Bloggið
Veggspjald yfir olíur og notkun þeirra
Margir klóra sér í höfðinu yfir hvernig nota á olíur. Er gott að steikja mat með ólífuolíu? Á að geyma hörfræolíu í ísskáp? Þolir kókosolía mikinn hita? Hvað með smjör?
Svörin má finna í þessu yfirliti yfir olíur og notkun þeirra. Prenta má skjalið út og hengja upp á vegg. Skjalið er í PDF sniði (736 Kb að stærð). Það hefði mátt aðgreina litina betur fyrir þá sem hafa skerta litasjón eða eru litblindir og það hefði einnig mátt birta upplýsingarnar í þægilegri töflu samhliða þessu skjali fyrir þá sem eru blindir og nota skjálesara (en starfs míns vegna pæli ég í þeim hlutum...og bara smámunasemi í mér...að öðru leyti hefur mikil vinna farið í að taka upplýsingarnar allar saman fyrir okkur hin til að njóta) :)
Alltaf fjör í London
Þetta var svolítið scary dagur í gær hér í London. Hann byrjaði ósköp venjulega hér heima og Afkvæmi 1 var að lúra á meðan ég var að stússa með Afkvæmi nr. 2. Upp úr 12.30 heyri ég mikil sírenulæti. Ekki óalgengt í 8 milljón manna borg að heyra læti, sérstaklega af því við búum við Tottenham Court Road (TCR), nálægt University College Hospital með tilheyrandi sjúkrabílum o.fl. sem þangað þurfa að streyma.
Stuttu síðar hringir Jóhannes og spyr hvort að sé örugglega í lagi með okkur. Ég hváði við, það var allt í lagi með okkur. Hann sagði mér að á TCR væri umsátur og að það væru mikil læti. Í því augnabliki heyri ég í þyrlunum og kíki út um gluggann og þar er allt stopp. Íbúðin okkar er með tvöföldu gleri svo niður af götunni heyrist ekki mikið en þegar ég opnaði gluggann og kíkti út, blasti við mér það sem sést á efstu myndinni. Mannmergðin var sem sagt á götuhorninu okkar.
Ég vissi ekkert nema að einhver gæi hafði tekið gísla, hefði hótað að sprengja upp byggingar og fólk og í kringum hann væri mikið umsátur. Jóhannes hélt fyrst að umsátrið væri í bankanum sem er bara 20 metrum frá okkur en hann hélt það þar sem fyrstu myndirnar á Sky og fleiri miðlum voru af því svæði. Eðlilega var hann áhyggjufullur. Ég var ekki of stressuð þar sem ekki var um hryðjuverk að ræða (sem eru yfirleitt af skipulagðari og útbreiddari toga) en var auðvitað ekki rótt heldur þar sem þetta var beinlínis í götunni okkar. Sem dæmi voru allar byggingar fyrir framan okkar hús rýmdar og öll TCR gatan lokuð umferð. Ég ákvað að skoða ástandið og meta þá hvort að ég ætti að fara á leikskólann með Afkvæmi 1. Við héldum af stað út en alls staðar voru lögreglubílar, sjúkrabílar, sérsveitarmenn, sprengjuleitarmenn og hundar. Einnig voru fréttamenn í viðtölum út um allt en sírenur og þyrluhljóð- kæfðu allan hávaða í mannmergðinni úti en um hundrað byggingar voru rýmdar og þar sem fólk komst ekki í lestar né strætóa (allt stopp) þurfti það því að bíða úti. Ekki var þverfótað fyrir lögreglumönnum.
Við komumst loksins á leikskólann og það tók um 20 mínútur (tekur annars um 5 mínútur) (en þar sem hann var ekki lokaður og lögreglan sem ég talaði við taldi ekki ástæðu til að loka honum), skilaði ég henni af mér í góðri trú. Mér var reyndar ekki alveg rótt því leikskólinn er í um 50 (fimmtíu) metra fjarlægð frá húsinu þar sem gæinn var (nánast fyrir ofan Starbucks-inn sem við förum reglulega á). Eftir á að hyggja hefði ég auðvitað bara átt að halda mig heima, til öryggis.
Ég rölti svo heim en um 15 mínútum síðar fékk ég símhringingu um að leikskólanum yrði lokað og ég þyrfti að ná í Afkvæmið. Sem var hið besta mál, mér var enda rórra við að hafa hana hér.
