Jólin koma, jólin koma

Það er óumflýjanlegt, jólin eru að bresta á í London. Rauðu Starbucksjólabollarnir eru komnir á kreik og maður sér fleiri innkaupapoka á örmum fólks en áður. Ég labbaði í grenjandi rigningu fyrir nokkrum dögum á Tottenham Court Road (sem er í nálægð við heimili okkar) og við mér blasti einn fallegasti jólagluggi sem ég hef séð lengi í Heal‘s (sem er húsbúnaðarbúð sem verið hefur á þessum stað frá því árið 1700 og súrkál). Það spruttu jólasvitaperlur á ennið á mér og ég fann að ég komst í jólaskap. Ég hummaði meira að segja jólalag sem var snöggtum skárra en The Wheels on the bus go round, round, round sem var búið að vera pikkfast í kollinum síðan deginum áður. Ég fór með afkvæmið í svona Stay and Play þar sem hægt er að hitta aðra foreldra og börnin þeirra (og hellingur af leikföngum, bókum o.fl.) og þar var sungið (skelfilegt að þurfa að hlusta og sitja en fyrst að afkvæmið hafði gaman að þessu þá lét ég mig hafa það). Afkvæmið er á biðlista eftir dagvistun og því þarf að fylla tímann á daginn svo hún verði ekki eins og sýningarbjörn bundinn við staur, að rugga sér fram og aftur. Sem betur fer hefur hún gaman af því að stússa með mér í eldhúsinu (í þeirri von um að matur lendi í munninum á henni, enda mesti matgoggur sem fyrir finnst, uppáhaldsmaturinn er grænmetissushi).

En já, jólin. Það er afskaplega gaman að upplifa jólastemmninguna í London vikurnar fyrir hátíðarnar og ég hef saknað hennar síðustu 3 árin. London er dubbuð upp í sitt fínasta púss og eftirvæntingin eftir jólaskreytingunum á Carnaby Street er alltaf mikil hjá mér og Jóhannesi (og fleirum). Nú þegar eru að potast upp jólaljós á Regent Street og Oxford Street. Starbucks býður upp á jóladrykkina sína, á Leicester Square er reist lítið tívolí og alls staðar eru fallegar jólaskreytingar, fólk með jólapoka og börnin rjóð í kinnum. Kosturinn við jólastemmninguna hér er að ekki einni einustu verslun dettur í hug að spila jólalög og þó að sum íslensku jólalaganna séu ágæt þá er yfirleitt sami jóladiskurinn í gangi í öllum verslunum svo að maður verður ágætlega heilaþveginn að syngja Jólahjól fram undir nýja árið. Kenny Rogers og Dolly Parton, Michael Jackson, Ivan Rebroff, KK og Ellen og nokkrir fleiri góðir kunningjar eru þeir einu sem eru leyfðir til spilunar á okkar heimili og það á fyrirfram ákveðnum tímum (hjálpar mjög ef smákökuilmur er í loftinu).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
05. nóv. 2010

hreint út sagt DÁSAMLEGT!

Er sjálf komin í afskaplega hátíðlegt jólaskap og finnst eins og jólin séu bara í þarnæstu viku eða svo.

solveug finnsdottir
07. nóv. 2010

jola hvað

Melkorka
08. nóv. 2010

Hlakka til að byrja að baka! Tak fyrir að opna jólavefinn fyrr þetta árið:)