Bloggið

Afmælisbarnið

Afmælispakkar frá JóhannesiJæja þá er maður orðinn hrukkóttur og grár (alla vega á góðri leið þangað), Ég er komin langleiðina í fertugt og það er væg andarteppa í gangi ef einhver minnist á aldurinn. Ok reyndar bara 31 en samt á fertugsaldri. Það er rosalegt að vera á fertugsaldri. Ekkert eftir nema fimmtugsafmælið og svo elliheimilið he he. Nei nei ekkert svona svartsýnistal, ég ætla að verða 107 ára eins og frændi minn (held hann hafi orðið 107). Þessi frændi minn fékk lungnabólgu af því hann fór í göngutúr í köldu veðri annars var hann við hestaheilsu. Langafi hans Jóhannesar átti kærustu á elliheimilinu og spilaði brids fram til 104 ára. Ég ætla að verða elst allra með hjálp hollu uppskriftanna minna. Svo ætla ég að halda fyrirlestra á elliheimilinu (þegar ég er orðin vistmaður sko) um andúð mína á smjöri og rjóma og leggja bann við klístruðum og rykugum brjóstykrum og hvíthúðuðu súkkulaði. Ég mun gefa út reglur um að gamla fólkið megi bara gefa barnabörnunum gulrætur og fíkjur og niðurskorin epli. Svo verður líkamsrækt fyrir kvöldmat og við eldum öll saman tófuklatta og hollar gulrótarkökur. Ég verð nú sennilega myrt af sambýlingum áður en ég næ níræðisaldri hí hí.

Æi það er gaman að eiga afmæli, gaman að fá afmælisgjafir og ég var að reikna að ef ég verð 108 ára (það er stefnan, að verða eldri en 107 sko) þá á ég eftir að fá um það bil 450 afmælisgjafir svona í heildina (búið að jafna út stórafmælin og svona). Ég er alveg að hlakka til. Mér er eiginlega alveg sama hvað ég fæ í afmælisgjöf, finnst bara gaman að fá pakka. Já talandi um pakka. Takk fyrir mig allir sem gáfu mér afmælisgjöf, fékk nokkrar æðislegar uppskriftabækur eins og til dæmis bók eftir Japanskan kokk sem er búin að selja 7 milljón bækur og 5 milljón tímarit í Japan. Hún er svona Martha Steward Japans (mínus fangelsisvist og skandal). Hlakka til að prófa japanskar uppskriftir, nóg borðum við að sushi! Svo fékk ég aðra bók sem heitir Feast eftir Nigellu Lawson. Namm hlakka til að prófa hana. Ég set auðvitað þær uppskriftir sem ég prófa inn á vefinn. Svo fékk ég ægilega fínan svefnpoka, dúnpoka frá North Face sem á að duga í -18 stiga frosti sem þýðir að hann verður fínn í +10 stiga hita fyrir mig. Hlakka til að prófa hann á Laugaveginum í sumar. Þarf reyndar að kaupa Iceberg nærföt úr Merino ull (íslensku rollurnar er víst ekki nógu einangrandi) svo ég krókni ekki úr kulda, geri það bráðum, get gert það fyrir peninginn sem ég fékk frá mömmu og pabba!.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Útsölumatur og afgangar fyrir gyðinga

GyðingasprætÞessi pistill er nú bara til að ítreka fáfræði mína varðandi trúarbrögð en eins og allir vita þá er ég sennilega sú manneskja sem er minnst trúuð af öllum, í heiminum. Ég trúi á vini mína, fjölskyldu, menntun, heilbrigt líferni, náttúruna, dýrin og sjálfa mig (svona stundum). Ekki einu sinni REYNA að fá mig til að útskýra HVAÐ náttúran er eða HVAR hún byrjaði (svona eins og ein skólasystir Jóhannesar í Westminster sem hélt því fram að guð hefði sko VÍST „plantað risaeðlunum á jörðina“).

