Kuldaboli

Það er friggin’ kalt í London þessa dagana. Svo kalt að beinin frjósa og blóðið myndar köggla (aaaalveg satt). Það er kannski ekki alveg að marka þegar ég segi að sé kalt en þegar Jóhannes fer í þykka peysu og jakka í vinnuna, þá er K.A.L.T. Það hefur verið frost og svolítil föl yfir öllu og auðvitað mjög rakt. Sem betur fer búum við í húsnæði sem er vel heitt og heldur vel hita. Það er bara svo fyndið þegar snjóar í London, því það fer allt í svakalegan hnút og vitleysu. Lestarnar hætta að aka (því það er jú ekki hægt að keyra lestarnar í snjófölinni), maður heyrir ekkert annað en sírenur því það eru slys út um allt (fólk að hrynja í götuna, fólk að detta á hjólum, bílar að lenda á staurum og öðrum bílum o.fl.), kaffihúsin yfirfyllast af fólki í leit að einhverju heitu í magann því fólk er við það að hrökkva upp af í frostinu. Upplifunin er eins og þegar maður setur eitthvað í veginn sem truflar línu iðinna maura. Það er bara ekki gert ráð fyrir snjó í London og Bretar kunna ekki á þetta hvíta fyrirbæri sem er farið að birtast árlega yfir vetrartímann. Á sunnudagsmorgni var búið að kafsalta allar gangstéttar því það var spáð snjókomu á mánudegi. Það var hins vegar mun meira af sýnilegu salti en snjó, á mánudeginum.

Árið 2004 man ég fyrst eftir því að hafi snjóað í London (þ.e. þann tíma sem við höfum verið búsett í borginni). Við vorum aðeins út fyrir London reyndar og það snjóaði nokkuð hressilega. Ekkert reyndar sem maður hefði kippt sér upp við á Íslandi. Maður hefði bara skafið snjóinn af bílrúðunum, bölvað hressilega (eða ég bölva kuldanum alltaf) og keyrt af stað. Bretar kunna ekki enn þá á nagladekk og klóra sér í hausnum yfir því hvernig þeir eigi að komast frá A-B á bílunum sínum. Þeir bíða svo bara eftir því að einhver komi og salti eða skafi göturnar og vona svo að þeir keyri ekki á staur eða bíl eða fólk. Svo hringja þeir í AA (sem aðstoða fólk í neyð á götum úti) og óska eftir hjálp. Ég man að Jóhannes var um 4 klukkustundir að komast heim en var svo heppinn að geta fengið leigubíl frá Disney. Elva vinkona var hins vegar föst í miðri London, engar lestar og allt í rugli. Hún komst heim á miðnætti þetta kvöld eftir að hafa verið að reyna að komast heim allan daginn (við bjuggum hlið við hlið). Ég vorkenndi henni svooooo mikið.

Ég var að vinna heima þennan dag en frétti síðar að fólkið á skrifstofunni hefði sumt ákveðið að hér eftir myndi það geyma nærbuxur og tannbursta í skúffunni sinni, svona ef það þyrfti að sofa þar.

Ár eftir ár er það sama sagan og Bretar verða alltaf jafn hissa á að sjá hvítu flyksurnar á leið niður. Blöðin eru uppfull af snjósögum, hrakfaraspám, veðurspám, fréttum af dauðsföllum o.fl. Það verður fróðlegt að sjá hvort þeim tekst að læra lexíu fyrir næstu ár?

Það er þó pínlegt að vera svona mikið klædd, blá á nefinu, skjálfandi með frosin bein og kögglað blóð (vegna kuldans) og þurfa aðspurð að stynja upp úr sér með skjálfandi tennur að maður sé frá Íslandi…. „já svo þú finnur ekkert fyrir kuldanum er það?”. „Uuuuu nei ekkert svo….”

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Hrönnsa
04. des. 2010

haha, ég man þetta svo vel þegar ég bjó í bretlandi og það varð allt stopp við smá fönn. Bý núna í Danmörku og lýsingar fréttamanna hér af snjónum er eins og komin sé heimstyrjöld..og það er bara snjór, engin ófærð eða brjálað veður, bara snjór :)