Kirsuber af bændamarkaði

kirsuber í gluggagistu
Á sunnudögum förum við oft á Bændamarkaðinn á Marylebone. Við komumst ekki alltaf en þegar við getum farið er alltaf jafn gaman að skoða. Þarna er hægt að finna svo margt og mikið af góðu hráefni. Maður gengur um básana og fyrir innan þá standa stoltir bændur með hendur á mjöðmum og kynna glaðir í bragði vörurnar sínar. Þeir eru allir með roða í kinnum og úfið hár og eru bæði kvenkyns og karlkyns, ungir og gamlir. Þetta er fólkið sem kemur beint af bóndabænum með vörurnar sínar, jafnvel í stigvélunum þó að það sé glaðasólskin. Ég sá einu sinni svolítinn bút af heyi fast í krullu á höfði eins bóndans, fjaðrirnar eru oft enn þá á eggjunum og í gær tók ég eftir því að konan sem seldi okkur kirsuberin sem myndin er af, var með koldrullugar hendur. Hún var um 35 ára líklega eða yngri og hendurnar voru grófar, sigggrónar og allar neglurnar voru stuttar en með sorgarröndum. Maður veit þess vegna að það sem til sölu er, er selt af fólkinu sem hlúði að hráefninu frá upphafi. Þú getur spurt um allt ferlið, frá sáningu og til uppskeru. Þetta er sem sagt alvöru bændamarkaður í miðri London (rétt hjá Oxford Street eða þeim megin sem Selfridges er) og ef þið eigið leið hjá, skuluð þið gera ykkur far um að kíkja. Það er opið 10-14 á sunnudögum og þið beygið niður hægra megin ef þið standið fyrir framan Starbucks á Marylebone High Street.

Kirsuberin eru þau bestu sem ég hef smakkað á ævinni (eða nálægt því) og þau kostuðu 2.5 pund, allt boxið.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
03. ágú. 2010

svo girnilegt!