á sérstaklega við um yngstu börnin.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Baráttan við býflugurnar

Þegar við fluttum í húsið okkar hér á Íslandi, leið ekki á löngu þangað til við áttuðum okkur á því að við áttum nágranna. Þegar börnin fóru út á pallinn einn góðviðrisdaginn fóru hundar nágrennisins allt í einu að gelta....allir í einu. Þeir hafa heyrt hátíðnihljóð úr börnunum sem við ekki einu sinni heyrðum. Eldra afkvæmið var bitið af býflugu (já býflugu, ekki geitungi, og ekki vespu) í leikskólanum í London. Síðan þá var hún skelkuð. Ég kenndi henni þó fljótt að svarta flugur gera yfirleitt ekki mein, bara þessar röndóttu, helst þær sem eru mjóar. Fyrir 3ja ára haus meikaði engan sens að mismunandi litir flugna þýddu mismunandi geðsveiflur og skapbresti þeirra. Flugur voru bara flugur og undan þeim bar að skrækja. Sá 2ja ára fylgdi auðvitaði í kjölfarið og þegar hann sá flugu þeyttist hann áfram (svona eins og 2ja ára börn þeytasta áfram) með hárið lárétt í loftinu (hann neitar að láta klippa hárið).

Svo nábýlið við suðandi býflugurnar á pallinum var okkur til ama. Að okkar mati. Þær suðuðu stanslaust og voru afar iðnar. Feitar og pattaralegar, með þykkar rendur, gular og svartar. Börnin voru skelkuð og óhljóðin voru ekki boðleg nágrönnum kl 8 að morgni um helgar. Og af því barnið hafði verið stungið áður, þá hringdi ég á meindýraeyði. Ég sagði börnunum samt ekki af því þar sem fyrsta regla á heimilinu er að það má ALDREI meiða dýr né fólk (nema í sjálfsvörn auðvitað). Ömurlegur tvískinnungsháttur og mér mátti alveg líða ömurlega því það er ekki fallegt auðvitað að drepa eitt né neitt. Meindýraeyðirinn sagði að erfitt væri að koma þeim undan pallinum. Og svo sagði hann að þær væru hvimleiðar. Ég hjó eftir orðinu hvimleiðar því hann sagði ekki banvænar né hættulegar. Heldur hvimleiðar. Svona eins og rigning í vatnsheldum maskara. Eða appelsína föst á milli tannanna. Hvimleiðar. Ekki hættulegar. Og hann setti á sig hræðilega grímu og þykka hanska. Svo hristi hann stóran úðabrúsa sem á voru margar hauskúpur. Það runnu á mig tvær (hræðilegar) grímur. Ég hélt að hann myndi frysta býflugnabú en ekki eitra það. Hann sagði okkur feðginunum að fara inn og loka að okkur. Svo kom býfluga. Og hann úðaði á hana. Hún datt suðandi í jörðina. Og ég var beygð. Og ég tók fyrir augun á barninu. Ég var miður mín. Býflugurnar höfðu ekkert gert okkur. Akkúrat.Ekki.Neitt. Hann hélt áfram að úða og ég gat ekki sagt honum að hætta því það var hellings eitur í loftinu. Ég var miður mín yfir að setja þetta eitur út í andrúmsloftið (og útnöguðu runnarnir fyrir framan húsið bera þess merki að ég er á móti öllu eitri í vistkerfinu). Svo fylgdumst við með hegðun býflugnanna. Þær voru mjög ringlaðar og þær fóru í burtu. Og meindýraeyðirinn sagði að kannski kæmu þær aftur. Og þær gerðu það....eftir langan tíma. Þær.Gáfust.Ekki.Upp. Ég fylltist aðdáun þegar ég sá eina og eina læðast aftur heim. Það var búið að beita efnahernaði á heimili þeirra en þær komu samt aftur. Og ég tók loforð af sjálfri mér að ef þær létu okkur í friði, skyldum við búa saman í sátt og samlyndi.

Nú er mánuður liðinn og börnin eru hætt að setja þjófavarnakerfi bílanna af stað með skrækjunum. Þær skoða býflugurnar því við sögðum þeim að þær ætluðu að eiga heima hjá okkur og að við þyrftum bara að passa að pirra þær ekki (svona eins og má stundum ekki pirra mömmu í tölvunni). Og nú heyrum við gjarnan af pallinum þegar sú 4ra ára segir við þann 2ja ára: „Passavui nú kaddninn minn a pinna ekki býfluuunahrrr“ (Passaðu þig nú kallinn minn að pirra ekki býflugurnar) og sá litli segir „ok“ og heldur áfram að stinga sandi innan á samfelluna. Og þetta er svo ósköp lærdómsríkt fyrir þau bæði. Sú eldri kennir umburðarlyndi og virðingu og sá stutti lærir að hlusta á leiðbeiningar sem og lærir hann virðingu við aðrar verur.