Allavega þegar við fluttum fyrst til Bretlands, árið 2001 þá tókum við eftir því í búðunum um þetta leyti árs að það var verið að selja vörur sem voru á hebresku (og öðru hrognamáli eflaust). Það voru settir upp sérstakir standar (svipaðir og tilboðsstandar) og t.d. var Sprite, Coca Cola og alls kyns kex sérstaklega merkt á hebresku. Þetta var nú svo sem ekki merkilegt nema að fyrir ofan þennan „tilboðsstand“ stóð “Passover“ og stundum “Jewish Passover“ (sem er víst ekki það sama) sem mér finnst svo líkt „Leftover“ (afgangar). Mér fannst eitthvað ægilega glatað við það að gyðingum væri boðið upp afganga eða útrunnar vörur og verið að auglýsa það í þokkabót!!! Mér fannst gyðingar búnir að þola nóg í gegnum tíðina sko.

Á hverju ári klóruðum við okkur í kollinum yfir þessu (en gerðum að sjálfsögðu ekkert í því að fræða okkur um þetta mál) og árin liðu og núna fyrst veit ég lauslega hvað Passover er og það hefur ekkert með afganga eða útrunnar vörur að gera. Ég vinn sem sagt með nokkrum Gyðingum og þeir eru núna í sínu Passover fríi. Svona í stuttu máli þá er Passover hátíð gyðinga til að halda upp á frelsun þeirra frá Egyptum fyrir um 3500 árum. Þeir þurfa að borða sérstakan “Kosher“ mat og það felur í sér til dæmis að þeir mega ekki borða neina fiskafurð aðra en þá sem hefur tálkn og ugga, mega til dæmis ekki borða rækjur eða humar. “Kosher“ þýðir „Það sem er rétt og fylgir reglunum“. Það eru mjög ákveðnar reglur um hvað fólk má borða (t.d. má ekki borða dýr með klaufir og ekki áðurnefndar rækjur), það má ekki blanda saman mjólk og kjöti og það verða að vera 3 tímar á milli þess sem fólk borðar mjólk og kjöt og svo framvegis. Þetta þýðir að það má ekki borða ís strax á eftir kjötmáltíð sem tryggir það að Jóhannes tekur ALDREI upp gyðingatrú, það er nokkuð ljóst (Jóhannes er sá sem kemst næstur mér í trúleysi, góð saman að klóra okkur í hausnum yfir afgöngunum fyrir gyðinga sko).

Það sniðugusta held ég við að vera gyðingur er að maður getur farið heim fyrir sólsetur á föstudögum (Til heiðurs einhverjum Sabbath dúd). Í Ísrael og fleiri stöðum lokar allt fyrir sólsetur á föstudögum og opnar ekki fyrr en á sunnudegi. Að „heiðra Sabbath“ þýðir líka að maður má ekki „valda því að einhver annar vinni. Það þýðir líklegast að það er bannað að handleggsbrjóta sig á laugardögum??? En spáið í það að geta farið heim fyrir sólsetur, sérstaklega á veturna á Íslandi, maður væri bara í vinnunni um það bil 2 tíma eða svo á föstudögum. Reyndar væri það ekki gott yfir sumartímann, maður væri kannski bara allan sólarhringinn í vinnunni.

Er að spá í að segja þeim hérna í vinnunni að ég fylgi Ásatrú og ég þurfi trúarinnar vegna að fara heim alla daga kl 4 til að tilbiðja Þór og Óðinn en að mjög mikilvægt sé að fara heim kl 2 á föstudögum. Það er jú í lögum að fyrirtæki eigi að aðlaga sig að trúarbrögðum fólks hí hí. Sjáum til.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Til hamingju með daginn pabbi og gleðilegt sumar

Til hamingju með afmælið pabbi!!!

Já og gleðilegt sumar allir!!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Kaffi og appelsínur

Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei fattað almennilega samsetninguna „kaffi og appelsínur“. Alltaf þegar maður hugsar um morgunmat þá hugsar maður (allavega ég) um kaffi og appelsínur/appelsínusafa (og svo brauð og muesli og svoleiðis dót auðvitað líka). Þetta sér maður líka á morgunverðarhlaðborðum á hótelum, utan á morgunverðarpökkum nú eða í auglýsingum. Svo af því við fáum stundum gesti þá setjum við að sjálfsögðu kaffi og appelsínusafa á borðið en ég þarf alltaf að hugsa mig um því mér finnst þetta fáránleg samsetning.

