Ekki er allt gull sem glóir (æðislega misskilinn matur)

Ég fékk mér kaffi í dag, á Starbucks sem er nú ekki svo óvenjulegt. Við afgreiðsluborðið stóðu tvær konur og voru að velta fyrir sér gulrótarköku sem lá í borðinu, sparileg og sæt í fallegu bréfi. Þær ræddu kosti og galla gulrótarkökunnar og komust að þeirri niðurstöðu að gulrótarkakan væri dálítið hollari en aðrar kökur því hún innihéldi gulrætur (skítt með að gulræturnar ofan á kökunum væru úr lituðu marsipani). Þær fengu sér báðar gulrótarkökur, glaðar í bragði og ég glotti við tönn. Þær voru að fá sér eitthvað sem þær töldu vera hollt og voru eflaust ekki með neitt samviskubit. En skilja líklega ekkert í því að buxurnar halda bara áfram að þrengjast? Ekki er allt gull sem glóir, það er nokkuð víst. Æi ég er kannski búin að tala um þetta svo oft að þið eruð komin með nóg upp í kok en allavega, læt flakka.

Gulrótarkaka Gulrætur eru ekki ávísun á hollustu. Í gulrótarkökum er oftar en ekki flórsykur, hvítur sykur, smjör og rjómaostur og jafnvel marsipan (dulbúið sem gulrætur).

Döðluterta Döðlur eru hollar en ekki ef þeim er blandað saman við hvítan sykur, hvítt hveiti og smjör.

Tilbúið salat með salatsósu Gætið þess að salatsósur innihalda oft hátt hlutfall af fitu og majonesi. Salat á skyndibitastað getur verið töluvert hitaeiningaríkara en t.d. samloka úr grófu brauði með áleggi. Salöt sem innihalda brauðteninga eru einnig lævís í óhollustunni. Gætið ykkar sérstaklega á cesar salötum svokölluðum.

Pastasalat Pastasalöt innihalda yfirleitt hvítt pasta, pastasósu sem búin er til úr olíu og majonesi ásamt kjötáleggi einhvers konar (skinku, pepperoni o.fl.).

Heilsukaka Það kemur ykkur líklega á óvart að í svonefndum heilsukökum á kaffihúsum er oft púðursykur, hvítur sykur og gríðarlegt magn olíu eða smjörs. Spyrjist fyrir um innihaldið áður en þið ráðist til atlögu við Heilsuköku. Það er algjörlega óþolandi misskilningur að púðursykur sé hollur.

Orkubitar/Hollustuklattar/Orkustangir Yfirleitt er fyrsta innihaldið í innihaldslýsingu smjör og það næsta púðursykur. Hvorugt er hollt fyrir mann. Ég þoli ekki púðursykur.

Próteinstangir (oft í einhverjum silfurlituðum umbúðum) Tilbúnar próteinstangir innihalda oft alls kyns furðuleg efni (og örugglega púðursykur...pirr pirr pirr). Mér finnst sjálfri ekki notaleg tilhugsun að lesa aftan á umbúðir þess sem ég borða og skilja hvorki upp né niður. Þetta eru afar ónáttúrulegar vörur og maður ætti að forðast þær (að mínu mati).

Jógúrtrúsínur Það er ekkert og ég endurtek ekkert hollt við jógúrtrúsínur. Þær eru hálf hlægilegar þar sem þær liggja með hollustuvörunum því jógúrtrúsínur eru eitt af því óhollasta sem maður getur látið inn fyrir varirnar. Transfitusýrur, sykur, bindiefni og alls kyns furðuleg efni eru yfirleitt ofarlega á lista innihaldsins.

Heilsunammi Heilsunammi á oft voðalega lítið skylt við heilsu þannig séð. Lesið vel aftan á umbúðirnar....oft er um að ræða súkkulaði af lélegum gæðum, með transfitusýrum, E-efnum, sykri o.fl.

Speltpizza Þó að eitthvað innihaldi spelti er það ekki ávísun á hollustu. Að drekkja spelt grænmetispizzu í olíu eða feitum osti er ekki hollt (þó hún sé hollari en pizza með kjötáleggi). Heimatilbúnar speltpizzur eru þó allt annað mál og athugið að tilbúnar speltpizzur GETA vel verið hollar ef þær eru þunnbotna með hollri pizzasósu og grænmetisáleggi og ekki að drukkna í hvítlauksolíu.