Þegar meindýraeyðirinn var að fara, sagði hann mér að hann gæti fjarlægt köngulóarvefina af gluggum og runnum. Þetta eru bara ósköp venjulegar húsaköngulær, þessar feitu, íslensku sem hanga á gluggunum og fara aldrei inn. Þær trufla mig ekki neitt. Ég var svo miður mín yfir meðferð býflugnanna að ég sagði við hann að ég ætlaði að leyfa þeim að vera. Ég lofaði mér að ég ætlaði ekki að eitra meira fyrir einum né neinum. Og þær hafa launað mér með því að grípa óteljandi flugur sem annars hefðu farið hingað inn. Í gær sá ég hlussugeitung festast í vef köngulóar. Ég horfði á köngulóna stökkva eins og spretthlaupara og vefja geitungahelv.... inn eins og múmíu. Og ég hvatti köngulóna áfram. Það ríkti á milli okkar skilningur og það var jafnvægi á öllu. Mér leið miklu betur og köngulóin fékk kvöldmatinn sinn.

Nú suða býflugurnar í takt við tramp barnanna og við víkjum undan þeim ef þær stefna í átt að okkur. Það er skilningur á milli okkar allra og jafnvægi. 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Pride uppskriftin 2013 (gleðipinnar)!

Þá er komið að því.....Pride uppskriftin 2013.

Á hverju ári í nokkur ár hef ég sýnt réttindabaráttu samkynhneigðra stuðning með því að bjóða upp á uppskriftir með regnbogalitum (litum regnbogafánans) í tilefni Hinsegin daga. 

Í ár gerði ég frostpinna úr kókosolíu og hlynsírópi og ég notaði náttúrulega matarliti frá Indian Tree sem eru glúteinlausir, mjólkurlausir og vegan. Þeir eru RÁNdýrir (um 3000 kr flaskan fyrir nokkra millilítra). Litina má kaupa á Amazon og mæli ég eindregið með því að þið splæsið í svoleiðis ef þið getið því hefðbundnir matarlitir eru yfirleitt óþverri. Litirnir eru ekki mjög sterkir en það er jú af því þeir eru náttúrulegir!

Gleðipinnarnir eru sáraeinfaldir í framkvæmd en viðveran er svolítil þar sem maður þarf að bíða eftir að eitt lag frjósi áður en næsta lag er sett ofan í. 

Gleðilega Hinsegin daga!

Gleðipinnar 2013

Pridepinnar 2013. Ljúffengir og litríkir!

Meiri pride pinnar!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ný uppskrift: Rabarbara- og jarðarberjaíspinnar

Ég veit að margir eru að drukkna í rabarbara og hér er góð leið til að nýta hann. Einnig má nota frosinn rabarbara í þessa uppskrift (látið hann þó þiðna fyrst).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Hvernig útbúa skal sultað engifer (Gari)

Fyrir ykkur sem eruð óvön sushigerð þá er Gari (sultað engifer) notað til að hreinsa munninn á milli sushibitanna. Gari á ALDREI að setja ofan á sushibitana þegar maður borðar bitana. Bitarnir svo sem springa ekki ef það er gert, en við skulum vona að enginn Japani sé að horfa á ykkur borða...því svona gerir maður nefnilega ekki í Japan! Frekar en að nudda saman tréprjónum (einn versti ósiður sem maður getur upphaft við matborð Japana) eða að dýfa grjónum nigiri bita (grjón með fiski ofan á) ofan í sojasósuna fyrst (fiskurinn á að fara fyrst ofan í sojasósuna). Það á heldur ekki að hræra saman wasabi við sojasósuna (en ég hef reyndar séð Japana gera slíkt, á sushistað, í Japan og án þess að sushimeistarinn kálaði viðkomandi). Það má nota fingurna við að borða sushi (aldrei hnífapör) en hrísgrjón mega ekki vera í sojasósunni (óhreinindi eru ekki vel séð í sojasósunni). Það má hins vegar nota engiferið til að „pensla“ sushibitana með sojasósu. Það er einnig algjört virðingarleysi að skilja eftir sojasósu í skálinni, hún á alltaf að vera tóm eftir hverja máltíð (og helst hvern bita). Svo er heill kapítuli út af fyrir sig hvernig á að snúa prjónunum svo að maður sé ekki að tákna dauðsfall, blammeringar og ég veit ekki hvað. Það er þó efni í annan pistil. Við Íslendingar erum hins vegar dálitlir hill-billy-ar þegar kemur að sushiáti þannig að enginn tekur eftir því ef maður borðar ekki eins og Japönum sæmir. Það er hins vegar ágætt að lesa sér til um þessa borðsiði áður en ferðast er til Japan :)

Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart þegar fólk kaupir tilbúið engifer fyrir sushigerð því það er leikur einn að búa það til heima. Það er algjörlega fyrirhafnarinnar virði því ekki aðeins er það betra á bragðið, heldur er það mun ódýrara (ef þið gerið sushi oft), hollara (ekki hlaðið gervisætu og bleikum litarefnum) og geymist í marga, marga mánuði í krukkunni (en samt ekki of lengi til þess að manni þyki það dularfullt).

