Nú árið er liðið.......

Embla Hlökk 1. árs
Afkvæmið er ársgamalt. Ég trúi ekki hvað tíminn er fljótur að líða. Þetta hefur verið stórskemmtilegur tími. Upp og niður eins og gengur og gerist og fullt af óvæntum uppákomum. Ég vissi að það yrði öðruvísi að upplifa lífið með auka einstaklingi en hafði, eins og aðrir væntanlegir foreldrar grilljón efasemdir og spurningar. Sjálfselskum spurningum eins og „Kemst ég á kaffihús aftur?“, „Hef ég tíma til að elda mat?“, „Mun ég geta ferðast framar?“ hefur verið svarað. Þetta er hægt. Jú, jú maður finnur límbandsrúllu í þvottavélinni, Cheerios í skónum sínum, klístur í hárinu, sokka í uppþvottavélinni og maður rekst með kerrunni alls staðar utan í fólk (hjálpar ekki að vera utan við sig) og flugferðir snúast núna um að halda fótum barnsins FRÁ baki farþegans fyrir framan (ég hata þegar börn/fullorðnir sparka í sætið). En umfram allt hefur þetta verið skemmtilegur og gefandi tími.

Það hefur komið mér á óvart hvað börn eru mikill gleðigjafi, út á við (og inn á við auðvitað). Ítrekað mæti ég t.d. fílefldum karlmönnum með hörkulegan svip (eins og úr Guy Ritchie eða James Bond mynd) sem verða eins og deig við að horfa framan í Afkvæmið. Flestir sem maður mætir brosa út í annað munnvikið þó þeir segi ekki neitt. Í Ungverjalandi og Kenya tók ég sérstaklega eftir því hvað fólk var barngott..það hreinlega sleppti ekki Afkvæminu. Ef ég hugsa til baka og tel, hversu mörg bros Litla dýrið hefur framleitt myndu þau líklega skipta þúsundum. En það á örugglega við um öll börn. Ég ota henni aldrei framan í aðra (t.d. á kaffihúsi)…og er yfirleitt bara að sinna mínum erindum svo það er ekki eins og ég sé að leita eftir þessu aðstæðum. Þetta er bara eitthvað sem maður tekur eftir og er gaman. Börn gefa greinilega jákvæða orku út í heiminn (a.m.k. þau sem liggja ekki í gólfinu og orga).

Eitt það skemmtilegast í þessu öllu saman er að gefa sínu eiginn barni heimatilbúinn mat. Börn eru harðir dómarar og skyrpa mat út úr sér ef þeim líkar hann ekki. Ólíkt fullorðna fólkinu sem kyngir ýmsu sem því þykir ekki gott, upp á kurteisissakir. Þetta hefur verið ár tilrauna. Dóttirin hefur ekki ofnæmi fyrir neinu (sem betur fer) og borðar allt (baunaspírur, kjöt, egg, hnetur, fisk, brauð, ávexti, hrátt grænmeti), allt NEMA kaldan ost. Hún er eins og pabbinn að því leytinu. Ég hef fylgst með henni í laumi, þar sem ég rétti henni bita, hún stingur honum upp í sig (eins og öllu öðru) en það kemur voðalegur svipur og osturinn er fljótur út. Hún hefur aldrei fengið sykur og hefur ekki hugmynd um hvað sælgæti, ís eða önnur óhollusta er. Hún reyndar veit heldur ekki hvað sjónvarp er (á maður að hafa áhyggjur?). Hún er fullkomlega heilbrigð að öllu leyti og við erum svo mikið þakklát fyrir það.

Fyrsta afmæliskakan
Ég hélt að börn vildu bara sætar kökur á eins árs afmælinu (ég þekki börn ekki mikið) og var því dálítið kvíðin fyrir fyrsta afmælinu því mér datt auðvitað ekki til hugar að baka köku með hvítum sykri, flórsykri o.þ.h. Ég var viss um að Afkvæmið myndi skyrpa fyrstu afmæliskökunni út úr sér. En svo sem, hún hefur aldrei fengið neitt með sykri í. Ég gerði nokkrar tilraunir og útgáfur og hún borðaði þær allar, með bestu lyst. Hún fær því holla afmælisköku á afmælinu (eins og á myndinni hér að ofan). Það þykir mér góð afmælisgjöf.

Elsku dóttir, til hamingju með afmælið þitt og við hlökkum til næstu ára.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Anna Stína
14. sep. 2010

Mig langar bara svo að knúsa afmælisbarnið í dag en geri það bara næst - knúsum verður safnað saman og losað um í heimsóknum til og frá ... eins gott að hittast af og til amk.

Barnið er einstakt, eins og þau eru öll ... guði sé lof í sumum tilvikum og því miður í öðrum. En öll eru þau mannbætandi gleðigjafar.

Knús á afmælisdaginn - komum bara í köku seinna - höldum kannski bara smá veislu í tilefni dagsins ;-)))

Lisa Hjalt
14. sep. 2010

ég myndi nú ekki segja nei við þessari köku!

Enn og aftur (í 3. eða 4. sinn í dag á mismunandi miðlum!) til hamingju með stelpuna ;-)

smári
14. sep. 2010

Til hamingju með daginn, þú ert heppin að eiga svona foreldra sem er ekki sama um hvað er borðað!!!

kv SÞ

Elísabet
14. sep. 2010

Ji ég klökknaði bara við þessa yndislegu færslu. Þú færð mig alveg næstum þvi til að langa í börn, hahahah

En enn og aftur til hamingju með daginn elsku Embla. Hlakka til að koma í heimsókn og fá svona flotta köku, knús

Birna frænka.
15. sep. 2010

Til hamingju með dótturina.

Hrönnsa
17. sep. 2010

Innilega til hamingju með dótturina og hrikalega girnileg kaka, ekki amarlegt á fyrsta afmælinu :)

Sunna
20. sep. 2010

Sæl Sigrún og til hamingju með afkvæmið.

Er dyggur lesandi síðunnar þinnar og finnst svo margt girnilegt á henni.

En nú er ég svolítið forvitin um bleiku afmæliskökuna á myndinni, enda tveggja ára bleikt afmæli á döfinni og langar mig ekki að hafa það yfirfullt af sykurkökum, er uppskrift af þessari köku á síðunni þinni?

Kveðja,

Sunna

CafeSigrun.com
20. sep. 2010

Sæl Sunna. Ég er ekki búin að birta uppskriftina á síðunni en get sent þér uppskriftina ef þú vilt prófa hana.

Sunna
22. sep. 2010

Sæl aftur

Já takk, það væri vel þegið að fá senda uppskriftina, mail addressan mín er sunnaosk@gmail.com

Melkorka
24. sep. 2010

Glæsilegt! Hlakka til að fara að dæmi þínu í næstu afmælisveislu litla-stóra krúttsins míns.