Hugleiðingar um matarvenjur yfir jólin

Jólin reynast mörgum erfið í matarmálum. Það eru milljón ástæður fyrir því og kannski ekki síst framboðið af mat nánast allan desembermánuð, alls staðar. Ég hef lesið frásagnir matarfíkla sem upplifa jólin eins og þeir ímynda sér áfengissjúkling í vínbúð (nema kannski heldur verra þar sem löglegt er að auglýsa mat og það er örugglega nóg gert af því um jólaleytið). Ég skal ekki dæma um það enda ekki í þessum sporum sjálf. Framboð af mat er í sjálfu sér ekki vandamálið því skorturinn víðast hvar í heiminum er öllu stærra vandamál. Við búum hins vegar ekki í þeim löndum þar sem framboð á mat er lítið (sem betur fer) og ég ætla því ekki að einblína á það að þessu sinni. Reyndar sá ég nýlega í fréttum að framboðið virðist vera allt of mikið þar sem við erum í hópi þeirra þjóða í heiminum sem eru hvað þyngstar. Ekki gott.

Fyrir þann sem er í aðhaldi eða vill ekki bæta á sig í kringum jólaleytið (eða bara yfirleitt) getur desember verið afar erfiður. Það eru smákökur alls staðar, allir að baka og gefa smakk (dónalegt að segja nei?), kynningar í verslunum, piparkökur á borðum vinnustaðarins, jólaglögg, kakó á Laugaveginum, konfekt í tonnavís undir jólatrénu og bíður eftir að verða étið yfir sjónvarpinu, jólahlaðborð, jólaboð o.fl. Hluti af vandanum er sá að erfitt er að segja nei við freistingum, hluti er illa skipulagður tími í jólaösinni (hver, fyrir utan mig tekur með sér nesti t.d. í Kringluna?), mikill erill á fjölskyldufólki (jólaböll, litlu jólin, föndurkvöld, hittingar, boð, alls kyns matarklúbbar) og oft er hungrið farið að segja til sín einmitt þegar kona í matvörubúðinni klædd fjólubláum, glansandi kjól réttir fram bakka af litríku konfekti. Jólahlaðborð eru sérstaklega hættuleg því fólk missir hreinlega alla glóru. Það treður á diskinn hjá sér síld, rúgbrauði, purusteik, baunasalati, súrum gúrkum, hangikjöti, rauðrófusalati og hreindýrakjöti....á SAMA diskinn. Eitthvað sem fólk myndi ALDREI gera heima hjá sér. Mér finnst reyndar gaman að fara á jólahlaðborð en skemmtilegast finnst mér eiginlega að fylgjast með því hvað fólk á næstu borðum lætur á diskinn sinn og ofan í sig. Það er ævintýri líkast.

Ég veit að ég hjálpa kannski engum og pirra kannski einhvern þegar ég segi að yfirleitt léttist ég í kringum jólaleytið. Ég bæti allavega ekki á mig. Ég hef ekki átt vigt í 20 ár og eini mælikvarðinn á þyngdina er fötin mín. Ef þau eru farin að þrengja að, er ég búin að borða of mikið og hreyfa mig of lítið. Svo einfalt er það. Ég er ekki matarfíkill (og þetta eru því einfaldir hlutir í mínum huga en ég veit að þeir eru það ekki fyrir sumum), þó ég sé fíkill á allt sem viðkemur uppskriftum og uppskriftabókum og öllum eldhúsgræjum, sérstaklega nestisboxum og silíkon muffinsformum. Ég fæ hins vegar margar fyrirspurnir frá fólki sem á í mikilli baráttu við sjálft sig í kringum þennan tíma. Ég hef tekið saman nokkra punkta hér sem kannski hjálpa einhverjum. Þeir eru þó ekki heilagur sannleikur og duga eflaust ekki þeim sem heyja alvarlega baráttu við fitupúkann. Enda á maður þá að leita sér alvöru hjálpar. Þessir punktar eru meira fyrir þá sem gleyma að hugsa í desember og svo allt í einu er kominn janúar og buxurnar orðnar of þröngar. Það er líka ágætt að hafa í huga að líkleg ástæða fyrir því að ég þyngist ekki yfir jólin er að ég er jú grænmetisæta (og jólasteikurnar eru því ekki í myndinni) og ég hreyfi mig. Ég borða mig auðvitað sadda á jólunum en aldrei meira en venjulega og aldrei þannig að mér líði illa (eða afar, afar sjaldan og þá helst ef tengdó býður í humarsúpu!). Maður á að sjálfsögðu að gera vel við sig, ekki síst á sjálfan aðfangadag en sumir reyna að teygja „sparidagana“ þegar kemur að mat og stundum fara þeir að nálgast tvær vikur ef ekki er farið varlega

Mér finnst aðalgaldurinn í kringum jólaleytið að maður neiti sér ekki um neitt sem manni finnst gott (hvort sem það er hnetusteik, kalkúnn, Hamborgarhryggur, nautalundir) en halda skammtastærð þeirri sömu og maður gerir út árið. Þannig helst blóðsykurinn jafn og stöðugur. Sveiflurnar geta nefnilega orsakað það að fólk dregst að konfekt-smakkinu eins og mý að mykjuskán og leggst í jólaölsdrykkju og smákökuát undir miðnætti.