Það sem þarf er þetta:

  • Lítill mandolinskeri (eða stór, þarf bara að geta sneitt örþunnar sneiðar, svona eins og venjulegan skrifstofupappír að þykkt)*
  • Stevia dropar (hreinir) eða duft. Ég nota um 3-4 mtsk af stevia fyrir um 350 g engifer.
  • 600 ml hrísgrjónaedik (e. rice vinegar)
  • 1 tsk Himalaya salt eða sjávarsalt
  • 6-7 hreinar krukkur (frekar litlar því þið viljið ekki of mikið í hverri krukku)
  • Stór pottur til að sjóða engiferið í (og til að sótthreinsa krukkurnar)
  • Um 350 g ferskt engifer
     
  • Setjið hreinar krukkur og lok í pott og látið bullsjóða í 10 mínútur.
  • Hrærið saman ediki og salti. Smakkið til með stevia. Það á að vera nánast sjúklega sætt bragð af vökvanum (því hann vegur upp á móti beiska bragði engifersins). Edikið á einnig að vera svolítið salt svo bætið aðeins af salti út í ef jafnvægi beiska, salta og sæta bragðsins virðist vera í ójafnvægi.
  • Flysjið engiferið vel.
  • Skerið sneiðarnar örþunnt.
  • Fyllið stóran pott af vatni og látið suðuna koma upp.
  • Setjið engiferið í pott og látið bullsjóða í um 5 mínútur.
  • Setjið engiferið í sigti og látið renna af (soðvatnið er ekki notað).
  • Takið krukkurnar úr pottinum með töng og látið vatnið renna af.
  • Fyllið krukkurnar 3/4 af heitu engiferi og hellið svo ediksblöndunni út í þannig að fljóti vel yfir.
  • Lokið krukkunum og geymið í ísskáp í upp undir 6 mánuði.

* Mandolinskerar fást gjarnan í búsáhaldabúðum en geta kostað sitt. Þeir eru þó lífstíðareign ef þeir eru ekki settir í uppþvottavél. Það eru alls kyns gerðir til og best að fjárfesta ekki í þeim ódýrasta. Ég keypti minn mandolin skera á Amazon. Minn er reyndar grænn en liturinn skiptir auðvitað engu.

Engiferið sneitt í mandolinskeranum

Látið renna af engiferinu

Engiferið tilbúið!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Sjoppustopp nei takk

Nú eru margir á leið í sumarfrí þegar þetta er ritað, í sumarfríi eða að telja niður sekúndurnar í sumarfrí. Svo eru aðrir eins og við, sem eyðum sumafríinu í að flytja á milli landa. En nóg um það.

Ég fæ oft fyrirspurnir varðandi hvað maður getur haft með sér í nesti þegar farið er í ferðalög. Og þetta er góð spurning því draslið sem selt er í vegasjoppum landsins er til skammar. Og það er engin afsökun að „það hafi ekkert verið til í sjoppunni nema óhollt“. Best er að keyra fram hjá þeim alfarið. Börnin biðja ekki um sjoppustopp nema ef þau vita hvað það er. Þau vita ekki hvað það er, nema ef foreldrarnir (eða aðrir sem þau umgangast mikið) stoppa þar sjálfir. Svo regla númer eitt, tvö og þrjú ef ekki á að borða óhollustu í fríinu, ekkert sjoppustopp!
    
En eitthvað þarf að borða og þá kemur gott skipulag og nestisbox inn í spilið. Það má keyra hvert á land sem er, með gott nesti innanborðs. Það er að segja, þó keyrt sé til Akureyrar eða Egilstaða í einni lotu, er hægt að pakka nesti í kælibox og borða á leiðinni. Jafnvel má gera úr því lautarferð en kannski svo lengi sem metrar á sekúndu eru undir tveggja stafa tölunni. Börn (og fullorðnir) nefnilega elska lautarferðir. Í versta falli má borða nesti í bílnum (gott að taka handklæði með til að setja þannig að ekki fari matur í sætin og svo má dusta handklæðin að matmálstíma loknum). Hér eru nokkrar hugmyndir að nesti:

  • Hummus með niðurskornu grænmeti (hægt að hafa vegan, glúteinlaust og mjólkurlaust)
  • Hnetusmjör (heimatilbúið eða úr heilsubúð) með hrískexi/maískexi (vegan, glutenlaust og mjólkurlaust). Einnig má nota möndlusmjör eða cashewmauk
  • Hrökkbrauð með pestó
  • Samlokur eða vefjur með bókstaflega öllu milli himins og jarðar (við reyndar erum ekki mikið fyrir brauðmeti)
  • Súpur, hægt að setja á drykkjarfanta, taka með sér glös og hádegismatur leystur!
  • Kalt, niðurskorið álegg úr hreinu kjöti (fyrir þá sem borða kjöt)
  • Salöt t.d. kjúklingasalat eða salat með reyktum laxi svo lengi sem það er geymt í kæliboxi
  • Kalt pastasalat (við borðum reyndar ekki mikið pasta)
  • Þurrkaðir ávextir og hnetur (t.d. nemandanasl)
  • Hnetukonfekt
  • Kartöfluflögur úr heilsubúð (ósykraðar, án bragðefna, aukaefna eða transfitusýra)
  • Orkuhnullungar
  • Soðin egg til að narta í
  • Bananar
  • Ferskir ávextir skornir niður í hentugar stærðir, vínber eru líka sérstaklega hentug sem og kirsuberjatómatar (já tómatar eru ávextir) :)
  • Vatn á brúsum með t.d. frosnum jarðarberjum eða ferskjum út í
  • Gott er að frysta vatnsbrúsa nóttina áður en farið er í ferð (skiljið smá pláss eftir í flöskunni fyrir vatnið til að þenjast út) og taka svo með sér, þá má súpa af því alla leiðina og það helst vel kalt. Gott er að frysta piparmyntublöð ef litla sítrónubáta í vatninu