Það var skrýtin tilfinning að sjá fréttaflutning af Sky og heyra í þyrlunum fyrir ofan húsið í beinni útsendingu. Mér leið ekki sérstaklega vel þegar ég heyrði að leyniskyttur væru komnar á þökin hérna víða (sjá mynd hér að neðan). Það var því gott að komast heim og í öruggt skjól.
Þetta endaði allt vel og maðurinn var handtekinn (hann var orðinn leiður á lífinu og meira til). Ég áttaði mig á því hvað maður er heppinn að þurfa ekki að búa við svona ástand (og þúsundum sinnum verra) hverja mínútu og hvern dag. Torrington Place gatan (þar sem Planet Organic heilsubúðin er staðsett) var auðvitað lokuð (næsta gata við umsátrið, sjá mynd hér fyrir neðan) og um 8 brynvarðir lögreglubílar af stærstu gerð í götunni. Ég var hrikalega pirruð að komast ekki í heilsubúðina til að kaupa lífrænt framleitt súkkulaði en einni sekúndu síðar skammaðist ég mín fyrir að hugsa svona. Þetta flokkast víst undir lúxusvandamál.
Þó að London sé tiltölulega örugg borg (allavega þar sem við búum), getur maður ekki annað en horft yfir öxlina á sér. Það þarf bara einn einstakling í ójafnvægi til að skapa mikinn glundroða og taka mannslíf en sem betur fer fór ekki illa í gær.
Flókafléttur
Ég bregði mér stundum á Vantra, þar sem starfsfólkið var næstum því búið að drepa mig munið þið. Mér þykir ágætt að fá mér nocaf (kaffi sem er ekki kaffi) og skoða mannlífið, lesa (ég les þar stundum greinar og glærur fyrir skólann og svoleiðis). Yfirleitt alltaf hægt að fá sæti, aldrei troðið og afslappað andrúmsloft.
En já, í síðustu viku kom inn kona með lengsta hárflóka (dreadlocks) sem ég hef á.ævi.minni.séð. Takið eftir rauðu örinni á myndinni....þar enduðu lokkarnir. Er aldrei sjampólykt af hárinu hennar? Hvernig þurrkar hún hárið? Þarf hún að binda hárið upp þegar hún fer á dolluna? Ætli sé ekki leiðinlegt að finna aldrei vindinn leika um hárið (elska það þegar ég er að sigla einhvers staðar eða keyra í safaríbíl í Afríku). Svo margar spurningar.....Síðast en ekki síst....HVERS VEGNA?
Gömul uppskrift í nýjum búningi
Mér finnst hrikalega gaman að taka gamlar uppskriftir af vefnum mínum sem annað hvort hefur enga, eða mjög ljóta mynd (þær eru ófáar) og dubba þær upp þ.e. endurgera þær og taka mynd. Þannig verður uppskriftin líka betri því maður betrumbætir í hvert skipti.
Ef það er einhver uppskrift sem ykkur langar að sjá í nýjum búningi (með mynd) þá megið þið alveg láta mig vita....
Aprílgabbið 2012?
Ég ruglaðist á dögum. Ég hélt að frétt á mbl.is í gær varðandi sælgætisát Íslendinga væri gabb. En í gær var 31. mars. Ekki 1. apríl.
Sjokkið þegar ég komst að því að fréttin væri ekki uppspuni, var algjört:
- Ég get ekki trúað því að hvern laugardag sé 8 tonna af sælgætis neytt af nammibörum Íslands (og þetta eru tölur einungis af nammibörum).
- Ég þori ekki að trúa því að við neytum um 800 tonna af sælgætis (á laugardögum) ár hvert.
- Ég vil ekki trúa því að samanlagt neyti Íslendingar 6000 tonna af sælgætis ár hvert. Það er eins og meðal stórt skemmtiferðaskip.
- Ég neita að trúa því að við borðum að meðaltali 19 kg af sælgæti á mann, á ári. Í þessum tölum eru líka börn sem oft eru ekki meira en 19 kg sjálf. Þau borða þá þyngd sína í sælgæti á ári.
- Ég staðfastlega ætla ekki að trúa því að við eyðum um 1.2-1.5 milljörðum á ári í sælgæti. Hvað kostar t.d. að kaupa nýjar græjur á barnadeild spítala? Er einhver að kvarta um kreppu?
