Nýtt og endurbætt!!!

Fyrsta kexið
Yfirleitt þegar ég sé; Ný uppskrift/endurbætt útgáfa t.d. á matvöru eða sjampóbrúsa hugsa ég með mér… hmmm ok var varan þá ekki nógu góð fyrir og mér var samt lofað að þetta væri frábær vara og að ég yrði unglegri, fallegri og ég veit ekki hvað. Var sem sagt verið að ljúga að mér? Þeir sögðu áður að varan sem ég keypti væri frábær….hvers vegna þurftu þeir þá að endurbæta vöruna? Hmmm...mér finnst ég alltaf jafn mikið plötuð þegar ég kaupi endurbættu útgáfuna, hrmfff.

En stundum er bara nauðsynlegt að bæta og breyta. Eins og í þessu tilfelli hér, uppskriftinni af fyrsta kexinu. Ég þróaði þessa uppskrift fyrir löngu síðan og hún heppnaðist líka svona ljómandi vel…og meira að segja mörgum sinnum eftir það. EN, þetta er EINA uppskriftin á vef CafeSigrun sem að notendur hafa ítrekað spurt mig út í…„Á kexið að vera hart?“, „Á það að vera fljótandi?“, „Hvers vegna lak kexið niður á næstu hæð í ofninum?“, „Á kexið að vera bragðlaust?“ o.s.frv, o.s.frv. Auðvitað hlusta ég á notendur og ég lagðist þess vegna í tilraunir og þær eru búnar að taka mig um hálft ár (þið getið rétt ímyndað ykkur hvað Afkvæmið er búið að innbyrða mikið af heimatilbúnu kexi ha ha). Þetta kex er algjört uppáhald hjá dótturinni og er ferlega gott þegar tennurnar eru farnar að láta á sér kræla. Er fínt í nestisboxið og á milli mála. Það inniheldur 1,5 mts af agavesírópi (og svo eplasafa með) á móti tæplega 100 gr af spelti svo það er alls ekki of sætt en mátulega til að það sé bragðgott.

Lesið innihaldslýsinguna í uppskriftinni fyrir nánari upplýsingar. Þetta kex er milljón sinnum hollara en ferköntuðu, þykku kexin sem gjarnan er troðið ofan í íslensk börn.

Ég vona að þessi útgáfa heppnist svona vel hjá ykkur líka!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Inga
07. okt. 2010

hvar nálgast maður endurbættu uppskriftina? Er svo spennt að búa þetta til fyrir litla gaurinn minn, sem er alveg sérlega hrifinn af öllu sem ég bý til handa honum eftir uppskriftum frá þér :)

Sigrún
07. okt. 2010

Hæ Inga

Það er tengill í bloggfærslunni og þú smellir bara á hann!

Kv.

Sigrún

Inga
08. okt. 2010

Æ takk, ég hélt að að þú værir enn með gömlu útgáfuna inni þar sem hún er merkt 2008...

Geri þetta á morgun :)

Hilma
10. okt. 2010

Kexið lítur ótrúlega vel út. Mun prófa það.

Veistu annars hvað "vínsteinslyftiduft" er á ensku? Var að flytja til USA og hollt/gott brauð hér er frekar dýrt þannig að ég ætla að reyna að baka sem mest sjálf.

Sigrún
10. okt. 2010

Sæl Hilma

Þú kaupir bara 'gluten free baking powder' og passaðu að það sé 'aluminum free baking powder' líka. Þú ættir að fá lyftiduftið í heilsubúðum eða stærri matvöruverslunum (en á þess að ég þekki verslanir í USA mikið :)

Kv.

Sigrún

Hilma
11. okt. 2010

Takk kærlega. Fann lyftiduftið hjá þessum vinum mínum, eins og svo margt annað http://www.bobsredmill.com/