Það sem ætti að forðast á ferðalögum:

  • Sjoppufæði (hamborga, pylsur, heitt nachos o.fl.)
  • Jógúrtdrykki (þeir eru annað hvort sykraðir eða innihalda aspartam + litar- og/eða bragðefni)
  • Skyrdrykki (sama með skyrdrykkina)
  • Sælgæti
  • Ís/frostpinna með litar- og/eða bragðefnum
  • Gosdrykki  (alla gosdrykki, með/án koffeins og með/án sykurs)
  • Kartöfluflögur (með transfitusýrum, bragð- og/eða litarefnum og/eða sykri)
  • Kex (allt kex, bókstaflega)
  • Orkustangir og próteinbita hvers kyns
  • Orkudrykki hvers kyns
     
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Leikskólapælingar

Þetta er búið að vera skrýtinn tími fyrir okkur. Það er að segja að venjast því að búa á Íslandi aftur. Við getum ekki yfir neinu kvartað. Við búum á fallegum og friðsælum stað. Við höfum í okkur og á, þak yfir höfuðið og meira að segja garð með rabarbara. Sem börnin hlaupa í á hverjum degi. Þau hlaupa í lok dags, eftir leikskóla, beint í rabarbarabeðið og læsa tönnunum í einn stilk hvort (svona eins og þau séu GLORsoltin, sem þau eru ekki). Og svo tyggja þau, kafdrullug og grettin, með hor niður á gúmmístigvélin, rauð í kinnum og með úfið hár undan húfunum. Svona eins og íslensk börn í hnotskurn. Oft, í London, kom starfsmaður leikskóla að máli við mig í lok dags og baðst afsökunar á því að barnið væri í skítugum fötum. Ég sagði henni að það gleddi mig mikið að barnið væri skítugt, enda veit það fátt skemmtilegra en að liggja í mold og helst borða hana. Sem starfsmaðurinn skildi ekki alveg því flestar stelpurnar voru í tjullpilsum og nælonsokkabuxum, þrátt fyrir kuldann og strákarnir yfirleitt í spariskóm og þunnum jökkum. Nú skil ég tal vinkvennanna sem búsettar eru hér á landi um að það passaði að þvo eina vél eftir leikskóla hvern dag af 2 börnum. Í London voru leikskólafötin notuð 2 daga í röð, léttilega. Pollagallar og útigallar eru óþekkt fyrirbæri með öllu.

Ég sé hvernig íslenski andinn hefur þróast og mótast, bara af því að horfa á börnin á leikskólasvæðinu. Þau taka áhættur, þeim er leyft að gera mistök, þau standa upp aftur, reyna aftur, gera tilraunir, styrkja vöðvana, garga ef einhver tekur af þeim, eru frek, ákveðin og opinská. Þau eru einstaklingar í húð og hár. Þau éta sand og vita að það er í lagi. Kannski á það bara við um þennan leikskóla en í London var klifur ekki leyft, né rólur, né rennibraut (nema þessi sem var 50 sm há úr plasti og með dýnu undir). Sandurinn var sérstaklega innfluttur (ljós og fínn eins og hveiti) því „börnin þoldu illa grófan sand”. Ég skil ekki alveg hvernig börn eiga að taka út þroska ef þau mega ekki reka sig á, detta, hrufla sig og finna hversu gott það er að reyna upp á nýtt og takast það. Í London var alltaf 1 starfsmaður á 5 börn, sem þýddi að ef börnin voru í sandkassanum, var starfsmaður þar líka. Ef þau voru að sulla með höndunum í sérhönnuðu keri, var starfsmaður þar líka. Aðallega að passa að þau yrðu ekki skítug né blaut. Augun aldrei tekin af þeim og alltaf í bóluplasti. Svo gott sem. Engar slysagildrur. Sem þýðir að leikskólinn gat andað léttar yfir því að verða ekki fyrir barðinu á lögsóknum frá foreldrum.

