Póstkóði óþekktur

Það var útigangsmaður á tröppunum við næsta inngang í morgun þegar ég fór út. Hann var að dýfa tepoka ofan í pappamál. Útigangsmenn þurfa líka te. Ég bauð honum góðan daginn svona til öryggis. Jóhannes labbaði frekar seint um kvöld hérna á milli húsa í fyrradag og tvær stúlkur í pilsum og háhæluðum skóm stóðu við vegg. Önnur þeirra sveiflaði síða, slétta hárinu þegar Jóhannes gekk fram hjá, hin blikkaði löngum augnhárunum og hló….en ekki kvenmanshlátri. Ó já það er litríkt umhverfið sem við búum í núna!

Ég hef einu sinni síðan ég byrjaði að halda heimili sjálf, átt hvergi heima. Þá er ég ekki að meina að ég hafi verið heimilislaus (sem er nú töluvert alvarlegra mál). Það sem ég meina er, að við vorum að flytja af einum stað á annan og vorum ekki komin með húsnæði í millitíðinni. Árið 2001, þegar við fluttum í fyrsta skipti til London vorum við ekki búin að finna íbúð þegar við komum út. Það hófst á endanum en á meðan við vorum að leita gistum við á hinum ýmsustu stöðum. Við vorum á gistiheimili, við vorum í viku hjá bróður mínum í Suður-Englandi, og svo fórum við til systur Jóhannesar í Danmörku í nokkra daga. Það var þá sem við vorum án póstkóða. Mér finnst óþægilegt að eiga engan póstkóða. Ég vorkenni alltaf missyndismönnum sem ég les um í blöðunum sem eru “of no fixed abode“ (án heimilisfangs) sem þýðir að þeir eru heimilislausir. Það er auðvitað verst af öllu…að eiga ekki þak yfir höfuðið.

Við erum búin að vera í skammtímakompu síðan við fluttum hingað 1. maí. Næstum því í mánuð. Ég hef áður lýst því yfir að stærð húsnæðis skipti ekki máli svo lengi sem að íbúar séu hraustir og heilir heilsu. Stærð skiptir þannig séð litlu máli, sérstaklega í skamman tíma. Ég held auðvitað fast í þá skoðun EN ég væri til í stærra eldhús. Eldhúsið er nefnilega minna en baðherbergið (sem er afar lítið). Reglulega fer ég í matvöruverslunina og sé alltaf eitthvað girnilegt, t.d. tilboð á kílói af jarðarberjum….og langar þá að gera jarðarberjaís, eða poka af granateplum…. og mig langar að gera salat með granateplasteinum í. Oft þarf ég að bíta í vörina og muna að eldhúsið er skókassi. Allt þetta girnilega grænmeti og girnilegu ávextir er svo sem ekki á leið burtu en t.d. um daginn var tilboð á aspars og mig langaði svo mikið að gera asparsrétt og nú er aspars ekki lengur in season svo ég missi af honum þetta árið.

Síðustu daga hefur verið hrikalegur hiti (30 stig) og af því ekki er hægt að opna nema einn glugga í íbúðinni hefur hún verið bæði gufubað/íbúð/vinnustaður. Mæli ekki með þessari blöndu. Reyndar var aumingja Jóhannes rekinn heim úr vinnunni í Disney í gær því hitinn var óbærilegur (loftkælingin var biluð). Það tók ekki betra við þegar hann kom heim. Ég er voðalega fegin að það er farið að kólna aftur. Aumingja afkvæmið hefur örugglega haldið að hún væri komin til Afríku…..Ekki síst vegna þess að hér í næsta nágrenni er Stephanie (sem rekur hótelin þar sem við gistum síðast þegar við vorum úti í Kenya…Stephanie er sú sem er í samstarfi við Borgar bróður og Elínu og stjórnar öllu með harðri hendi þarna um slóðir. Hún er kölluð vélbyssukjafturinn og þegar hún gengur um svæðið hleypur fólk undan henni eins og vatn af nýbónuðum bíl. Hún afskaplega indæl þó svona þegar maður kynnist henni og er bara ein af þeim sem tekur engu rugli....Alltaf svo gott að þekkja svoleiðis fólk. Það er SVO, SVO skrítið að sjá þetta kunnuglega andlit á allt öðrum stað en við erum vön (hún með flagsandi hárið í hafgolunni, í stuttum kjól og sandölum að gefa skipanir eins og þokulúður)….svona eins og að það yrði að sjá Mónu Lísu málverkið hangandi í Kringlunni). Það er auðvitað reglulega gaman að sjá kunnugleg andlit og von er á fleiri kunnuglegum andlitum því tengdó og mágkona eru á leið hingað líka í stutta heimsókn.

En aftur að íbúðum. Við erum búin að tryggja okkur húsnæði til lengri tíma og við fáum það 13. júlí. Við verðum í þessari kytru til 7. júní en þá höldum við í tæpar 3 vikur til Búdapest. Við þurfum svo að finna okkur eitthvað til skamms tíma þangað til 13. júlí. Íbúðin er ekki í Marylebone (dammmm mig langaði svo að vera svoleiðis) heldur í Fitzrovia, okkar hverfi þar sem okkur leið svo vel. Það er er stutt í allt…samgöngur eins og lestar og strætó, stutt í búðir (rétt hjá Oxford Circus og Regent Street), stutt til læknis, stutt í skóla, stutt á bændamarkaðinn á sunnudögum….og staðurinn er í rólegri götu.

