Jólamaturinn

Í gær gerði ég piparkökukarla. Ég átti ekki bökunarsóda svo þeir urðu svolítið fjölfatlaðir og það hefði verið hægt að skera með þeim gler. Það var þó allt í lagi því þeir brögðuðust vel. Við borðuðum þá bara eins og brjóstsykur. Ég er heldur ekki með blástursofn (langt síðan það gerðist síðast) en það er bara gaman að díla við svoleiðis ofna því þeir geta verið dyntóttir. Við erum sem sagt komin til Íslands fyrir nokkru síðan (og að deyja úr gleði yfir að vera ekki föst á Heathrow). Við erum í húsi við Elliðavatn og það fer vel um okkur (því íbúðin okkar er jú í útleigu). Við vöknum við hanagal og erum búin að setja upp jólaljós sem við fengum að láni hjá tengdó. Meira þurfum við ekki. Við ætlum kannski að klippa nokkrar greinar til að setja í vasa til að hafa sem jólatré. Á meðan Afkvæmið fattar ekki þetta með „jólatré“ þá skiptir það engu máli hvort að það sé aumingjaleg grein eða grenitré. Í framtíðinni verðum við líklega að koma okkur upp einhverju tréi til að geta skreytt það enda ómögulegt að Afkvæmið verði eina barnið sem þarf að dansa í kringum greinar á aðfangadag. Það er ekki hægt.

Ég er í óða önn að undirbúa jólamatseðilinn (margir hafa spurt mig hvernig jólamaturinn heima hjá okkur sé) en á honum verður m.a. Asparssúpan, Karrýhnetusteikin, Sætar kartöflur bakaðar með pecanhnetum og hlynsírópi, eitthvað mega gott salat, einhver sósa sem ég malla og svo auðvitað í eftirmat piparkökur (eða aðrar smákökur), ís (líklega Græni ísinn) og svo Óáfenga jólaglöggið svona þegar við förum í pakkaopnun. Það ætti að duga okkur he he. Reyndar sofnar Afkvæmið (15 mánaða) yfirleitt fyrir kl 18 svo við ætlum að halda eins konar „litlu jól“ í kringum þann tíma sem hún er vön að borða kvöldmatinn (um kl 16 leytið) og þá opnar hún kannski nokkra pakka svona til að fá smá stemmningu. Annars eru borðar, slaufur og pappír auðvitað aðalmálið. Innihaldið skiptir minna máli.

Ég er búin að skila því sem ég þarf í vinnunni, pakka inn öllum gjöfum og skrifa öll jólakortin svo nú mega jólin eiginlega koma (a.m.k. þegar ég er búin að gera Karrýhnetusteikina). Á bara eftir að versla í matinn og setja á mig svuntuna!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It