Ef aðeins hann væri hér....

Elsku tengdapabbi minn heitinn hefði orðið 60 ára í dag. Hann var mergjuð persóna sem leið best á fjöllum, á hestbaki eða með fjölskyldunni hvort sem hún var í hesthúsinu eða heima. Ég bjó í næstu götu við tengdafjölskyldu mína (áður en hún varð tengdafjölskylda mín) í mörg ár og það er þeirra vegna sem ég heillaðist af hestum og útiveru. Ég elti nefnilega Jóhannes (þá besta vin minn) í hesthúsið og langaði svo að fylgjast með því hvað hann væri að bralla þegar hann var að „mok‘ogefa“. Ég vissi ekkert hvað það þýddi en vissi að það snerist eitthvað um hesta og það þótti mér spennandi (enda ætlaði ég að vera Circus kona þegar ég var yngri....). Þetta voru dásamlegir tímar. Ég eignaðist hliðar-fjölskyldu sem var stórmerkileg á alla kanta. Tengdapabbi stóð þó upp úr því hann gekk um í leðurjakka með kögri, í þröngum Wrangler gallabuxum, með kúrekahatt og í kúrekaskóm. Hann átti líka kúrekahnakk sem hann notaði (á meðan hinir notuðu venjulega hnakka). Hann gekk líka um með alvöru hníf í beltinu. Hann var nútíma Marlborough maður. Hann var eins og Lukku-Láki, með sígarettu í munnvikinu og augun kipruð í sólinni. Hann var frábær penni (gerði grilljón frábærar vísur), skrifaði listavel og spilaði á gítar. Hann var sá sem allir vildu þekkja og tilheyra á einhvern hátt. Hann var líka eins og dúfa á fjöllum....hann rataði alltaf heim, með einhvers konar innbyggðan áttavita sem enginn skildi hvernig virkaði í svartaþoku og rigningu. Hann var líka einstaklega laghentur og það sem hann smíðaði af reiðtygjum (eða hverju því sem hann setti í hendurnar á sér) var hrein list. Jóhannes hefur þessa hæfileika líka (en sinnir tölvunum frekar en reiðtygjasmíði enda meira upp úr tölvunum að hafa!). Hann er álíka laghentur þó og pabbi hans var. Ég á hnakk sem er sérsaumaður af tengdapabba (klæddur með leðri úr Rolls Royce) og ég fékk hann í fermingargjöf. Hann er listasmíð og mér þykir afar vænt um gripinn.

Jóhannes hefur að mínu mati erft svo marga eiginleika pabba síns (hægur yfir sér, veltir hlutunum fyrir sér áður en hann svarar, ígrundar málin vel á alla kanta). Þeir voru bestu vinir. Mér þykir reglulega leiðinlegt að hann hafi ekki kynnst barnabarni sínu (og barnabörnum sínum því þau eru fleiri en okkar Afkvæmi auðvitað) en það er á hreinu að minningin um hann mun lifa með okkur. Það verða sagðar margar sögur af honum í framtíðinni og Afkvæmið mun vonandi aldrei þreytast á að heyra um afa Erling.

Ég vildi svo innilega óska þess að hann væri hérna í dag. Það er svo oft sem mig langar að bera eitthvað undir hann og ég heyri enn þá hrossahláturinn í huganum (hann sagði stundum sama brandarann nokkrum sinnum í röð og hló alltaf jafn mikið enda var það alltaf jafn fyndið).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Kristinn
16. okt. 2010

Algjörlega sammála þessu. Erlingur A. Jónsson var alveg einstakur maður og snillingur á allan hátt. Ekki bara alvöru káboj, heldur líka með indíánatjald í garðinum. Ég á ennþá skrautskrifað bréf frá honum sem ég rakst á um daginn. Það er líka alveg á hreinu hvaðan JÖE fékk áhuga á kaffi.

hrundski
17. okt. 2010

Falleg færsla :)

Elísabet
17. okt. 2010

Ég fór næstum að gráta. Yndisleg færsla. Sendi faðmlag í huganum

Melkorka
20. okt. 2010

Þetta var góð áminning. Minnir mig á að þakka fyrir og gefa mér tíma fyrir fólkið í mínu lífi sem mér þykir svo vænt um. Takk fyrir að deila þessu Sigrún.

Drífa
22. nóv. 2010

Mikið er þetta fallegur pistill hjá þér Sigrún. Mér vöknaði bara um augun.
Það hljómar eins og hann hafi verið stórkostlegur maður og þið verið þeim mun ríkari að eiga hann að í ykkar lífi.

Knús, D.