Athafnafrelsið hefur sína kosti og galla. Kannski eru börnin sem vaða fram úr öðrum í rennibrautunum, þau sem seinna meir taka fram úr manni á beinni línu, þrátt fyrir að maður sé á aðeins yfir löglegum hraða. Kannski er þetta fólkið sem tekur stóru lánin síðar meir og heldur að hlutirnir reddist af sjálfu sér. Kannski borðuðu útrásarvíkingarnir mesta sandinn og rifu mestan kjaft við hina krakkana á róló. Það er allavega sérstakt að bera þessi tvö lönd saman og sjá hvernig börnin eru að mótast frá grunni. Mjög áhugaverð pæling.
 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Og þá erum við lent.....

...og tilfinningin er skrýtin. Svo skrýtin. Litli stubburinn er bara 2ja ára og skældi voðalega aumur fyrsta kvöldið. Hann vildi nefnilega fara „heim“ (til London). Og við skildum hann svo, svo vel því við skældum aðeins innan í okkur líka. EN við erum ægilega heppin með fólk í kringum okkur. Allir eru boðnir og búnir til að létta undir með okkur. Tengdó sótti okkur út á flugvöll og var búin að kaupa mat í ísskápinn og pönnukökurnar glöddu lítil börn sem áttu aðeins erfitt í hamaganginum. Er einhver sú stund til þar sem pönnukökur gleðja ekki? Pabbi var ekki bara búinn að verkstýra málaravinnu á húsnæðinu í marga daga heldur beið okkar sushi frá foreldrunum í innflutningsgjöf sem börnin borðuðu á gólfinu, alveg sama þó við ættum hvorki borð, né stóla né annað. Fyrir þeim er matur bara matur og svengd bara svengd hvort sem maður er í Kína eða Kúlusúkk. Og pabbi var líka búinn að smíða ramma innan í gluggana með svörtu plasti yfir svo íslenska sumarnóttin væri ekki að þvælast fyrir útlendingunum sem kunna ekki lengur á íslenskar sumarnætur og þurfa að sofa í dimmum herbergjum. Það er ekki sjálfgefið að eiga gott stuðningsnet og við erum þakklát öllu því góða fólki sem létti undir flutningunum.

Það er mikil breyting á högum okkar að fara úr 8 milljón manna borg þar sem ysinn og þysinn er krefjandi en skemmtilegur yfir í að heyra hanagal og fuglatíst. Íslendingar sem ég mæti á götum úti gæti allir verið að fara í jarðarför, fáir brosa, margir bölva veðrinu eða ríkisstjórninni og allir eru dökkklæddir. En við horfum út á sjóinn úr stofuglugganum og börnin eru að fara í frábæran leikskóla þar sem allur matur er eldaður frá grunni. Í dag söng næstum 4ra ára Afkvæmið óumbeðin Twinkle Twinkle Little Star fyrir deildina sína háværum rómi. Þessi mús sem grefur sig í hálsakotið þegar ókunnugir nálgast. Og svo spurði hún pabba sinn hvers vegna hann hefði verið með henni í leikskólanum (fyrsta daginn í nýjum leikskóla). Aðlögunin tók um 30 mínútur og málið dautt. Sá stutti varð glaður að sjá sand og skóflu.

Og ég get núna hætt að fálma eftir Brita vatnsíunni (sem maður notar í London til að gera vatnið drykkjarhæft) og get skrúfað beint frá krananum og fengið kalt, gott vatn beint í glasið. Og svo fannst rabarbari í garðinum og ég hoppaði hæð mína af gleði. Afkvæmi nr 1 vildi hins vegar fara í Natural History Museum daginn, og Disney búðina eftir heimkomu en það reyndist erfitt að verða við þeirri bón. Eðlilega. Aðlögun okkar (fullorðna fólksins) er ekki auðveld (pabbinn grætur kaffitárum yfir að missa bestu kaffihús London úr göngufæri) en enginn sagði að hún myndi verða það. Nú á ég aftur gamlan bakstursofn og ég þori ekki að prófa hann, af hræðslu við að ég þurfi að kaupa nýjan samstundis. En eins og ég hef alltaf sagt þá þarf maður ekki að eiga bestu græjurnar til að baka/elda heima og þess vegna ætla ég að nota hann þangað til ég safna mér fyrir nýjum. Ég brenndi þó grjónagrautinn í dag í fyrsta skipti frá því ég byrjaði að búa til grjónagraut. Það var verulega sárt, því ég hendi aldrei mat. Hellurnar bjóða upp á, sýnist mér, volcano eða iceberg stillingu. Svo ég þarf einhvern veginn að haga seglum eftir vindum. Ég er orðin of góðu vön í gegnum tíðina.

Og svo ætla ég ekki að flytja í bili...ég fann nefnilega kvittun frá því þegar við fluttum heim frá London 2007......og þar keypti ég sömu hlutina og ég keypti í London 2010....þið vitið....hraðsuðuketil, brauðrist.....blandara....æi. Og ég er að bíða eftir dóti sem við keyptum 2010....hraðsuðukatli, brauðrist og blandara.....það er á leið yfir hafið í þessum töluðu orðum, í glimmer- og límmiðaskreyttum kössum.  Í geymslu fann ég einmitt...þið giskuðuð rétt....hraðsuðuketil, brauðrist og blandara, frá því við fluttum 2001. Ég er svona raðflytjari (nýyrði) og nenni ekki að flytja aftur...allavega ekki í bili.