Þessar tölur eru einungis mældar út frá nammibörum Íslendinga á laugardögum. Það skiptir ENGU máli þó að hina dagana sé ekki neitt sælgæti borðað...því 19 kg er svívirðilega hátt. Og mig grunar líka að sælgætis sé neytt aðra daga líka. Ekki í öllum tilfellum. En mörgum. Fyrir utan alla aðra óhollustu sem neytt er eins og gosdrykkja, skyndibita o.fl.
Í ár eru 25 ár frá því ég hætti að borða sælgæti og aðra almenna óhollustu (unnar matvörur, bakarískökur o.þ.h., kex, skyndibita o.fl., o.fl.). Ok kannski ekki allir jafn klikkaðir og ég en bara það að minnka sælgætisneyslu um líkamsþyngd barns væri góð byrjun. Hvernig væri t.d. að stefna að því að borða 1.9 kg af sælgæti á ári í staðinn fyrir 19 kg? Ég hugsa að á allri minni ævi hafi ég ekki náð að borða 1.9 kg af sælgæti, svei mér þá. 
En þetta útskýrir svo margt. Svo, svo margt. Foreldrar, við erum fyrirmynd barna okkar hvað heilbrigða líkamsþyngd sem og tannheilsu varðar. Við verðum að grípa inn í og horfa til framtíðar.
Bráðið bretti
Svona í beinhörðu framhaldi af síðustu færslu....þá set ég inn hérna mynd af því sem ég gerði (óvart) í dag......
Just in case
Ég er týpan til að (allt sannar sögur):
- Hella málningu í gólfið ef ég held á málningardós, af því ég lít á úrið.
- Standa heillengi við gangbraut án þess að fara yfir götuna, þó ég sé búin að ýta á takkann og græni karlinn birtist, (bara gleymi að labba yfir).
- Senda sms og setja símann við eyrað og bíða heillengi (hissa á að heyrist ekkert dring, dring).
- Setja headphone-a í eyrun en gleyma að kveikja á ipodinum, í eins og klukkustund (gerist mjög oft samhliða atriði nr. 2).
- Gleyma að ég er að láta renna í bað (er orðin betri með þetta).
- Gleyma því að ég sé að sjóða egg, eða pasta, eða hrísgrjón.
- Standa með bakið í arineld og fatta ekki að kápan mín er að bráðna.
- Kveikja í matseðlinum (óvart auðvitað) á rómantískum veitingastað.
- Fara í hraðbanka og gleyma að taka peninginn.
Það er því ekki að undra að sumir hafi áhyggjur af því hvort ég komist örugglega í gegnum daginn heil og óskemmd (miðað við 15 beinbrot m.a. kjálka-, mjaðma-, 3 handleggs-, viðbeins-, fót- og fleiri brot skil ég það enn betur).
Pabbi minn er eldhræddasti maður á þessarri plánetu. Hann myndi líklega ganga í teflonnærbuxum ef þær væru framleiddar. Það er gott að vera eldhræddur og í ljósi þess að það hefur aldrei brunnið hús ofan af pabba mínum, er það nokkuð vel af sér vikið að vera svona forsjáll. Við bjuggum í stóru húsi þegar ég var yngri og ég man enn eftir rauðu brunaslöngunni sem mig minnir að hafi átt að ná góða leið í kringum húsið. Það var líka slökkvitæki, eldvarnarhurð (sem var svo þung að hún var eins og öryggishurð í bankahvelfingu), eldtefjandi gifs í veggjum (pabbi byggði húsið sjálfur enda húsasmíðameistari), eldtefjandi ull eða eitthvað á milli veggja, eldvarnarmálning, eldvarnarsteypa, eldvarnargler, eldvarnarteppi og reykskynjarar eins og við hin setjum upp ljós, á 100 sm fresti eða svo. Eða þannig var það í minningunni. Svo voru nægilega margar útgönguleiðir til að allir gætu örugglega komist út, hvar sem var í húsinu. Það voru a.m.k. 7 dyr á húsinu (að meðtöldum tveimur svalahurðum). Rúmlega ein fyrir alla fjölskyldumeðlimi (meira að segja ein fyrir páfagaukinn sem kunni ekki að fljúga...hann gat bara labbað en það er önnur saga). Ég er að hugsa til baka að í öllum þeim húsum sem hann hefur byggt fyrir fjölskylduna hafa verið óvenju margar útidyr. Í minningunni litu teikningarnar út eins og jóladagatal (svona sem maður opnar fyrir hvern dag). Ég vonaði pínulítið að myndi kvikna smábál einhvers staðar (án þess að skemma eða skaða neinn) svo pabbi gæti tekið brunaslönguna fram og slökkt hetjulega í bálinu og talað um kosti þess að vera með brunavarnir. Bara svona hans vegna því það var enginn annar með 50 metra brunaslöngu inni í miðju húsi (það var heldur enginn annar með silungafiskeldi í kjallaranum en það er önnur saga). Það gerðist þó aldrei að slangan yrði notuð (sem betur fer auðvitað). Ég hélt að allir pabbar væru svona eldhræddir. Þegar ég var mun yngri talaði ég oft um brunaslönguna hans pabba sem náði næstum því utan um allt hús og væri svört. Skildi ekkert í því að það flissuðu sumir krakkarnir og spurðu mig hvort að pabbi minn væri frá Afríku.
