Village People (þorpsbúarnir)

Við erum komin í þorpið á hæðinni. Hér má stundum sjá hesta á götunni og maður mætir mjólkurbílnum í mistrinu á morgnana. Þegar rignir eru fínar frúr í fínum stigvélum sem labba um með rennislétt hárið (þó að það sé rigning og rok). Þessi bær er eiginlega bara mini-London og auðvitað aðeins minni um sig heldur en það sem við eigum að venjast en hér er þó allt til alls. Hér er t.d. Starbucks með útigarð og barnastóla og börnin eru öll stillt og prúð. Þau eru almennt ekki í frekjukasti með hor í nefinu og eins gott að vera með snýtibréf á lofti. Það eru engir pabbar í íþróttabuxum og hvítum hlýrabol með lítinn, ljótan bardagahund í bandi. Það eru heldur engar mömmur með bert á milli svo skín í naflann heldur eru mömmurnar allar með axlapeysur og slegið hár og þær eru blettafríar eins og allar fínar mömmur. Þær eru heldur ekki með 3-4 mislit börn í eftirdragi. Pabbarnir eru líka allir hávaxnir með krullur og í Babour reiðjökkum. Hér er líka organic hárgreiðslustofa sem ég hlakka til að prófa (kannski fær maður rosa fínt og slétt hár þó að sé rok og rigning?) og það má einnig finna organic efnalaugar (sem kannski ná öllum matarblettunum úr fötum foreldranna?). Hér má líka finna heilsubúðir, bakarí og litlar sætar matvörubúðir.

Jóhannes kom mér heldur betur á óvart þegar við fluttum inn því hann gaf mér Vitamix blandara sem er eins og Unimog (ofurtrukkur) blandaranna, forljótur en óstöðvandi og kemst allt. Mig er lengi búið að langa í svona blandara en hef haldið mig við Kitchenaid hingað til. Þegar við fluttum út (tæplega ár síðan) skildi ég Kitchenaid blandarann eftir heima með tárin í augunum en ætlaði að fjárfesta í nýjum, sem ég var ekki búin að láta verða af. Jóhannes setti sig svo í sambandi við Lísu vinkonu sem gat fengið upp úr mér (með lymskum ráðum) hvaða blandara mig langaði mest í. Mig grunaði ekki blandaða baun. Jóhannes sagði að sem ritari fyrirtækisins (við erum með fyrirtæki hérna úti sem rukkar inn verktakalaun fyrir mig (og Jóhannes þegar þess þarf) þyrfti ég svona græju. En ekki hvað. Það var reyndar við litla hrifningu mína sem ég var skráð ritari því Jóhannes er Director (stjórnandi) fyrirtækisins og fær póst merktan þessum merkistitli reglulega inn um lúguna. Ég verð pirruð í hvert skipti. Mig minnir að ég hafi hótað kökulausu ári þegar ég komst að þessu fyrir mörgum árum síðan. Þetta eru svo sem bara formsatriði mig minnir að stofnhlutafé fyrirtækisins hafi verið 1 pund ha ha svo þið sjáið nú umsvifin. Jóhannes hefði alveg eins getað verið ritarinn en svona var þetta skjalfest af lögfræðingi. Ég ætla að líta á blandarann sem blygðunarálag fyrir að vera blandaralaus ritari í þetta langan tíma. Að vera ég og vera blandaralaus er eitthvað sem á bara ekki að geta gerst. Það er eins og að fyrir garðyrkjumann að búa á Sprengisandi. Vitamixinn er algjört ofurtæki og það tekur um 3 sekúndur að gera smoothie sem er svo mjúkur að það er eins og maður sé að drekka silkiloft. Algjörlega brilliant. Hann getur maukað allt. Ef mig vantar möl í blómapott mauka ég bara gangstéttarhellur. Eða svo gott sem. Ég hlakka til að gera tilraunir með hann.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lísa Hjalt
20. jan. 2011

Ég hef mestar áhyggjur af því að héðan í frá verði allar uppskriftir maukaðar! Við verðum sjúgandi súkkulaðikökur og baunarétti með röri. Já og gangstéttarhellur líka!

Hefði betur sagt Jóhannesi að þú hefðir engan áhuga lengur á blöndurum.

Melkorka
20. jan. 2011

Yndislegt að lesa. Bæði skemmtilegt og lipurt og svo er húmorinn alltaf einhvers staðar á milli laga hjá þér.

Hrönna
25. jan. 2011

Til lukku með blandarann, vitamix er algjör draumur!! Skil ekki hvernig þér tókst að vera með kitchenaid blandara í allann þennann tíma, mér finnst þeir með lélegri blöndurum á markaðnum

sigrun
25. jan. 2011

Ég var/er reyndar mjög ánægð með KitchenAid blandarann minn og hann reyndist mér mjög vel í þessi 5 ár sem ég notaði hann, nánast á hverjum degi (og er ekki hætt, hann er bara í smá pásu :) Kannski af því ég er að miða við blandarann sem ég átti áður sem var 2000 króna blandari :) Miðað við Vitamixinn þó kemst KitchenAid-inn ekki þar sem hinn hefur hælana en svona sem heimilisblandari þá var hann nokkuð fínn (að mínu mati)....

Hrönna
26. jan. 2011

já það er kannski ekki að marka mig, ég er búin að bræða úr einum blandara og brjóta tvo :). Ég var með kitchenaid blandara í láni á tímabili og fannst hann ómurlegur en auðvitað fer þetta allt eftir því við hvað maður miðar, hann hentar örugglega vel í ýmsa hluti og er jú betri en margt annað á markaðnum.

sigrun
26. jan. 2011

He he það er greinilega ekkert að marka svona 'blandaraböðla' eins og þig :) Kannski var KitchenAid-inn sem þú fékkst að láni orðinn slappur? Ég var allavega voðalega ánægð með minn en auðvitað má finna betri blandara, ekki spurning.

A Elísabet
26. jan. 2011

Alltaf jafn skemmtileg að lesa bloggin þín. Og til hamingju með blandarann og nýja hverfið... Hvernig gengur með hárið??
Ég tók sko ekki annað í mál en að vera titluð sem forstjóri þegar ég var með Hreðavatnsskála... Og held að ég muni enn eiga rétt á því þegar það kemur að því að velja starfsheiti á legsteininn minn.... rennur svona nokkuð út?