Leikið í fjörunni

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Pakkað ofan í kassa....með aðstoð.....

Að verða galin á því að pakka ofan í kassa

Að pakka í kassa með 2ja og 4ra ára sér við hlið er mesta skemmtun. Sagði enginn. Aldrei. Ég er heima með grislingana hálfan daginn og síðustu daga höfum við verið að pakka í kassa til flutninga. Eða ég hef reynt að pakka á meðan grislingarnir „aðstoða“.

Þetta er í 6. skipti sem ég flyt á milli landa. Ísland-London x 3 og svo núna í þriðja skiptið London-Ísland. Vinnufélagi Jóhannesar sagði að það væri líklega bara þægilegast fyrir okkur að hafa allt dótið okkar í geymslum hér úti þangað til við kæmum næst. Sem er alveg góður punktur. Svona miðað við söguna.

Ég er orðinn sérfræðingur í að pakka þannig að allt komist heilt til skila. Nema einu sinni brotnaði vatnsglas í stórsjó til Íslands 2007. Og einu sinni kom rúm brotið (og flutningsfyrirtækið reyndi að sannfæra mig um að það væri mér að kenna...en ég benti þeim á gaffallyftaraförin á rúmstokknum ásamt því að gaffallyftarinn hafði farið í gegnum kassa með glósum þannig að gat var í gegn).

Að pakka með 2ja og 4ra ára óvita, fyrir þá sem þekkja ekki til gengur cirka svona fyrir sig:

Ég: Eigum við að pakka þessum bolla inn í eitthvað mjúkt og setja í kassann?

4ra ára: Nei.

Ég: Hvers vegna ekki?

4ra ára: Það er ekki flott.

Ég: Hvers vegna?

4ra ára: Má ég fá gúrku?

Ég: En hvers vegna er það ekki flott?

4ra ára: Bara af því (samkvæmt 4ra ára barni er málið útkljáð).

Ég: En við þurfum samt að pakka inn dótinu okkar.

4ra ára: Nei.

Ég: Hvers vegna?

4ra ára: Má ég setja [þann tveggja ára] ofan í kassann?

Ég (öskrandi, á þann 2ja ára): EKKI HELLA GLIMMERINU OFAN Í KASSANN

2ja ára: Mamma? Gimme, boddni (glimmer á bollanum).

Ég: (hvæsandi, milli samanbitinna vara): ÉG VEIT.

Ég (2 klukkustundum síðar): Nú skulum við loka kassanum.

4ra ára: Nei.

Ég: Jú.

4ra ára: Nei.

2ja ára (gólandi): NEI.

Ég: Jæja nú tek ég límbandið og set á kassann (ssjjuuuuuutzzzzz).

Ég (orðin hás): KOMIÐ AFTUR MEÐ LÍMBANDIÐ, ÞAÐ Á AÐ VERA Á KASSANUM

4ra ára og 2ja ára grenjandi í kór: MAMMMMAAAAA........ lím í hárinu.

Ég (búin að senda 1. aðvörunar sms á eiginmanninn um að ég ætli að pakka börnunum ofan í kassa og senda á undan okkur): Jæja núna er kassinn lokaður.

4ra ára: NEIIIIIIII.

4ra ára (snöktandi): Bangsinn minn var í kassanum....

Ég: Hvaða [helv., djöf......] bangsi? (bölvið var ekki upphátt)

4ra ára: Mjúúúúúki baangsinn miiiiiiiinnnnnnn.

Þið fattið hvað ég er að fara. Það tók mig 10 klukkustundir samanlagt að pakka ofan í 3 kassa. Þeir eru allir skreyttir með glimmeri (glimmerlími og svo er bara svo mikið glimmer á gólfinu að það sogast á pappakassana). Svo þetta verða líklega fagurlegustu skreyttu kassar sem farið hafa á milli London og Íslands. Þeir eru líka allir merktir með nöfnum barnanna (sem reyndar enginn skilur nema við og þau). Ég er núna búin með 20 kassa. Við illan leik. Ég er búin á sál og líkama og ég á allavega 20 kassa eftir. Allavega. Ef ekki meira. Ég veit að eftir 20 ár á ég eftir að horfa til baka með blik í augum en ég er bara ekki á þeim stað núna :)

Myndin er fengin að láni af vef clipartof.com

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Þá er komið að því...aftur....

Það er komið að leiðarlokum í London. Aftur. Og alltaf er það jafn skrýtið og erfitt.