Þegar við skötuhjúin fluttum í okkar eigið húsnæði þurftum við auðvitað að prófa alla reykskynjara 100 sinnum og pabbi kom færandi hendi með brunastiga, slökkvitæki og eldvarnarteppi. Svona „just in case“. Við vorum á 2. hæð í pínulitlu húsi og hefðum vel getað klifrað út um gluggann. Það hefði engu máli skipt hvort við hefðum verið í kjallara, pabbi hefði samt komið með brunastiga. Ég fór oft að pæla í því að ef myndi kvikna í (sem gerðist aldrei sem betur fer) væri ég líklega komin út á götu, búin að setja á mig maskarann, brjóta saman þvott og hella upp á kaffi í ferðabrúsanum, á meðan ég væri að bíða eftir slökkviliðinu. Ég myndi svo rétta vöskum slökkviliðsmönnunum brunastiga og eldvarnarteppi ef þeir þyrftu á að halda „just in case“.
Það kviknaði reyndar einu sinni í húsi sem við áttum. Við vorum ekki flutt inn og það kviknaði í, í kjallaraíbúð hinum megin í húsinu. Við höfðum verið eigendur hússins í 3 daga þegar þetta gerðist og vorum miður okkar því það var ekkert slökkvitæki, eldvarnarteppi og enginn brunastigi kominn á staðinn (og auðvitað kviknaði í). Það var skelfileg lykt í gamla timburhúsinu og mann sveið í augun af reyknum. Slökkviliðið mætti á staðinn og húsnæðið var reykræst. Reykræsting er dularfullt hugtak. Rétt upp hönd þið sem vitið hvað felst í að reykræsta? Maður heyrir í fjölmiðlum af slökkviliðinu að „reykræsta“ húsnæði og maður sér fyrir sér menn með Ghostbusters ryksugur á bakinu, í svona geimfarabúningi að soga burt reyk. Ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum þegar það kom maður frá tryggingafyrirtæki og setti lítið útvarp á gólfið. „Við látum tækið vera hérna þangað til reykjarlyktin er farin“. „Með útvarpi?“ spurði ég eins og auli. Reykrækstingin gerði sitt gagn og lyktin hvarf á einhverjum vikum. Það voru engir innanstokksmunir sem betur fer. Ef við hefðum verið flutt inn hefði ég örugglega dregið fram eldvarnarstigann og hent honum út um gluggann, klifrað niður, vafin inn í eldtefjandi teppi. Þó ég hefði getað labbað niður stigann og út um útidyrnar. Bara af því brunastiginn var undir rúmi, eins og alltaf. Það kviknaði svo í eitt sinn í húsi sem við bjuggum í hérna í London þegar eigandi kjallaraíbúðarinnar gleymdi baunum í pottinum. Það kom svakaleg lykt upp á 4ðu hæð og slökkviliðið mætti á staðinn og braut niður hurðina og bjargaði baununum. Það þurfti engan eldvarnarstiga en ég var að hugsa um að bjóða slökkviliðsmönnunum upp og sýna þeim hvað ég væri vel búin „just in case“.
