Hjálparlínan

Litla Afkvæmið var lasið um daginn. Í fyrsta skipti á sínum 11 mánuðum ef frá er talin smá nokkurra klukkustunda hitavella eftir langt ferðalag til Afríku um 6 mánaða aldurinn. Hún var búin að vera voðalega lítil í sér og ómöguleg og þrátt fyrir verkjalyf, bráði ekki almennilega af henni og hitinn var orðinn óþægilega hár að okkar mati (og hennar). Haft var samband við vinkonur mér reynslumeiri og góð ráð fengin. Að því búnu fann ég til símanúmer á NHS Direct sem er eins konar hjálparlína eins og Læknavaktin (nema ekki einkarekin). Þar svaraði í símann kona sem var mjög líklega að vona að síminn myndi springa í eyrunum á henni svo hún þyrfti ekki að mæta í vinnuna daginn eftir. Eftir langt spurningaflóð þar sem meðal annars tók langa stund að stafa nafn Afkvæmisins og foreldranna, var mér gefið samband við hjúkrunarkonu sem var voða hjálpleg. Hún fór í gegnum langt spurningaflóð líka og var greinilega að lesa úr handriti eða af skjá. Ég veit að það skiptir máli að fylgja stöðluðum spurningalistum fyrir bestu greininguna en það mætti kannski aðlaga spurningarnar eitthvað að yngri kynslóðinni sem og aðstæðum? Sem dæmi voru spurningar eins og:
 • Hefur hún nýlega kvartað um önnur vandamál en þau sem hún glímir við núna? (Já...eins og t.d. þegar hún nær ekki að tæta tölvur foreldra sinna, eða þegar foreldrarnir eru að þrífa hana í framan)... Nei hún er bara 11 mánaða svaraði ég.
 • Hefur hún átt erfitt með mál?... (orðaforðinn er 2 orð...)... Hún er 11 mánaða.
 • Dettur hún og er óstyrk í fótum?... (Já... svona 3 þúsund sinnum á dag)... Hún er bara 11 mánaða.
 • Hefur hún verið á iði eða óróleg síðustu daga?...Já....hún er 11 mánaða (stoppar ekki eina sekúndu).
 • Andar hún eðlilega?... Hún er sofandi.
 • Sýnir hún viðbrögð þegar þú talar við hana?... Hún er sofandi.
 • Nærðu augnsambandi við hana?... Hún er sofandi.
 • Bregst hún illa við ljósi?... Hún er sofandi, (í kolniðamyrkri eins og henni finnst best).
 • Er hnakkinn stífur?... Uuuuu hún er enn sofandi.
 • Er hún ringluð á einhvern hátt?... Ja sko hún er að vakna núna og er ringluð (eins og alltaf þegar maður er nývaknaður) og mjög pissed off (eðlilega, enda vakin)...Ha er hún pissed on? Nei pissed off sagði ég... Ó, svoleiðis....ticked off (fínna orð en pissed off).
 • Hefur hún grátið í dag eða grætur hún núna (nú alveg vöknuð og afar óhress)?... Fyrirgefðu ég heyri ekki almennilega hvað þú segir, hún grætur svo hátt.
Og svona hélt samtalið áfram.....Þetta er mun einfaldara á Íslandi þar sem maður hringir bara í Læknavaktina eða á Barnalæknavaktina. Það er samt skemmtilegt að upplifa samtöl þar sem maður er glottandi allan tímann.

Afkvæmið jafnaði sig og er orðið samt við sig...dettur 3 þúsund sinnum á dag, pirrað yfir vandamálum eins og að mega ekki tæta tölvur foreldra sinna, að þurfa að fá þvottapoka í andlitið o.s.frv. Það er erfitt að vera lítill.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Alma
12. ágú. 2010

Ekki hægt annað en að hlægja af þessu. Ég vona svo sannarlega að starf mitt við símann á heilsugæslunni verði aldrei svona staðlað. Við notum enn "kommon sens" sem betur fer. Gott að litla daman jafnaði sig fljótt.

Kær kveðja

Lisa Hjalt
13. ágú. 2010

Litla skinnið, svo vont að vera svona lítill og lasin.

Fór samt allt í einu að hugsa um það ef ég og þú hefðum þurft að svara svona spurningum þegar við vorum bæði ofn- og matvinnsluvélarlausar! Hefðum örugglega fengið læknisvottorð og tilskipun frá heilbrigðisyfirvöldum til eiginmanna okkar um að ráðast STRAX í málið!

CafeSigrun.com
13. ágú. 2010

Æ já Alma...kommon sense er svo miklu persónulegra :) Þessi kona var svo sem alveg hlýleg en um leið afskaplega klaufaleg þar sem hún las svona beint af blaði.

Lísa....ó já..algjörlega...við hefðum fengið læknisvottorð upp á nýjar græjur.