Við erum að flytja til Íslands í þriðja skiptið. Sjöttu flutningarnir okkar á milli landa síðan 2001. Þriðja tilraun til að búa á Íslandi. Einu sinni tolldum við í einungis 9 mánuði og við gáfumst upp og fluttum til London aftur. En við vorum laus og liðug þá og engin börn og það var jafn auðvelt eins og að stökkva í strætó því við eigum bankareikninga hér og kunnum á allt. Við vitum t.d. að það þýðir ekkert að reyna að panta tíma hjá lækni nema fara fyrst og panta tíma í skoðun hjá hjúkrunarkonu og skila þvagprufu. Það þýðir heldur ekkert að sækja um eitt né neitt nema ef maður er búinn að búa í heimilisfanginu sínu í um 3 mánuði því þá fær maður staðfest á blaði (í formi reikninga) að maður sé í raun og veru búsettur þar sem maður er. Það er engin kennitala, bara reikningar sem virka hér sem auðkenni.

En núna sem sagt, eftir samtals um 10 ára búsetu í London þá ætlum við að gera eina tilraun enn til að búa á Íslandi. Þrátt fyrir að margir séu á því að þar sé best að vera, þá er lífið aldrei svo einfalt. Það eru margir stórir gallar við Ísland. En það eru líka margir kostir. Sama á við um Bretland. Það getur enginn sagt að best sé að búa á Íslandi (eða annars staðar) fyrr en viðkomandi hefur prófað að búa erlendis í allavega ár. Eða það er mín skoðun.  

Árið 2001 fluttum við fyrst út, blaut á bak við eyrun og við stunduðum nám og vinnu. Jóhannes var að vinna hjá Walt Disney með MS náminu sínu og ég var í MS námi. Við bjuggum í úthverfi London og vorum svo blönk fyrst um sinn að við spöruðum lengi fyrir lestarferð til að komast inn til London. Inni í miðborg London áttum við einungis pening fyrir pizzasneið sem kostaði 1 pund. Á þessum tíma fannst mér fullkomlega eðlilegt að bjóða fólki upp á kjúkling úr dós. Hann var í kormasósu (ég vissi ekki einu sinni hvað það var). Þetta var í þá daga sem við sátum á Starbucks á Shaftesbury Avenue (sem nú er búið að breyta í samlokustað) og við létum okkur dreyma um að búa í miðborg London. „Hugsaðu þér Jóhannes, ef við byggjum í miðri London, þá værum við búin að meika það“! 10 árum síðar búum við í miðri London, 5 mín frá Oxford Street, og erum alveg alls ekki búin að meika það. En það var svo sem ekki tilgangurinn.

Dvöl okkar byrjaði ekki vel hér árið 2001 því töskunni minni var stolið úr strætó með öllu í henni, vegabréfum, greiðslukortum, reiðufé, fínum sólgleraugum (í eina skiptið sem ég hef átt dýr sólgleraugu, lífið er of stutt fyrir dýr sólgleraugu) og farsímum o.fl. Allar okkar efnislegu eignir þá, voru í töskunni. Við vorum heldur beygð þegar við hringdum heim úr tíkallasíma, daginn sem við komum til London.... En þann dag lærði ég hvaða raunverulegu merkingu „cup of tea“ þýðir í Bretlandi. Konan á hótelinu bauð okkur, með umhyggju í röddinni upp á „cuppa“. Heitur bolli af tei með mjólk gerir kraftaverk. Hann er mjöður sem læknar öll mein. Á þessum tímapunkti lærði ég að það er ekkert í heiminum betra, þegar illa stendur á, heldur en heitur tebolli. Svoleiðis var það líka þegar brotist var inn hjá okkur 2007, upp á þriðju hæð og öllu okkar dóti stolið (tjónið var upp á tæpa milljón og við vorum ekki tryggð...hver fer upp á 3ju hæð og brýst inn um miðjan dag?). Nágranni okkar bauð upp á „cuppa“ og bollinn bjargaði lífi okkar. Eftir heitan tebolla áttar maður sig á því að lífið heldur áfram og þetta er ekki það versta sem kemur fyrir mann.

Undanfarnar vikur höfum við verið að reyna að upplifa London eins og túristar því manni hættir til, eftir langa dvöl að líta á London sem heimabæinn sinn og maður hættir að sjá allt sem hún hefur upp á að bjóða. Það er ekki fræðilegur séns að ég geti álitið London útlönd því hér höfum við átt lengi heima, átt eitt stykki barn sem er nú orðið 2ja ára, alið upp annað í 3 ár hér o.s.frv. Börnin hafa búið lengur í Bretlandi heldur en á Íslandi. Dóttirin getur ekki borið fram „Nickers” almennilega og segir „Nxxxxxs“ með „gg” í staðinn fyrir „ck” sem er alveg skelfilegt, sérstaklega af því á leikskólanum eru nánast allir dökkir á hörund. Og hún hefur ekki hugmynd um hvað orðið þýðir, svo ég taki það fram. Það er því eins gott að flytja bara! Eins er líka skelfilegt þegar börnin eru að segja „sex“ (tölustafinn 6) en allir Bretar mistúlka auðvitað og halda að börnin séu að tala um eitthvað sem þau eiga alls ekki að vera tala um! Og gefa manni skrýtið augntillit.