Þegar við fluttum í varanlegt húsnæði hérna í London fyrir um ári síðan keypti ég auðvitað brunastiga, og eldvarnarteppi, og slökkvitæki. Reykskynjararnir eru tengdir rafmagni og geta ekki orðið hleðslulausir (batteríslausir). Í hvert skipti sem ég flyt í nýtt húsnæði þyl ég upp eldvarnirnar fyrir pabba og hann segir „gott, gott“ og svo talar hann um hvað eldvarnir skipti miklu máli (sem þær gera). Ég hef það líka fyrir vana að skoða alltaf útgönguleiðir hvar sem ég er næturgestur, hvort sem ég er á hóteli eða í heimahúsi. Ég stóð mig að því í fyrra, í 10fm strákofa í Kenya að svipast um eftir útgönguleið...(really Sigrún?). Ég er orðin verri með þetta eftir að við urðum fjölskylda en svo sem eðlilegt. Ég er alltaf að plana, ef kviknar í, hvaða leið við förum út. Ég er með svona „just in case“ skúffu í náttborðinu með öllum vegabréfum (það fyrsta sem var stolið af okkur auðvitað þegar var brotist inn þar sem við áttum einu sinni heima). Það er líka alltaf sími við hendina í svefnherberginu. Það er nefnilega yfirleitt að maður er sofandi þegar maður kemst ekki út og það kviknar í og þá er gott að vera með vegabréf og síma innan seilingar, „just in case“.
Hvers vegna í veröldinni er ég að velta þessu fyrir mér? Því mér finnst að forsjálni pabba míns eigi að skila sér til ykkar líka. Hann hefur nefnilega lagt sig mikið fram við að smíða t.d. glugga sem opnast þannig að allir komist út ef á þarf að halda, og passa upp á útgönguleiðir. Það er gott að vera vitur eftir á og eiginlega mjög erfitt þegar kviknar í. Það gerist allt of oft að fólk lætur lífið í eldsvoða og mér finnst ég alltaf að vera lesa frásagnir af foreldrum hér sem missa börnin sín í eldsvoða. Eld má oft slökkva og eldi er hægt að komast undan, ef rétt er að öllu staðið. Með eld er eiginlega engin afsökun, maður verður að vera undirbúinn. Það eru ekki allir með 50 metra langa brunaslöngu en þegar líf fjölskyldunnar er í húfi er eins gott að maður geri allt rétt, „just in case“.
Setja á to-do listann fyrir vikuna: Skoða útgönguleiðir ef eldur kviknar, hver tekur kaffivélina, börnin, blandarann og  (þið sem þekkjið Elektru vitið hvers vegna hún er á undan börnunum í listanum) o.s.frv. Athuga reykskynjara, kaupa eldvarnarteppi, slökkvitæki og ef þið eruð eins og pabbi minn, eldvarnarstiga þó svo þið væruð búsett í kjallara...það er alltaf ágætt „just in case“).
Frétt dagsins í London....
Ég gat ekki annað en hlegið......sá sem var að raða fréttunum inn í blaðið hefur ekki alveg verið með layout blaðsins á hreinu....eða eitthvað....haha
Upptekin býfluga (busy bee)
Er.svo.mikið.að.drukkna í skólanum. Mörg ykkar kannski þekkið myndina: Mamman gjóar augum á námsefnið sem liggur á eldhússkenkinum með eitt Afkvæmi á handleggnum, hitt hangandi í buxnaskálminni, annað grenjandi, hitt með hor lekandi niður á höku, á meðan pastað sýður og síminn hringir. Basic.  Sem betur fer er ég að kafna úr áhuga yfir námsefninu. Ég er t.d. að skrifa ritgerð um tengslin á milli offitu og of lítils svefns. Tengslin eru mun sterkari en maður myndi ætla (og eru til komin vegna hormóna eins og ghrelins, leptins og cortisols. Cortisol er streituhormón og hefur áhrif á hverja frumu líkamans og leptin og ghrelin hafa áhrif á seddu- og svengdartilfinningu). Þeir sem þekkja mig vita að ég er með svefn-þráhyggju gagnvart börnunum og enginn og ekkert getur haft áhrif á að þau fái að sofa...nema í neyðartilvikum (flugferðir og spítalavist). Kannski sem betur fer því lítill svefn um 30 mánaða getur spáð fyrir um offitu barns um 7 ára aldurinn! Ég er að lesa svo glæ-, glænýjar rannsóknir að þær eru ekki einu sinni komnar í vísindatímaritin. Ótrúlega spennandi. Týpískar rannsóknir auðvitað sem enda í blöðunum með stríðsletri og allir leggjast undir sæng til að vera mjóir. Þetta er ekki aaaaaaalveg svo einfalt mál en er spennandi engu að síður. Verst bara að ég hef 2 mínútur á dag til að læra og enn minna þegar börnin eru lasin. Eins og núna. Ó well....þetta er það sem ég valdi mér.
