Bæklingaveikin

Eldhússamstæða frá Bosch af vef Early Learning Centre
Ég er mjög veiklunda þegar kemur að bæklingum og helst þeim sem innihalda leikföng. Þegar ég var yngri komu Freemans og Sears vörulistarnir alltaf heim og ég fletti þeim þangað til blaðsíðurnar urðu gegnsæar. Sérstaklega lá ég yfir leikfangasíðunum en annars gat ég skoðað listana spjaldanna á milli, hvort sem á blaðsíðunum voru garðyrkjuáhöld, pennasett, gullkeðjur eða nefháraklippur. Mér fannst allt flott og langaði í allar vörurnar. Ég hugsaði oft að ef ég væri ótrúlega rík myndi ég hringja í eigendur fyrirtækjanna og biðja um allt í bæklingnum og fá vörurnar bara sendar heim. Ég væri kannski aðeins vandari í vali í dag en þegar inn á borð berast leikfangabæklingar eins og jólabæklingurinn frá Early Learning Centre, verð ég sambandslaus í nokkrar klukkustundir. Ég get dottið í svona bækling og orðið 5 ára eða 10 ára aftur. Mig langar í ALLT, hvort sem það er Bosch eldhússamstæða eins og á myndinni hér fyrir ofan (þeir eru líka með samstæður frá Miele, auðvitað), espressovél eins og á myndinni hér fyrir neðan (ok ég veit hvað Afkvæmið fær í jólagjöf eftir nokkur ár), bensínstöð, innkaupakerra, dúkkuvagn eða kubbar.
Espressovél af vef Early Learning Centre
Mig langar svo að hringja í eiganda Early Learning Centre og biðja um allt í bæklingnum takk og fá vörurnar sendar heim. Ég myndi opna hvern pakkann með bros á vör og vera reglulega glöð (ég myndi svo gefa leikföngin til þeirra sem þyrftu þau meira en ég). Mig langar að eiga peninga til að geta gert svona hluti en á meðan ég á þá alls ekki verð ég bara að skoða bæklinginn og hugsa um leikföngin sem t.d. börnin í afrísku þorpunum sem ég hef heimsótt leika sér með. Þau eru yfirleitt gerð úr snærum og plasti eða skorin út úr tré. Stundum skoppa börnin gjarðir alsæl. Þau hafa engar eldhússamstæður né espressovélar, blikkandi dót né dót með hljóðum ..…..en þetta dót er bara svo ósköp undur fallegt og skemmtilegt og hvern langar ekki í falleg leikföng? Ef ég vinn í breska lottóinu veit ég upp á hár hvað fyrsta verkið mitt verður..

Myndirnar hér að ofan eru af vef Early Learning Centre.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

hrundski
28. okt. 2010

ohhh þetta rifjar sko upp gömlu pönntunarlistana. Afi og Amma fengu alltaf kast og misstu sig fyrir jólin - pönntuðu gjafirnar úr Quelle og Kays eða hvað þetta hét.

Ég og systir mín opnuðum oft listana með lokuð augun og bentum og þóttumst verða að kaupa það sem við bentum á.... rosa fyndið sérstaklega að lenda á karla nærfötunum.

.... jiiii hef ekki spáð í þetta fyrr - good old times :D

ps. Embla hlýtur bara að fá svona kaffivél !!! :D

CafeSigrun.com
28. okt. 2010

Já alveg rétt, Quelle og Kays var búin að gleyma þeim :) Góðir tímar þegar maður browsaði bæklinga en ekki internetið :)

Melkorka
30. okt. 2010

Ji, hvað þetta er flott. Það væri gaman að vera lítil stelpa núna, með kaupglaða mömmu.

Lisa Hjalt
02. nóv. 2010

Er nákvæmlega eins, elska svona bæklinga og skoðaði þá fram og til baka þegar ég var yngri.

Einhvern tíma lét ég dætur mínar fá dótabækling og penna og bað þær um að merkja x við það sem þær langaði í þannig að ég hefði hugmyndir fyrir jólin. Það þarf varla að taka það fram að þær merktu við allt!