Kjúklingavefjur Kjúklingurer ekki ávísun á hollustu. Vefjurnar geta verið úr óhollu hráefni (oftar en ekki raunin ef þær eru keyptar), t.d. transfitusýrum, hvítu hveiti, sykri og E-efnum. Innihald vefjunnar er oft steiktur kjúklingur og sósa úr majonesi.

Skyrbúst Þó að eitthvað innihaldi skyr og heiti búst eða boozt eða eitthvað í þá veruna, þýðir það ekki að þið getið svolgrað það í ykkur og beðið eftir vöðvunum. Bragðbætt skyr inniheldur oft helling af sykri (litarefnum og bragðefnum) og ef það inniheldur ekki sykur inniheldur það aspartam. Langbest er að búa til sér góðan skyrdrykk heima úr hreinu skyri, svolitlu agavesírópi, ávöxtum o.fl.

Púðursykur Púðursykur er ekki á neinn hátt hollur. Oft er búið að lita hvítan sykur og selja sem púðursykur. Hann er t.d. mun óhollari en hrásykur svo dæmi sé tekið. Ég vildi að væri hægt að fangelsa púðursykur fyrir lífstíð.

Ok, hætt að röfla í bili...

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Stína
14. ágú. 2010

Góðan dag og takk fyrir allan tímann sem þú setur í vefinn þinn. Ég leita mikið eftir uppskriftum hér og kann vel að meta. Kíki á bloggið í leiðinni og hef gaman af þó ég þekki þig ekki neitt. Eitt sem fer í taugarnar á mér er, að ef ég ætla að fara styttri leiðina og kaupa tortillakökur. Þeim er pakkað í plast sem hefur merkinguna 7! Mér finnst vanta betra eftirlit með umbúðum, svipað og Danir eru að gera :)

Góða daga til ykkar, Stína

Lisa Hjalt
15. ágú. 2010

það á að ramma þennan lista inn og setja á alla ljósastaura!

Arna
16. ágú. 2010

Takk fyrir frábæran vef. Ég er að stíga mín fyrstu skref í átt að betri og hollari lífstíl og síðan þín er gull hvað það varðar. Ég kann virkilega að meta það hversu hreinskilin þú ert.

En ég verð að fá að spyrja: Umbúðamerkingar? Merking 7? Hvað eru þið að tala um? Ég vil endilega fá að vita meira um þetta...

Takk!

Sigrún
16. ágú. 2010

Ég held að Stína sé að meina '7' eins og í þessum lista yfir umbúðir: En ef ekki þá væri gaman að heyra frá Stínu :)

Stína
18. ágú. 2010

Jebb akkúrat þetta http://www.heilsubankinn.is/vefur/index.php?option=com_content&task=view... Sem á auðvitað ekki að vera leyft. En það er allt of algengt í matarumbúðum. Kveðja Stína

Alma
27. ágú. 2010

Heyr heyr Sigrún. Vá hvað ég hef endurtekið þessi atriði oft við fólk. Sammála Lísu. Límum listann á ljósastaura

Kær hollustukveðja.

CafeSigrun.com
27. ágú. 2010

Haha mér varð svo hugsað til þín Alma þegar ég var að skrifa þetta :)

Lísa...ert þú ekki í ljósastauranefndinni?

Laufey
30. ágú. 2010

oh, akkúrat! af hverju er merkingin "heilsu" hitt og þetta ekki vernduð? Þoli ekki svona sölutrix til að blekkja landann.

Sbr. Latabæjarvörur, ég er ekki alveg að gúddera þær. Jógúrtin fyrir krílin er t.d. markaðsett sem "fitusnauð" og eins eru kökuuppskriftirnar í Latabæjaruppskriftabókinni með meiri sykri en hveiti...

Sigrún
30. ágú. 2010

Sammála Laufey, "heilsu" heitið ætti að vera verndað...m.a.s. tiltölulega auðvelt þ.e. það þyrfti að vera nefnd sem ákveður að hlutfall af sykri, hveiti, fitu o.fl. megi bara vera einhverjar x prósentur miðað við manneldismarkmið eða álíka og svo væru vörurnar bara merktar þannig og þær vörur sem uppfylltu manneldismarkmiðin mættu vera merktar sem "heilsu"-vara.!!!!!

Lara Jonasar
07. sep. 2010

En er ekki til "godur" pudursykur.. Oll thessi sykur umraeda, hrasykur, pudursykur, agave, .. og nu er pudursykur ekkert nema plat?

Sigrún
07. sep. 2010

Íslenskur púðursykur er aldrei hollur (hann er litaður hvítur sykur með sírópi) en það má nota muscavado sykur í staðinn. Hann fæst í heilsubúðum.