Bloggið
Ný uppskrift: Rabarbarabaka (crumble)
Þetta er nú meiri snilldarbakan. Auðveld í undirbúningi og framkvæmd og bragðast alveg hreint dásamlega vel. Það er ekki ónýtt að eiga svolítið af heimatilbúnum vanilluís eða þeyttan rjóma með kökunni (þ.e. ef þið eruð ekki með mjólkuróþol eða ef þið eruð ekki vegan). Uppskriftin sjálf er vegan, án eggja og án mjólkur og auðvelt að gera án fræja (sleppa múskati) og án hneta (nota heilt bókhveiti í staðinn). Ég hef gert tilraunir með þessa uppskrift í nokkur ár í London en keypti alltaf rabarbarann í búðinni. Nú er ég að nota rabarbarann sem vex í garðinum mínum og ég get svo svarið það að bakan er 100 sinnum betri!
Ný uppskrift: Kanilsnúðar!
Ég var að setja inn þessa fínu uppskrift að kanilsnúðum sem ég er búin að vera með í kollinum í mörg ár en aldrei komið því í verk að setja á blað fyrr en nú. Uppskriftin er fremur lítil svo þið viljið kannski tvöfalda hana ef þið eruð mörg í heimili.....ég lofa því að meðlimir heimilisins munu sópa upp snúðana. Þeir eru einnig ferlega fínir í frystihólfið því það má hita þá upp varlega síðar og borða sem nýja!
Páskahugmyndir!
Eitt af því óhollasta sem við látum ofan í okkur er keypt páskaegg. Ef þið trúið mér ekki getið þið kíkt á innihaldslýsingu páskaeggs nr 2 og upp úr. Listinn er langur og óskiljanlegur. Eitt lítið páskaegg er kannski ekki svo slæmt en börn og fullorðnir borða heilu kílóin af súkkulaði og sykri yfir páskahelgina. Ekki gott mál.
Ég hef á síðustu árum farið þá leið að útbúa páskaeggin mín sjálf og börnin hlakka yfirleitt ákaflega mikið til. Ef fólk er með ofnæmi eða óþol er þetta líka besta leiðin því gera má eggin sín mjólkurlaus, eggjalaus, sykurlaus, glútenlaus, hnetulaus, vegan og allt mögulegt. Stundum fer ég þá leið að gera öðruvísi og óhefðbundin páskaegg og þau finnst mér skemmtilegast að útbúa því þá notar maður hugmyndaflug að vopni. Yfirleitt er ég með 2 egg. Annað er stórt pappaegg fyrir eitthvað eins og sokka eða smádót og hitt lítið pappaegg fyrir blandaðar hnetur og rúsínur, dökkt súkkulaði með hrásykri, eða heimatilbúið konfekt. Hér deili ég með ykkur alls konar öðruvísi hugmyndum fyrir páskana, sumar eru gamlar og aðrar nýjar en ég vona að þið njótið vel.
Ef þið kaupið tilbúið páskaegg, hafið stærðina þá í huga. Fyrir börn er hæfilegur skammtur af sykri talinn í kringum 10 grömm á hvert aldursár, einu sinni í viku (t.d. fyrir 3ja ára barn væru það 30 grömm einu sinni í viku og inn í því felast gosdrykkir, sælgæti, kex með sykri, morgunkorn með sykri o.s.frv.). Þetta gildir ekki einvörðungu um páskaleytið heldur allan ársins hring! Það er nokkuð ljóst að börn fá allt of mikið af sykri og eitt lítið egg ætti að vera hæfilegt flestum yngri börnum (sem ótrúlegt en satt flestum finnst óraunhæft sem sýnir hvað við erum orðin bjöguð í neyslunni). Sé meira í boði má geyma eggin og borða þau síðar, það þarf ekki að gúffa allt eggið/öll eggin á einni helgi!
Gömul uppskrift - ný mynd: Epla- og aprikósubrauð
Ég skellti í þetta dásemdarkökubrauð um daginn sem er nú ekki í frásögur færandi nema fyrir það að uppskriftin er eldgömul. Þetta kökubrauð klikkar ekki. Ég notaði steviadropa á móti hrásykrinum en nota má hrásykur eingöngu.
Ný uppskrift: Kornflekskökur!
Ég var að setja inn þessar frábæru kornflekskökur fyrir barnaafmæli og önnur tækifæri. Þær eru hollari en þær hefðbundnu m.a. járnríkari, próteinríkari og sykurminni. Ég get eiginlega ekki hætt að borða þær!
Gömul uppskrift - ný mynd: Hummus!
Við elskum hummus og borðum hann allavega einu sinni í viku, stundum oftar. Hann má nota með svo til öllu og svo er hummus bara bráðhollur líka!
Ný uppskrift: Hráfæðis Valentínusarsmákökur
Þessar hráfæðissmákökur eru alveg hreint upplagðar á Valentínusardaginn en einnig fara þær einkar vel t.d. í barnaafmæli (séu börnin ekki með ofnæmi fyrir fræjum eða hnetum). Það er best að borða þær hálf frosnar eða allavega mjög kaldar. Eins og sjá má á myndinni hérna fyrir neðan reyndist það börnunum erfitt að bíða eftir að fá að smakka!
Vatnsdeigsbollur -uppfærð uppskrift og ný mynd
Ég var aðeins að dusta rykið af vatnsdeigsbolluuppskriftinni minni og færa hana í nýrri búning. Ég bætti líka uppskrift að glassúr við því mér finnst hann léttari en súkkulaðið (bollur + rjómi + sulta er eiginlega alveg nóg). Ég notaði erythritol í glassúrinn og er hann því alveg sykurlaus. Börnin voru óskaplega hrifin af þessum tilraunum mínum og það voru glöð börn sem þjófstörtuðu bolludeginum í gær!
Ný mynd - gömul uppskrift
Það er alltaf jafn gaman að skora á sjálfa sig til að gera betur. Hér er ég búin að uppfæra gamla mynd sem er nú töluvert hressilegri en sú sem var fyrir!
Ný mynd - gömul uppskrift
Það er alltaf jafn gaman að skora á sjálfa sig til að gera betur. Hér er ég búin að uppfæra gamla mynd sem er nú töluvert hressilegri en sú sem var fyrir!