Eins og áður sagði þá eru ótal margir kostir við Bretland. Eins og til dæmis sjálfsafgreiðslukassarnir í verslunum þar sem maður getur tekið sinn tíma til að versla og þarf ekki að hafa áhyggjur af því að maður fái taugaáfall (sbr. Bónus) þegar starfsfólkið þeytir vörunum (þó enginn annar sé að bíða) út í endann og skoðar svo neglurnar á meðan maður hendir lafmóður og sveittur í pokana. Ég mun fella tár við að komast ekki lengur í Waitrose (dýrðar matvöruverslun þar sem allir eru kurteisir og spjalla og hafa tíma ef mann vantar eitthvað) eða Boots (apótekið þar sem allt sniðugt fæst á góðu verði). Ég á eftir að sakna strætóanna sem maður hoppar upp í og kemst allt (maður þarf ekki að bíða lengur en 7 mínútur eftir næsta strætó hér innanbæjar). Ég á eftir að sakna kurteisa fólksins sem segir „afsakaðu mig” þegar ÉG rekst í það. Ég á eftir að sakna matarmarkaðanna, bændamarkaðanna, ávaxtasalans sem ég kaupi af á hverjum degi, kaffihúsanna þar sem ég sit og les greinar fyrir skólann, á hverjum degi. Og fjölbreytileika fólksins. Ég á eftir að sakna þess að börnin mín blikki ekki auga við að maður með grænan hanakamb og keðjur sitji við hliðina á okkur í strætó, eða að karlmaður með skegg, í kjól og með varalit labbi fram hjá. Eða fólk af öllum stærðum, gerðum, litum o.fl. sé hluti af þeirra daglega lífi. Fjölbreytileikinn.er.svo.ótrúlegur. Það er líka glatað að börnin geti ekki lengur sagt „mér er svo mál að kúúúúúúúúka...!!!!!“ (á íslensku) án þess að maður roðni. Síðast en ekki síst á ég eftir að sakna vorsins langa og haustsins sem er endalaust, þar sem maður getur verið léttklæddur frá apríl fram í október. Með djúpum trega kveð ég Whole Foods Market, þar sem ég dey úr hamingju við að koma inn og lifna við aftur og kem margefld út (með feitan mínus á debetkortinu). Að geta ekki labbað í eina bestu heilsubúð bæjarins, Planet Organic (sem tekur mig 5 mínútur að labba í), verður erfitt. Mjög erfitt. Veitingahúsin elskulegu sem við erum 10 mínútur að labba á, hvar sem þau eru (við erum svo miðsvæðis) með mat allt frá Ástralíu til Scandinaviu..... Ebay og Amazon.....ég kveð ykkur að eilífu, með trega. Amen.

Það sem ég á ekki eftir að sakna frá London er mengunin (sem hefur samt minnkað töluvert á þessum 13 árum sem við höfum haft náin kynni af London), að vera sífellt hrædd um að einhver kippi börnunum af götunni (veit að það er harla ólíklegt en augu mín víkja ekki í eitt sekúndubrot af börnunum, til öryggis). Ég á ekki eftir að sakna þess að ekki sé hægt að finna almennilega klósettbursta sem ekki eru fancy. Hverjum dettur í hug að framleiða klósettbursta sem eiga að endast meira en bara í 6 mánuði eða svo? Honestly? Ég á ekki eftir að sakna þess að búa í íbúð sem er með teppum á....verandi með 2 börn hér heima hálfan daginn (ok ekki teppi í eldhúsinu, en eldhús og stofa liggja saman og börnin eru SÉRLEGA slungin við að grýta mat langar vegalengdir). Ég mun gleðjast mikið yfir að þurfa ekki að greiða 200 þúsund fyrir hálfan daginn fyrir eitt barn á leikskóla. Ég mun gleðjast álíka mikið yfir því að þurfa ekki að ná í eldra Afkvæmið alltaf áður en börnin borða því alltaf er boðið upp á drasl (t.d. Tesco kökur sem hafa geymsluþol upp á 2 ár). Það verður líka mikið gott að geta drukkið gott og hreint vatn úr krana. Það er meira í ætt við lúxus myndi ég segja. Klárlega er líka lúxus að komast í berjamó og geta fyllt frystinn af bláberjum (ekki reyndar bestu bláberjum í heimi en bláberjum engu að síður).

En meira er þetta röfl og raul í mér. Ég veit af reynslu að það tekur langan tíma að venjast því að búa á Íslandi. Það tók okkur 3 ár síðast, akkúrat þegar við vorum búin að koma okkur fyrir, með barn, þá datt okkur í hug að flytja út. Því við getum ekki verið kyrr í langan tíma. Kannski tekur það okkur skemmri tíma núna að venjast öllu, vonandi. En það þýðir ekki að væla of mikið, bara best að gera það skársta úr stöðunni og vera feginn því að flytja á stað þar sem lífsgæðin eru einna mest (ef miðað er við OECD ríkin allavega). Ekki eins og við séum að flytja í eða úr stríðshrjáðu ríki. En Ebay og Amazon? Ég hlýt að eiga rétt á einhvers konar bótum......Skaðabótum? Miskabótum? Sárabótum. Anyone? 
 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It