Saga úr búðinni
Þar sem við búum er „kaupmaðurinn á horninu“ á jarðhæð hússins. Þar getur maður keypt ýmsar nauðsynjavörur eins og salernispappír og mjólk. Þetta er reyndar Co-operative verslun sem þýðir að verslunin er hluti af risa keðju. Engu að síður er starfsfólkið indælt og flest farið að þekkja okkur. Það heilsar og spyr um daginn og veginn, hvernig börnin hafi það o.s.frv. Í dag fór ég niður og gerði vikuinnkaupin sem ég geri yfirleitt ekki í þessari búð því þeir eru ekki með lífrænt ræktað grænmeti/ávexti. Ég er búin að vera lasin alla helgina og hafði enga orku í að labba í kuldanum út í Tesco sem er mun stærri verslun. Var reyndar ferlega svekkt því þeir eru með hrikalega góðar melónur um þessar mundir. Líka svekkt yfir því að þurfa að gefa yngra Afkvæminu gufusoðið og maukað epli sem ekki var lífrænt ræktað. En ojæja það svelta börn í heiminum hugsa ég alltaf með mér ef svona stendur á....
Anyway, ég fór um búðina og tók hitt og þetta og setti í körfuna. Inn koma tvær mjög ógáfulegar konur. Þær voru líklega að koma beint af djamminu (í kringum 11 að morgni) og voru rammskakkar. Þær voru reyndar mjög lifaðar, skakkar í framan, með beyglaðan munn, þrútin augu, önnur í allt of þröngum hlébarðaleggings en hin með þykka, bleika frotteteygju til að halda strekktu, hárúðahúðuðu (fyndið orð er það ekki ha ha) hárinu í tagl. Ég tók eftir þeim því þær voru stórfurðulegar og eins og drukknar án þess að það væri áfengislykt af þeim. Sem segir mann bara eitt...þær voru rammskakkar af einhverju þurru. Ég tók líka eftir þeim af því þær voru með 5 glænýja Co-op poka (sem eru eiturgrænir með bláum stöfum) í höndunum. Ég pældi svo ekkert meira í því. Nema á leið minni um búðina (hún er mjög lítil) tók ég eftir því að pokarnir voru að bólgna út. Ég sá þær svo stöðva fyrir framan snyrtideildina, þar sem Valentínusarbaðsölt voru á tilboði. Ég sá nokkur svoleiðis enda í pokanum. Á þessum tímapunkti kom á móti mér sendibílstjóri og hann horfði beint í augun á mér og svo á konurnar tvær. Hann virtist vera að gefa þeim illt auga. Ég pældi ekkert meira í því. Svo var ég búin að versla, fór með vörurnar að afgreiðsluborðinu og í því segir önnur konan við hina „heyrðu já svo eiga þeir áfengi líka, vantar okkur ekki svoleiðis“ og hún grípur stóra flösku af Vodka og setur undir höndina. Svo labba þær út. Með 5 troðfulla Co-op innkaupapoka. Ég gapti. Sendibílstjórinn gapti. Starfsfólkið tók ekki eftir neinu. Ég benti afgreiðslukonunni á að konurnar tvær sem voru að trítla yfir götuna hefðu stolið öllu því sem þær héldu á. „Ha!!!???“ sagði afgreiðslukonan. Sendibílstjórinn tók undir með mér. Nema í því kemur önnur konan til baka á meðan hin labbar áfram. Hún var að skila tímariti fyrir ungar stúlkur (æi einhverju með galdranornum og plast-skartgripum). Hún lét starfsmanninn fá tímaritið og labbar svo til baka. Starfmaðurinn gapti. „Það var þessi kona“ sagði ég (í ertu FÁVITI tón) við starfsmanninn. Hann vissi ekki í hvorn fótinn hann átti að stíga. Hann var með 2 konur á móti sér (og duftið sem þær fengu sér í morgunmat var örugglega ekki próteinduft svo óvíst hvernig þær hefðu brugðist við) og hann gat ekki haldið þeim á meðan hann hringdi á lögreglu. Hann kom til baka, inn í búðina með sælgætispoka í höndunum. Afgreiðslukonan horfði á hann stóreyg „skiluðu þær sælgætispokanum?“. „Já þær fíluðu ekki svona gúmmíbangsa og hlaupkarla“.