Illt í efni...
Forritarinn er ekki öfundsverður. Hann kemur heim eftir langan vinnudag og um leið og hann sest niður heyrist í verkkaupanda (mér) t.d.: „Það er asnaleg lína þarna“ eða „Ég væri til í flottara box“ eða „Þetta er hallærislegur bleikur, ég vil fá dýpri og hlýrri lit“. Verkkaupandi (ég) veit að það þýðir ekki að segja svona við forritarann en segir það samt (í óþolinmæðiskasti). Forritarinn þekkir nefnilega bara einn bláan lit, einn bleikan, einn rauðan o.s.frv. Hann gerir engan greinarmun á því hvort að það er hlýr undirtónn í bleika litnum og ef maður biður hann um að setja aðeins meira rautt í bleika litinn og jafnvel gera hann aðeins kaldari samt (ekki of hlýjan rauðan) kemur uppgjafa- og vonbrigðissvipur á forritarann og verkkaupandi (ég) verður umsvifalaust að lofa muffinsbakstri. En þá er komið að vandamálinu. Ég hef svo lítinn tíma til að stússa í eldhúsinu…vegna vinnu. Það er brjálað að gera en þó að sé mikið að gera hjá mér (bæði að vinna og sinna afkvæminu) þá er 1000 sinnum meira að gera hjá forritaranum því ekki aðeins er hann í 100% vinnu hjá Disney, þá er hann líka með aukavinnu á kvöldin (nokkra vefi) OG CafeSigrun vefinn. Bara svo að það sé á hreinu, þá væri vefurinn ekki til nema fyrir forritarann. Ég gleymi því stundum þegar ég skipa honum fyrir. Þegar ég gleymi mér aðeins of mikið, heyri ég hótanir um verkföll og hann gæti í alvörunni lokað vefnum…á 1 sekúndu, og neitað að opna hann aftur.
Hann á inni (lauslega reiknað) um 38,000 smákökur, 14,000 muffinsa, 9,300 brauðbollur, 6,000 burritos, 12,000 fylltar paprikur eða annað að eigin vali. Gjaldmiðillinn er nefnilega matur og mér mun ekki endast ævin öll til að greiða til baka það sem ég skulda forritaranum. Ég ætla hér með að klappa á bakið á honum og segja takk. Hann á það skilið 1,000,000,000 falt. Ég vona bara að hann fari ekki í verkfall áður en nýi vefurinn opnar…….
Ummæli
03. sep. 2010
ég gæti líka skipt út Agave fyrir púðursykur og bætt inn 100gr af MSG í allar uppskriftir...
03. sep. 2010
Þú rétt svo vogar þér.......grrrrrrrrrr.........
03. sep. 2010
JÓHANNES ÞÓ! Ætlarðu að vera stilltur! Hlýddu bara frúnni og gerðu það sem hún biður um annars (leyfi mér hér að tala fyrir hönd allra notenda) er ÖLLUM notendum CS að mæta!!!
03. sep. 2010
Mana forritarann til að setja inn uppskrift af djúpsteiktum kleinuhring eða djúpsteiktum Marsbar þann 1. apríl á síðuna hohoohoho
08. sep. 2010
"Gúndi" gæti komið með tillögur að uppskriftum fyrir forritarann!!
09. sep. 2010
Þið eruð ágæt ;-)
13. sep. 2010
ég er mjög yfirvegurð yfir þessu öllu saman, hlakka til að sjá nýja vefinn en á sama tíma veit ég að góðir hlutir taka tíma.