Klipping, jólaskreyting, kerrupokar og nýr vefur

Ég pantaði tíma í klippingu og strípur í dag. Sú sem var með mig síðast tók niður bókunina. Hún horfði á mig og spurði „og hjá hverri?“ Ég benti með skjálfandi fingri á þá sem hefur klippt mig og strípað mig einu sinni og laug blákalt „Ég er alltaf hjá henni“. Við erum að díla við mafíuna auðvitað og ég er viss um að þær eiga allar „vini“ og ég er viss um að þær vita allt um mig. Hún horfði líka pírðum augum á mig, þagði í smá stund og skrifaði svo niður nafnið mitt. Ég var dauðhrædd um að lenda í 3ja tíma lotu eins og síðast. Ég verð þó bara örsnöggt næst eða um 1,5 tíma. Þar skall hurð nærri hælum.

Jólaskreytingin er komin á Carnaby Street. Hún er mjög speisuð í ár...það hanga geimfarar og stjörnur og plánetur yfir götunni og allt blikkar og tindrar. Óskaplega fallegt. Mér fannst samt jólapakkarnir held ég fallegastir eða jólakúlurnar sem voru einu sinni.

Það er farið að kólna í London og Afkvæmið komið í kerrupoka eins og öll börn í London sem eru þó með afbrigðum illa klædd. Ég horfi skjálfandi á börn í kerrum sem eru ekki einu sinni með húfu og ég sé í bert skinnið á milli sokka og buxna. Ég skil það bara ekki. Afkvæmið er í ull upp úr og niður úr, í úlpu, þykkum buxum, með þykka húfu, vettlinga, í ullarsokkum og ofan í kerrupoka. Hún er íslensk og ég þori ekki að viðurkenna það fyrir neinum því við búum jú í snjóhúsum á meðal ísbjarna. Mamman er eins mínus kerrupokinn (sem ég öfunda Afkvæmið ekki LÍTIÐ af). Þessa dagana í London myndi teljast sumarhiti á Íslandi eða rétt tæplega 10 stig á daginn og ég er samt skjálfandi úr kulda. Ég er ekki byggð til að þola kulda.

Nýi vefur CafeSigrun er að verða tilbúin. Trúi því varla að ég sé að skrifa þetta, búið að taka meira en ár í að koma honum saman (með mikilli vinnu okkar beggja, ekki síst Jóhannesar og svo auðvitað erum við búin að vera upptekin í að koma Afkvæminu á legg, að flytja á milli landa, sinna störfum okkar o.fl.). Það er allt hægt ef maður á ekki sjónvarp, ég segi það enn og aftur!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

hrundski
11. nóv. 2010

Geimfarar...... jiiiii ég verð semsagt að fara með geimstrákinn minn þangað :) búin að pannta far í des..... hann segist vera að fara að hitta jólasvein í London....og pabba sinn :) Nú get ég sagt að hann sé að fara að sjá geimverur líka hihi

sammála þessu með illa klædd börn þarna..... skil þetta ekki og það er svo rakt og kalt brrrrrrrr.

CafeSigrun.com
11. nóv. 2010

Ég gat ekki betur séð en að þetta væru geimfarar...eða jólageimfarar kannski...allavega í geimfarabúningum og hangandi í loftinu með plánetum, stjörnum o.fl....eiginlega heilt sólkerfi sem hangir þarna :)

Harpa, aðdáandi síðunnar
12. nóv. 2010

Vá, ég hlakka svo til að sjá nýja vefinn! Það verður góð jólagjöf :)

Melkorka
14. nóv. 2010

Þú ert frábær penni Sigrún, fyrirgefðu að ég er alltaf að bögga þig með því en ég er jú að bíða eftir að fá allt saman prentað á góðan pappír svo ég geti haft með mér uppí sófa. Það bjargar oft deginum að lesa svona texta þar sem húmorinn er í hverju horni.

CafeSigrun.com
14. nóv. 2010

Ha ha Melkorka það er um að gera að sparka í rassinn á mér. Fyrst er það nýi vefurinn, svo enska útgáfa vefjarins (sem er næstum því tilbúin) og SVO skal ég fara að huga að...þú veist :)

Alma
15. nóv. 2010

Vá hvað ég hlakka til að sjá og nota nýja vefinn. Húrra fyrir ykkur hjónum.