Popparinn

Það voru þrír hlutir sem fóru síðastir ofan í kassana á Íslandi sem fóru svo í geymslu:

  1. Kitchenaid blandarinn
  2. Popparinn
  3. Brauðristin

Reyndar var eitt Martini glas uppi við sem við drukkum lengi vel úr, bæði smoothie (úr blandaranum), vatn o.fl. Ég hafði nefnilega safnað að mér hálfu tonni af bláberjum (svona hér um bil) svo þegar við vorum í því að pakka gerðum við bláberjasmoothie hvern morgun til að nota birgðarnar. Ég hendi aldrei, aldrei mat. Við vorum með bláar varir alla okkar heimsókn á Íslandi. Það er samt skondið að við áttum Martini glas því hvorugt okkar drekkur áfengi. Það var líka skondið að gefa Afkvæminu vatn að drekka úr Martini glasi, sérstaklega þegar voru gestir. Hefði átt að stinga grænni ólífu ofan í glasið. Ástæðan fyrir því að ég átti Martini glas er sú að ég nota það stundum í myndatökur fyrir vefinn og það er erfitt að pakka Martini glasi sem er ástæðan fyrir því að það var ekki komið ofan í kassa. En bláberin kláruðust og við fylltum á andoxunar- og járntankinn fyrir lífstíð.

Poppari

Popparinn okkar var eitt af því fyrsta sem við keyptum þegar við fluttum fyrst til London árið 2001. Við erum búin að nota hann í svona 30,000 skipti. Hann er asnalegur í laginu (eins og önd) og forljótur en hefur gert sitt gagn. Hann pakkast illa og því ákváðum við að taka hann ekki með þegar við fluttum í þetta skiptið. Við vissum sem væri að við myndum kaupa aðra græju þegar til London væri komið. Þegar við fórum að leita sáum við að hann fæst ekki lengur nema á Ebay og fyrir 140 pund. Við keyptum okkar á 10 pund hér um árið. Svona popparar eru ekki bara sniðugir af því þeir eru fljótir að poppa poppkorn og með engri fyrirhöfn, þeir sprengja nefnilega maískornið með heitu lofti og maður þarf því ekki olíu eða neitt slíkt. Afskaplega létt og ljúft.

Popp getur nefnilega verið ógeðs-óhollt (bíópopp sem og kafsaltað transfitupopp sem fæst í pokum) eða fáránlega hollt og hitaeiningasnautt (léttsaltað og létt olíu-úðað poppkorn, poppað með heitu lofti). Af því við borðum svo oft poppkorn er ekkert vit í öðru en að nota svona græju. Popp í potti má fá sér spari. Þar sem popparinn okkar fékkst nú bara á uppsprengdu verði voru góð ráð dýr og við leituðum eftir annarri svipaðri græju. Við rákumst á þennan í Heal’s og féllum alveg fyrir honum. Hann er ekki bara flottur svona eldrauður og retro heldur þægilegur í notkun líka og kostaði bara 20 pund. Hann býr til úrvals poppkorn. Við eigum því orðið nýjan poppara.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Eygló
29. nóv. 2010

Vááááá mig langar í! Ég er einmitt búin að vera að leita að svona gaur og þessi er æði! Ætli sé hægt að kaupa hann oline?

sigrun
29. nóv. 2010

Já örugglega hægt að kaupa online :) Athugaðu www.heals.co.uk til dæmis, eða Amazon.

mooney
02. des. 2010

sælar sigrún mín og til lukku með nýja vefinn! Ég var einmitt að setja poppvél á jólagjafalistann, fær þessi ekki gó hjá þér: http://ht.is/index.php?sida=vara&vara=PC3751

svo er spurning hvort við þurfum ekki að taka hitting í belgíu á nýju ári!

sigrun
02. des. 2010

Líst bara nokkuð vel á þessa en hef ekki prófað þessa tegund sjálf....Þetta eru svoddan imbavélar, þær blása heitu lofti og búið, fátt sem getur bilað í þeim :)

Eigðu ljúfar stundir með popparanum :)