Nokkur hollráð:

 • Útbúið hollt konfekt til að hafa á borðum í staðinn fyrir súkkulaði-sykur blönduna sem ALLIR borða yfir hátíðarnar.
 • Sleppið konfektinu í fallegu kössunum. Umbúðirnar eru hollari en innihaldið í mörgum tilfellum.
 • Gerið hollan ís í eftirrétt og bjóðið upp á hollt konfekt/holla köku.
 • Haldið skammtastærð hóflegri. Borðið ekki á ykkur gat (sem orsakar aftur sveiflur í blóðsykri).
 • Neitið ykkur ekki um það sem ykkur finnst gott en takmarkið magnið (t.d. 1 konfekt með kaffi á kvöldin...ekki 10). Ákveðið magnið fyrir fram.
 • Hafið ávallt mandarínur og aðra ávexti á borðum í staðinn fyrir smákökur og konfekt.
 • Smákökur eiga ekki að vera sýnilegar nema „með kaffinu“ eða á þeim tímum sem þær eru framreiddar. Að öðru leyti á að pakka smákökum í box svo að þær séu ekki uppi við.
 • Kaupið inni hæfilegt magn af mat, ekki gera ráð fyrir að verða hungurmorða á Jóladag.
 • Einskorðið kjötið aðeins við „sparidagana“, sérstaklega salt kjöt.
 • Gerið góðar bakaðar kartöflur í ofni og sleppið sykurhúðuninni. Pensla má kartöflurnar með svolitlu agavesírópi til að fá sæta keiminn.
 • Bjóðið upp á góð salöt með öllum mat og leggið alúð við að útbúa það. Hafið fyrir reglu að allir fjölskyldumeðlimir verði að fá sér salat á a.m.k. fjórðung disksins.
 • Notið magrar mjólkurvörur (t.d. matreiðslurjóma í súpur og sósur. Einnig má nota hafrarjóma, hann lækkar vonda kólesterólið í blóðinu!).
 • Drekkið vatn með matnum, ekki jólaöl (nema kannski á aðfangadag). Hitaeininga- og sykurmagnið í einu glasi er aaaaaaaaaansi hátt.
 • Borðið fiskmeti og grænmeti þá daga sem eru ekki „sparidagar“.
 • Ef afgangar eru af kjöti má frysta þá og nota síðar, ekki troða magann út af kjöti yfir allar hátíðarnar „bara til að klára“.
 • Bakið speltbrauð sjálf í staðinn fyrir að kaupa hvítu, mjúku brauðbollurnar.
 • Takið alltaf með ykkur hollt konfekt, banana eða orkubita þegar farið er að versla og farið auðvitað aldrei svöng í búðina. Það er auðveldara að segja nei við óhollu konfekti þegar maður er nýbúinn að stinga upp í sig mola af hollu konfekti.

Svo má alltaf hugsa „pfffft skítt með þetta, ég hleyp þetta af mér eftir jól“ sem er gott og vel. Ef svo er má ignora þennan „pistil“. En fyrir einhverja vona ég að hann gagnist.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Melkorka
10. des. 2010

Þetta er bara yndislegt og góður stuðningur. Ég er í kjörþyngd en þarf að passa mig á kökum og nammi. Get alveg misst mig í slíku og orðið dofin af sykuráti. Nú fer ég að skoða hollu konfekt uppskriftirnar.

Sigrún Þöll
11. des. 2010

Flottur pistill nafna!...

Nú vantar bara Share on Facebook hlekk á síðuna til að geta deilt honum á einfaldan hátt :) :) :)

hahahha.. ég þurfti að hugsa þegar ég var að reikna úr ruslpóstvörnina.. heilinn ekki alveg í sambandi í lyfjavímunni :) Hversu flókið getur verið að leggja saman 1 + 11 hahahaha

sigrun
11. des. 2010

Góður punktur Sigrún. Ég reyni að henda honum inn á eftir (hélt ég væri búin að því!!).

Gangi þér vel með framhaldið....

sigrun
11. des. 2010

Hæ aftur Sigrún, búin að bæta Facebook hnappinum við :)