Já, Búdapest…..Disney er að senda Jóhannes og yfirmaður hans sagði að það væri upplagt að við mæðgur færum með (Jóhannes fær íbúð og svoleiðis)….ég sagði auðvitað já takk því vinnu minni get ég sinnt hvar sem er svo lengi sem ég hef tölvu og nettenginu. Ég hef aldrei komið til Ungverjalands en Jóhannes hefur farið nokkrum sinnum fyrir Disney. Ég lýsi hér með eftir upplýsingum um eitthvað áhugavert að skoða sem og grænmetisstaði o.fl. ef einhverjir eru (í Pest hlutanum). Geri mér samt litlar vonir, mér skilst að Ungverjar séu afar hrifnir af kjötmeti, pylsum o.fl. Kemur í ljós…..ég get alltaf soðið mér pasta í versta falli.

En á meðan þessari dvöl okkar stendur munum við sem sagt ekki eiga heima neins staðar nema á þessu hóteli. Það er alltaf jafn skrítin tilfinning að geta ekki tilgreint póstkóða eða heimilisfang (svona til lengri tíma en 3ja vikna). Mér hefur samt einu sinni á ævinni liðið skrítnara í þessu tilliti og það var á landamærum Uganda og Rwanda. Á landamærunum er nefnilega svokallað einskis-mannsland þ.e. það tilheyrir hvorki Rwanda né Uganda. Ég hugsaði, þegar ég gekk þessa 100 metra eða hvað þessi litli bútur er langur, að ég væri eiginlega hvergi, hvorki í Rwanda né Uganda. Ef einhver hefði hringt í mig og spurt mig hvar ég væri, hefði ég hvorki getað sagt Rwanda né Uganda. Mér finnst það alltaf svo skrítið og ég hugsa oft um það. Það er svolítið eins og að vera í svona bát með hjólum…ef maður væri að keyra upp úr sjó og væri hálfur í fjöruborðinu og hálfur í sjó og ef einhver myndi hringja í mann og spyrja hvar maður væri staddur…..myndi maður segja í sjó eða á landi, í bíl eða á báti?

Ég hlakka mikið til að fá almennilegt eldhús loksins og geta farið að bralla eitthvað í eldhúsinu……það eru SVO margar uppskriftir sem bíða mín. Þangað til þarf ég bara að slefa og kaupa nestisbox (ok ekki einu sinni ég sé samhengið þar á milli en ég get samt alltaf keypt nestisbox. Keypti einmitt þessi nestisbox um daginn og ég hef ekki enn þá tímt að taka þau úr pakkningunum því þau eru svo falleg bara eins og þau eru):  En ég hef líka verið að slefa yfir uppskriftasíðunni hjá Lísu vinkonu minni…ég er viss um að þið getið slefað svolítið líka…er t.d. búin að ákveða að gera lasagna réttinn hennar sem fyrst…hann lítur bara of vel út!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

hrundski
26. maí. 2010

Ungveskar paprikur eru æði. Svakalega sterkar. Þið verðið að smakka alvöru (rótsterkt) ungverskt gúllas (kannski til grænmetisútgáfa ;) ).

Grænmetismarkaðirnir eru geggjaðir snemma á morgnana og sömuleiðis stóri antikmarkaðurinn.

Góða ferð :)

Lisa Hjalt
27. maí. 2010

... return to sender, address unknown ...

Kannast við svona póstkóðalaust líferni og það er bara allt í lagi um tíma.

Er ekki málið að skella í lasagna þegar póstkóðinn er tryggður? ;-)

Ella K.
27. maí. 2010

Ég hef einu sinni komið til Ungverjalands og var mjög hrifin. Búdapest er frábær, skemmtilegt mannlíf og falleg borg, ég heillaðist upp úr skónum. Gangi ykkur vel!

Sigrún
28. maí. 2010

Interesting hlakka enn meira til að fara........ :) Ég mun birta skýrslu um hvað ég finn mér til að borða og svoleiðis...mér skilst að það sé ekki til mikið fyrir grænmetisætur..nema paprikur ha ha. :)

Elisabet
28. maí. 2010

Hef komið þarna nokkrum sinnum en bara verið út í sveit og það er æði.... Þekki slatta af fólki í Nikla og Taska ( þorp rétt hjá Balatonvatni) bara svona ef þið farið í bíltúr og vantar gistingu... Og já ísl í Nikla og Hevís held ég.. Jiminn hvað þetta er gaman. Njótið í botn.,,,,

Ungversku pönnukökurnar eru hrikalega góðar, með súkkulaði,,, daddaarddada

Melkorka
09. jún. 2010

Heppin að geta sinnt vinnunni hvar sem er :) Hvernig gengur að vinna með litlu dömuna sér við hlið. Er hún mikill dundari? Eða ertu með einhverja pössun fyrir hana?

CafeSigrun.com
09. jún. 2010

Hún dundar sér litla greyið, þæg og góð (yfirleitt) og ég get unnið á meðan og svo á meðan hún sefur, og á kvöldin. Þetta er því ekkert vandamál :)