Hárfínt
Hárgreiðslustofan er búin að vera hérna frá því við fluttum í burtu og ég man ég hugsaði fyrst þegar hún kom hingað, „ein af þessum stofum sem fara eftir mánuðinn. En hún tollir enn, líklega vegna mafíupeninga. Ég var dálítið kvíðin því í fyrsta skipti að fara undir hendur rússnesks hárgreiðslufólks, svona miðað við snjóþvegnu buxurnar og aflitaða, túperaða hárið. En ég er að reyna að vera alltaf með opinn huga og settist í stólinn hjá Anastasiu. Ég hef aldrei verið jafn ánægð með litina í hárinu og klippingin var mjög fín líka. Fyrir þá sem þekkja mig vita að þetta er ekki svo lítið mál. Hárið mitt er sítt og ég hef bara einu sinni á mínum fullorðinsárum klippt það í axlasídd og var í kjölfarið í 6 mánaða „hárþunglyndi á meðan það óx aftur. Þó ég hafi á mínum námsárum verið svo blönk að ég borðaði bara pasta í margar vikur, sparaði ég alltaf fyrir klippingu og strípum á 6 vikna fresti. Þetta er mitt dóp og það er ekkert sem getur komið í veg fyrir að ég fari.
Í gær lenti ég hjá eldri konu sem ég hef ekki séð áður. Hún var eins og afdala dragdrottning nýkomin af diskóteki, með sígarettu í munnvikinu, tagl í hárinu, málningin svolítið máð og rámari en flóðhestur á fengitíma. Hún var voðalega indæl, það vantaði ekki. En. Hún var í ÞRJÁR KLUKKUSTUNDIR að setja strípur í hárið. Og ekki í allt hárið heldur einungis hluta hársins. Hér getur maður nefnilega valið um að að fá strípur í allt hárið, hálft hárið, T-rönd (rótina) og maður getur yfirleitt, á stærri stofum, valið um að vera hjá International stylist director, senior stylist director, senior stylist, junior stylist, trainee stylist o.fl. Verðið er svo mismunandi eftir því hjá hverjum maður er. Ferlið er flóknara en umsókn á Tryggingastofnun. Á rússnesku stofunni hins vegar eru það bara Anastatia og Natasha sem eru við stjórnvölin og það er ekkert prjál í gangi. Þær eru ekki í háhæluðum skóm að klippa/lita hárið og ekki í þröngum ballkjól. Ég hef heldur aldrei skilið hvernig það hjálpar að meiða sig í fótunum við að klippa hár fólks. Þær gera bara það sem þær gera og gera það vel. Ekkert flókið. Vörurnar þeirra eru líka góðar. Þessi eldri kona hins vegar var eins og af öðrum heimi. Hún tók hvert hár og litaði það samviskusamlega. Eftir tvær klukkustundir, þegar strípurnar voru LOKSINS tilbúnar blés hún hárið. Það var að líða yfir mig úr hungri og ég sá stjörnur í speglinum. Hún rúllaði hárinu utan um rúlluburstann, hélt við, kveikti á hárblásaranum og blés. Slökkti á blásaranum, lagði hann frá sér og endurtók leikinn. Svona eins og 5 ára barn í „hársluleik“. Hún var svo lengi að á meðan hún blés helming hársins, var hinn helmingurinn nánast þornaður. Ég sat í 3 klukkustundir í stólnum. Það er akkúrat tíminn sem það tekur að fljúga til Íslands. Ég var djúpt hugsi og þegar ég rankaði við mér (hafði ekki einu sinni orku í að fletta blaði því ég var svo svöng og máttlaus) þá var ég komin með Pamelu Ewing hár (blásnir vængir til hliðanna með stórum krullum sem beygðust inn og toppurinn upp og til hliðanna). Ég táraðist úr gleði við að koma út í rigninguna.
Ummæli
04. okt. 2010
hehehehe já það er alltaf mjög riskí að fara í klippingu í London ;)
05. okt. 2010
hér vantar algjörlega mynd með færslunni og helst myndskeið af liðinu sem fer þarna niður í kjallarann. Ég stóla á þig að redda þessu í næstu óvissuferð á hárgreiðslustofuna.
10. nóv. 2010
Mér fannst æðislegt að lesa þessa lýsingu á hárgreiðslufólkinu og hvað var að gerast þarna... Mér fannst eins og ég væri stödd þarna haha. Ég er klippari sjálf og væri alveg til í að vera fluga á vegg á hárgreiðslustofum um allann heim. Þetta er mitt áhugasvið..... :)