Hafið þið prófað að drekka appelsínusafa og kaffi strax þar á eftir? Oj. Það er eins glötuð samsetning eins og að drekka kaffi strax á eftir hangikjöti (þó að það sé langt síðan ég borðaði hangikjöt þá man ég enn vonda bragðið). Nú veit ég ekki hvort ég er að misskilja eitthvað, hvort maður eigi bara að drekka appelsínusafann þegar maður er búinn að borða og drekka kaffið fyrst eða hvort maður eigi að drekka kaffið síðast. Það eru aldrei neinar leiðbeiningar sko og mér finnst fólk í bíómyndum alveg drekka appelsínusafa og kaffi í belg og biðu án þess að spá í það. Mér finnst alltaf öruggast að drekka appelsínusafann með morgunmatnum og drekka svo kaffið, allra síðast en vandinn er að á hótelum þá fær maður oft kaffi í bollann um leið og maður fær appelsínusafann í glas og þá er þetta orðið flókið því ég vil drekka kaffið mitt heitt (og ég meina sjóðandi heitt). Þá þarf ég að drekka kaffið fyrst en það er glatað að drekka kaffi á fastandi maga og bragðkirtlarnir mínir eru bara ekki vel undirbúnir undir svona kaffiárás áður en þeir fá mat til að hugsa um. Svo þá er ég komin í klípu; sleppi ég kaffinu, drekk ég það á fastandi maga eða drekk ég það eftir matinn þegar það er orðið kalt (því ég borða frekar mikið á morgnana og borða frekar hægt). Þetta er rosaleg klípa. Já þau eru mörg vandamál heimsins sko.

Ég vona að gestirnir okkar (Gróa móðursystir mín og Sigga dóttir hennar) fyrirgefi okkur þó við setjum þessa hallærissamsetningu á borðið (þ.e. kaffi og appelsínusafa, ekki kaffi og hangikjöt). Eftir allt saman, þá er voða notalegt að sjá kaffi og appelsínusafa á morgunverðarborðinu, það er jú alltaf svoleiðis í bíómyndunum. Annars er ég spennt að vita hvort einhver þekkir verri bragðsamsetningu en kaffi/appelsínusafa eða kaffi/hangikjöt??

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Piparkökukallar í hættu!

Afhausaðir piparkökukallarÉg veit ekki alveg hvað ég á að halda með þennan bökunarpappír sem ég keypti um daginn. Ég hef dálítið samviskubit yfir því að nota hann, mér líður svo illa af því að horfa á piparkökukallana sem eru að mæta örlögum sínum. Finnst þetta dálítið skrýtinn bökunarpappír!

Hvað ætli markaðsfólkið / hönnunarfólkið hafi verið að hugsa þegar það ákvað útlit á umbúðunum „Hmmmm við skulum setja afhausaða piparkökukalla á umbúðirnar og svo á einn piparkökukall að hafa skelfingarsvip líka því hann á að vera hræddur um að vera næsta fórnarlambið“. Þessar hryllingsumbúðir koma úr Tesco sem er svona venjuleg matvörubúð. Æi ég veit ekki, finnst blóm eða mynstur bara heppilegri held ég.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Nýtt útlit

Jæja kæru lesendur, þá er komið að því, CafeSigrun er loksins kominn í nýjan búning! Við höfum verið að nudda í þessu upp á síðkastið og auðvitað ætlað að vera búin fyrir löngu að skipta um útlit enda hitt orðið ansi gamaldags. Við ákváðum að breyta ekki uppsetningu á uppskriftum né breyta útlitinu harkalega (leiðarkerfið er enn þá vinstra megin og virkar alveg eins og það gamla). Við höfum bætt við virkni eins og póstlista, fyrirspurnum og svo höfum við bætt inn flokkum eins og Um CafeSigrun (í aðalleiðarkerfinu) og Aðgengismálum (efst til hægri) enda sumir forvitnir um hvað CafeSigrun er.

Ég vona að þið séuð ánægð með nýtt útlit en ef ekki endilega látið mig vita. Við höfum lagt hellingsvinnu í að gera vefinn aðgengilegan fyrir alla notendur (fatlaða jafnt sem ófatlaða) en alltaf má betur fara og ég er þakklát fyrir allar ábendingar, jákvæðar sem neikvæðar. Ég ætla að reyna að vera dugleg að blogga um það sem á dagana drífur, aðallega um eitthvað matartengt t.d. góð veitingahús í London (en þar búum við Jóhannes maðurinn minn), fréttir um heilsu og mat og fleira en það kemur í ljós hversu dugleg ég verð.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It