Í morgunmat með Mikka mús og félögum

Ég er búin að vera algjörlega á haus við að pakka búslóðinni. Reyndar kláruðum við það mesta áður en Jóhannes fór til Disneyland (á ráðstefnu) en það var samt hellingur eftir þegar hann fór. Kassarnir og stóru hlutirnir voru allir farnir en það var mikið af lausu dóti sem átti eftir að ákveða með og ganga frá og þeir taka tíma. Það er heldur ekki til bóta að vera einn að verki og vera með duglega „aðstoðarkonu“ sér við hlið sem tekur jafnóðum upp, það sem maður pakkar niður. Ég er búin að vera á hverjum degi í íbúðinni eitthvað að dytta að og gera og það er búið að vera hrikalega tímafrekt, þannig að ég hef varla haft tíma til að gera neitt annað. Á kvöldin (við gistum annars staðar) er ég að vinna í vefnum mínum (setja inn hausana á nýja vefinn sem er mjög spennandi enda eru þeir litríkir og gleðja mann eftir langan dag. Eða þannig tilfinningu vil ég að þeir gefi manni!!!).

Það var fáránlega erfitt að pakka eldhúsinu niður. Svo erfitt að ég sá á eftir öllu ofan í kassa með trega….og ég handlék hvern hlut og þakkaði fyrir góða þjónustu í gegnum árin. Eldhúsið mitt, þó ekki væri stórt var vel skipulagt (þó í 100 ára gömlu húsi væri) og þægilegt að vinna í. Það var algjörlega fullbúið eftir margra ára söfnun og tækjakaup… Í raun er ég að byrja upp á nýtt því ég tók ekkert með mér þegar við fluttum. Ekki einu sinni sleif. Ísskápurinn og frystirinn í íbúðinni í London er samanlagt jafn stórt og frystihólfið á ísskápnum mínum hérna. Og það er erfitt fyrir manneskju sem eldar jafn mikið og ég geri. Við stefnum að því að færa okkur um set í janúar á næsta ári og þá verður stærri ísskápur forgangsatriði. Skítt með að ég þurfi að burðast með 17 kg upp á 3ju hæð nokkrum sinnum á dag (barn + kerru + innkaup) og það með ónýtt vinstra hné!

Það síðasta sem fór ofan í kassa var blandarinn minn en af því ég átti svo mikið af bláberjum ákvað ég að nýta þau og útbúa góða bláberjadrykki á meðan við vorum að pakka niður. Það gaf okkur góða orku, þó svo að maður virki alltaf dálítið kaldur og hjartveikur eftir á (með bláar varirnar). En ég er svo sem alltaf blá í framan úr kulda svo það er ekkert nýtt þar. Ég ætla að kaupa mér annan blandara þegar við eignumst pening og hann verður jafnvel kraftmeiri en Kitchenaid-inn minn sem er samt frábær. Eldhúsið mitt er á við lítið mötuneyti þegar ég fer af stað og það veitir ekki af iðnaðartækjum. En ekki það að maður þurfi svoleiðis græju í venjulegt eldhús. Ég gerði t.d. 400 uppskriftir á vefnum mínum með 2000 króna matvinnsluvél og jafn ódýrum blandara. Maður er bara svo fljótur að fara í gegnum svoleiðis tæki ef maður er að jaska þeim út eins og ég geri með mitt dót.

Það er annars búið að vera fínt að kíkja í heimsókn þó að ég sé að drepast úr kulda eins og alltaf. Ég er bara enn þá að venjast því að ökumenn svíni fyrir mig á aðreinum (þó það sé bara til að fara út af á næstu afrein), að fólk segi ekki afsakið við mig þó að það sé að rekast utan í mig með innkaupakerru eða barnavagn, að fólk standi í vegi mínum án þess að færa sig þó ég biðji um það…(kerlingar í slúðurkasti eru sérstaklega skæðar með þetta) og auðvitað háa verðlaginu sem er alltaf jafn mikið sjokk (sá kaffigræju sem kostar 24 pund í London en kostar 10 þúsund krónur hér, sem dæmi). Ég fór í heilsubúð í gær og fékk algjört hláturskast….svona taugaveiklunarhláturskast. Ég hef ferskan verðsamanburð og hann er h.r.i.k.a.l.e.g.u.r. Ég skil ekki hvernig nokkur vara selst yfir höfuð….kem því engan veginn í kollinn á mér. Það er reglulega dapurt.

Jóhannes kemur til Íslands aftur á laugardaginn og svo er það London á mánudaginn…Ég frétti af honum í morgunmat með Pluto, Mikka, Andrési, Lísu í Undralandi, Baloo og fleirum…er ansi hrædd um honum muni þykja morgunrútínan okkar óspennandi þegar hann kemur til baka; hafragrautur, lýsi, Cheerios, úfið hár og morgunpirra (í mér aðallega). Ég ætla allavega ekki að klæða mig í búning….no way!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It